Þekkingarneti Austurlands ýtt úr vör.
Menntamálaráðherra, góðir gestir.
Það er ánægjulegt að fá tækifæri til þess að segja nokkur orð nú þegar Þekkingarneti Austurlands er ýtt úr vör, en þetta mál hefur verið eitt af stóru málunum í mínum huga á síðustu misserum. Fyrir rúmlega tveimur árum var ég viðstödd hátíðarhöld vegna 5 ára afmælis Fræðslunets Austurlands hér á Egilsstöðum – en afmælinu var fagnað með opnun háskólanámsseturs, sem var eitt þeirra verkefna sem menntamálaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti ákváðu að styrkja á grundvelli samkomulags ráðuneytanna um átak í uppbyggingu menntunar og menningar á landsbyggðinni. Í dag hefst nýr áfangi, þar sem fræðslunetinu er falið að vinna að stofnun Þekkingarnets Austurlands, sem er ætlað að verða framvörður í eflingu menntunar, rannsókna og samfélagsþróunar í landshlutanum. Menntamálaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti skipta rekstrarkostnaði jafnt á milli sín á næsta ári.
Á afmælishátíðinni fyrir tveimur árum vék ég að þeirri miklu trú sem ég hef á framtíð byggðarlaganna hér á Austurlandi. Þessi trú hefur síst dvínað. Fáum dylst að álvers- og virkjanaframkvæmdir á þessu svæði hafa í för með sér miklar og örar samfélagsbreytingar. Þegar svo viðamiklar breytingar verða er nauðsynlegt að huga að því að styrkja stoðir samfélagsins. Þar sé ég fyrir mér að Þekkingarnet Austurlands muni leika lykilhlutverk, enda er efling menntunar, rannsókna og atvinnuþróunar nauðsynleg forsenda jákvæðrar þróunar byggðar til langframa. Þetta gildir að sjálfsögðu um landshlutann allan og ég fagna þeirri grundvallarhugsun, sem býr að baki þekkingarnetinu, - að tengja saman og efla um leið þá fjölbreyttu þekkingarstarfsemi sem fyrir er á Austurlandi.
Ég er ekki í nokkrum vafa um að Þekkingarnetið hefur góðan grunn að byggja á. Frumkvæði Austfirðinga hefur verið ríkt og hér hefur verið unninn veigamikill undirbúningur sem skapar tryggar undirstöður undir það starf sem framundan er.
Góðir gestir.
Að lokum vil ég óska Austfirðingum til hamingju með þann áfanga sem náðst hefur í dag og óska aðstandendum Þekkingarnets Austurlands velgengni og farsældar.