Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. september 2005 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Eykur breidd í forystu hagnaðinn?

Góðir gestir, Ég vil nota tækifærið og byrja á því að þakka fyrir þennan fund og að fá að vera með ykkur hér í dag. Ladies and gentlemen, I should like to begin by thanking for the opportunity to address this meeting. I especially want to welcome our foreign guest, Mrs. Lisa Levey, who is one of the key speakers here today. Fyrir um einu ári síðan skipaði ég nefnd sem ætlað er að leita leiða til að auka hlutdeild kvenna í forystusveit íslenskra fyrirtækja. Nefndin hefur undir forystu Þórs Sigfússonar formanns hennar unnið ötullega að því að greina stöðuna hérlendis, kanna hvort önnur lönd hafi gripið til ráðstafana í þessu skyni og bera saman stöðuna í atvinnulífinu hér á landi og í nágrannaríkjunum. Ég vænti mikils af starfi nefndarinnar og tel í raun að við séum á þröskuldi þess að fjölga mjög konum í forystu íslenskra fyrirtækja. Meðal þess sem nefndin hefur staðið fyrir og viðskiptaráðuneytið hefur staðið straum af er koma annars af framsögumönnum fundarins í dag hingað til lands. Lisa Levey er einn af æðstu stjórnendum ráðgjafasviðs bandaríska fyrirtækisins Catalyst en það fyrirtæki hefur sérhæft sig í rannsóknum og ráðgjöf á því sviði sem farið er yfir hér á eftir, þ.e. hvernig fjölga megi tækifærum kvenna í forystu fyrirtækja. Catalyst hefur bent á að fjölbreytileiki og breidd í forystu fyrirtækja megi tengja bættri afkomu fyrirtækja og því verður vafalítið mjög fróðlegt að heyra það sem hún hefur fram að færa. Þó ekki sé hægt að segja með nákvæmni hvernig þjóðfélagið mun þróast á næstu árum og áratugum er víst að aukin menntun kvenna mun leiða til aukinnar þátttöku þeirra í atvinnulífinu. Menntunarstig karla er hærra en kvenna yfir heildina en konur eru í meirihluta í langflestum greinum háskólanáms í dag og því ekki langt að bíða þess að menntunarstig þeirra verði hærra en karla. Einnig hefur verið bent á að viðskiptavinir margra fyrirtækja séu að stórum hluta konur, að kaupmáttur kvenna hafi vaxið og að konur taki stærstan hluta af daglegum kaupákvörðunum. Því mætti ætla að aukin þátttaka kvenna á efri stjórnunarstigum leiði til ákvarðanatöku sem byggir á betri skilningi á þörfum og eðli markaðarins. Í tölublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í júlíbyrjun á þessu ári var birtur ítarlegur listi yfir fjölda kvenstjórnarmeðlima í íslenskum fyrirtækjum. Þar kemur fram að konur skipuðu ríflega 13% af 643 stjórnarsætum 137 stærstu fyrirtækja landsins. Um nokkra framför virðist vera að ræða ef miðað er við óopinbera könnun sem gerð var á vegum ráðuneyta minna, en þó er augljóst að mínu mati að hæfileikar kvenna eru ekki nýttir sem skyldi hjá íslenskum fyrirtækjum. Ekki er gott að segja til um hvers vegna staðan er ekki betri en þetta en umræður um áleitnar spurningar líkt og þær sem hér verða bornar upp eru vel til þess fallnar að auka skilning manna á viðfangsefninu. Um leið og ég vona að fundurinn veki menn enn frekar til umhugsunar um þau tækifæri sem aukin breidd í forystu fyrirtækja hefur í för með sér vil ég þakka Viðskiptaráði Íslands og Félagi kvenna í atvinnurekstri fyrir að boða til fundarins. Ekki síst vil ég þó þakka ykkur ágætu gestir fyrir að sýna málinu áhuga og koma hingað í dag.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta