Ræða Geirs H. Haarde, utanríkisráðherra, um utanríkismál
RÆÐA
Geirs H. Haarde, utanríkisráðherra,
um utanríkismál
Flutt á Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005-2006
Virðulegi forseti,
Fyrr á þessu ári var þess minnst að sextíu ár voru liðin frá stofnun Sameinuðu þjóðanna og var af því tilefni haldinn leiðtogafundur þjóða heims í New York. Þar var fjallað um framtíðarhlutverk og starfshætti samtakanna og brýnustu vandamálin á alþjóðavettvangi. Mikil umfjöllun um fundinn, aðdraganda hans og efni endurspeglar að þrátt fyrir ýmis skakkaföll á undanförnum árum njóta Sameinuðu þjóðirnar virðingar víðast um heim og hafa þýðingu fyrir heimsmálin í hugum flestra. Þær eru vissulega ófullkomnar og þarfnast umbóta en fáir vilja þó án þeirra vera. Þær eru eini sameiginlegi vettvangur næstum allra ríkja heims.
Allt frá upphafi hafa íslensk stjórnvöld lagt mikla áherslu á þátttöku Íslands í Sameinuðu þjóðunum í þeirri trú að þær geti stuðlað að friði, stöðugleika og efnahagslegri framþróun. Þá hefur aðildin að samtökunum þjónað margvíslegum öðrum íslenskum hagsmunum, þar á meðal í mikilvægum málaflokkum eins og hafréttarmálum. Samstaða hefur ríkt um að Ísland sé virkur þátttakandi í starfi Sameinuðu þjóðanna. Framboð Íslands til setu í öryggisráðinu á tímabilinu 2009-2010, sem er samstarfsverkefni Norðurlandanna fimm, er þáttur í því.
Í aðdraganda leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna fór fram viðamikill efnislegur undirbúningur þar sem Kofi Annan, framkvæmdastjóri, lét mjög að sér kveða með tillögum um umbætur á samtökunum sem meðal annars nutu stuðnings Norðurlandanna. Vonir stóðu til að sextugsafmælið hvetti menn til dáða og samstöðu um aðgerðir til að efla öryggi í heiminum og herða á baráttu gegn fátækt. Þótt vel miðaði í sumum efnum ollu niðurstöður fundarins vonbrigðum og ljóst að mörgum aðkallandi verkefnum er enn ólokið. Það tókst að koma á fót svonefndri friðaruppbyggingarnefnd, sem er ætlað að samræma og bæta endurreisnarstarf í stríðshrjáðum ríkjum. Einnig tókst að ná fram þeim almenna skilningi að alþjóðasamfélagið hafi bæði rétt og skyldu til að grípa inn í þar sem stjórnvöld gerast sek um stórfelld mannréttindabrot gegn eigin borgurum. Á hinn bóginn er þessi réttur og þessi skylda ekki jafn afdráttarlaus í niðurstöðum fundarins og mörg lýðræðisríki, þar á meðal Ísland, hefðu viljað.
Þá er einnig mikið áhyggjuefni að sum aðildarríki virðast af ýmsum ástæðum treg til að gera Sameinuðu þjóðunum betur kleift að rækja hlutverk sitt. Fyrst ber að nefna að ekki tókst að gera nauðsynlegar umbætur á öryggisráðinu. Þá er mjög miður að ekki náðist samkomulag um nýjar ráðstafanir gegn útbreiðslu gereyðingarvopna eða um skýra sameiginlega skilgreiningu á hryðjuverkastarfsemi. Þetta eru nátengd fyrirbæri því mesta ógn við öryggi í heiminum stafar af þeirri hættu að hryðjuverkamenn komi höndum yfir gereyðingarvopn.
Loks er dapurlegt að enn er ófrágengið með hvaða hætti nýtt mannréttindaráð á að koma í stað mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem er óstarfhæf. Ísland hefur lengi verið í hópi þeirra ríkja sem leggja áherslu á að mannréttindi séu algild eins og skýrt er kveðið á um í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Jafn ljóst er að þau eru fótum troðin víða í heiminum. Því telja íslensk stjórnvöld miklu skipta að stofnað verði öflugt mannréttindaráð, sem fylgist með mannréttindum og gagnrýni einarðlega ríkisstjórnir sem ekki virða þau. Það væri óþolandi að ríki sem gerst hafa sek um alvarleg mannréttindabrot ættu fulltrúa í ráðinu.
Trúverðugleiki Sameinuðu þjóðanna veltur á því að stofnanir samtakanna geti tekið á brýnum vandamálum. Mannréttindabrot eru þar á meðal og grafa undan friði og öryggi. Því mega ríki ekki komast upp með að drepa málum á dreif. Þau aðildarríki sem vilja að Sameinuðu þjóðirnar gegni lykilhlutverki þurfa að taka frumkvæði og forystu við að efla samtökin.
Frú forseti,
Ef skyggnst er um öxl til liðinnar aldar má segja að ástand heimsmála um þessar mundir sé að mörgu leyti betra en oft áður. Alþjóðlegt samstarf og viðskipti hafa aldrei verið fjölþættari og umfangsmeiri og líkurnar á stórveldaátökum sjaldan minni. Fleira fólk býr við lýðræðislega stjórnarhætti en nokkru sinni. Bylting í fjarskiptum og upplýsingatækni hefur gerbreytt alþjóðlegum samskiptum. Og þótt fátækt sé enn víða skelfileg hefur þeim heldur fækkað sem búa við algera örbirgð, ekki síst vegna efnahagsþróunar á Indlandi og í Kína.
Með vaxandi alþjóðavæðingu telja sífellt fleiri að þeir hafi hagsmuni af friðsamlegum samskiptum. Alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi gengur þvert á þessa þróun. Það er erfitt að sigrast á andstæðingum sem vega úr launsátri og svífast einskis en það er hægt með nánu samstarfi á alþjóðavettvangi og með því að fallast í engu á markmið hryðjuverkamanna. Íslensk stjórnvöld styðja eindregið núverandi vinnu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að gerð víðtæks alþjóðasamnings um ráðstafanir gegn hryðjuverkum. Ísland hefur ætíð lagt áherslu á að baráttan gegn þeim megi ekki vera á kostnað mannréttinda eða mannúðarlaga.
Það er ljóst að frekari útbreiðsla gereyðingarvopna eykur líkurnar á því að hryðjuverkamenn komist yfir slík vopn. Í hvert sinn sem nýtt ríki bætist í hóp kjarnavopnaríkja verður til hvati fyrir önnur ríki í sama heimshluta til að fylgja í kjölfarið. Afleiðingarnar eru aukin spenna og ófriðarhætta. Þrátt fyrir það virðist erfitt að stemma stigu við útbreiðslu gereyðingarvopna. Uppsögn Norður-Kóreu á samningnum um takmörkun á útbreiðslu kjarnavopna og það hvernig stjórnvöld í Íran hafa um langa hríð brotið gegn skulbindingum í samningnum er óásættanlegt. Þá er svartamarkaðsbrask með þekkingu og tækni til að smíða kjarnavopn verulegt áhyggjuefni. Það var til að minna á þessa alvarlegu hættu að Nóbelsverðlaunanefndin ákvað á dögunum að Alþjóðakjarnorkumálastofnunin skyldi hljóta hin árlegu friðarverðlaun.
Lýðræðisríki beggja vegna Atlantshafs hafa áfram sameiginlega grundvallarhagsmuni og því mikilvægt að þau nái að starfa saman gegn helstu ógnum samtímans. Því gegnir Atlantshafsbandalagið áfram lykilhlutverki. Sameiginlegar varnarskuldbindingar eru grundvöllur bandalagsins en breytt skipulag, fjölgun aðildarríkja og ný verkefni þess valda því að það hefur einstaka stöðu hvað varðar öryggismálasamstarf í heiminum. Það varðar því miklu að Ísland sé virkur þátttakandi í bandalaginu við hlið bandamanna og vinaþjóða. Stjórnvöld munu eftir sem áður styðja áframhaldandi aðlögun bandalagsins að breyttum aðstæðum og kemur frekari stækkun bandalagsins m.a. til greina. Úkraína er á meðal þeirra ríkja sem sækjast eftir aðild og skiptir miklu að hvort tveggja Atlantshafsbandalagið og úkraínsk stjórnvöld vinni ötullega að því að svo geti orðið.
Frú forseti,
Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna byggir á aðild ríkjanna að Atlantshafsbandalaginu og snertir viðbúnað og stöðu þess á Norður-Atlantshafi. Viðræður íslenskra og bandarískra stjórnvalda um framkvæmd varnarsamningsins hófust í júlí síðastliðnum. Eins og fram hefur komið hafa þær gengið seinlega. Íslensk stjórnvöld eru reiðubúin til að greiða verulegan hluta þess kostnaðar sem hlýst af rekstri og viðhaldi Keflavíkurflugvallar, enda hefur borgaraleg flugumferð um völlinn aukist mikið. Þá hafa stjórnvöld lýst vilja til þess að kanna möguleika á samstarfi á sviði þyrlubjörgunar þannig að Ísland taki að sér aukið hlutverk í þeim efnum hér á landi. Hvort tveggja mundi leiða til aukinna útgjalda og sýnir því eindreginn vilja af okkar hálfu til að finna framtíðarlausn. Meginmarkmiðið er að sjálfsögðu að tryggja lágmarksvarnarviðbúnað á Íslandi sem þjónar hagsmunum beggja ríkja og Atlantshafsbandalagsins í heild á grundvelli varnarsamningsins frá 1951 og í samræmi við ákvæði hans um verkaskiptingu aðila.
Þátttaka Íslands í friðargæslu hefur vaxið jafnt og þétt á rúmum áratug og er nú orðin mikilvægur þáttur í framkvæmd íslenskrar utanríkisstefnu. Þetta hefur gerst um leið og alþjóðleg samtök og stofnanir eins og Atlantshafsbandalagið, Sameinuðu þjóðirnar og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, gera ríkari kröfur en áður til þess að öll aðildarríki leggi sitt af mörkum til sameiginlegra aðgerða. Íslenska friðargæslan hefur einnig annast framlag Íslands til loftflutninga fyrir Atlantshafsbandalagið. Þá má og nefna þátttöku í kosningaeftirliti á vegum ÖSE, þar sem íslenskir fulltrúar hafa unnið gott starf, oft við erfiðar aðstæður. Loks hefur fólk verið sent til starfa hjá Þróunarsjóði Sameinuðu þjóðanna í þágu kvenna, UNIFEM, í Kósóvó.
Í mörgum tilvikum er ekki einungis ætlast til þess að fjárhagslegum byrðum sé dreift heldur að öll aðildarríkin séu á vettvangi. Þrátt fyrir að hafa ekki eigin her hefur Íslandi tekist að vinna vandasöm verkefni í þágu friðargæslu á vegum Atlantshafsbandalagsins. Þar er skemmst að minnast reksturs stórra flugvalla í Kosóvó og í Afganistan og þátttöku í störfum endurreisnarteyma í norður- og vesturhluta Afganistan. Þetta hefur verið gert með ráðningu borgaralegra sérfræðinga sem starfa við þessar aðstæður samkvæmt stjórnskipulagi og starfsháttum herafla Atlantshafsbandalagsins, og notast því við einkennisbúninga og titla og bera vopn til sjálfsvarnar. Starfsmenn Íslensku friðargæslunnar eru ekki hermenn og ekki ætlað að fást við hernaðarleg verkefni, heldur starfa þeir tímabundið við hlið hermanna bandalagsríkja að viðfangsefnum sem teldust borgaraleg við eðlilegar kringumstæður.
Frá upphafi hefur verið gert ráð fyrir að til þess gæti komið að gera þyrfti breytingar á starfsemi íslensku friðargæslunnar í Afganistan til að tryggja sem best öryggi þeirra sem þar starfa á hennar vegum. Í utanríkisráðuneytinu hafa í þessu skyni verið hafðar sérstakar gætur á þróun mála með því að fá vikulega í hendur mat yfirstjórnar friðargæsluliðsins og Atlantshafsbandalagsins á öryggisástandinu í landinu og á einstökum svæðum. Á undanförnum vikum hefur spenna aukist verulega milli afganskra stríðsherra í norðurhluta landsins og hafa árásir verið gerðar á fulltrúa óháðra hjálparsamtaka og á friðargæsluliða. Upphaflegar forsendur fyrir veru hinna borgaralegu íslensku friðargæsluliða á þessu svæði hafa því nokkuð breyst. Því hefur verið ákveðið að hætta þátttöku í endurreisnarsveit í norðurhlutanum en halda áfram í vesturhlutanum að öllu óbreyttu. Jafnframt verða kannaðir möguleikar á öðru íslensku framlagi til friðargæslu Atlantshafsbandalagsins í Afganistan sem komi í staðinn og samræmist kröfum um öryggi borgaralegra friðargæsluliða. Miklu skiptir að Íslendingar verði áfram þátttakendur í friðargæslu á vegum Atlantshafsbandalagsins og í eftirliti ÖSE. Á næstu árum verður samkvæmt áætlun fjölgað í Íslensku friðargæslunni og þá verður þátttöku í friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna gefinn aukinn gaumur.
Þótt Norðurlönd tengist alþjóðlegum samtökum og stofnunum með misjöfnum hætti og hafi oft ólíka afstöðu til alþjóðamála, hafa þau iðulega haft sameiginleg afskipti af svæðisbundnum deilumálum í þágu samninga og friðar. Eftirlitssveitirnar á Sri Lanka, þar sem Íslendingar eru við störf undir forystu Norðmanna, eru gott dæmi um það. Íslensk stjórnvöld eru reiðubúin til að halda áfram stuðningi við eftirlitssveitirnar á meðan deiluaðilar á Sri Lanka óska þess og framlag annarra Norðurlanda verður óbreytt, enda til mikils að vinna.
Af svæðisbundnum deilumálum eru það jafnan Mið-Austurlönd og þá einkum átök Ísraelsmanna og Palestínumanna sem eru efst á baugi. Einhliða brottflutningur Ísraelsmanna frá Gaza-svæðinu gaf tilefni til nokkurrar bjartsýni um frekari framkvæmd svonefnds Vegvísis til friðar. Það er ljóst að ríkisstjórn Ísraels tók mjög erfiða og áhættusama ákvörðun og því er miður að Palestínumönnum skuli ekki hafa auðnast að nota tækifærið betur en raun ber vitni til að byggja upp það gagnkvæma traust sem er forsenda samninga og varanlegs friðar. Í víðara samhengi sýnir yfirlýsing forseta Írans um að Ísraelsríki skuli afmáð af landakortinu að Ísraelsmenn hafa fulla ástæðu til að óttast um öryggi sitt. Slík yfirlýsing er einsdæmi í seinni tíð, en hún er hluti af hugmyndafræði sem skýrir langvarandi einangrun Írans í samfélagi þjóðanna. Orð forsetans féllu í sama mund og írönsk stjórnvöld eru grunuð um smíði kjarnavopna.
Þrátt fyrir áframhaldandi ódæðisverk hryðjuverkamanna í Írak, þar sem langflest fórnarlamba eru óbreyttir borgarar, hefur mikill meirihluti þjóðarinnar sýnt í verki stuðning við lýðræðisþróunina. Niðurstaða nýlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá var skýr og þingkosningar í desember verða næsta skref. Því miður er full ástæða til að óttast að hryðjuverkamenn haldi áfram að vega að lýðræðinu í landinu með árásum á saklausa borgara. Fyrsta ríkisstjórn í sögu Íraks sem hefur lýðræðislegt umboð þjóðarinnar verðskuldar siðferðilegan og pólitískan stuðning annarra lýðræðisríkja í heiminum.
Á undanförnum áratugum hefur tekist að auka verulega frelsi í alþjóðaviðskiptum. Sjötti ráðherrafundur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar verður haldinn í Hong Kong í næsta mánuði. Á síðustu vikum hafa aðildarríki hennar lagt kapp á að ljúka samningaviðræðum í svonefndri Doha-lotu. Mestur ágreiningur hefur verið um viðskipti með búvörur. Málamiðlun um landbúnaðarmál er forsenda þess að samningar takist að öðru leyti, meðal annars um verulega lækkun tolla á sjávarafurðir. Hagsmunir Íslendinga eru því margþættir á þessu sviði eins og annarra þjóða, en almennt er óhætt að fullyrða að lækkun tolla og afnám viðskiptahindrana er eitt mesta hagsmunamál landa heims, ekki síst þróunarlandanna. Því skiptir miklu máli að árangur náist á ráðherrafundinum í Hong Kong en um það ríkir því miður ekki sérstök bjartsýni á þessu stigi.
Ríkisstjórnin hefur á undanförnum árum lagt ríka áherslu á að fjölga viðskiptasamningum Íslands við önnur ríki í því skyni að styrkja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Fríverslunarsamningar, tvísköttunarsamningar og samningar um verndun fjárfestinga eru mikilvægustu þættirnir í þessari viðleitni. Samningur um að koma á fót sameiginlegu efnahagssvæði Íslands og Færeyja var undirritaður í ágúst síðastliðnum. Hann er sá víðtækasti sem Ísland hefur gert á viðskiptasviðinu og markar því tímamót. Þá er stefnt að undirritun fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna við Suður-Kóreu og Tollabandalag Suður-Afríku innan skamms og viðræður standa yfir við Tæland um gerð slíks samnings. Ísland hefur jafnframt undirritað samkomulag við Kína um að skoða hagkvæmni þess að gera fríverslunarsamning milli ríkjanna, sem gæti einnig markað þáttaskil.
Á síðustu árum hafa viðskipti milli Íslands og fjarlægari ríkja aukist verulega. Ísland hefur lagt á það ríka áherslu í fríverslunarviðræðum við önnur ríki að tryggja sem bestan markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir. Þetta hefur leitt til víðtækasta fríverslunarnets sem til er í viðskiptum með sjávarafurðir og nær jafnt til Evrópska efnhagssvæðisins og annarra heimsálfa.
Mikilvægasti markaður Íslands er í Evrópu. Viðskiptin þar byggja á traustum grunni EES-samningsins og engra breytinga að vænta þar á. Samningaviðræðum um aðild Rúmeníu og Búlgaríu að Evrópusambandinu er lokið og munu þessi ríki væntanlega fá aðild að ESB í síðasta lagi árið 2008. Gera má ráð fyrir að viðræður um aðild þessara ríkja að EES-samningnum hefjist fljótlega.
Í ár hófust viðræður milli íslenskra stjórnvalda og Evrópusambandsins um viðskipti með búvörur á grundvelli EES-samningsins. Íslensk stjórnvöld hafa farið þess á leit við Evrópusambandið að markaðsaðgangur fyrir lambakjöt verði bættur og að auðveldaður verði útflutningur á hestum til aðildarríkja ESB. Jafnframt hefur ríkisstjórnin ákveðið að hefja samningaviðræður við Evrópusambandið um að taka upp löggjöf Evrópusambandsins um dýraheilbrigði í ríkari mæli en núverandi ákvæði EES-samningsins gera ráð fyrir. Þetta er gert í því skyni að liðka frekar fyrir viðskiptum á milli Íslands og Evrópusambandsins með matvæli.
Frú forseti,
Vaxandi meðvitund alþjóðasamfélagsins um mikilvægi sjálfbærrar þróunar hefur dregið athygli að sérstöðu Íslands, ekki síst hvað varðar sjávarnytjar og endurnýjanlega orku. Málefnum hafsins er gefinn vaxandi gaumur á alþjóðavettvangi. Það stafar af mengun, ofveiði og minnkandi framleiðni fiskistofna víða um heim. Mikilvægt er að Ísland taki virkan þátt í samstarfi með öðrum ríkjum um leiðir til að vernda vistkerfi sjávar. Á hinn bóginn er lykilatriði að ríki sem byggja afkomu sína á lifandi sjávarauðlindum beri áfram ábyrgð á nýtingu þeirra. Ísland hafnar því tilburðum á alþjóðavettvangi til að koma á hnattrænum afskiptum af sjávarútvegi.
Fyrir ári tókst að koma í veg fyrir að tillaga um hnattrænt bann við botnvörpuveiðum á úthafinu næði fram að ganga og beina málinu í réttan farveg, þ.e. að hvetja ríki og svæðisbundnar fiskveiðistjórnunarstofnanir, eftir því sem við á, til þess að bæta stjórn á botnfiskveiðum með sérstöku tilliti til verndunar viðkvæmra vistkerfa hafsins. Tillaga af sama meiði kom fram á allsherjarþinginu nýlega en hlaut sömu örlög. Ísland hefur beitt sér fyrir samstöðu helstu fiskveiðiríkja heims í þessu máli og hefur hún farið vaxandi. Haustið 2006 verður gerð úttekt á aðgerðum ríkja og svæðisstofnana til að bæta stjórn á botnvörpuveiðum og er mikilvægt að þessir aðilar sýni að þeir séu traustsins verðir.
Mikilvægi orkumála í alþjóðasamskiptum hefur aukist hröðum skrefum. Ýmsar blikur eru á lofti í orkubúskap veraldar, sem endurspeglast meðal annars í háu olíuverði og reglum sem takmarka losun gróðurhúsalofttegunda vegna ótta við hugsanlegar loftslagsbreytingar af mannavöldum. Orkumál hafa auk þess sérstaka þýðingu fyrir þróunarríkin, en talið er að um tveir milljarðar manna hafi ekki aðgang að rafmagni.
Við þessar aðstæður hefur Ísland lagt sérstaka áherslu á þátt endurnýjanlegra orkugjafa, ekki síst jarðhita, í alþjóðasamstarfi um orkumál. Sérstaða íslensks orkubúskapar, þar sem yfir sjötíu prósent af allri orkunotkun landsmanna kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum, gerir Íslandi kleift að skipa sér í fremstu röð ríkja sem leggja áherslu á sjálfbæra orkuþróun í heiminum. Viðleitni íslenskra stjórnvalda til að auka enn frekar hlut endurnýjanlegrar orku með vetnistækni hefur vakið athygli erlendis og opnað dyr fyrir samstarfi við aðila víða um heim.
Sjálfbær orka og loftslagsmál verða ofarlega á baugi hjá Sameinuðu þjóðunum næstu tvö ár, þar sem nefnd samtakanna um sjálfbæra þróun hefur ákveðið að gera þessum viðfangsefnum sérstök skil. Af hálfu íslenskra stjórnvalda verður lögð áhersla á að nýta þetta færi til að kynna íslenskar áherslur. Að auki hefur utanríkisráðuneytið kynnt á erlendum vettvangi starf íslenskra vísindamanna og árangur á sviði jarðvegsverndar og sett á laggirnar landsnefnd til að sinna þessum mikilvæga þætti auðlindamálanna frekar.
Formennska Íslands í Norðurskautsráðinu 2002-2004 beindi athygli að mikilvægi norðurskautssvæðisins fyrir framtíðarhagsmuni okkar. Lega landsins í Norður-Atlantshafi við jaðar norðurskautssvæðisins hvetur eðlilega til aukins samstarfs við íbúa þess svæðis þar sem miklar breytingar eiga sér nú stað með aukinni sókn í náttúruauðlindir norðursins og hugsanlegri opnun nýrra siglingaleiða.
Það er fagnaðarefni að samningar hafa nýverið tekist um veiðar á kolmunna. Ísland leggur mikla áherslu á ábyrga stjórn á veiðum úr hinum mikilvæga norsk-íslenska síldarstofni, en henni verður ekki náð nema með samkomulagi allra viðkomandi aðila, Íslands, Noregs, Færeyja, Rússlands og ESB. Það er íslenskum stjórnvöldum því mikil vonbrigði að Noregur skuli ítrekað koma í veg fyrir samkomulag um stjórn síldveiðanna með kröfu um stóraukna aflahlutdeild. Undirbúningur málssóknar Íslands gegn Noregi fyrir alþjóðadómstólnum í Haag vegna Svalbarðamálsins er í fullum gangi, enda virðist það eina leiðin til að vernda lögmæta íslenska hagsmuni á Svalbarðasvæðinu.
Frú forseti,
Á nýafstöðnum leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í New York var ítrekað mikilvægi þess að öll ríki legðu af mörkum til baráttu gegn fátækt. Íslensk stjórnvöld gera sér grein fyrir mikilvægi þessa og því hefur þróunarsamvinna hlotið aukið vægi í utanríkisstefnunni. Áætlað er að framlög til hennar nemi 0,35% af þjóðarframleiðslu árið 2009 og hafa þá stóraukist á einum áratug. Jafnframt hefur verið mótuð heildarstefna í þessum málaflokki fyrir tímabilið 2005-2009 og var hún kynnt á Alþingi síðastliðið vor.
Starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar verður efld, meðal annars með fjölgun samstarfslanda, en í sumar var skrifað undir samstarfssamning við Srí Lanka og verið er að leggja grunnin að samstarfsamningi við Níkaragva. Stjórnvöld munu ennfremur auka þátttöku í fjölþjóðlegu þróunarsamstarfi, en á vettvangi alþjóðastofnana er víða unnið gagnlegt starf á þessu sviði. Áhersla er lögð á stuðning við vel skilgreind verkefni sem falla að meginatriðum í stefnu Íslands. Sem dæmi má nefna samstarf við sjávarútvegsdeild Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, en þar styðjum við nú gerð námsefnis á sviði sjávarútvegs, sérsniðið að þörfum einstakra þróunarríkja. Þetta verkefni verður unnið í náinni samvinnu við Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Í öðru lagi er Ísland í fararbroddi ríkja sem styðja nýtt verkefni, PROFISH, sem er styrktarsjóður og samstarfsvettvangur í umsjá Alþjóðabankans á sviði sjálfbærra fiskveiða í þróunarríkjunum. Með virkri þátttöku í PROFISH verkefninu mun Ísland hafa bein áhrif á þróunaraðstoð Alþjóðabankans á sviði sjávarútvegs. Íslensk stjórnvöld hafa jafnframt lagt áherslu á möguleika endurnýjanlegra orkugjafa í þróunarlöndum og er nú unnið að því að kanna sóknarfæri á því sviði í samstarfi við Alþjóðabankann.
Stuðningur við konur og börn er mikilvægur þáttur í þróunarsamvinnu Íslands sem hefur farið vaxandi á síðustu árum. Þar ber að nefna aukna aðstoð íslenskra stjórnvalda við starfsemi UNIFEM og við Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna.
Frjáls félagasamtök vinna ómetanlegt starf í þróunarlöndum. Í samræmi við markmið um að efla samstarf við íslensk félagasamtök er nú unnið að þróun verklagsreglna er lagðar verða til grundvallar auknu samstarfi.
Frú forseti,
Sem fyrr endurspeglar skýrslugjöf utanríkisráðherra til Alþingis að utanríkisþjónusta Íslands fæst við víðfemt starfssvið og fjölbreytileg verkefni oft við erfiðar aðstæður. Almenn þróun alþjóðamála og vaxandi íslenskir viðskiptahagsmunir víða um heim munu óhjákvæmilega hafa í för með sér að á næstu árum mun reyna enn meira á utanríkisþjónustuna. Því skiptir miklu að forgangsraða verkefnum og stefna ávallt að hámarksskilvirkni. Það er í þessum anda sem aukin áhersla verður lögð á gæslu og eflingu íslenskra hagsmuna í Asíu á komandi árum en alþjóðlegt pólitískt vægi stærri Asíuríkja og gríðarlegur hagvöxtur valda því að Ísland hefur þangað margt að sækja og margt upp á að bjóða. Meðal annars þess vegna verður opnað sendiráð Íslands á Indlandi í mars næstkomandi og vonir standa til að sendiráð Indlands á Íslandi opni á næsta ári. Sem endranær verður leitast að halda kostnaði við þessar breytingar í lágmarki, m.a. með tilflutningi verkefna. Mun hið nýja sendiráð í Nýju-Delhí sinna fyrirsvari fyrir Ísland víðar í þessum heimshluta.
Um utanríkis- og alþjóðamál mætti að sjálfsögðu hafa mun lengra mál en þingsköp gera ráð fyrir varðandi skýrslu sem þessa. Utanríkisstefna Íslands byggist sem fyrr á gæslu hagsmuna lands og þjóðar og öflugu fyrirsvari gagnvart öðrum ríkjum. Hins vegar hefur sú þróun jafnframt orðið áberandi hin síðari ár að auk beinnar hagsmunagæslu að Íslendingar taki í ríkari mæli þátt í alþjóðlegum verkefnum sem ekki tengjast íslenskum hagsmunum með beinum hætti. Það er skylda okkar og á að vera Íslendingum metnaðarmál að taka virkan þátt í alþjóðasamstarfi til framdráttar frelsi og lýðræði í heiminum.