Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. september 2005 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Staðlausir stafir frá Álftanesi

Sturla Böðvarsson svaraði bæjarstjóranum á Álftanesi í grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær.

Nýráðinn bæjarstjóri á Álftanesi reiðir hátt til höggs í fjölmiðlum í þeim tilgangi að berja niður meintar skoðanir mínar um að staðsetja nýjan flugvöll á Álftanesi. Hann vísar til yfirlýsinga sem hann telur mig hafa viðhaft í nýlegu sjónvarpsviðtali um innanlandsflugvöll á Álftanesi. Formaður Samfylkingarfélagsins á Álftanesi skrifar í kjölfarið grein í Morgunblaðið þar sem hún, rétt eins og bæjarstjórinn, heldur því fram að ég hafi í sama viðtali snúið við blaðinu og reifað eigin hugmyndir um flutning Reykjavíkurflugvallar út á Álftanes. Bæði eru þau á villigötum og nokkuð ljóst að hvorugt þeirra hefur séð viðtalið sem þau gera að umtalsefni, eða að minnsta kosti ekki heyrt hvað þar var sagt. Í upphrópunum sínum fara þau með staðlausa stafi með því að leggja mér orð í munn og því er réttast að rifja upp fyrir þeim, og öðrum áhugasömum, orðrétt það sem ég sagði í viðtali sem Stöð 2 átti við mig. ,,...ef við finnum leið sem er betri en sú að hafa völlinn í Vatnsmýrinni þá er ég tilbúinn til þess að skoða það." Á öðrum stað í viðtalinu sagði ég aðspurður um flutning vallarins úr Vatnsmýrinni "Ef það eru fjárhagslegar forsendur fyrir því að þá tel ég að samgönguráðherra hver sem hann yrði á þeim tíma að hann gæti ekki vikist undan því að fara í samningaviðræður við borgina um það. Ég tel að við verðum að ná samkomulagi og þess vegna fagna ég þessum mikla áhuga sem er núna hjá frambjóðendum til borgarstjórnar að ganga til þessa verks en þeir geta ekki tekið neinar ákvarðanir fyrr en að búið er að stilla upp kostum og þið eruð að láta kjósa núna hér um hvar völlurinn eigi að vera og það er nú þrautin þyngri fyrir áhorfendur að gera það vegna þess að þeir vita ekki hvort að þetta er raunhæft með Lönguskerin. Þeir vita ekki hvort það er raunhæft með Álftanesið. Vegna þess að bæjaryfirvöld þar þau ráða þeirri för, hvort það verður byggður flugvöllur á Álftanesi eða ekki."

Nýlega var gert samkomulag milli mín og borgarstjórans í Reykjavík um sérstakan vinnuhóp sem nú starfar undir stjórn Helga Hallgrímssonar verkfræðings að því að endurskoða landnotkun og skipulag flugvallarsvæðisins og meta hagkvæmni þeirra kosta sem til greina koma. Í þeirri vinnu verða allir valkostir skoðaðir og m.a. rætt við fulltrúa allra sveitarstjórna á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef verið talsmaður þess að innanlandsflugvöllur landsmanna verði á, eða sem allra næst, höfuðborgarsvæðinu. Sú skoðun mín hefur ekkert breyst og ég hef enga ástæðu til þess að gefa frekari yfirlýsingar um framtíðarstaðsetningu flugvallarins fyrr en niðurstöður vinnuhópsins liggja fyrir og frekari umræða á sér stað um einstaka valkosti í þessum efnum. Vert er að minna á að Reykjavíkurflugvöllur er nýendurbyggður og var það gert með öllum leyfum borgaryfirvalda.

Enginn fótur er þess vegna fyrir því að ég stefni sérstaklega að því að „þröngva flugvelli upp á Álftnesinga“ eins og formaður Samfylkingarinnar á Álftanesi heldur fram í Morgunblaðsgrein sinni. Upphlaup formannsins og sömuleiðis bæjarstjórans á Álftanesi eru óskiljanleg vindhögg.  

Sturla Böðvarsson


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta