Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

8. febrúar 2006 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Kynningafundir á Norðurlandi.

Kæru gestir. Ég vil í upphafi máls míns þakka ykkur fyrir þessa góðu mætingu hér í kvöld. Það er greinilegt að möguleg uppbygging stóriðju brennur á fólki hér. Áður en lengra er haldið langar mig einnig til að þakka öllum þeim sem komið hafa að þeirri vinnu sem fram hefur farið undanfarna mánuði í tengslum við mögulega uppbyggingu stóriðju á Norðurlandi. Raunar hafa rannsóknir og annar undirbúningur stóriðju á Norðurlandi staðið yfir í á þriðja áratug og hefur ríkið varið til þeirra fleiri tugum milljóna króna. Svo farið sé yfir forsögu atburða síðustu mánaða þá lýsti Alcoa, móðurfélag Alcoa Fjarðaáls sf., í maí s.l. yfir áhuga á að reisa álver á Norðurlandi. Í kjölfarið var sett á laggirnar samráðsnefnd á milli stjórnvalda, sveitarfélaga á Norðurlandi - þ.e. úr Skagafirði, Eyjafirði og frá Húsavík, atvinnuþróunarfélaga og Alcoa. Hugmyndin með því var sú að láta ákvarðanir um staðsetningu næsta álvers ráðast af faglegum sjónarmiðum. Var í því skyni ráðist í viðamiklar rannsóknir þar sem m.a. voru athuguð jarðfræði, hafnarskilyrði, veðurfar, loftdreifingarútreikningar, umhverfisskilyrði, fornleifaskráning, samfélagsáhrif o.s.frv. Skapaðist um það starf góð sátt milli allra aðila nefndarinnar og hefur farið fram mjög góð vinna á hennar vegum sem ber að þakka fyrir. Vona ég að hvort og þá hvar sem næsta álver rísi á Norðurlandi beri sveitarfélögin gæfu til að vinna enn frekar saman og byggja upp öflugt og mannvænlegt samfélag sem verði eftirsóknarvert til búsetu. Mig langar einnig til að koma á framfæri þökkum til Alcoa fyrir þeirra aðkomu og áhuga fyrir atvinnuuppbyggingu á Íslandi. Eins og flestum er kunnugt horfði ekki vel með uppbyggingu stóriðju á Austurlandi fyrir fáeinum árum. Segja má að Alcoa hafi komið til sögunnar þar á elleftu stundu og er ein afleiðing þess að mínu mati sú að nú búa íslensk stjórnvöld við það umhverfi, sem mörgum hefði þótt einkennilegt fyrir mjög fáum árum, að áhugi á uppbyggingu stóriðju hér á landi er slíkur að ljóst er að færri komast að en vilja. Ég tel mig einnig tala fyrir munn fulltrúa samráðsnefndarinnar þegar ég segi að Alcoa hafi hvarvetna komið að málinu með faglegum hætti. Veit ég að þeir nefndarmenn sem fóru í ferð til Kanada skömmu fyrir áramót til að kynna sér starfsemi fyrirtækisins þar hafa orðið margs vísari og eflaust orðið sannfærðir um að Alcoa sinnir starfsemi sinni af fullri alvöru og gætir að aðbúnaði starfsfólks í hvívetna. Samkvæmt þeirri aðgerðaáætlun sem unnið er eftir verður tekin ákvörðun þann 1. mars n.k. um hvort þessari vinnu verði haldið áfram og þá hvaða staður á Norðurlandi verður fyrir valinu. Þeirri ákvörðun til grundvallar eru rannsóknarniðurstöður þær sem nú liggja fyrir. Og til að taka af allan vafa þá tók ég eftir því að Erna Indriðadóttir, verkefnisstjóri samfélags- og upplýsingamála hjá Alcoa Fjarðaáli sf., lét hafa eftir sér í Morgunblaðinu s.l. laugardag að enginn staður hér á Norðurlandi væri „heitari“ en annar á þessu stigi málsins. Ljóst væri að sumt væri betra á einum stað en öðrum en málið væri ekki komið svo langt að einn staður þætti alveg rakinn kostur. Hins vegar væri ljóst að allir staðirnir sem koma til greina væru góðir kostir. Verður farið nánar yfir það hér á eftir þar sem skýrsla með rannsóknarniðurstöðunum verður kynnt. Allir þeir sem fylgst hafa með uppbyggingunni í kringum virkjana- og álversframkvæmdirnar fyrir austan hafa tekið eftir þeim stakkaskiptum sem þar hafa orðið. Nú er vel liðið á framkvæmdatímabilið og sjá má að mörg fyrirtæki sem fyrir voru hafa vaxið og önnur hafa flutt þangað. Hundruð íbúða hafa verið byggðar eða eru í byggingu og hundruð lóða til viðbótar hefur verið úthlutað. Hefur þetta leitt af sér mikla hækkun fasteignaverðs. Þá hefur átt sér stað mikil uppbygging í opinberri þjónustu og raunar hefur þjónustustig almenn hækkað mjög. Ég vil einnig vekja athygli á því að á sínum tíma töluðu margir um að áhrif framkvæmdanna á austfirskt samfélag væru ofmetin. Raunin er sú að áætlanirnar virðast hafa verið vanmetnar. Því til staðfestu var í upphafi áætlað að fjöldi starfa sem myndu skapast í kringum uppbygginguna, bæði bein og óbein störf, yrðu 750. Nú er ljóst að þessi störf verða um 900 talsins. Fjöldi nýrra íbúða var í upphafi áætlaður 680 en nú gera áætlanir ráð fyrir að þær verði um 750. Bygging atvinnuhúsnæðis og opinbers húsnæðis var einnig vanmetið. Það sem er þó kannski hvað athyglisverðast að mínu mati eru niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar Gallup. Samkvæmt þeim telja tæp 90% íbúa á Austurlandi að Fjarðarál verði góður vinnustaður. Þegar spurt var hvort Fjarðaál væri traust eða ótraust fyrirtæki svöruðu 96,6% íbúa Fjarðabyggðar því til að það væri traust fyrirtæki. Sambærileg svörun á Austurlandi öllu reyndist 90,9%. Tiltrú Austfirðinga á Fjarðaáli hefur því farið vaxandi frá fyrri könnun, sem segir töluvert um hvernig Austfirðingum finnst að fyrirtækið standi að málum í kringum uppbygginguna. Athyglisverðast finnst mér þó að hærra hlutfall kvenna en karla í Fjarðabyggð segist halda að gott verði að vinna hjá Fjarðaáli eða 98,5% á móti 91,3% karla. Ef þessar tölur munu á einhvern hátt endurspeglast í hlutfalli kynjanna í störfum hjá Fjarðaáli finnst mér það stórkostlegur árangur því það sem hefur ekki hvað síst skort á landsbyggðinni eru vel launuð kvennastörf. Könnunin endurspeglar einnig að hér á landi hefur reynslan af starfsemi álfyrirtækja verið góð. Framkvæmdastjóri Alþýðusambands Ísland fór til að mynda fögrum orðum um þau mál nú nýlega og sagði að störf í áliðnaði væru góð störf, vel launuð og mikill stöðugleiki væri í starfsmannahaldi hjá álfyrirtækjum. Meðalstarfsaldur hjá Alcan í Straumsvík er þannig með því lengsta sem gerist hér á landi, eða yfir 15 ár í árslok 2005. Veltuhraði starfsmanna í greininni er einnig með því lægsta sem þekkist, eða 3,5–4% í áliðnaði árið 2004. Í samanburði er meðaltalið meðal félagsmanna ASÍ yfir 30%. Þá eru regluleg mánaðarlaun verkafólks og iðnaðarmanna í álverum mun hærri en meðaltalið meðal þessara hópa á landsvísu. Þá greindi framkvæmdastjórinn frá því að stjórnendur álfyrirtækja væru frumkvöðlar og í fararbroddi í öryggis- og aðbúnaðarmálum hér á landi. Mig langar einnig til að grípa niður í áætluð áhrif mögulegs álvers á Norðurlandi. Samkvæmt samfélagsathugunum, sem unnar voru á vegum Nýsis og Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri í tengslum við athuganirnar hér Norðanlands, er áætlað að heildarfjöldi starfa í kringum nýtt álver gætu verið á bilinu 600-700 á Norðurlandi og í kringum 900-1050 á landinu öllu. Áhrifin yrðu jafnframt þau að þörfin fyrir húsnæði yrðu sem næmi 500-600 nýjum íbúðum á Eyjafjarðarsvæðinu ef álver yrði staðsett þar og 360-400 nýjum íbúðum á Húsavíkursvæðinu eða í Skagafirði, ef nýtt álver yrði staðsett á öðrum hvorum staðnum. Mismunurinn skýrist af því að álver annað hvort í nálægð við Húsavík eða í Skagafirði myndi þurfa að sækja þjónustu í töluverðum mæli til Akureyrar. Fólksfjölgun á Norðurlandi er áætluð um 1100-1400 manns og skiptist hún með mismunandi hætti á milli staða eftir því hvar álverið yrði staðsett. Þessar staðreyndir leiða einnig af sér að líklegt er að mögulegum framkvæmdum myndu fylgja töluverðar samgöngubætur í formi betri vega og jarðgangna. Ef vikið er að þjóðhagslegum áhrifum þá er ljóst að þau munu verða allnokkur. Hlutverk stjórnvalda er að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum og gæta þess að í áframhaldandi uppbyggingu muni framkvæmdir, ef af þeim verður, dreifast með skynsamlegum hætti yfir næstu ár þannig að ekki verði hér of mikil þensla og útflutnings- og samkeppnisgreinar standi ekki höllum fæti. Ef vel tekst til með að tímasetja framkvæmdir verður hagstjórnin auðveldari og óæskileg hliðarárhrif minni. Stjórnvöld munu jafnframt gæta þess að staðið verði við skuldbindingar gagnvart Kyoto-bókuninni. Í því sambandi má nefna að ég hef greint frá því opinberlega að jafnvel þótt litið sé til allra ítrustu hugmynda um stækkun álvera eða byggingu nýrra hér á landi, þá munu Íslendingar standa við skuldbindingar sínar í Kyoto-bókuninni gagnvart útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna stóriðju. Eins og komið hefur fram í fréttum er talsverður áhugi fyrir frekari uppbyggingu stóriðju annars staðar á landinu. Er þá einkum rætt um stækkun álvers Alcan í Straumsvík og nýtt álver í Helguvík. Hvort sem af þeim áformum verður eða ekki þá munu þau á engan hátt hafa áhrif á mögulega uppbyggingu stóriðju á Norðurlandi. Áform um stækkun Alcan í Straumsvík hafa verið lengi uppi og það væri óhugsandi að stjórnvöld tækju þá ákvörðun að stöðva þær hugmyndir, ef öllum eðlilegum skilyrðum varðandi starfsemina er framfylgt. Staðan er sú að Alcan hefur undirritað samkomulag við Orkuveitu Reykjavíkur um afhendingu á tæplega helmingi af þeirri raforku sem þörf er á vegna stækkunarinnar og einnig liggur fyrir mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Alcan á einnig um þessar mundir í einkaviðræðum við Landsvirkjun um þá orku sem út af stendur til að af stækkun geti orðið. Ekki er hins vegar búið að taka neina ákvörðun um hvort af stækkun muni verða. Þá eru sem fyrr segir uppi áform um hugsanlegt álver í Helguvík en þær hugmyndir eru mun skemur á veg komin og allar tímasetningar þar óljósari. Hvað sem þessum hugmyndum líður vil ég ítreka það að þær munu ekki hafa áhrif á mögulega uppbyggingu stóriðju á Norðurlandi, enda þessi áhugið verið bæði stjórnvöldum og Alcoa ljós. Góðir gestir. Ég hef nú í fáum orðum farið yfir megindrættina í því sem unnið hefur verið að varðandi frekari uppbyggingu stóriðju á Norðurlandi og möguleg áhrif framkvæmda. Hér á eftir mun verða farið ítarlegar yfir þá vinnu sem búið er að inna af hendi á vegum samráðsnefndarinnar, sem og það sem framundan er á næstu vikum. Að kynningum loknum vonast ég til þess að framsögumenn fái viðbrögð og spurningar utan úr sal þannig að fundurinn varpi sem skýrustu ljósi á framvindu mála. Takk fyrir. Punktar vegna mögulegra spurninga um áform á Suðvesturhorninu: Sem kunnugt er hefur í fréttum að undanförnu nokkuð verið rætt um áform og uppbyggingu álvera á Suðvesturhorninu. Er þar annars vegar um að ræða að Alcan er að skoða stækkun álvers fyrirtækisins í Straumsvík um 280.000 tonna ársframleiðslugetu. Hefur félagið undirritað samkomulag við Orkuveitu Reykjavíkur um afhendingu á um 40% þeirrar raforku sem þörf er á vegna stækkunarinnar og einnig liggur fyrir mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Þá er Alcan um þessar mundir í einkaviðræðum við Landsvirkjun um þá orku sem út af stendur til að af stækkun geti orðið. Ekki er hins vegar búið að taka neina ákvörðun um hvort af stækkun muni verða og ítrekaði Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi, það m.a. í Morgunblaðinu þann 28. janúar s.l. Century Aluminium, eigandi Norðuráls, er svo að skoða byggingu nýs allt að 250.000 tonna álvers við Helguvík á Reykjanesi. Ekki er á þessu stigi víst hvaða tímasetningar koma þar til greina en þó er ljóst að einkaviðræður Alcan og Landsvirkjunar geta eitthvað seinkað áformum þar. Í þessu sambandi langar mig til að nota tækifærið til að fara yfir aðkomu stjórnvalda að stóriðjuuppbyggingu á Íslandi, þar sem ég veit að andstæðingar mínir hér Norðanlands halda uppi þeim áróðri að ég sé ekki að vinna að atvinnuuppbyggingu á þessu svæði. Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar kemur fram að það er markmið ríkisstjórnarinnar að „orkulindir hvers landsvæðis verði nýttar af skynsemi til að byggja upp atvinnu og efla mannlíf“. Að því tel ég jafnframt að við höfum verið að vinna á liðnum árum. Aðstæður hér á landi eru hins vegar nú um margt breyttar frá því sem áður var. Má í því sambandi nefna að nú hefur verið komið á samkeppni í vinnslu og sölu raforku. Stjórnvöld stýra því ekki með sama hætti og áður var hvar stóriðjuuppbygging á sér stað en þau geta liðkað til fyrir málum á svæðum sem eru innan byggðakorts ESA (útskýra hvað byggðakort ESA er) með svipuðum hætti og þau hafa gert hér á Norðurlandi þar sem milljónatugir hafa verið lagðir í undirbúning stóriðjuuppbyggingar af hálfu stjórnvalda. Sem dæmi um hvernig aðstæður eru þá hefur iðnaðarráðuneytið til að mynda ekki komið nálægt stækkunaráformum Alcan í Straumsvík. Orkuveita Reykjavíkur tók fyrsta skrefið þar með því að semja við Alcan í júní s.l. um að útvega fyrirtækinu 40% þeirrar orku sem þarf vegna stækkunarinnar. Meðal þeirra sem stóðu að þeirri ákvörðun voru fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í stjórn OR. Síðar samþykktu Alcan og Landsvirkjun að gengið yrði til einkaviðræðna um raforku til stækkunar álversins. Þá kann einhver að gagnrýna það að iðnaðarráðherra beiti sér ekki fyrir því að stjórn Landsvirkjunar greiði atkvæði á einn eða annan hátt. Því er til að svara að í stjórn Landsvirkjunar sitja sjö fulltrúar eigenda fyrirtækisins og miðast fjöldi þeirra við eignarhlut hvers aðila. Einn fulltrúi er skipaður af bæjarstjórn Akureyrar, þrír fulltrúar af borgarstjórn Reykjavíkur og þrjá fulltrúa skipar iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Sú hefð hefur skapast að eigendur Landsvirkjunar velja sér fulltrúa í stjórn fyrirtækisins í samræmi við pólitískan styrk og þannig eru fulltrúar Reykjavíkurborgar til að mynda tveir frá R-listanum og einn frá Sjálfstæðisflokki. Fulltrúi Akureyrar kemur frá meirihluta bæjarstjórnar og fulltrúar ríkisins eru tveir frá stjórnarmeirihlutanum og einn frá stjórnarandstöðu. Endurspeglar þessi tilhögun þann vilja að sjónarmið stjórnarmanna Landsvirkjunar komi frá jafnt minnihluta sem meirihluta kjörinna fulltrúa á alþingi og í sveitarfélögunum tveimur. Í lögum um Landsvirkjun segir jafnframt að stjórnarmenn fyrirtækisins hafi réttindi og skyldur opinberra sýslunarmanna. Stjórnarmenn hafa ekki þær skyldur að hlýta fyrirmælum þess ráðherra sem fer með eignarhald í hluta fyrirtækisins en eru hins vegar í stjórnarstörfum sínum bundnir af lögum og reglum sem um Landsvirkjun gilda. Í reglugerð fyrir Landsvirkjun segir að í verksviði stjórnar felist meðal annars að „gæta hagsmuna fyrirtækisins í hvívetna og marka heildarstefnu þess á hverjum tíma“. Þrátt fyrir þessar fréttir af áformum um uppbyggingu stóriðju á Suðvesturhorninu og þrátt fyrir þá vinnu sem unnin hefur verið á vegum samráðsnefndarinnar hér fyrir norðan langar mig til að ítreka að engar ákvarðanir hafa enn verið teknar um hvort af þeim muni verða og þá hvaða tímasetningar væri um að ræða. En jafnvel þótt litið sé til allra ítrustu áforma um stækkun álvera eða byggingu nýrra hér á landi, og ef miðað er við þær tímaforsendur sem nú virðast vera uppi á borðum, þá munu Íslendingar standa við skuldbindingar sínar í Kyoto-bókuninni gagnvart útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna stóriðju. Mitt hlutverk og íslenskra stjórnvalda er að gæta þess að Íslendingar standi við þessar skuldbindingar gagnvart Kyoto-bókuninni. Stjórnvöld munu jafnframt vinna að því að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum og gæta þess að í áframhaldandi uppbyggingu muni framkvæmdir, ef af þeim verður, dreifast með skynsamlegum hætti yfir næstu ár þannig að ekki verði hér of mikil þensla og útflutnings- og samkeppnisgreinar standi ekki höllum fæti.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta