Í upphafi skyldi endinn skoða.
Góðir gestir.
Það er sönn ánægja að fá tækifæri til að ávarpa þennan fund sem ber yfirskriftina „Í upphafi skyldi endinn skoða – eru breytingar í þínu fyrirtæki sóun á fjármunum?" Ef til vill helgast áhugi minn á viðfangsefninu af því að ég hef alla tíð viljað fara skynsamlega með peninga og má jafnvel segja að það viðhorf hafi verið mikilvægur liður í uppeldi mínu og systra minna.
Yfirskrift fundarins hlýtur að skoðast í því ljósi að við lifum í dag á tímum þar sem breytingar verða ef til vill tíðari og meiri en nokkru sinni fyrr í mannkynssögunni. Á það við á öllum sviðum mannlífsins og ekki síst hjá fyrirtækjum sem hafa öll, á einn eða annan hátt, orðið að aðlagast að alþjóðavæðingu liðinna ára. Hugtakið alþjóðavæðing hefur raunar verið útvíkkað og er stundum talað um hnattvæðingu í því samhengi. Er þá vísað til þess að heimurinn hefur skroppið saman fyrir tilstuðlan framfara í tækni, fjarskiptum og samgöngum. Dæmi um slíkar ytri breytingar sem hafa haft áhrif á daglegt líf okkar flestra eru alþjóðlegir staðlar, hröð þróun í upplýsingatækni og atburðir eins og hryðjuverkaárásir liðinna ára.
Við höfum öll orðið vör við það að íslensk fyrirtæki eru á fleygiferð og í mikilli útrás. Mörg þeirra hafa sameinast og stækkað en í öðrum tilfellum hafa óarðbærar einingar verið seldar. Svo hratt gerast þessar breytingar að maður má hafa sig allan við að fylgjast með því sem fram fer. Hlutabréfakaup og fjárfestingar geta jafnvel gerbreytt stefnu fyrirtækja og má sjá glögg dæmi um það þegar horft er til gömlu ríkisviðskiptabankanna sem voru seldir og hafa síðan leitt útrás íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði. Eins og allir sjá þá kallar svo „dínamískt" umhverfi á mikil umskipti fyrir fyrirtæki og starfsfólk.
Breytingar sem þessar í ytra umhverfi fyrirtækja eru óhjákvæmilegar og eiga sér stað hvort sem okkur líkar betur eða verr. Því er mikilvægt að stjórnendur séu tilbúnir að bregðast rétt við þeim. Það er mjög einfalt að segja þetta en getur verið öllu erfiðara að vita hver rétt viðbrögð við tilteknum aðstæðum eru. Ég ætla ekki að koma með töfraformúluna fyrir því í þessu ávarpi – en ég vil gjarnan minna á að síðan ég kom í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið fyrir 6 árum síðan hefur margt breyst. Má þar nefna að bankar og iðnfyrirtæki hafa verið seld og stofnanir verið teknar til gagngerrar endurskoðunar. Ég tala nú ekki um raforkukerfi landsmanna sem hefur tekið miklum stakkaskiptum eins og þið eflaust vitið.
Það er hins vegar staðreynd að margir hræðast umskipti og af þeim sökum verða sumir undir í þeirri hörðu samkeppni sem á markaðnum ríkir. Mikilvægt hlutverk stjórnenda fyrirtækja er því að reyna að sjá fyrir mögulegar breytingar sem geta haft áhrif á rekstur og afkomu fyrirtækja, hvort sem er til hins betra eða verra. Ef ekki er nógu vel að breytingum staðið geta þær verið kostnaðarsamar og því e.t.v. betur heima setið en af stað farið. Fræðin segja okkur einnig að áætlanir og skipulagning í upphafi séu einn mikilvægasti liðurinn í umbreytingarferli og að fylgja þurfi þeim vel eftir. Meðan á ferlinu stendur þarf að gæta að fræðslu og upplýsingaflæði til starfsmanna. Skýr markmið og öflug framtíðarsýn ásamt sívirku kerfi sem vinnur að stjórnun breytinga eru því að segja má ákveðinn lykill að farsælli niðurstöðu.
Góðir gestir,
Viðskipti eru drifkraftur framfara og uppgötvana. Slíkt leiðir af sér breytingar. Mikilvægt er að mínu mati að horfa til umskipta af því tagi á jákvæðan hátt - því í öllum breytingum felast tækifæri. Tækifærin ber að nýta til frekari framþróunar og hagnýtingar á þann hátt sem leiðir til farsællar niðurstöðu. Því eins og segir í máltækinu „Í upphafi skyldi endinn skoða" og hafa skal í huga að við höfum oftast nær alla möguleika á að hafa endinn eins heilladrjúgan og við viljum helst.
Ágætu gestir - með þessum ávarpsorðum lýsi ég fund þennan settan.
Takk fyrir.