Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. febrúar 2006 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Framsöguræða um breytingu umferðarlaga

Samgönguráðherra flutti eftirfarandi framsöguræðu um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum.

Herra/frú forseti.

Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á umferðarlögum nr. 50/1987.      

Markmið frumvarpsins er að stuðla að bættu umferðaröryggi fyrir landsmenn alla í samræmi við umferðaröryggisáætlun, sem samþykkt var á Alþingi vorið 2005 sem hluti þingsályktunar um samgönguáætlun.  Frumvarpið stuðlar að þessu markmiði á margvíslegan hátt. 

1.     Reglur um akstur og hvíld

Frumvarpið skýtur styrkari lagastoðum undir úrræði til þess að framfylgja löggjöf um aksturs- og hvíldartímareglur, sem gilda um atvinnubílstjóra á stærri atvinnubifreiðum.

Nauðsynlegt er fyrir umferðaröryggi að tryggja að ökumenn í langkeyrslum stórra flutningabifreiða fái hæfilega hvíld við starfa sinn ekki síst þegar flutningar á vegum eru að aukast eins og raun ber vitni.  Reglurnar stuðla að hæfilegri hvíld atvinnubílstjóra og eiga fullt erindi við ökumenn á Íslandi, sem vinna oft langan vinnudag í mjög streituvaldandi vinnuumhverfi.  Markmið reglnanna er umfram allt að fækka slysum, sérstaklega þar sem stór ökutæki eiga hlut að máli, og auka umferðaröryggi í landinu.  Ljóst er því að ávinningur af innleiðingu þeirra í íslenskan rétt er ótvíræður.  Því er afskaplega mikilvægt að ökumenn flutningabifreiða fari að reglum og fái viðhlítandi hvíld. Samþykki Alþingi frumvarpið verða öll úrræði virk til þess að framfylgja reglum um hvíldartíma.

Reglur um aksturs- og hvíldartíma gilda á EES svæðinu og voru innleiddar hér á landi árið 1995.  Lagabreytingin, sem hér er kynnt, er m.a. til komin vegna dóms Hæstaréttar í máli þar sem ákærði var sýknaður af kröfu ákæruvaldsins fyrir brot á reglu um aksturs- og hvíldartíma ökumanna.

Í þessu frumvarpi er að finna bættar verknaðarlýsingar og verða þannig refsiákvæði fyrir brot á þessum reglum virk.    

2.     Reglur um farstarfsmenn (mobile workers)

Í frumvarpinu er lagt til að settar verði sérstakar reglur um farstarfsmenn í samræmi við gerð Evrópusambandsins þessu lútandi.  Þetta eru þeir aðilar í áhöfn flutningabifreiða sem ekki teljast ökumenn heldur eru n.k. aðstoðarmenn þeirra um ýmsa hluti sem að flutningastarfsemi koma, svo sem varðandi hleðslu ökutækis, affermingu, aðstoð við farþega, viðhald o.fl.  Eins og staðan er á Íslandi í dag er hér um mjög fáa aðila að ræða en það fyrirkomulag gæti tekið breytingum í framtíðinni. 

3.     Eftirlit Vegagerðarinnar elft

Þá er hér lagt til aukið en einfaldara eftirlit Vegagerðarinnar með akstri farmflutninga- og hópbifreiða.  Rétt er að árétta að það er fyrst og fremst lögreglan sem fer með löggæslu í landinu.  Engu að síður hefur þótt nauðsynlegt fram að þessu að frekara eftirlit en lögreglan getur sinnt fari fram með ýmsum þáttum er varðar umferðaröryggi og skattheimtu.

Þannig annast Vegagerðin samanber 68. gr. gildandi umferðarlaga eftirlit með reglum um aksturs- og hvíldartíma ökumanna og hefur hún heimildir til þess að stöðva ökutæki til þess að framfylgja eftirlitinu. Skv. 19. gr. laga um olíugjald og kílómetragjald nr. 87/2004 fer ríkisskattstjóri með eftirlit með framkvæmd laganna en er heimilt að framselja það vald til Vegagerðarinnar.  Sambærileg stöðvunarheimild er í því lagaákvæði Vegagerðinni til handa, svo unnt sé að framfylgja eftirlitinu.

Í frumvarpinu er lagt til að eftirlit Vegagerðar verði gert markvissara í þágu umferðaröryggis þannig að eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar verði jafnframt gert kleift að framkvæma ýmsar aðgerðir sem lögreglu var áður einni falið að framkvæma.  Það þykir eðlileg ráðstöfun og hagkvæm að þegar á annað borð er búið að stöðva ökutæki þá séu allir þættir er varðar öryggi í umferðinni kannaðir en eftirlitið miði ekki einungis að afmörkuðum þáttum eins og nú er.  Það verður að teljast í það minnsta óeðlilegt að sú staða geti komið upp að eftirlitsmaður Vegagerðarinnar geti staðið ökumann að broti á frágangi farms við hefðbundið eftirlit með stærð, heildarþyngd og ásþunga þess, en geti ekki gripið til aðgerða að slíku tilefni.  Staðan er einmitt þessi í dag og er það algerlega óviðunandi að mínu mati.  Það blasir við öllum að slíkt ökutæki getur verið stórhættulegt í umferðinni og hrein fásinna að byggja ekki undir heimildir Vegagerðarinnar til að hafa eftirlit með slíkum þáttum einnig.  Því er við þetta að bæta að ráðuneytið hefur nú til skoðunar útfærslu á því hvernig eftirliti með ástandi ökutækja á vegum verði best háttað sem ég tel líka mjög mikilvægan þátt í að ná fram markmiði frumvarpsins um aukið umferðaröryggi.

Vakni grunur um brot er ökumanni skylt að hlíta banni  eftirlitsmanns um frekari för, þar til að lögreglan kemur á vettvang.  Eftir sem áður munu valdheimildir lögreglu standa óbreyttar.

Miklir hagsmunir eru af því að þungatakmarkanir séu virtar. Of þungar bifreiðir á vegum geta valdið skemmdum á yfirborði og/eða burðarlagi vega með tilheyrandi slysahættu. Viðgerð getur verið afar kostnaðarsöm og er því nauðsynlegt að koma í veg fyrir skemmdir með eftirliti með þunga vöruflutningabifreiða.

Virkara eftirlit á vegum er einn af hornsteinum aukins umferðaröryggis á landinu öllu og stuðlar að fækkun slysa í umferðinni.  Það er mitt mat að lögreglan í landinu og Vegagerðin eigi að vinna saman að því að stuðla að auknu umferðaröryggi með virku og markvissu eftirliti.

4.     Stjórnun ökutækja undir áhrifum ávana- og fíkniefna

Í frumvarpinu er lagt til að byggt verði undir heimildir laganna varðandi bann við stjórnun ökutækis undir áhrifum ávana- og fíkniefna.  Að þessu tilefni er sett fram það nýmæli í frumvarpinu að ökumanni sé skylt að láta í té munnvatnssýni, að kröfu lögreglu, þegar grunur leikur á að hann hafi gerst brotlegur við lög vegna neyslu ávana- og fíkniefna.  Um er að ræða nýja tækni sem mun að öllum líkindum koma til með að hafa veruleg áhrif til aukins árangurs við rannsókn umferðarlagabrota af þessu tagi.  Það skal tekið fram að þessu tilefni að þróun í þeirri tækni sem hér um ræðir hefur verið hröð á síðustu árum.  Athygli samgönguráðuneytis hefur jafnframt verið vakin á þeim möguleika að unnt sé að taka svitasýni af ökumönnum til að ákvarða hvort viðkomandi séu undir áhrifum ávana- og fíkniefna.  Verið er að skoða hvort og þá hvernig unnt sé að nýta þennan möguleika við umferðareftirlit af þessu tagi og mun ég leggja til við samgöngunefnd að hún taki þetta atriði til sérstakrar skoðunar.

Lagt er til að dregin verði afdráttarlaus lína varðandi akstur undir áhrifum ólöglegra efna eða lyfja, sem í daglegu tali teljast til hefðbundinna ávana- og fíkniefna.  Greinist slík ólögleg efni í blóði ökumanns skal hann metinn óhæfur til stjórnunar ökutækis og refsað með hliðsjón af því.  Mörkin eru hér sett við núllið og ekkert svigrúm veitt til mats á nokkurn hátt.  Skilaboðin eru því skýr þegar um er að ræða akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna en það tel ég afar mikilvægt hr./frú forseti. 

Lagt er til í frumvarpinu að beitt verði sambærilegum viðurlögum og gilda um akstur undir áhrifum áfengis.  Gengið er út frá því að gerist ökumaður sekur um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna skuli hann sviptur ökurétti eigi skemur en þrjá mánuði og allt að tveimur árum eftir alvarleika brots og magni ávana- og fíkniefna í blóði eða þvagi ökumanns.  Hafi ökumaður áður gerst sekur um akstur undir áhrifum áfengis eða ávana- og fíkniefna eða neiti hann að veita atbeina sinn við rannsókn máls skal svipting ökuréttar vera a.m.k. tvö ár og allt að fimm árum eftir alvarleika brots og magni vínanda eða ávana- og fíkniefna í ökumanni við síðara brotið.  Tekið er sérstakt tillit til þeirra ökumanna sem eru sjúklingar og þurfa á læknisfræðilegri meðhöndlun að halda.  Lagt er til að ökumaður, sem telst vera sjúklingur, verði ekki beittur viðurlögum vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna, geti hann með ótvíræðum hætti sýnt fram á að hann hafi verið hæfur til að stjórna ökutækinu örugglega í umrætt sinn.  Gerðar eru strangar sönnunarkröfur í slíkum tilvikum, t.d. um framlagningu gagna og læknisskoðun.

5.     Gjaldtökuheimildir

Starf að umferðaröryggismálum hefur verið elft verulega síðastliðin tvö ár en það kallar á aukin fjárútlát.  Miðað er við að þessu starfi verði haldið áfram. Mikilvægt er að þessu tilefni að eftirlit á vegum verði aukið, svo kölluðum ,,svartblettum” verði eytt, fræðsla í skólum verði efld og haldið upp öflugum áróðri.  Þessir auknu fjármunir hafa komið frá öðrum liðum ráðuneytisins, þó einkum úr vegaáætlun.  Allar vísbendingar eru í þá átt að slysum í umferðinni sé að fækka, sem eru góðar og uppörvandi fréttir fyrir okkur sem setja aukið umferðaröryggi í forgang.  Eðlilegt þykir að skjóta styrkari stoðum undir öflugt umferðaröryggisstarf og tryggja fjármuni til þess til frambúðar.  Lagt er til í frumvarpinu að fjárhæð umferðaröryggisgjalds verði hækkuð úr 200 kr. í 400 kr. til eflingar starfs umferðaröryggisáætlunar í umferðaröryggismálum.  Þess má geta hér að í skýrslu, sem gerð var fyrir nokkrum árum af Vegagerðinni, Háskóla Íslands, Landlæknisembættinu og Umferðarráði og fleiri aðilum var árlegur samfélagslegur kostnaður af völdum umferðarslysa metinn vera 15 – 20 milljarðar króna.

6.     Ýmis ákvæði 

Í frumvarpinu er að finna nokkrar lagfæringar og ákvæði er varða nýjar skilgreiningar á hugtökum, breytt ákvæði um notkun öryggisbelta í bifreiðum og bifhjólum auk þess sem heimilt verður að setja reglur um vagn fyrir bifhjól.  Þá er lagt til í frumvarpinu að ákvæði um hlutverk Umferðarstofu við rannsóknir á orsökum umferðarslysa verði fellt brott enda hefur það hlutverk verið fært til rannsóknarnefndar umferðarslysa. 

Ég vil að lokum geta þess að ég lét í ráðuneytinu skoða sérstaklega hvort herða mætti viðurlög umferðalaga við að leggja í stæði fatlaðra.  Niðurstaðan úr þeirri skoðun var að heimildir umferðarlaga til viðurlaga væru nægar en ástæða gæti verið til að herða þau og hækka sektir við slíkum brotum í reglugerð.  Ég mun beita mér fyrir að það verði gert og sektir hækkaðar verulega.

Ég vil leggja til, herra forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hæstvirtrar samgöngunefndar.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta