Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. október 2005 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Kynningarfundur um Vaxtarsamning Suðurlands.

Kæru gestir, Það er mér sönn ánægja að fá tækifæri til að ávarpa þennan kynningarfund um Vaxtarsamning Suðurlands. Ég hef lagt sérstaka áherslu á gerð vaxtarsamninga og aukna samkeppnishæfni landsins alls, þar sem ég tel þessa þætti afar mikilvæga til að bæta lífskjör og treysta búsetu í landinu. Áhersla á þessa málaflokka á síðustu misserum hefur smátt og smátt verið að komast í framkvæmd með ýmsum verkefnum og aðgerðum. Á síðustu árum hafa átt sér stað örar breytingar í heiminum, sem rekja má m.a. til aukins frjálsræðis í viðskiptum og tæknilegra framfara. Áhrifa þeirra gætir víða og á fjölmörgum sviðum t.d. í menntun, menningu og efnahagsmálum. Óhjákvæmilega hafa breytingarnar einnig áhrif á þróun byggðar og samkeppnishæfni atvinnulífs, hér á landi sem í nágrannalöndunum. Atvinnulíf, byggðir, borgir og lönd verða að bregðast við þessum breyttu aðstæðum, eigi að vera mögulegt að auka verðmætasköpun, atvinnutækifærum og bæta lífskjör. Fjarlægðir á milli staða og landfræðileg staðsetning skipta sífellt minna máli og því er samstarf og samskipti á milli byggða og einstakra landa mun einfaldara en áður. Upplýsingar liggja fyrir um að þau svæði sem hvað mestum árangri hafa náð í hringiðu alþjóðavæðingar og í uppbyggingu byggðakjarna, eru þau svæði þar sem áhersla er lögð á samvinnu og samstarf á milli þéttbýlis og dreifbýlis, á milli mismunandi hópa og hagsmunaaðila. Á síðustu misserum hefur verið unnið að ýmiss konar verkefnum á sviði byggðamála á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta. Í núgildandi byggðaáætlun er að finna fjölmargar skilgreindar aðgerðir er tekið hafa til ýmissa verkefna og má þar nefna sem dæmi Nýsköpunarmiðstöð á Akureyri, rannsóknir á búsetu- og starfsskilyrðum atvinnulífs á landsbyggðinni, eflingu menntunar, ferðaþjónustu, rafræns samfélags og umhverfisstarfsemi sveitarfélaga. Vaxtarsamningar fyrir Eyjafjarðarsvæðið og Vestfirði eru meðal stærri verkefna á sviði núgildandi byggðaáætlunar sem hrundið hefur verið í framkvæmd en samskonar samningar eru í undirbúningi fyrir aðra landshluta, m.a. hér á Suðurlandi. Í stuttu máli má segja að vaxtarsamningar færi ábyrgð á framkvæmdum á sviði byggðamála heim í hérað, og einstök svæði og byggðir fái þannig aukið hlutverk í umsjón ýmissa verkefna. Er þetta mjög í takt við þá þróun sem verið hefur erlendis. Á vegum Vaxtarsamnings Eyjafjarðar er í gangi öflugt starf er miðar að því að styrkja Eyjafjarðarsvæðið sem byggðakjarna á Norðurlandi. Þar sér Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar um framkvæmd verkefnisins en leitað var til óháðra aðila til að stjórna klösunum sjálfum. Þannig sjá Ferðamálasetur Íslands og Markaðsskrifstofa Norðurlands um ferðamálaklasann og Rannsóknarstofnun HA um mennta- og rannsóknarklasann. Mikil vinna hefur átt sér stað fyrir norðan og hafa um 200 manns tekið þátt í vinnu klasanna til þessa og um 100 fyrirtæki og stofnanir hafa sent fulltrúa á kynningar- og vinnufundi. Vaxtarsamningur Vestfjarða er skemmra á veg kominn en hann gildir frá miðju ári 2005 til ársloka 2008. Þar sér Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða um framkvæmd samningsins í samræmi við ákvæði hans. Á Austurlandi og hér á Suðurlandi hafa nefndir sem skipaðar voru tekið til starfa og er þeim ætlað að koma með tillögur um stefnumörkun í byggðamálum á þessum landssvæðum, sem og áætlun um aðgerðir þar sem fram komi markmið þeirra, forsendur, ábyrgð á framkvæmd, þátttakendur, ásamt tíma- og kostnaðaráætlun. Síðar í dag verða kynnt drög að þeim tillögum sem verkefnisstjórn um Vaxtarsamning fyrir Suðurland hefur mótað. Bætt samkeppnishæfni einstakra svæða hjálpar til við að bæta samkeppnisstöðu landsins alls en á þann þátt hefur verið lögð mikil áhersla á liðnum árum. Ný byggðaáætlun fyrir árin 2006-2009 mun m.a. leggja áherslu á uppbyggingu og hagnýtingu þekkingar í þágu atvinnulífs og velferðar. Ríkisstjórn Íslands hefur sýnt vilja sinn til þessara mála í verki og ákvað m.a. nú nýlega að auka eigið fé Nýsköpunarsjóðs um allt að 2,5 milljarða króna í áföngum til ársins 2009. Í ár fær sjóðurinn einn milljarð sem verður varið til sprotafyrirtækja í samræmi við lögbundið hlutverk sjóðsins og ákvarðanir stjórnar. Á árunum 2007-2009 fær sjóðurinn allt að 1,5 milljarða króna í viðbótarframlag til að standa undir hlutdeild sinni í stofnun sameignarsjóðs Nýsköpunarsjóðs, lífeyrissjóða og annarra fjárfesta í sprotafyrirtækjum. Þá má einnig minnast á Tækniþróunarsjóð sem varð til árið 2004 en hlutverk sjóðsins er að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Tækniþróunarsjóður er rekinn af Rannís samkvæmt samningi við iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið. Hann mun gegna veigamiklu hlutverki við fjármögnun nýsköpunarverkefna og brúa það bil sem verið hefur á milli gömlu Rannís-sjóðanna og aðkomu framtaksfjárfesta. Úthlutað var úr sjóðnum í fyrsta sinn árið 2004 en þá voru 200 milljónir kr. til ráðstöfunar. Framlag til Tækniþróunarsjóðs úr ríkissjóði mun fara stigvaxandi og miða áætlanir að því að 500 milljónir kr. verði til ráðstöfunar úr sjóðnum árið 2007. Bind ég miklar vonir við að þessar breytingar á umhverfi og fjármögnun nýsköpunar og sprotafyrirtækja skili sér í formi aukins frumkvöðlastarfs og endurnýjunar í atvinnulífinu. Á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta hefur einnig verið unnið að fjölmörgum endurbótum m.a. hvað varðar fjármálamarkað, aukna erlenda fjárfestingu, einföldun á starfsskilyrðum fyrirtækja, endurbætur á hlutabréfamarkaði, einkavæðingu á fjármálamarkaði, og bætt starfsskilyrði frumkvöðla, svo eitthvað sé nefnt. Allt þetta hefur stuðlað að aukinni samkeppnishæfni atvinnulífs og auðveldað aðlögun þess að þróun og kröfum alþjóðavæðingar, sem hefur verið forsenda framþróunar og hagvaxtar. Árangur af þessu starfi má m.a. sjá í aukinni erlendri fjárfestingu hér á landi í ýmsum greinum og á sama tíma meiri útrás íslenskra fyrirtækja. Samhliða hefur gróska fyrirtækja og frumkvöðla á innlendum markaði aukist til muna. Í heildina litið má segja að Ísland hafi í auknum mæli orðið þátttakandi í þeirri alþjóðavæðingu sem nú ríkir, á grundvelli bættra starfsskilyrða og aukinnar samkeppnishæfni. Þetta hefur skilað sér í meiri verðmætasköpun, aukinni atvinnu og bættum lífskjörum. Góðir gestir. Í umfjöllun um byggðamál hefur stundum gætt togstreitu á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Til lengri tíma litið fara hagsmunir saman. Til að þroska og þróa umfjöllun um þetta mikilvæga mál og efla enn frekar árangur á sviði byggðamála og samkeppnishæfni almennt, þurfa sem flestir hópar þjóðfélagsins að koma að umfjöllun málsins. Kynningarfundir sem þessi eru því afar mikilvægir. Ég vil að lokum þakka þeim aðilum sem komu að undirbúningi þessa kynningarfundar og innlendum og erlendum fyrirlesurum fyrir þeirra

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta