Upphlaup tveggja þingmanna
Upphlaup og málflutningur tveggja þingmanna hefur gefið mér tilefni til þess að hugleiða starf stjórnmálamanna og ekki síður samstarf þingmanna.
Vefur BB á Ísafirði er mikið lesinn enda aðgengilegur og vel gerður og er hann einn þeirra vefmiðla sem ég reyni að fylgjast með vegna starfs míns. Hann er að mínu mati mikilvægur vettvangur til sóknar og varnar í þágu byggðanna á Vestfjörðum. Hann er því mikið notaður af þingmönnum sem koma á framfæri skoðunum sínum og á honum eru fréttir sem vekja oft athygli.
Breytingar á framkvæmd póstdreifingar við Ísafjarðardjúp hefur gefið tveimur þingmönnum tilefni til þess að hlaupa upp í fjölmiðlum og leita leiða til árása á mig sem samgönguráðherra. Þetta upphlaup og málflutningur þingmannanna hefur gefið mér tilefni til þess að hugleiða starf stjórnmálamanna og ekki síður samstarf þingmanna. Er það góðum málsstað til framdráttar að sverta aðstæður og nota aðgang að fjölmiðlum til þess að láta líta svo út sem að viðkomandi hafi ástæðu til þess að veitast að samstarfsmanni án þess að gefa færi á málefnalegri og upplýstri umræðu?
Um jól og áramót gefast stundir til þess að hugleiða umburðarlyndi og afstöðuna til náungans og ekki síst samstarfsmanna. Ég er einn þeirra sem hef hugleitt þessar hliðar mannlífsins vegna starfs okkar stjórnmálamanna. Harkan í garð stjórnmálamanna hefur verið að aukast og sumir stjórnmálamenn ganga raunar sjálfir á undan með fordæmi sem er lítt til eftirbreytni. Að nota hvert tækifæri til þess að gera samstarfsmenn sína tortryggilega getur ekki þjónað ærlegum eða málefnalegum tilgangi. Á Alþingi gefst tækifæri til umræðu og svara þegar deilt er um málefni. Á þeim vettvangi gefst færi á því að svara og skýra málin og þar eru fyrirspurnartímar þar sem þingmenn geta t.d. sett fram spurningar til ráðherra og skapað málefnalega umræðu. Í fjölmiðlum ljósvakans gefst ekki alltaf tækifæri til þess að bregðast við fullyrðingum eða sleggjudómum. Vefmiðlarnir eru hraðfleygir og önnum kafnir ráðherrar hafa ekki tækifæri til þess að liggja yfir spjalli á vefnum. Mér hefur verið bent á upphlaup í fjölmiðlum af hálfu samþingsmanna minna þeirra Jóns Bjarnasonar, þingmanns Vinstri grænna og Sigurjóns Þórðarsonar, þingmanns Frjálslyndaflokksins. Tilefnið er endurskipulagning póstdreifingar við Ísafjarðardjúp. Að því tilefni hafa þeir félagar ekki vandað mér kveðjurnar. Á BB vefnum talar Sigurjón Þórðarson um kaldar kveðjur Sturlu Böðvarssonar og Jón Bjarnason skrifar í alla miðla og þar á meðal í BB um að ,,blásið sé í Póstlúðra við Ísafjarðardjúp" gegn hagsmunum íbúanna við Djúp. Þeir ágætu þingmenn tala og skrifa eins og þeir einir beri hag íbúa dreifbýlisins fyrir brjósti. Þetta upphlaup þeirra er ótrúlega ómálefnalegt. Ekki höfðu þeir fyrir því að leita upplýsinga hjá samgönguráðherra, sem þeir voru að gagnrýna og væna um að hafa ekki hagsmuni íbúanna í huga og mátti ætla af þessum skrifum að ég hefði sérstakan áhuga á að skerða þjónustu íbúa við Ísafjarðardjúp.
Að þessu tilefni vil ég segja að Íslandspóstur hefur skyldum að gegna í samræmi við lög og reglur. Það fer ekki á milli mála að ráðuneytið fylgir því eftir að þeim skyldum sé sinnt. Ágætt samstarf er og hefur verið milli samgönguráðuneytisins, Íslandspósts og sveitarstjóra Súðavíkurhrepps um þá þjónustu sem veitt er, og verður veitt, á vegum Íslandspósts. Er fullt samkomulag um það hvernig íbúunum við Djúp verður þjónað. Vil ég vísa til þess sem kemur fram á heimasíðu Súðarvíkurhrepps um málið og á heimasíðu minni. Vænti ég þess að íbúarnir á svæðinu átti sig á því hverjir hafi raunverulega verið að vinna að hagsmunamálum þeirra. Upphlaup og vinnubrögð þessara tveggja þingmanna hljóta að vekja furðu. Ég hef orðið þess ríkulega var í viðbrögðum þeirra sem hafa haft samband við mig og leggja mikið upp úr góðu og árangursríku samstarfi þingmanna og íbúa kjördæmisins. Ég hef ekki lagt það í vana minn að eltast við ómálefnalegt fjas í minn garð. En ég gat ekki látið þessu ósvarað.
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra