Ársfundur Íslenskra orkurannsókna
Ágætu ársfundargestir
Það eru breytingar fram undan í íslenskum orkumálum en það er bjart yfir að líta. Landið okkar býr yfir miklum orkuauðlindum, bæði í vatnsorku og jarðvarma, sem við höfum á liðnum árum öðlast aukna tækni og færni við að nýta. Við eigum afar hæfa vísindamenn í orkurannsóknum og reynslumikla sérfræðinga í hönnun og rekstri virkjana. Þessi þekking hefur, auk þess að nýtast okkur Íslendingum, nú þegar nýst öðrum þjóðum. Enginn vafi er á því að á næstu árum mun sú starfsemi fara vaxandi sem lýtur að ráðgjöf, til þeirra þjóða er á þurfa að halda.
Því miður búa ekki allir svo vel að þessu leyti og raunar virðist heldur syrta í álinn með aukna notkun endurnýtanlega orkugjafa á næstu áratugum. Þrátt fyrir fögur fyrirheit og háleit markmið helstu ráðmanna heims um nauðsyn þess að draga úr notkun brennslueldsneytis á næstu árum til orkuframleiðslu benda allar spár Alþjóða orkumálastofnunarinnar til þess að hlutur þess orkugjafa muni á næstu 25 árum fremur aukast. Öllu alvarlegri eru spár orkumálastofnunarinnar fyrir losun gróðurhúsalofttegunda á sama tímabili. Stofnunin spáir því að losun koltvísýrings við orkuframleiðslu verði 62% hærri árið 2030 en hún er í dag, sem að tveimur þriðju hlutum stafar af aukinni orkuþörf þróunarríkja. Varnaðarorð glymja því víða um heim um að örva og auka enn frekar nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Staðreyndin er sú að alþjóðastofnanir og iðnríkin leggja alltof litla áherslu á það með hvaða hætti þau geti aðstoðað þróunarríkin við að draga úr fyrirsjáanlegri eldsneytisnotkun sinni með hefðbundinni brennslu kolefna. Á þessu þarf að verða breyting á næstu árum og þar getum við ekki undan vikist og munum ekki gera.
Á árinu 2004 ákvað ríkisstjórn Íslands að stórauka aðstoð við þróunarríki og meðal þess sem áhersla var lögð á í þeirri áætlun var aukin aðstoð í orkumálum ríkjanna. Á alþjóðlegri orkuráðstefnu í Bonn 2004 kynnti ég þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að framlag Íslands til þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda yrði í formi þess að efna til árlegra jarðhitanámskeiða í Afríku, Mið-Ameríku og í Asíu sem ákveðið var að myndu hefjast á árunum 2005-2007. Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna var falin framkvæmd námskeiðanna. Skólinn hélt fyrsta námskeiðið í Kenía í nóvember 2005 fyrir yfirmenn raforkufyrirtækja, jarðfræðistofnana og orkuráðuneyta frá fimm löndum Austur-Afríku þar sem aðstæður eru taldar bestar til að virkja jarðhita. Var á því námskeiði sjónum einkum beint að rekstri fyrirtækja. Jarðhitaskólinn og orkumálayfirvöld í Kenía stóðu fyrir námskeiðinu í samvinnu við Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna og Þróunarsamvinnustofnun Íslands.
Nú í haust verður svo haldið annað námskeið í jarðhitaleit fyrir Afríkuríki í Kenía og sams konar námskeið fyrir Mið-Ameríkulönd í Kostaríka. Fyrirlesarar á námskeiðunum verða jarðhitasérfræðingar frá Íslandi og fyrrum nemendur Jarðhitaskólans í hinum ýmsu heimsálfum. Enginn vafi er á því að þessi háttur á þróunaraðstoð er afar árangursríkur og mun koma sér vel fyrir viðkomandi ríki í náinni framtíð.
Þó svo að við séum að vinna gott starf við að aðstoða þróunarríkin í orkumálum er einnig nauðsynlegt að líta okkur nær. Grænlendingar hafa verið og munu því miður áfram verða verulega háðir notkun á brennsluefni til orkuframleiðslu, bæði til húshitunar en einnig fyrir fiskiskipaflota landsins. Hið sama á raunar við um frændur vora Færeyinga sem enn geta aðeins að litlu leyti stuðst við endurnýjanlega orkugjafa. Við höfum ákveðnu hlutverki að gegna í samskiptum við þessar nágrannaþjóðir. Í gildi er samstarfssamningur milli íslensku ríkisstjórnarinnar og grænlensku landsstjórnarinnar í orkumálum og færeysk stjórnvöld hafa óskað eftir samskonar samningi við okkur. Þessar nágrannaþjóðir líta til okkar sem forystuþjóðar á flestum sviðum orkumála. Á vettvangi
Norðurlandaráðs og ráðherranefndarinnar um orkumál hefur Ísland veitt forystu sérstakri nefnd sem kannar með hvaða hætti verði unnt að draga úr eldsneytisnotkun þessara þjóða við orkuframleiðslu. Ríkisstjórnin samþykkti á sl. ári að veita 2 millj. kr. til sérstakrar jarðhitaleitar á Diskóeyju við vesturströnd Grænlands en þar voru nokkur svæði með volgu vatni og berglög á eyjunni voru að auki svipuð og elstu blágrýtislög hér á landi. Iðnaðarráðuneytið gerði samning við ÍSOR um þessar rannsóknir og þær lofa vissulega góðu. Af hálfu grænlenskra yfirvalda hefur verið ákveðið að ráðast í rannsóknarboranir næsta sumar á Diskóeyju og óskað hefur verið eftir að Íslendingar styðji með einum eða öðrum hætti þessa rannsókn. Mér er engin launung á því að með því að leggja þessu máli lið munum við gera okkar til að styrkja byggð sem hefur átt í vök að verjast á Grænlandi. Um leið lít ég svo á að með þessu framtaki og forystu sýnum við í verki hvaða þýðingu hið norræna samstarf getur haft fyrir minnstu aðildarríki Norðurlanda, ekki síst á sviði orkumála.
Þá finnst mér ekki síður áhugavert að efla samstarf við Færeyinga. Ef samstarfssamningur í orkumálum verður gerður við þá gæti hlutverk okkar til dæmis falist í því að kanna hvort nýtanlegur jarðhiti finnist þar. Færeyingar hafa svo aftur ákveðið forskot á okkur varðandi rannsóknir á hugsanlegum olíusvæðum. Í því efni getum við lært af grönnum okkar, á því er enginn vafi. Starfsmenn iðnaðarráðuneytisins, Orkustofnunar, ÍSOR, umhverfisráðuneytis og Umhverfisstofnunar fóru því í kynnisferð til Færeyja í janúar sl. gagngert með það að markmiði að fræðast um nauðsynlegan undirbúning og rannsóknir á hugsanlegum olíusvæðum á landgrunni sínu. Á þessum vettvangi getum við því átt gott samstarf við Færeyinga í gagnkvæmum orkurannsóknum.
Vegna hins vaxandi áhuga á olíuleit á íslenska landgrunninu ákvað ríkisstjórnin síðastliðið vor að ráðist yrði í undirbúning að útgáfu leitar- og vinnsluleyfa fyrir olíu á íslensku yfirráðasvæði. Markmiðið er að undirbúningur komist það langt að næsta haust verði hægt að leggja fram á Alþingi frumvörp til breytinga á þeim lögum er tengjast verkefninu og vorið 2007 verði hægt að ákveða hvort hefja eigi leyfisveitingaferli fyrir olíuleit og olíuvinnslu á Jan Mayen-svæðinu. Ljóst er að til þess að tryggja framgang verkefnisins þarf samvinnu margra ráðuneyta og stofnana sem starfa á þeirra vegum, en alls átta ráðuneyti tengjast verkefninu á einhvern hátt.
Til þess að árangur verkefnisins verði sem mestur og til þess að tryggja samvinnu hinna mismunandi aðila innan stjórnsýslunnar samþykkti ríkisstjórnin fyrr í þessum mánuði að skipa nefnd ráðuneytisstjóra þeirra átta ráðuneyta sem tengjast verkefninu, og orkumálastjóri mun einnig starfa með nefndinni. Gert er ráð fyrir að nefndin verði vettvangur fyrir samstarf og samráð milli ráðuneyta um olíuleitarmál og að þar verði hægt að taka upp mál er varða undirbúning olíuleitar og þegar fram líða stundir þau álitaefni sem upp kunna að koma vegna olíuleitar og vinnslu. Hvert ráðuneyti fyrir sig ber hins vegar ábyrgð á sínu verkefnasviði, metur hvaða aðgerða er þörf og sér um framkvæmd þeirra aðgerða, hvort sem þar er um að ræða lagabreytingar, rannsóknir, upplýsingaöflun eða aðrar aðgerðir. Undirbúningsvinna er þegar hafin í iðnaðarráðuneytinu og hefur mikil vinna m.a. farið fram á vettvangi samráðsnefndar um landgrunns- og olíuleitarmál, en sú nefnd er skipuð fulltrúum frá iðnaðarráðuneyti, utanríkisráðuneyti og Orkustofnun, auk starfsmanns sem kemur frá ÍSOR.
Hér er vitaskuld horft til framtíðar, þessi hugsanlega auðlind okkar getur skipt gríðarmiklu máli fyrir hagsæld þjóðarinnar til lengri framtíðar alveg óháð því hvernig okkur farnast með að nýta aðrar endurnýjanlegar orkulindir þjóðarinnar. Ljóst er að allra næstu áratugi mun orkugjafi skipaflota okkar og flugvéla byggjast á brennslueldsneyti þó svo að takist góðu heilli að framleiða vistvænt eldsneyti fyrir samgöngur á landi.
Hin mikla uppbygging hitaveitna víða um land á síðustu áratugum hefur leitt til þess að hlutur olíu í húshitun landsmanna á síðustu áratugum hefur nánast horfið og eins og kunnugt er njóta um 90% landsmanna hitunar frá hitaveitum. Sú spurning brennur á mörgum hvort enn megi gera betur við nýtingu jarðhitans hér á landi með auknum rannsóknum og með sífellt betri vinnslutækni. Svarið virðist vera jákvætt, við getum enn gert betur. Aukin tækni, þekking og reynsla hefur gert okkur kleift að skilja betur eðli jarðhitans, sem eykur um leið möguleikana á því að finna heitt vatn á svæðum er áður voru ekki talin líkleg jarðhitasvæði. Með breytingum á lögum um niðurgreiðslur til húshitunar frá árinu 2004 var jarðhitaleit markaður sérstakur tekjustofn og því verður skipuleg jarðhitaleit fastur liður í orkurannsóknum hins opinbera á næstu árum í stað þess að ráðist verði í sérstök átaksverkefni til skamms tíma eins og verið hefur undanfarin ár. Með breytingum á
sömu lögum frá 2004 voru stofnstyrkir til nýrra hitaveitna festir í sessi og þeir hækkaðir verulega frá því sem verið hefur undanfarin ár. Miðað við núverandi fjárveitingar geta þeir orðið allt að 200 millj. kr á ári og enginn vafi er á því að þessi styrkur mun renna stoðum undir hagkvæmni nýrra veitna.
Mörg ný verkefni blasa við okkur á jarðhitasviðinu. Víða um land er að finna sjóðandi lághita sem í dag er aðeins nýttur til hitaveitna. Auka þarf rannsóknir á frekari nýtingu þessara svæða sem sum hver mætti örugglega nýta til raforkuframleiðslu en tækni á því sviði fleygir nú mjög fram. Mörg þessara svæða eru í námunda við byggðarkjarna og gæti aukin nýting jarðhitans vafalaust eflt byggð á slíkum svæðum. Loks þarf að kanna með markvissari hætti en gert hefur verið hingað til hagkvæmni í notkun á varmadælum í byggðarlögum án hitaveitna sem hafa eigi að síður aðgang að volgu vatni.
Góðir fundarmenn.
Hagkvæmni jarðhitans fyrir íslenskt samfélag var fyrir fáum árum metin á bilinu 10-15 milljarðar á ári og var þá miðað við að upphitunaraðferðir frá 1970 hefðu verið óbreyttar. Möguleikar á aukinni nýtingu jarðvarma til upphitunar eru verulegir með bættri tækni og rannsóknum. Þá virðast möguleikar á aukinni raforkuframleiðslu á háhitasvæðum landsins vera meiri en áður hefur verið reiknað með. Það er nefnilega svo að eftir því sem vísindum, tækni og þekkingu hefur fleygt fram hafa útreikningar okkar færustu vísindamanna breyst í takt við fyrirliggjandi staðreyndir hvers tíma. Ég nefni þetta í því ljósi að nýverið kom út bók eftir ungan og frjóan íslenskan rithöfund. Í bókinni reynir höfundurinn m.a. að gera álit ýmissa sérfræðinga á sviði orkumála tortryggilegt og vitnar því til
stuðnings í bæklinginn Orka Íslands sem kom út árið 2003. Grípur hann m.a. niður á einum stað í bæklingnum þar sem segir: „Oftast hefur verið miðað við að nýtanlegt vatnsafl sé 30 TWh á ári... Þá er búið að draga frá þann hluta sem áætlað er að ekki verði virkjaður af umhverfisástæðum". Þessu vill höfundurinn að menn taki vel eftir og leggst síðan í mikla útreikninga og virkjar í gríð og erg á allmörgum blaðsíðum. Þó segja orðin ekki meira en það að oftast hafi verið miðað við 30 TWh á ári í nýtanlegu vatnsafli. Stundum hefur sú viðmiðun raunar verið dregin í efa eins og Orkumálastjóri gerði t.d. á ársfundi Orkustofnunar árið 2004 þar sem hann taldi að e.t.v. væri réttara að tala um 26 TWh á ári í stað 30 TWh í virkjanlegu vatnsafli en 23 TWh í stað 20 TWh í háhita. Og hvað varðar seinni hluta tilvitnunarinnar þá er það einnig rétt sem þar stendur að þá sé búið að draga frá þann hluta sem áætlað er að ekki verði virkjaður af umhverfisástæðum. Það
þýðir hins vegar ekki það að öll sú orka sem er innifalin í 30 TWh verði nýtt. Í því skyni að leggja mat á þá líklegustu virkjunarkosti sem helst koma til greina og þarf að rannsaka frekar, var ráðist í gerð Rammaáætlunar undir kjörorðinu „Maður – Nýting – Náttúra". Í henni eru kostirnir metnir með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og á hagsmuni allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði. Með þessu móti er lagður grundvöllur að forgangsröðun virkjunarkosta með tilliti til þarfar þjóðfélagsins. Niðurstöður 1. áfanga Rammaáætlunar komu út árið 2003 og niðurstöður 2. áfanga eru væntanlegar árið 2009.
Í öðrum áfanga verða fleiri virkjunarkostir teknir til mats og þá einkum háhitasvæði landsins, en verulega hefur skort á almennar náttúrufarsrannsóknir á þessum svæðum. Þá er í þessum áfanga unnið að endurbótum á aðferðafræði við mat á náttúrufari og þá einkum landslagi, en einnig verða helstu umhverfisáhrif smávirkjana metin. Með vinnu að rammaáætlun hefur myndast mikilvæg þekking um náttúrufar á virkjunarsvæðum sem kemur að miklu gagni þegar ráðist er í frekari rannsóknir eða áætlanagerð um orkunýtingu eða aðra landnýtingu. Enginn vafi er á því að sá samanburður virkjunarkosta er niðurstöður rammaáætlunar leiða í ljós gefa okkur gleggri sýn á líklegum virkjunarkostum og umhverfisáhrifum þeirra. Rammaáætlun þarf að veita sem gleggsta vísbendingu um það annars vegar hvar hyggilegast og hagkvæmast sé að rannsaka frekar með nýtingu í huga og hins vegar hve hátt verndargildi viðkomandi svæði hefur.
Ég dreg þetta dæmi fram því mér finnst miklu máli skipta að þótt menn deili ekki sömu skoðunum sé hægt að ræða hluti og skiptast á skoðunum á málefnalegan og yfirvegaðan hátt í stað þess að leggjast í skotgrafir og afgreiða hluti eins og vísindalegar rannsóknir af léttúð sem einhverja „hugaróra tæknimanna".
Ágætu ársfundargestir.
Eins og ég sagði í upphafi máls míns þá eru framundan breytingartímar í orkumálum. Ég sé hins vegar ekkert annað í spilunum en að í framtíðinni felist fjölmörg tækifæri á því sviði sem muni verða landi og þjóð til heilla.
Ég þakka starfsmönnum og stjórnendum Íslenskra orkurannsókna ánægjulegt samstarf og óska stofnuninni velfarnaðar á komandi árum.