Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

3. október 2005 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Vígsla 4. vélasamstæðu Nesjavallavirkjunar.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra Ávarp í tilefni af gangsetningu 4. vélasamstæðu Nesjavallavirkjunar 1. október 2005 Ágætu samkomugestir. Það er mér gleðiefni að hafa verið boðið hingað til þessarar athafnar, sem felst í því að taka formlega í notkun fjórðu vélasamstæðu Nesjavallavirkjunar. Leyfi fyrir stækkun virkjunarinnar úr 90 MW afli upp í 120 MW var veitt í apríl á síðasta ári og því er ótrúlega skammur tími liðinn frá leyfisveitingu til verkloka þessa áfanga. Því ber vissulega að fagna hér í dag. Nýting jarðhitans telst vafalaust með merkustu tækniframförum nýliðinnar aldar. Í allri byggðasögu Íslands fer ekki mikið fyrir frásögnum af nýtingu jarðhitans fyrr en undir lok 19. aldar og í upphafi hinnar síðustu. Landsmenn notuðu heita vatnið að því er virðist helst til þvotta og baða og það var því ekki endilega talinn kostur jarðar að búa við jarðhita. Hitaveitubyltingin á Íslandi byrjaði á þriðja áratugnum og þar ber hæst stofnun Hitaveitu Reykjavíkur sem tekur til starfa árið 1928. Það kom í hlut Jónasar Jónssonar, sem var menntamála- og dómsmálaráðherra árin 1927-1932, að vera í forsvari þeirra manna sem helst vildu reisa opinber mannvirki og efla byggð á stöðum þar sem jarðhita var að finna. Hann var einn af fyrstu stjórnmálamönnum okkar til að skilja mikilvægi jarðhitans fyrir hagsæld og velferð almennings. Staðreyndin er sú að fáir höfðu í upphafi trú á að svo giftusamlega tækist til með uppbyggingu Hitaveitu Reykjavíkur á kreppu- og stríðsárum eins og raun ber vitni. Segja má í ljósi reynslunnar að landsmenn hafi óslitið frá þeim tíma lagt mikið kapp á að nýta jarðhitann til húshitunar hvar sem möguleiki hefur gefist. Víðast þar sem jarðhita var að finna efldist byggð og af hálfu opinberra aðila var lögð mikil áhersla á uppbyggingu hitaveitna, einkum á áttunda og níunda áratugnum. Það átak skilaði þeim árangri að um 90% húsnæðis hér á landi er nú hitað með jarðvarma og er það að sjálfsögðu heimsmet, eins og margt sem snýr að orkumálum okkar Íslendinga. Á alþjóðavettvangi hefur umræða um sjálfbæra þróun beinst mjög að því á hvern hátt unnt sé að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í orkuframleiðslu heimsins, meðal annars til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Sífellt fleiri gera sér grein fyrir nauðsyn þess að allar þjóðir, sem þess eiga kost, nýti sem best endurnýjanlegar auðlindir sínar í þessu skyni. Enginn vafi er á því að jarðhitinn er víða um heim vannýtt auðlind, bæði til orkuframleiðslu og til margháttaðra iðnaðarnota, sem þjóðum heims ber að rannsaka og nýta í auknum mæli. Nýleg ákvörðun stjórnvalda og helstu orkufyrirtækja landsins um að ráðast í borun dýpri rannsóknarholu en áður hefur verið gert hér á landi kann að marka tímamót um möguleika okkar til að nýta háhitasvæði landsins í framtíðinni. Niðurstöður þessara rannsókna kunna ekki aðeins að margfalda möguleika okkar við orkuöflun heldur á það einnig við um lönd sem búa við háhitasvæði og svipaðar jarðfræðilegar aðstæður og hér eru. Þar á meðal eru mörg þróunarríki. Þessi rannsókn mun því geta haft veruleg áhrif á möguleika þeirra þjóða við að afla sér endurnýjanlegrar orku í framtíðinni. Íslensk orkufyrirtæki hafa á undanförnum árum haslað sér völl víða erlendis við jarðhitarannsóknir og uppbyggingu jarðvarmavirkjana og í sjónmáli eru áhugaverð og ögrandi verkefni á þessu sviði. Þar ber einna hæst fyrirhuguð uppbygging nýrrar hitaveitu í borginni Xianyang í Kína á vegum Orkuveitunnar. Voru fulltrúar borgarinnar staddir hér á landi í vikunni til undirskriftar á samningum. Þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að efla mjög þróunaraðstoð á næstu árum eins og kunnugt er og mun sú aðstoð ekki síst beinast að möguleikum okkar til að efla og styrkja jarðhitarannsóknir og nýtingu þeirra þróunarríkja er búa yfir jarðhita. Einnig er fyrirhugað að starfsemi Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi verði aukin, meðal annars með því að efna til námskeiða og kennslu í þróunarríkjunum sjálfum. Ágætu gestir. Enginn vafi er á því að nýting jarðhitans verður eitt helsta viðfangsefni í orkunýtingu þjóða heims á næstu áratugum. Auknar rannsóknir og almennur stuðningur við nýtingu hreinna orkulinda á heimsvísu munu vafalaust gera okkur kleift að auka stórlega hlut jarðhita í orkunotkun á næstu áratugum. Uppbygging og rekstur Nesjavallavirkjunar hefur um árabil verið eitt helsta mannvirki landsins og gott dæmi þegar sýna þarf í verki hvernig unnt er að nýta háhita og jarðvarma með fjölbreyttum og umhverfisvænum hætti. Hefur starfsemin hér og öll umgjörð virkjunarinnar vakið feikilega athygli þeirra fjölmörgu gesta er sótt hafa staðinn heim. Vil ég leyfa mér að þakka Orkuveitunni fyrir hina öflugu og glæsilegu kynningarstarfsemi hér á þessum stað um leið og ég óska fyrirtækinu til hamingju með þann áfanga virkjunarinnar sem nú er tekinn í notkun. Ég þakka áheyrnina.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta