Fjárfestingartækifæri í Austur-Evrópu - Kynningarfundur EBRD.
Ladies and Gentlemen. Welcome to this meeting. I specially want to thank our guest from EBRD, who will introduce the bank and it’s policy and services. It will be very interesting to hear about the bank’s new energy policy. Meetings like this one are very important, because the business world is getting smaller at the time of globalisation. Góðir fundargestir. Endurreisnar- og þróunarbanki Evrópu var stofnaður árið 1991 og er Ísland meðal 60 landa sem hlut eiga í honum. Meginhlutverk bankans er að stuðla að umbreytingum frá miðstýrðum áætlanabúskap fyrrverandi austantjaldsríkja og ríkja í Mið-Asíu, yfir í opin hagkerfi sem um leið eflir hag- og lýðræðisþróun þessara landa. Segja má að bankinn hafi gegnt veigamiklu hlutverki við umbreytingu þessara landa og um leið stuðlað að sjálfbærum hagvexti þeirra og þróun í átt til vestræns markaðsbúskapar. Því verkefni er hvergi nærri lokið. Afkoma og árangur bankans hefur einnig verið afar góður, þrátt fyrir oft erfiðar aðstæður í upphafi markaðsþróunar í þessum löndum. Tækin sem bankinn hefur yfir að ráða í þessu sambandi eru fyrst og fremst fjármagn til endurreisnar og þróunar. Þessi lán eru veitt til banka og opinberra jafnt sem einkarekinna fyrirtækja, til frumkvöðla og þeirra sem þegar hafa komið á fót starfsemi. Bankinn hefur einnig stutt þróun í átt til umbreytingar eða einkavæðingar ríkisfyrirtækja og fyrirtækja á sveitarstjórnarstigi, s.s. á sviði vatnsveitna. Stjórn bankans sinnir stefnumótun hans og er stjórnin skipuð fulltrúum þeirra landa sem hlut eiga. Eru fulltrúarnir einkum ráðherrar frá þessum löndum. Ég sit til að mynda sem stjórnarmaður fyrir hönd Íslands í stjórn bankans. Starfsemi bankans og dagleg stjórn hans er hins vegar falin framkvæmdastjórn bankans, sem skipuð er framkvæmdastjórum hinna ýmsu stjórnarskrifstofa hans. Eru þeir 27 að tölu og situr Sven Hegelund, framkvæmdarstjóri svæðaskrifstofu fyrir Ísland, Svíþjóð og Eistland, m.a. í framkvæmdastjórn bankans. Á tímum alþjóðavæðingar eykst umfang og mikilvægi fjölþjóðastarfsemi fyrir fyrirtæki. Af þeim ástæðum eru fundir sem þessir mikilvægir, til að atvinnulíf geti nýtt sér alla þá möguleika sem alþjóðlegir bankar og stofnanir bjóða og nýtast í útrás á erlenda markaði. Íslenskt atvinnulíf er að verða nokkuð alþjóðlegt, sem um leið gerir auknar kröfur til allra aðila, innan fyrirtækja sem utan, og á innlendum sem erlendum mörkuðum. Það er einnig afar ánægjulegt að verða vitni að velgengni fyrirtækja á innlendum sem erlendum mörkuðum, sem m.a. endurspeglar góða samkeppnisstöðu Íslands í alþjóðlegum könnunum. Má þar til að mynda geta samanburðarkönnunar IMD-viðskiptaháskólans í Sviss, þar sem Ísland hefur hækkað um 1 sæti að meðaltali undanfarin 10 ár og er nú í fjórða sæti þjóða heims og fremst Evrópuþjóða. Íslensk stjórnvöld komu á fót innlendum tæknisjóði fljótlega eftir að bankinn hóf starfsemi sína. Sjóðurinn hefur það hlutverk að fjármagna vinnu ráðgjafa við undirbúning verkefna og hafa nokkrir ráðgjafar fengið styrki úr sjóðnum. Sjóðurinn fjármagnar aðeins vinnu íslenskra ráðgjafa, enda er sjóðurinn sem fyrr segir fjármagnaður af íslenskum stjórnvöldum. Tillaga um framlag úr sjóðnum þarf að koma frá einni af deildum bankans, sem velur ráðgjafann og gerir tillögu um upphæð greiðslunnar. Það er því ljóst að sýnileiki íslenskra ráðgjafa innan bankans er mjög mikilvægur. Ágætu fundargestir, Það er ósk mín að þessi kynningarfundur um Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu verði til þess fallinn að efla möguleika og tækifæri íslenskra fyrirtækja á erlendri grundu og efla um leið stöðu þeirra á Íslandi. Takk fyrir