Aðalfundur Samtaka Verslunar og þjónustu
Ágætu aðalfundargestir.
Íslendingar eru sífellt oftar minntir á að þeir eru hluti af alþjóðasamfélagi og heimsmarkaði þar sem allt lýtur áhrifum þess heims sem við lifum í og jafnvel hræringar á landinu okkar hafa áhrif langt utan landsteinanna. Ísland er því ekki lengur einangrað eyland með lítinn heimamarkað og einsleita menningu. Landið er í viðskiptalegu tilliti hluti af heimsmarkaði þar sem mikil samkeppni ríkir hvað varðar viðskipti með vörur og þjónustu.
Viðskipti með þjónustu eru raunar sífellt að aukast að umfangi og mikilvægi í hagkerfi okkar. Kemur það glögglega fram í nýútkominni skýrslu um mikilvægi þjónustugeirans fyrir íslenskan þjóðarbúskap, sem unnin var af viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík fyrir Samtök verslunar og þjónustu. Viðskiptaráðuneytið var meðal þeirra sem studdu gerð þessarar skýrslu og vill með því stuðla að aukinni umræðu um stöðu og framtíð þjónustuviðskipta fyrir land og þjóð.
Stjórnmálamenn vinna að því að skapa atvinnustarfsemi og þjóðlífi þá umgjörð sem gerir því kleift að standa sig og skara fram úr í hinni alþjóðlegu samkeppni sem Ísland er og verður þátttakandi í. Með samningnum um evrópska efnahagssvæðið, EES, var opnuð leið að stórum innri markaði Evrópu sem síðan hefur stækkað enn meira með aðild fleiri landa. Á liðnum árum hafa stjórnvöld auk þess beitt sér fyrir miklum skipulagsbreytingum og endurbótum á íslensku atvinnu- og efnahagslífi. Fjármálamarkaður hefur til að mynda gjörbreyst, markvisst hefur verið unnið að því að draga hið opinbera úr samkeppnisrekstri, stjórnsýslan hefur verið gerð skilvirkari, leikreglur atvinnulífsins hafa verið bættar og erlend fjárfesting hefur aukist, svo fátt eitt sé nefnt. Þegar á heildina er litið má því segja að Ísland og Íslendingar hafi á undanförnum árum borið gæfu til að stórauka þátttöku í alþjóðavæðingu heimsins, á grunni bættra starfsskilyrða og aukinnar samkeppnishæfni. Þetta hefur skilað sér í aukinni verðmætasköpun, atvinnu og bættum lífskjörum.
Gott dæmi um þetta kemur fram í fyrrgreindri skýrslu sem unnin var fyrir SVÞ en þar segir að atvinnutekjur á mann hafi hækkað meira í þjónustu en í öðrum greinum og að mesta hækkunin sé í fjármálageiranum. Er það í takt við gríðarlega aukin umsvif í greininni á liðnum árum. Hljóta þau að teljast jákvæð því öflugur þjónustuiðnaður og virkur fjármálamarkaður eflir atvinnustarfsemi í landinu og stuðlar þannig að bættum lífskjörum almennings.
Íslensk stjórnvöld munu áfram huga að alþjóðlegri viðskiptahæfni Íslands m.a. með því að fylgjast náið með alþjóðamörkuðum í samstarfi við atvinnulífið. Utanríkisráðuneytið hefur komið á fót samstarfsnefnd við atvinnulífið um áherslur við gerð fríverslunar-, fjárfestinga- og tvísköttunarsamninga og viðskiptaráðuneytið mun áfram stuðla að því að þjónusta geti þróast þannig að Ísland hafi hag af þjónustuviðskiptum, jafnt á heimamarkaði sem alþjóðlegum mörkuðum. Þá hafa stjórnvöld sýnt vilja sinn í verki til aukinnar nýsköpunar með því að stórauka fjárframlög til Nýsköpunarsjóðs auk stighækkandi framlaga til Tækniþróunarsjóðs. Það er mikilvægt að hagsmunaaðilar og stjórnvöld vinni áfram saman að því að efla atvinnulíf, þar með talin þjónustuviðskipti, og átti sig á styrk sínum og veikleikum, t.d. hvað varðar menntakerfi, rannsóknir og þróun, nýsköpun o.s.frv.
Í þessu samhengi má nefna að mörg fyrirtæki hafa álitið að þróun nýrra afurða væri best fyrir komið hjá þeim sjálfum, enda væri þar að finna betri þekkingu og færni á viðkomandi sviði en annars staðar bjóðist. Þetta hefur breyst samfara aukinni þekkingu og getu annarra til að stunda arðbærar rannsóknir. Nýsköpunarfyrirtæki, t.d. framleiðslufyrirtæki, hafa í auknum mæli áttað sig á mikilvægi sjálfstæðra rannsókna, t.d. háskóla, rannsóknastofnana og einstaklinga – jafnvel á fræðasviðum sem tengjast ekki með beinum hætti kjarnastarfsemi þeirra. Því er mikilvægt að efla vitund fyrirtækja um rannsóknir óskyldra aðila sem gætu nýst þeim við tækniþróun og nýsköpun.
Ég hef rætt um það á öðrum vettvangi að í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytum er vilji til þess í stærra samhengi að horfa til framtíðaruppbyggingar opinberra rannsókna í nábýli við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík í Vatnsmýrinni. Enginn vafi er á því að mikils ávinnings væri hægt að vænta af nánara samstarfi við háskólarannsóknir og með samnýtingu vísindamanna og sérfræðinga. Hugmynd sem þessa um þekkingarsetur væri æskilegt að sjá jafnt á höfuðborgarsvæði sem landsbyggð. Er ekki vafi á því að þar sem frjó hugsun fær aðstöðu til að njóta sín geta góðar hugmyndir orðið að veruleika og þær munu skila sér í formi öflugra atvinnulífs. Má einnig nefna að nú er unnið að tillögum er lúta að endurskoðun og einföldun Stjórnarráðsins í átt til þess þjóðfélags sem við búum í. Eðlileg afleiðing slíkra breytinga yrði endurskoðun á rannsóknastarfsemi atvinnuveganna.
Þá vil ég einnig nefna að s.l. vor skipaði ég starfshóp um fjármögnun nýsköpunar sem skilaði tillögum til mín í lok síðasta árs. Miðuðu þær einkum að skattalegum umbótum sem taldar eru nauðsynlegar til að auka aðgang nýsköpunarfyrirtækja að áhættufjármagni. Veigamesta tillagan laut að því að virkja samlagshlutafélagaformið sem vettvang þar sem ólíkir fjárfestar geta komið saman til þess að fjárfesta í nýsköpun. Þá er tillaga sem miðar að því að auðvelda þátttöku lífeyrissjóða í samlagshlutafélögum. Þriðja tillagan fjallar um þróunartíma nýsköpunarfyrirtækja og þau markmið laga um virðisaukaskatt að veita fyrirtækjum nægan aðlögunartíma til uppbyggingar. Fjórða og síðasta tillagan fjallar um skattaívilnanir til tæknifyrirtækja sem stunda rannsókna- og þróunarstarfsemi. Kynnti ég þessa
niðurstöðu í ríkisstjórn í desember s.l. og í kjölfarið hefur fjármálaráðherra greint frá ákveðnum skattalegum umbótum er varða samlagshlutafélög, lífeyrissjóði og þróunartíma nýsköpunarfyrirtækja. Samhliða þeim breytingum skipaði fjármálaráðherra nefnd sem hefur það hlutverk að leggja mat á reynslu annarra þjóða af að veita fyrirtækjum sem stunda rannsóknir, þróun og nýsköpun, ríkisstyrki í formi sértækra skattaívilnana, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í síðustu viku kynnti ég svo í ríkisstjórn frumvarp sem miðar að því að samlagshlutafélagaformið nýtist betur en nú er til sameiginlegra fjárfestinga, m.a. í nýsköpun.
Góðir aðalfundargestir.
Ábyrgð, samhæfni, stefnufesta og ögun eru þættir sem þurfa að njóta viðurkenningar í íslensku þjóðfélagi. Jafn mikilvægt er að atvinnustarfsemin og hagkerfið hafi sveigjanleika til að takast á við síbreytilegt umhverfi í alþjóðaviðskiptum, sem stunda má frá Íslandi, ekki síður en frá öðrum stöðum á jarðkringlunni. Að þessu hefur ríkisstjórnin unnið á liðnum árum. Þá er ekki síður mikilvægt að fjölbreytt atvinnu- og efnahagslíf fái dafnað hér á landi. Slíkt er nauðsynlegt litlu hagkerfi því eftir því sem fleiri atvinnuvegir blómstra verður auðveldara að viðhalda stöðugleika sem skilar atvinnulífinu og almenningi áframhaldandi aukinni farsæld um ókomna framtíð.
Takk fyrir.