Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. nóvember 2005 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ráðstefnan Upplýsingatækni í dreifbýli sem haldin var í Reykholti 10. nóvember 2005

Góðir ráðstefnugestir.

Ég vil bjóða ykkur velkomin hingað í Reykholt í Borgarfirði. Það er vel við hæfi að halda hér á þessum stað málþing um hina upplýstu tækni því hér sat sagnaritarinn Snorri Sturluson.

Það var á árinu 2001 að ég skipaði verkefnisstjórn er hafði það viðfangsefni að auka tölvu- og tæknivæðingu til sveita, auðvelda bændum að nýta sér kosti upplýsingasamfélagsins og hvetja til tölvu- og netvæðingar í dreifbýli. Markmiðið var meðal annars að auka þekkingu, atvinnumöguleika og samkeppnishæfi í sveitum landsins. Í þessa verkefnisstjórn voru skipuð: Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður, Björn Garðarsson kennslustjóri, Björn Sigurðsson útibússtjóri, Orri Hlöðversson bæjarstjóri, Sigurjón Rúnar Rafnsson skrifstofustjóri, Sólrún Ólafsdóttir bóndi og Sverrir Heiðar Júlíusson kennari. Verkefnisstjórnin kom saman og réð sér framkvæmdastjóra og í sameiningu unnu verkefnisstjórn og framkvæmdastjóri að verkefnislýsingu og framtíðarsýn verkefnisins. Allt það starf var unnið í góðri samvinnu við landbúnaðarráðuneytið, Bændasamtök Íslands, búnaðarsambönd o.fl. er málið varðar.

Verkefnið hlaut nafnið Upplýsingatækni í dreifbýli (UD). Eitt af því sem UD verkefninu var ætlað skv. skipunarbréfi var að “eiga samstarf og samvinnu við aðra aðila og leita eftir mótframlögum frá þeim til þeirra verkefna sem í skyldi ráðist”. Í samræmi við þetta voru undirritaðir samningar við aðila úr atvinnulífinu um styrki til verkefnisins. Rafmagnsveitur ríkisins, Olíufélagið hf, Búnaðarbanki Íslands hf – og síðar KB-banki – Framleiðnisjóður landbúnaðarins og fjárlagaliðurinn Upplýsingasamfélagið, hafa frá upphafi veitt verkefninu verulegan fjárhagslegan stuðning. Árið 2003 bættist síðan Síminn hf. í hóp þessara samstarfsaðila. Þá hafa Bændasamtök Íslands, búnaðarsambönd og leiðbeiningamiðstöðvar, Kaupfélag Skagfirðinga, Félag ferðaþjónustubænda, Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Byggðastofnun og Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins einnig stutt verkefnið með vinnuframlagi og með því að leggja fram aðstöðu, búnað, fjármagn o.fl. Í sameiningu hafa þessir aðilar, ásamt verkefnisstjórn og starfsfólki UD og landbúnaðarráðuneytinu, staðið fyrir öflugasta tölvu- og upplýsingatækni átaki frá upphafi meðal íslenskra bænda.

Góðir ráðstefnugestir.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka kærlega öllum sem hafa lagt hönd á plóg. Það þekkja íslenskir bændur að menn uppskera eins og sáð hefur verið til. En áður en hægt er að sá þarf að brjóta landið og vinna jarðveginn. Það hefur verið gert í þessu verkefni, við erum þegar farin að njóta uppskerunnar og eigum eftir að gera það enn frekar þegar fram líða stundir.

Við framkvæmd UD verkefnisins hefur frá upphafi verið lögð áhersla á að þjóna öllum bændum á landinu óháð því hvar þeir eru staðsettir. Bændur á Melrakkasléttu þar sem samgöngur eru erfiðar, byggðin dreifðari og námskeið þar af leiðandi dýrari, hafa ekki þurft að greiða hærra gjald fyrir námskeið þó meira hafi verið til kostað við framkvæmd þeirra. Sömuleiðis hefur krafa bændasamtakanna og Upplýsingatækni í dreifbýli um bætt fjarskiptasamband ekki síst verið í þágu bænda fyrir vestan og á örðum jaðarsvæðum. Þannig hefur verið haft að leiðarljósi að allir bændur njóti viðunandi grunnþjónustu á sviði fjarskipta. Ég vil einnig nefna að varðandi þetta atriði hef ég átt ágætt samstarf við Sturlu Böðvarsson, samgönguráðherra, sem ekki getur verið með okkur hér í dag.

Það er því sérstakt fagnaðarefni að hér í dag skuli fulltrúi frá Símanum tilkynna okkur að nú í þessum mánuði fái allir bændur, sem sótt hafa um, aðgang að ISDN-plús fjarskiptasambandi og aðgang að netinu fyrir fast verð, líkt og íbúum í þéttbýli hefur staðið til boða. Strangt til tekið þurfti Síminn ekki að bjóða öllum upp á ISDN samband til þess að uppfylla ákvæði fjarskiptalaga, en nú hefur sú ákvörðun verið tekin að enginn skuli vera útundan og fyrir það vil ég þakka.

Hér á þessari ráðstefnu flytja einnig erindi fulltrúar fyrirtækja sem eru í samkepnni við Símann á fjarskiptamarkaði í dreifbýli. Reyndar er eitt af meginviðfangsefnum þessarar ráðstefnu að leitast við að svara spurningunni, hvort um sé að ræða virka samkeppni á fjarskiptamarkaði í dreifbýli. Ég held að engum blandist hugur um það, að víða um land hafa bændur nú þegar notið góðs af samkeppni fjarskiptafyrirtækja. Þróun tækninnar á þessu sviði er hröð, flutningsgeta fjarskiptakerfa eykst með nýrri tækni og hún verður jafnframt ódýrari, þannig að á þessu sviði vinnur tíminn með íslenska bóndanum.

Ágætu ráðstefnugestir.

Í minni tíð sem landbúnaðarráðherra hefur orðið gagnger breyting á viðhorfi til íslensks landbúnaðar. Ég ætla ekki að eigna mér þann heiður, en vonandi hef ég átt einhvern þátt í að bæta ímynd íslenska bóndans. En það er vissulega ánægjulegt fyrir landbúnaðarráðherra að sjá að sveitin er komin í tísku, íslenski bóndinn nýtur virðingar fyrir störf sín, íslenski hesturinn er sterkasta tákn lands og þjóðar á erlendum vettvangi og meira að segja er það svo, að lopapeysa í sauðalitunum er eitt megintákn hátískunnar á Íslandi í dag.

Bætt samband við fjarskiptanetið og lægri kostnaður gerir sveitirnar samkeppnishæfari og ákjósanlegri til búsetu. Á þessu sviði hafa undanfarin misseri verið stigin mörg skref í rétta átt og það er von mín að svo megi verða áfram.

Upplýsingatækni í dreifbýli 2005 (893 KB)

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta