Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. október 2005 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Árangur og arðsemi - ávinningur rafrænna viðskipta.

Góðir gestir,

Það er mér sérstök ánægja að fá að ávarpa þessa ráðstefnu um drifkraft og hagræðingu í viðskiptum og þann ávinning sem hafa má af rafrænni notkun á þeim vettvangi.

Hugtakið rafræn viðskipti er þýðing á því sem á ensku hefur verið kallað electronic commerce eða e-commerce. Nær þetta hugtak yfir viðskipti sem eiga sér stað á milli aðila á rafrænan hátt og hafa þau á síðustu árum gjarnan farið fram um Veraldarvefinn. Er það einkum komið til af því að vefurinn eða Netið sem miðill er orðinn mjög ódýr og útbreiðsla hans og notkun á heimsvísu mjög mikil.

Tækniþróunin og framfarir á fjölmörgum sviðum hafa þannig verið að umbreyta heiminum og er í því samhengi gjarnan talað um svokallaða alþjóðavæðingu. Í því felst m.a. að rafræn viðskipti hafa smám saman breytt hefðbundnum viðskiptaháttum og má ætla að þróunin á því sviði geti orðið enn hraðari á komandi árum. Raunar hefur verið sagt að viðskipti milli einstaklinga og fyrirtækja á Netinu muni verða það umfangsmikil að hugtakið „rafræn viðskipti“ hverfi og þannig verði ekki gerður greinarmunur á því sem talin hafa verið „hefðbundin viðskipti“ annars vegar og „rafræn viðskipti“ hins vegar.

Í árdaga rafrænna viðskiptahátta á Íslandi lagði iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið áherslu á að kynna þá möguleika sem í þeim fælist fyrir markaðnum. Síðar var farið út í þá vinnu að athuga hvort breyta þyrfti lögum og reglum til að ekki væru lagalegar hindranir fyrir rafrænum viðskiptaháttum hér á landi. Á síðustu árum hafa verið samþykkt nokkur frumvörp á þessu sviði sem ráðuneytið hefur unnið að og er nú svo komið að ekki verður séð að lög hamli rafrænum viðskiptum, né að lög skorti til þess að slíkir viðskiptahættir fái þrifist. Tæknilegar forsendur ættu ekki heldur að vera nein hindrun því Íslendingar hafa líkt og aðrir tekið Netinu opnum örmum er nú svo komið að notkun þess er hér einhver sú mesta í heiminum. Í því samhengi má geta þess að ef litið er til alþjóðlegs samanburðar er Ísland í öðru sæti á lista yfir þjóðir heims þegar litið er til þess hversu tilbúnar þær eru til að taka þátt í og haganýta sér upplýsinga- og samskiptatækni. Innviðirnir eru því fyrir hendi og undir okkur sjálfum komið að nýta tækifærin.

Á vettvangi hins opinbera hefur verið unnið að framþróun rafrænna viðskipta á ýmsan hátt. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hefur sem fyrr segir staðið fyrir ákveðnum lagabreytingum til að greiða götu rafrænna viðskipta ásamt því að eiga beina aðkomu að ákveðinni stefnumótun og samstarfi á vettvangi Tilraunasamfélags um rafræn viðskipti og ICEPRO. Í stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið 2004-2007 er ráðuneytinu einnig falin ábyrgð á framþróun annarra verkefna sem snúa að rafrænum viðskiptum og er svo um fleiri ráðuneyti. Þannig er svo dæmi séu tekin Fjármálaráðuneyti falið að vinna að almennri og útbreiddri notkun rafrænna skilríkja sem skiptir miklu máli í þessu samhengi.

Ef litið er til viðskiptalegs ávinnings af rafrænum viðskiptum má velta fyrir sér í hvaða formi hann getur verið og hver reynslan er miðað við stöðuna eins og hún er í dag. Fyrir neytendur skiptir máli að ábatinn af rafrænum viðskiptum sé sýnilegur og að byggt sé á trausti og vissu fyrir því að sá sem þú skiptir við sé örugglega sá sem hann segist vera. Ábatinn getur falist í því að viðskiptin séu einfaldari, fljótlegri og ódýrari en að kaupa inn á hefðbundinn hátt. Forsendan hlýtur þó einnig að vera að upplýsingar seljandans séu áreiðanlegar, aðgengilegar og auðskildar. Hvað atvinnulífið snertir getur ávinningurinn falist í skilvirkri notkun lausna sem fela í sér margvíslegan sparnað, til að mynda í formi betri nýtingar á tíma, starfskröftum, minni ferðalögum og svo mætti áfram telja. Rafræn viðskipti hafa nú þegar breytt miklu fyrir íslenskt viðskiptaumhverfi en áfram er litið fram á veginn og nú um stundir er einkum horft til samþættingar, auðkenningar og rekjanleika. Á þessum sviðum eru mörg fyrirtæki að stíga sín fyrstu skref og spennandi verður að sjá afrakstur þess.

Íslendingar eru framarlega á meðal ríkja heims á mörgum sviðum. Ég ber þá von í brjósti að á sviðum rafrænna viðskipta og rafrænnar stjórnsýslu munum við á næstu árum og áratugum standa í fararbroddi þjóða. Við höfum ágæta innviði, mikinn metnað og nýjungargirni auk framúrskarandi fólks sem býr yfir mikilli þekkingu og hæfileikum. Alla þessa orku þarf að virkja og með því að almenningur, atvinnulíf og opinberir aðilar leggist öll á sömu sveif er ég þess fullviss að tækifæri tækninnar verði nýtt til að bæta íslenskt samfélag. Í því skyni, og til að vekja áhuga almennings, fyrirtækja og opinberra stofnana á þessum málum, hefur iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið í samráði við verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið beitt sér fyrir því að hér á landi verði árlega haldinn svokallaður rafrænn dagur eða „UT-dagur“ líkt og sumar nágrannaþjóðir okkar hafa gert. Þetta yrði gert til að hvetja ríki og sveitarfélög til dáða í að efla rafræna stjórnsýslu, og enn fremur til að hvetja almenning og atvinnulíf til að nýta sér í auknum mæli þær sjálfsafgreiðslulausnir sem þegar eru í boði, ásamt því að tiltrúna á öryggi slíkrar þjónustu. Stefnt er að því að þessi dagur verði haldinn í upphafi næsta árs.

Góðir gestir,

Sú hagræðing og sá drifkraftur sem felst að mínu mati í hagnýtingu rafrænna viðskipta getur skipt sköpum í aukinni samkeppnishæfni þjóðarinnar og þar af leiðandi velferð hennar. Mikilvægt er að ofmetnast ekki yfir vænlegri stöðu og sofna á verðinum heldur fylgja góðum árangri fast eftir. Ráðstefna sem þessi er mikilvægur liður í að koma þekkingu, hugmyndum og reynslu á framfæri og því fagna ég þessu framtaki þeirra félaga sem að henni standa.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta