Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. ágúst 2005 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Strandferðaskip og umferðaröryggi

Að undanförnu hefur verið mikil umræða um umferðaröryggismál. Í flestum tilvikum hefur þessi umræða verið málefnaleg og tengd því mikla átaki sem umferðaröryggisáætlun Samgönguáætlunar felur í sér. Síðustu daga hefur blandast inn í málið umræða um strandsiglingar. Þar hefur brugðið fyrir misskilningi sem nauðsynlegt er að leiðrétta. Jafnvel þingmenn skrifa um strandferðarskipin með söknuð í huga og minnast siglingar Esjunnar milli hafna færandi póst og varning á kostnað skattgreiðanda.

Að undanförnu hefur verið mikil umræða um umferðaröryggismál. Í flestum tilvikum hefur þessi umræða verið málefnaleg og tengd því mikla átaki sem umferðaröryggisáætlun Samgönguáætlunar felur í sér. Síðustu daga hefur blandast inn í málið umræða um strandsiglingar. Þar hefur brugðið fyrir misskilningi sem nauðsynlegt er að leiðrétta. Jafnvel þingmenn skrifa um strandferðarskipin með söknuð í huga og minnast siglingar Esjunnar milli hafna færandi póst og varning á kostnað skattgreiðanda. Vegna þessarar furðulegu umræðu vil ég rifja upp nokkrar staðreyndir um strandsiglingar og flutninga um vegakerfið.

Skipafélögin hætta strandsiglingum

Á undanförnum árum hefur stöðugt dregið úr flutningum á sjó milli landshluta. Samhliða hafa flutningar um vegakerfið aukist. Forsvarsmenn skipafélaganna skýrðu þessa þróun með því að sjóflutningar stæðust ekki auknar kröfur um hraða í flutningum.

Þegar ljóst var að skipafélögin mundu hætta hinum sérstöku strandsiglingum frá Reykjavík ákvað ég að láta vinna úttekt á áhrifum þess að þeir flutningar færðust yfir á vegina.

Í nóvember á síðasta ári skipaði ég því nefnd sem falið var það verkefni að skila inn tillögum að framtíðarstefnu stjórnvalda varðandi sjóflutninga með ströndinni.

Skipun nefndarinnar var tilkomin vegna breytinga á vöruflutningum á Íslandi sem felast m.a. í miklum samdrætti í siglingum strandferðaskipa og samfara því auknum akstri flutningabíla á vegum landsins.

Í nefndina voru skipaðir þeir Ólafur Sveinsson, hagverkfræðingur, sem formaður, Sigurður Guðmundsson, fjármálaráðuneyti og Hugi Ólafsson, umhverfisráðuneyti. Björn Ágúst Björnsson, verkfræðingur í samgönguráðuneyti, var starfsmaður nefndarinnar.

Aukin umferð vöruflutningabíla

Í störfum sínum leitaðist nefndin við að meta áhrifin út frá þeim upplýsingum sem fyrir liggja en auk þess leitaði nefndin álits um ákveðin atriði hjá fulltrúum Samtaka verslunar og þjónustu, Landverndar, Hafnarsambands sveitarfélaga, Vegagerðarinnar, fyrirtækja í sjávarútvegi og fleiri.

Aukin umferð vöruflutningabíla hefur meðal annars áhrif á; uppbyggingu vegakerfisins, umferðaröryggi, losun gróðurhúsaloftegunda, notkun hafna og flutningastarfsemi í landinu. Eftir að nefndin skilaði niðustöðum sínum voru þær kynntar samgöngunefnd Alþingis og lágu þær fyrir þegar samgönguáætlun var undirbúin og síðan lögð fram og afgreidd á Alþingi. Samgönguáætlun var því unnin að teknu tiliti til þess að umferðin um vegakerfið mundi aukast og dregið yrði úr sjóflutningum líkt og flutningafyrirtækin töldu vera hagstæðasta kostinn fyrir neytendur.

Skýrsluna í heild má nálgast á vef samgönguráðuneytisins  

 

Niðurstöður nefndarinnar komu ýmsum á óvart

Meginniðurstaða nefndarmanna er að niðurlagning strandsiglinga, og þar með aukning vöruflutninga á landi, hafi takmörkuð áhrif á viðhald vega, umferðaröryggi og losun gróðurhúsalofttegunda.

Nefndin telur mikilvægt að stjórnvöld tryggi að gjaldtaka og álögur á mismunandi flutningasmáta verði sem réttust og í samræmi við samfélagslegan kostnað sem þeir valda, í þeim tilgangi að skapa heilbrigt og sanngjarnt samkeppnisumhverfi. Jafnframt telur nefndin að ríkisvaldið eigi ekki og geti ekki gripið til aðgerða sem miða að því að færa meginþunga flutninga á sjó og telur vandséð að slíkar aðgerðir geti snúið þróuninni við og að ekki sé hægt að sjá að samfélagslegir hagsmunir krefjist slíks.

Hér að neðan eru dregnar saman helstu niðurstöður nefndarinnar.

1. Uppbygging vegakerfisins

Umferðarþungi og veður hafa mest áhrif á viðhaldskostnað vega. Veður hefur afgerandi áhrif á endingu slitlags en umferð þungra bíla veldur mestu af sliti á efra burðarlagi vega. Fjárfestingar Vegagerðarinnar í viðhaldi vega með slitlagi eru um 1.400 milljónir kr á ári.. Talið er að árlegur viðhaldskostnaður muni aukast um 100 milljónir í kjölfar þess að strandsiglingar Eimskips lögðust af.

 

2. Umferðaröryggi

Aukin umferð flutningabíla á helstu akstursleiðum hefur ekki leitt til fjölgunar slysa og óhappa þar sem þungir bílar koma við sögu. Tíðni á hverja milljón ekna kílómetra hefur lækkað. Árið 2003 kemur reyndar fram umtalsverð fækkun slysa og óhappa, en líkleg ástæða hennar er talin vera aukin áhersla á öryggisstjórnun hjá flutningsaðilum.

 

3. Losun gróðurhúsalofttegunda

Vöruflutningar valda útstreymi gróðurhúsalofttegunda og var hlutdeild þeirra í heildarlosun landsins árið 2002 á bilinu 3,5 til 4%. Á síðastliðnum 20 árum hefur losun gróðurhúsalofttegunda frá strandflutningaskipum minnkað um 40 þús tonn en á sama tímabili jókst losun frá stórum bifreiðum um tæp 53 þús tonn á ári. Sé gert ráð fyrir því að þessi aukningin sé eingöngu vegna vöruflutningabifreiða er niðurstaðan sú að losun gróðurhúsalofttegunda vegna vöruflutninga hefur aukist um tæp 13 þús tonn á tuttugu árum, eða um 9%. Almennt má segja að flutningar á sjó valdi minna útstreymi en flutningar á landi. Útreikningar nefndarinnar benda þó til þess að veruleg óvissa sé um þann ávinning sem ná mætti með auknum strandflutningum hvað útstreymi gróðurhúsalofttegunda varðar og að líklegast sé að hann yrði óverulegur. Aðgerðir til að auka sparneytni og minnka útstreymi frá flutningabílum eru líklegri til að árangurs en sértækar aðgerðir til að færa flutninga út á sjó.

 

4. Notkun hafna

Breytingarnar hafa eðlilega þau áhrif að hlutverk hafna í vöruflutningum minnkar. Þar er sérstaklega um að ræða hafnir á Ísafirði og í Eyjafirði, en þau sjónarmið komu fram að skapist réttar aðstæður munu strandsiglingar hefjast á ný á þær hafnir sem hagkvæmt er að sigla til.

 

5. Flutningastarfsemin í landinu

Innflutningsvöru og innlendri vöru er nú dreift í daglegum ferðum frá nokkrum stórum birgðastöðvum til viðtakenda um allt land. Biðtími eftir vöru á landsbyggðinni er styttri en áður og birgðakostnaður fyrirtækja er lægri. Fastur kostnaður flutningsaðila er nú lægri og gámakostnaður lækkar frá því sem áður var. Almennt hefur þessi þróun leitt til bættra búsetuskilyrða á landsbyggðinni.

Stórir söluaðilar á neytendamarkaði bjóða vörur til neytenda á landsbyggðinni á verði sem er sambærilegt við verð í Reykjavík og beita þannig verðjöfnun milli landshluta án afskipta opinberra aðila. Aukinni þjónustu við neytendur á landsbyggðinni virðist því ekki fylgja verðhækkanir á vöru.

Aðgerðir til aðlögunar breytingum

Nefndarmenn telja mikilvægt að hugað verði að aðgerðum til aðlögunar breytingunum og má nefna í því samhengi;

  • Aðgerðir til að auka umferðaröryggi, t.d. með auknu umferðareftirliti og öðrum aðgerðum í umferðaröryggisáætlun samgönguráðuneytis.
  • Aðgerðir til að draga úr áhrifum útstreymis gróðurhúsalofttegunda, komið verði upp hvatakerfi til að hvetja flutningaaðila til að fylgja tækniþróun, en líklegt er að miklar framfarir verði á því sviði á komandi árum.

  • Aðgerðir til að vegakerfið afkasti og standi undir auknu álagi, t.d. með því að viðhald vega verði í samræmi við þarfir á endurnýjun slitlaga og burðarlaga og öflugt eftirlit sé með að öxulþungareglur verði virtar.

  • Nauðsyn þess að gerð verði langtímaáætlun varðandi viðhaldskostnað vega. Upplýsingaöflun varðandi áhrifaþætti í endingu burðalaga og slitlaga verði efld verulega.

 

Ég hef opinberlega tekið undir niðurstöðu nefndarinnar og hef mótað stefnu í samgöngumálum í samræmi við tillögur og skýrslu nefndarinnar. Ég tel að mikilægasta verkefni samgönguyfirvalda sé í ljósi þeirrar niðurstöðu að tryggja uppbyggingu vegakerfis og umferðaröryggis í kjölfar þess að vöruflutningar um vegina hafa aukist. Með afgreiðslu samgönguáætlunar s.l. vor var stefnan mörkuð í samræmi við það mikilvæga markmið að auka umferðaröryggi. Afturhvarf til reksturs strandsiglinga með ríkisstyrkjum er fráleit leið og engum til hagsbóta. Við eigum að hraða uppbyggingu vegakerfisins. Það er stefna mín sem samgönguráðherra og hún birtist í framkvæmd með samgönguáætlun.

 

SB


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta