Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. nóvember 2005 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Frelsi til að velja – breytingar sem verða við opnun raforkumarkaðarins

Fundarstjóri, ágætu ráðstefnugestir!

Einn af helstu grunnþáttum sem nútímasamfélag byggir á, og mun í vaxandi mæli gera, er öruggt og hagkvæmt raforkukerfi. Á síðustu árum höfum við öðru hvoru verið minnt á það hve raforkukerfi þjóða er mikilvægur þáttur samfélagsins - þegar straumleysi hefur orðið um lengri eða skemmri tíma. Nýleg dæmi um slíkt má finna hjá jafnvel þróuðustu þjóðum. Áleitnar spurningar hafa þá vaknað um það á hvern hátt öryggi og viðhaldi raforkuflutnings- og dreifikerfa verði best við komið til að tryggja afhendingaröryggi raforkunnar til notenda. Norðurlandaráð hefur á síðustu þingum sínum lagt mikla áherslu á það í ályktunum að efla og styrkja samstarf þjóðanna á þessu sviði og í nýlega samþykktri aðgerðaáætlun norrænu orkumálaráðherranna til næstu fjögurra ára er mikil áhersla lögð á öryggi flutnings- og dreifikerfa, en einnig þróun raforkumarkaða og notkun endurnýjanlegrar orku.

Vegna landfræðilegra aðstæðna er staða Íslands hvað varðar flutningskerfi raforku með öðrum hætti en hjá nágrannaþjóðum okkar. Einnig varð uppbygging raforkukerfis okkar áratugum seinna á ferðinni en í þessum ríkjum - þó svo að dag megi heita að gæði og afhendingaröryggi raforku sé áþekkt. Það hefur vissulega kostað okkur verulega fjármuni að byggja upp dreifikerfi landsins. Einangrað eyríki þarf að kosta miklu meira til í öryggi raforkuframleiðslu og dreifingu raforku en að öðru jöfnu þarf að gera í samtengdum orkukerfum meginlandsins til að búa við svipað öryggi. Þetta hefur okkur hins vegar tekist að gera á síðustu áratugum.

Rafvæðing hér á landi utan stærstu þéttbýlisstaða hófst ekki að marki fyrr en að aflokinni seinni heimsstyrjöld. Með raforkulögum frá 1946 var sérstakri ríkisstofnun falin uppbygging flutnings- og dreifiveitna landsins þar sem ekki voru fyrir hendi rafveitur. Hið mikla átak í rafvæðingu landsins á árunum 1950-1970 lyfti grettistaki til atvinnuuppbyggingar um allt land – jafnt til sjávar sem sveita - og á þeim tíma var rafvæðing landsins forgangsverkefni allra ríkisstjórna sem hér sátu að völdum. Enginn vafi er á því að þessi markvissa og öfluga uppbygging innviða samfélagsins var ein af meginástæðum þess að á þessu tímabili varð Ísland að nútímasamfélagi á alþjóðavísu.

Skipan raforkumála mótaðist fyrst hér á landi með raforkulögunum frá 1946. Um miðjan sjöunda áratug var talin ástæða að endurskoða þá skipan mála og ný orkulög voru sett um starfsemi Orkustofnunar og Rafmagnsveitna ríkisins - og fyrirtækinu Landsvirkjun var komið á laggirnar. Aftur var gerð róttæk lagabreyting árið 1981 með setningu laga um raforkuver og í kjölfarið varð Landsvirkjun að orkufyrirtæki á landsvísu. Þessi lagarammi um orkumál hélst í meginatriðum óbreyttur þar til ný raforkulög tóku gildi fyrir 2 árum.

Á árinu 1996 var mörkuð sú stefna af fjölskipaðri nefnd helstu hagsmunaaðila í raforkugeiranum - ásamt fulltrúum atvinnulífsins, stéttarfélaga og stjórnmálaflokka - að endurskoða bæri lagaumhverfi raforkumála. Enda þótt skipulag raforkumála hér á landi hafi að mörgu leyti reynst vel var talið eðlilegt að endurskoða lagaumhverfi þess, enda gjörbreyttar aðstæður miðað við þann tíma er raforkukerfi landsins byggðist upp.

Eins og kunnugt er voru ný raforkulög samþykkt á Alþingi 15. mars 2003 og tóku þau gildi þann 1. júlí sama ár - með þeirri undantekningu að ákvæði um raforkuflutning tóku gildi 1. janúar 2005. Raforkulögin grundvallast að verulegu leyti á tilskipun Evrópusambandsins um innri markað raforku, sem er eins og kunnugt er orðin hluti af EES-samningnum.

Með nýjum raforkulögum fær almenningur valfrelsi við raforkukaup. Í nágrannaríkjum okkar hefur áunnist veruleg reynsla á sviði samkeppni, vinnslu og sölu raforku. Við Íslendingar erum hins vegar meðal síðustu þjóða í Evrópu til að innleiða breytingar á raforkuumhverfi okkar í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins. Sjálfsagt er að færa sér í nyt reynslu annarra þjóða við þessar umfangsmiklu skipulagsbreytingar - þótt hér eins og annars staðar þurfi jafnframt að taka mið af aðstæðum. Aðskilnaður samkeppnis- og einokunarþátta er þar höfuðatriði, en rekstrarform þessara þátta getur verið mismunandi eftir eðli þeirra. Margt mælir með því að hlutafélagaformið taki við af núverandi rekstrarformi ríkis og sveitarfélaga varðandi samkeppnisþættina - framleiðslu og sölu - en hinir opinberu aðilar myndu áfram annast einokunarþættina - flutning og dreifingu. Þær skipulagsbreytingar er leiða af nýjum raforkulögum verða til þess við þurfum að koma á fót skilvirku eftirlitskerfi með áherslu á hagkvæmni og aðhald í flutnings- og dreifikerfinu, en einnig til að tryggja hagsmuni neytenda varðandi gæði og afhendingaröryggi raforku. Í þessu skyni hefur lögum um Orkustofnun verið breytt þannig að hún er í dag stjórnsýslustofnun, sem hefur lykilhlutverki að gegna í eftirliti með framkvæmd raforkulaganna.

Til þessa verður að telja að framkvæmd laganna hafi tekist vel og góð samvinna hafi verið á milli helstu hagsmunaaðila. Opnun markaðarins hefur þó hingað til verið takmörkuð, en það mun breytast um næstu áramót þegar raforkumarkaðurinn opnast öllum notendum. Af þeirri ástæðu er boðað til þessarar ráðstefnu þar sem farið verður yfir reynslu nágrannaþjóða okkar við opnun raforkumarkaðarins - bæði frá sjónarhóli eftirlitsaðila og einnig notenda. Þar höfum við ekki síst horft til Norðmanna en þeir voru fyrstir Norðurlandaþjóða til að breyta raforkuumhverfi sínu. Að mínu mati er afar mikilvægt að nýta sér reynslu og þekkingu grannþjóða okkar við að móta hið nýja raforkuumhverfi hér á landi. Þannig má læra af mistökum sem kunna að hafa verið gerð og ekki síður nýta sér það sem vel hefur tekist til með.

Enn er þó mikið verk óunnið við að koma raforkulögunum að fullu í framkvæmd. Á seinni hluta ráðstefnunnar hér í dag verður í áhugaverðum erindum fjallað um margvísleg viðfangsefni og vandamál sem fyrirsjáanlegt er að við þurfum að glíma við á næstu misserum. Einnig verður fjallað um þau fjölmörgu tækifæri sem nýtt markaðsumhverfi býður upp á fyrir rafmagnsnotendur og orkufyrirtæki.

Ágætu ráðstefnugestir.

Því miður átti ég þess ekki kost að sitja með ykkur hér í dag en ég fagna því að svo áhugaverð ráðstefna skuli haldin um þau mikilvægu verkefni sem við stöndum frammi fyrir á næstu misserum. Ég er sannfærð um að ráðstefnan muni verða upplýsandi og gera okkur betur kleift að móta nýtt raforkuumhverfi fyrir notendur og þannig gera hið ágæta raforkukerfi okkar enn betra.

Ég þakka áheyrnina.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta