Ráðstefna um orkunotkun og orkusparnað.
Ágætu ráðstefnugestir
Ég vil í upphafi máls míns fagna því að við skulum vera hér saman komin til þessarar ráðstefnu um orkunotkun og orkusparnað, í tilefni þess að starfsemi sérstaks Orkuseturs og skrifstofu um vistvænt eldsneyti er komið á laggirnar við Akureyrarsetur Orkustofnunar.
Alkunna er a nýliðin öld færði okkur Íslendinga til nútímans. Hinar ótrúlegu framfarir og umskipti sem urðu á högum þjóðarinnar þá voru vafalaust meiri en orðið höfðu á öllu lífsskeiði hennar til þess tíma. Í upphafi aldarinnar voru vatnsaflið og jarðvarminn svo til alveg ónýttar auðlindir, en framsýnir menn horfðu til þeirra sem undirstöðu hagsældar og bættra kjara þjóðarinnar. Ekkert varð þó af þeim miklu áformum, meðal annars vegna styrjalda og heimskreppu. Í styrjaldarlok hafði þjóðin hins vegar kynnst verkmenningu og háttum erlendra þjóða, færst inn í nútímann og orðið hluti af alþjóðasamfélaginu.
Ein helsta ósk þjóðarinnar um miðja síðustu öld var að rafvæða byggðir landsins. Með raforkulögum frá 1946 og stofnun raforkumálaskrifstofunnar varð mikil breyting á skipulagi raforkumála hér á landi. Þáverandi stjórnvöld tóku ákvörðun um að rafvæðing þjóðarinnar væri forgangsverkefni, enda var flestum landsmönnum þá orðið ljóst að viðhald og uppbygging byggðar um landið væri ekki möguleg án raforku, miðað við kröfur samfélagsins. Á sjöunda áratugnum var lokið við að rafvæða flest heimili og má heita að tengingu flestra landsmanna við samveitukerfi væri lokið. Stór hluti þjóðarinnar hafði þá raforku til helstu heimilis- og búnytja en ríflega helmingur þjóðarinnar bjó enn við olíukyndingu og olíukreppan á áttunda áratug kom sérlega illa við þessa íbúa. Með hinu mikla átaki í uppbyggingu hitaveitna víða um land og gerð byggðalínu á árunum 1973-1985 tókst að búa svo um hnútana að þeir landsmenn er ekki nytu hitaveitna ættu aðgang að rafmagni til húshitunar og nú er svo komið að aðeins örfáir tugir heimila notast enn við olíuhitun og þá fyrst og fremst vegna þess að þau eiga ekki möguleika á raforku til hitunar.
Uppbygging hitaveitna víða um land samhliða styrkingu flutnings- og dreifikerfis landsins hefur leitt til þess að hlutur jarðhitans í heildarorkunotkun landsins er nú yfir 50% og að langstærstum hluta er hér um að ræða húshitun. Nýting jarðhitans í stað olíu hefur sannanlega skilað landsmönnum árlega tugum milljarða í ábata og vonir standa vissulega til að notkun þessarar auðlindar muni enn aukast á næstu árum. Með lögum frá 2002 um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar var mörkuð stefna um greiðslu stofnstyrkja til nýrra hitaveitna sem renna mun stoðum undir uppbyggingu og hagkvæmni þeirra. Um leið mun smám saman draga úr þörf fyrir niðurgreiðslur á rafhitun húsa, en stofnstyrkur til nýrra hitaveitna nemur nú 8 ára niðurgreiðslufjárhæð vegna rafhitunar. Nú þegar hafa sparast á s.l. 5 árum um 60 milljónir kr. af niðurgreiðslufé vegna nýrra hitaveitna og fyrirsjáanlegt er að þessu til viðbótar muni á næstu 3-4 árum svipuð upphæð sparast. Einnig er í lögunum ákvæði um að ráðherra sé heimilt að verja ákveðinni fjárupphæð árlega til þess að efla jarðhitaleit á köldum svæðum. Með þeim hætti verður unnt að vinna mun markvissar að jarðhitaleit en áður hefur verið. Við erum því tvímælalaust á réttri leið við uppbyggingu nýrra hitaveitna.
Með þessari ráðstefnu tekur formlega til starfa starfsstöð Orkuseturs og vettvangs fyrir vistvænt eldsneyti við Akureyrarsetur Orkustofnunar. Í flestum löndum Evrópu hafa stjórnvöld í auknum mæli frumkvæði að því að stuðla að bættri orkunýtingu á öllum sviðum þjóðfélagsins. Evrópusambandið hefur stuðlað að þessari þróun, m.a. með því að starfrækja sjóði sem reknir hafa verið í um áratug og eru ætlaðir til að styrkja annars vegar skilvirka orkunotkun og hins vegar notkun endurnýjanlegra orkugjafa. Hér á landi hefur málefnum sem varða orkusparnað eða skilvirka orkunotkun verið of lítill gaumur gefinn á undanförnum árum. Orkunotkun hér á landi hefur aukist hröðum skrefum og með aukinni þekkingu á orkulindunum hefur mönnum orðið betur ljóst mikilvægi þess að fara vel með orkulindirnar og nýta þær á skynsamlegan hátt. Bætt meðvitund um umhverfisáhrif orkuvinnslu
og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands varðandi losun gróðurhúsalofttegunda hafa átt stóran þátt í þessari þróun. Á árinu 2004 sótti iðnaðarráðuneytið í samvinnu við Orkustofnun um styrk til Evrópusambandsins um að koma á fót sérstakri skrifstofu er hefði þann tilgang að miðla upplýsingum um orkumál til almennings og stjórnvalda, hvetja til skilvirkrar orkunotkunar og þá sérstaklega við húshitun, og til að aðstoða fyrirtæki og sveitarfélög til bættrar orkunýtni. Styrkveiting Evrópusambandsins til Orkusetursins hefur nú verið staðfest og nemur 5-6 milljónum kr. á ári næstu 3 árin. Þá verður í dag ritað undir viljayfirlýsingu milli KEA, Orkustofnunar og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis um stuðning KEA við hina nýju starfsemi Akureyrarseturs Orkustofnunar og nemur styrkur félagsins 5 milljónum króna á ári næstu þrjú ár. Í viljayfirlýsingunni kemur einnig fram gagnkvæmur áhugi og vilji aðila til aukins samstafs á næstu árum.
Vettvangur um vistvænt eldsneyti sem komið var á fót á Orkustofnun árið 2004 verður einnig frá og með deginum í dag fluttur til Akureyrarseturs Orkustofnunar. Alkunna er að meginhluti olíueldsneytis hér á landi er notaður til samgangna og skipaflotans og því er afar mikilvægt að hugað sé að öllum mögulegum leiðum í notkun vistvæns eldsneytis í framtíðinni. Með því er unnt að draga verulega úr olíunotkun og losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Í tilefni af formlegri opnun skrifstofu Orkuseturs og Vettvangs um vistvænt eldsneyti hér við Akureyrarsetur Orkustofnunar er mér fagnaðarefni að geta boðið ráðstefnugestum til móttöku að Borgum við Norðurslóð að lokinni þessari ráðstefnu.
Meginumfjöllunarefni ráðstefnunnar eru orkunotkun og orkusparnaður heimila og iðnaðar, og verða mörg áhugaverð erindi flutt hér síðar í dag um þessi málefni. Raforkunotkun til heimila hefur aukist verulega á undanförnum árum og þá aðallega vegna aukinnar tækjaeignar heimilanna. Á árabilinu 1995-2004 nam þessi aukning raforkunotkunar um 26% sem er verulega meiri hækkun en sem nemur fólksfjölgun.Spáð er samsvarandi aukningu í raforkunotkun heimila á næsta áratug. Góðu heilli stefnir í að líkur séu á raunlækkun raforkuverðs til almennra heimilisnota á næstu árum þannig að sú þróun mun að einhverju leyti draga úr auknum kostnaði við almenna raforkunotkun heimila á þessu tímabili.
Um síðustu áramót varð nokkur breyting á raforkutöxtum orkufyrirtækja í kjölfar uppskiptingar raforkuverðs milli samkeppnisþátta annars vegar og einokunarþátta hins vegar samkvæmt raforkulögum. Í nýju markaðsumhverfi er dreifiveitum ekki heimilt að mismuna notendum með töxtum eftir því til hvers raforkan er notuð. Af þessum sökum féllu afslættir dreififyrirtækjanna á rafhitunartöxtum niður og þrátt fyrir auknar niðurgreiðslur ríkisins hefur húshitunarkostnaður sums staðar hækkað nokkuð frá því sem var. Rétt er þó að taka fram að breytingarnar leiddu einnig til lækkunar, m.a. á raforku til almennrar notkunar og til iðnfyrirtækja á landsbyggðinni.
Eðlilega hefur umræðan um breytt raforkuumhverfi á þessu ári nokkuð beinst að þessum hækkunum sem ná til um 20% rafhitunarnotenda og er verulega íþyngjandi hjá stærstu notendum. Um 900 millj. kr. fara á fjárlögum á þessu ári til beinna niðurgreiðslna til rafhitunar húsa sem rúmlega 12 þúsund notendur njóta. Upphæð niðurgreiðslna takmarkast að hámarki við 35.000 kWst. notkun á ári, en mörkin voru 50,000 kWst. á ári s.l. 3 ár og er sú lækkun vissulega hluti vandans er leysa þarf. Ljóst er að niðurgreiðsla á hverja kWst. er í dag það há að lítill hvati er til orkusparnaðar nema notendur fari upp fyrir hámarkið. Rafmagnsreikningar þeirra sem eru fyrir ofan þetta hámark hafa hins vegar hækkað hvað mest og því er vandi þeirra stærstur.
Iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun hafa á síðustu mánuðum haft til skoðunar til hvaða aðgerða væri heppilegast grípa til að draga úr áhrifum hækkunar á rafhitunarkostnaði þeirra notenda er verst eru settir. Niðurstaða þessara athugana eru þær að hækka fjárframlög til niðurgreiðslna rafhitunar upp í 40.000 kWst notkun á ári og jafnframt að ráðast í styrkveitingar til endurbóta á einangrun þeirra húsa er hefðu hæstan kostnað við upphitun, gegn mótframlagi eigenda þeirra.
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum s.l. þriðjudag að veita á næsta ári 25 millj. kr. til aukinna niðurgreiðslna rafhitunar. Ég hef því ákveðið að á næsta ári verði hámark niðurgreiðslna miðað við 40.000 kWst. á ári í stað 35.000 kWst. á ári. Jafnframt tel ég rétt að á vegum hins nýja Orkuseturs hér á Akureyri verði mótaðar reglur um það á hvern hátt unnt væri að koma á fót styrkjakerfi sem byggðist á styrkveitingum hins opinbera til endurbóta á einangrun húsnæðis og lækkun húshitunarkostnaðar. Ekki er loku fyrir það skotið að vinna mætti að tilraunaverkefnum á næsta ári á því sviði og slík vinna myndi auðvelda okkur frekari framgang þessarar farsælu lausnar til lengri tíma. Loks ber að nefna að vitaskuld munum við ljúka þeim margháttuðu orkurannsóknum er hér verða kynntar og snerta ekki aðeins orkunotkun heimila heldur einnig atvinnulífsins.
Ágætu ráðstefnugestir.
Ég hef hér reifað mörg mál sem eru á dagskrá ráðstefnunnar í dag og flest þeirra falla undir verksvið Orkustofnunar hér á Akureyri. Mörg þeirra vandamála sem við munum ræða eru ekki bundin við orkumál Íslendinga einna heldur eru þetta sameiginleg vandamál sem snerta ekki hvað síst nágrannaþjóðir okkar á norðurslóðum. Á vegum norrænu ráðherranefndarinnar um orkumál hefur á s.l. tveimur árum verið unnið að rannsóknum á því með hvaða hætti unnt væri að draga úr olíunotkun við orkuframleiðslu í jaðarbyggðum á norðurslóðum. Við þá vinnu hefur vel komið í ljós hve húshitun heimila er mikilvægur þáttur í orkunotkun á þessum svæðum. Því væri athugandi að efna til sérstaks fundar eða ráðstefnu um orkuvandamál heimila á norðurslóðum að ári.
Ágætu ráðstefnugestir.
Við sem hér sitjum njótum þeirra ávaxta sem raf- og hitaorka landsins hafa fært okkur á síðustu áratugum. Við verðum jafnframt að vera meðvituð um mikilvægi þess að vel sé með þessi verðmæti farið.
Við megum ekki sofna á verðinum. Velmegun þjóðarinnar á liðinni öld hefur ekki komið af sjálfu sér. Hún hefur byggst á að nýta sér allar náttúruauðlindir lands og sjávar á sem hagkvæmastan hátt. Skynsamleg nýting orkulinda landsins er og verður verðugt og heillandi verkefni fyrir okkur öll.
Ég þakka áheyrnina.