Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

4. október 2005 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Ársfundur Hafnasambandsins 2005

Samgönguráðherra ávarpaði fulltrúa á ársfundi Hafnarsambandsins síðastliðinn föstudag. Í ræðu ráðherra kom meðal annars fram að mikils misskilnings gætti í umræðu um að hætta að fjárfesta í höfnum, þær gegni lykilhlutverki í verðmæti framleiðslu atvinnuveganna. Ræða ráðherra er eftirfarandi:

Fundarstjóri, ágætu fulltrúar á ársfundi Hafnarsambandsins!

Það má með sanni segja að hafnir hafi verið í þungamiðju efnahagslífsins á Íslandi allt frá árdögum byggðar og fram til dagsins í dag. Þær eru tenging lands við hin gjöfulu fiskimið okkar auk þess sem þær gegna lykilhlutverki í utanríkisverslun Íslands. Þrátt fyrir að aðrar greinar samgangna hafi vaxið mjög hin síðustu ár þá eru áhrif hafna á efnahagslífið enn mjög mikil - ekki síst nú á dögum. Hafnir eru oftar en ekki lykillinn að atvinnuuppbyggingu og nýtingu gæða landsins, hvort sem um er að ræða orku, jarðefni eða ferðamennsku.

 

Hafnir gegna lykilhlutverki

Öðru hverju kemur upp sú umræða hvort við hljótum ekki að geta hætt að fjárfesta í höfnunum. Hér gætir mikils misskilnings. Hafnirnar gæta lykilhlutverki þegar kemur að verðmæti framleiðslu atvinnuveganna sem rennur um hafnirnar á markaði erlendis og þær verða að fylgja þróuninni í flutningatækni og breyttum atvinnuháttum.

Dæmin sjáum við alls staðar í kringum okkur - álvershöfn á Reyðarfirði, iðnaðarhöfn í Hvalfirði, iðnaðarhöfn í Arnarfirði eða ferjuhöfn á Seyðisfirði. Ekki má gleyma gríðarlegu átaki í hafnaframkvæmdum á síðustu tíu árum, sem e.t.v. hefur ekki verið haldið nægjanlega á lofti, þar sem fábreyttum og erfiðum höfnum hefur verið lyft upp í að vera nútímalegar hafnir með garða og nægu dýpi til þess að taka á móti sem fjölbreytilegustum skipum.

Þar hafa sérfræðingar okkar í hafnagerð lyft grettistaki í rannsóknum og hönnun hafnarmannvirkja. Það er ánægjulegt að fylgjast með því hversu miklum árangri Siglingastofnun hefur náð og gildir það jafnt um hafnagerð sem og öryggismál sjófarenda. Í dag er unnið eftir langtímaáætlun um öryggismál sjófarenda sem ég lét vinna og fékk samþykkta á Alþingi.

 

Framfarir í samgöngum

Miklar framfarir og þróun hefur einnig verið í öðrum samgöngum á undanförnum árum, einkum samgöngum á landi. Stórbættar samgöngur á landi hafa breytt hlutverki hafna í byggðarlögum. Nægir þar að nefna Vestfjarðargöngin sem tengja saman 4 – 6 byggðarlög eftir því hvernig horft er á það. Þessum framförum í landssamgöngukerfinu og stóraukinni flutningsgetu á vegum, samfara stórbættri vetrarþjónustu fylgir hvoru tveggja; ógnanir og tækifæri fyrir hafnir landsins.

Að mínu viti eru enn fyrir hendi miklir möguleikar til þess að styrkja byggðarlög og hafnir með sameiningu sveitarfélaga eða einstakra hafnarsjóða. Hér er það sérhæfing sem er lykilorðið hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

 

Hafnalögin nýju

Þegar unnið var að nýjum hafnalögum á sínum tíma var horft til þess að auka sjálfstæði hafnanna m.a. á sviði gjaldskrármála og ábyrgð á eigin efnahag og framtíð en hér gildir ,,veldur hver á heldur" Víða eru ýmsir möguleikar fyrir hafnir og athafnamenn að hafa frumkvæði til atvinnusköpunar ef hugmyndaflugið, frumkvæðið, krafturinn og árræðið er til staðar. Það sýna dæmin úr ferðaþjónustunni m.a. hversu vel hefur til tekist að laða skemmtiferðaskip til landsins, aukning í hvalskoðunarferðum og ýmis þjónusta við ferðamenn þar sem hafnirnar skipta sköpum.

Í nýju hafnalögunum sem Alþingi samþykkti 2003 er bráðabirgðaákvæði um að ráðherra skuli skipa sérstaka endurskoðunarnefnd til þess að meta hvernig til hafi tekist við framkvæmd laganna. Nú í haust skipaði ég þessa nefnd og bind ég miklar vonir við störf hennar. Það er einkum tvennt sem ég tel mikilvægast að hún fjalli um. Í fyrsta lagi hvernig er hægt að hafa áhrif á og hraða þróun í átt til sameiningar og samvinnu hafna, bæði notendum og höfnum til hagsbóta, en að þessu hef ég vikið áður í ræðu minni og í öðru lagi hvernig taka eigi á málum skuldsettustu hafnanna.

 

Taprekstur hafna

Ég vil minna fundarmenn á að skv. 3. mgr. 18. gr. hafnalaga er höfnum sem reknar eru með tapi í þrjú ár í röð skylt að gera breytingar á sínu rekstrarformi. Hér er því um mjög alvarlegan hlut að ræða sem ekki verður undan vikist að taka á.

 

Strandsiglingar

Undanfarið hefur mikið verið fjallað um niðurlagningu áætlunarflutninga með skipum við ströndina. Ekki verður sagt að ég hafi tekið þessari þróun án nokkurra athafna því fyrir liggja hvorki fleiri né færri en þrjár skýrslur um þetta mál, eða raunar fjórar svo ég taki með skýrslu sem unnin var fyrir Hafnasamabandið fyrir nokkrum árum. Þar af eru tvær frá því að síðasta Hafnasambandsþing var haldið. Niðurstaða allra þessara rannsókna er mjög merkileg og stangast á við þær umræður sem hafa orðið um þessi málefni.

Megin niðurstaða allrar þessarar vinnu er að síðustu ákvarðanirnar um niðurlagning strandsiglinga (þ.e.a.s. Eimskip), og þar með aukning vöruflutninga á landi, hafi takmörkuð áhrif á viðhald vega, umferðaröryggi og losun gróðurhúsalofttegunda.

Ég hef opinberlega tekið undir þessar niðurstöður og hef mótað stefnu í samgöngumálum í samræmi við tillögur og skýrslu nefndarinnar. Ég tel að mikilvægasta verkefni samgönguyfirvalda sé, í ljósi þessarar niðurstöðu, að tryggja uppbyggingu vegakerfis og umferðaröryggis í kjölfar þess að vöruflutningar um vegina hafa aukist. Með afgreiðslu samgönguáætlunar s.l. vor var stefnan mörkuð í samræmi við það mikilvæga markmið að auka umferðaröryggi. Afturhvarf til reksturs strandsiglinga með ríkisstyrkjum er fráleit leið og engum til hagsbóta. Hins vegar geri ég auðvitað engar athugasemdir við strandsiglingar sem byggja á jákvæðum rekstrarlegum forsendum.

Við eigum að hraða uppbyggingu vegakerfisins. Það er stefna mín sem samgönguráðherra og hún birtist í framkvæmd með samgönguáætlun. En við eigum samt sem áður að leggja okkur fram um að nýta hafnirnar fyrir fiskiskipaflotann, skemmtiferðaskipin og vöruflutninga þar sem það á við.

 

Umhverfi hafnanna.

Umhverfi hafna hefur breyst mikið á undanförnum 2-3 árum og ekki einungis vegna nýs lagaumhverfis. Atburðirnir 11. september leiddu til þess að á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar var ráðist í gerð reglna um siglingavernd sem voru felldar inn SOLAS samninginn sem Ísland er aðili að. Ársfundur Hafnasambandsins fjallaði ítarlega um siglingavernd fyrir tveimur árum síðan og ætla ég ekki að segja margt um þetta hér. Þó er óhætt að segja að fram að því að þessar alþjóðlegu kröfur komu fram á sjónarsviðið hafi vart verið hægt að segja að alþjóðlegt regluverk hafi komið mikið við sögu í rekstri hafna. Nánast yfir nótt breyttist þetta og er siglingavernd, ásamt þeirri umsýslu og eftirliti sem því fylgir, hluti af rekstri hafna. Forvitnilegt verður að fylgjast með umræðunum á fundinum í dag um þetta efni. Að lokum má geta þess að í undirbúningi er á vegum Evrópubandalagsins reglugerð um hafnavernd sem felur í sér að skoða þurfi áhættu fleiri mannvirkja á hafnarsvæðinu en bara þeirra sem lúta að tengingu skips við bryggju og farm.

 

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en vil að lokum þakka fundarmönnum fyrir tækifærið til þess að ávarpa fundinn og óska ykkur velfarnaðar í störfum á fundinum.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta