Samráðsfundur Landsvirkjunar 2006
Ágætu fundargestir.
Á undanförnum mánuðum og árum höfum við upplifað mikla breytingartíma á íslenskum raforkumarkaði og svo mun væntanlega verða áfram enn um sinn.
Ný raforkulög voru sem kunnugt er samþykkt á Alþingi í mars árið 2003. Lögunum er m.a. ætlað að skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku, stuðla að skilvirkni og hagkvæmni í flutningi og dreifingu raforku, tryggja öryggi raforkukerfisins og hagsmuni neytenda, ásamt því að stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og taka tillit til umhverfissjónarmiða að öðru leyti. Samkeppni þessi á raforkumarkaði hefur verið innleidd í áföngum með þeim hætti að allir stærri notendur gátu valið sér raforkusala frá og með 1. janúar 2005 og allir aðrir frá og með síðustu áramótum.
Fyrr í þessari viku varð ég þess heiðurs aðnjótandi að fá að samþykkja formlega fyrstu skipti aðila frá einum raforkusala til annars í nýju upplýsingakerfi sem fyrirtækið Netorka hf. hefur þróað á undanförnum mánuðum. Netorka hf. er hlutafélag í eigu raforkufyrirtækjanna og gegnir því hlutverki að vera sameiginlegt mæligagna- og uppgjörsfyrirtæki fyrir íslenskan raforkumarkað í markaðsvæddu umhverfi. Kerfi Netorku tryggir að samskipti og uppgjör á íslenska raforkumarkaðinum verða í senn einfaldari, sveigjanlegri og skilvirkari en gerist hjá öðrum þjóðum.
Raforkunotendur hafa því núna val sem þeir höfðu ekki áður og raforkusalar bjóða jafnframt upp á einfalt og skilvirkt kerfi sem tryggir að hugsanleg skipti geta gengið hratt og vel fyrir sig. Þótt fyrrgreint kerfi hafi aðeins verið tekið í gagnið fyrir þremur dögum síðan hefur samkeppnin sem innleidd var í fyrrgreindum skrefum um tvenn síðustu áramót þegar skilað sér í lækkun raforkuverðs.
Þegar vísitala neysluverðs er skoðuð, svo verðbreytingar rafmagns séu metnar í einhverju samhengi, þá kemur í ljós að vísitala neysluverðs hækkaði frá janúar 2004 til mars 2006 um 9,6%. Ef rafmagnshluti neysluverðsvísitölunnar er borinn saman við þetta þá kemur í ljós að sá hluti hækkaði á sama tímabili um 7,1%. Ef rafmagnið er greint nánar niður á sama tímabili þá hækkaði rafmagn til lýsingar um 7,5% og rafmagn til húshitunar um 4,9%. Neysluverðsvísitalan hækkaði því meira þannig að ekki er hægt að segja annað en að hækkanir á rafmagni til almennings á undanförnu hafi verið nokkuð í takt við almenna verðþróun, og raunar heldur undir henni.
Ef skoðað er styttra tímabil, þ.e. frá janúar 2005 til mars 2006, eða í þann tíma sem samkeppni á raforkumarkaði hefur verið í gildi, þá hækkaði vísitala neysluverðs um u.þ.b. 5,4%. Rafmagnshluti vísitölunnar lækkaði á sama tíma um tæpt prósent. Þar af hækkaði rafmagn til lýsingar um 1,3% en rafmagn til húshitunar lækkaði um yfir 10%. Það er því óhætt að segja að verðþróun á raforkumarkaði hefur ekki stigið í takt við almenna verðlagsþróun hér á landi hin síðustu ár.
Þrátt fyrir þetta er því ekki að neita að sökum þess að í nýju markaðsumhverfi er dreifiveitum ekki heimilt að mismuna notendum eftir því til hvers raforkan er notuð féllu afslættir fyrirtækja á dreifingu raforku til hitunar niður og hefur húshitunarkostnaður því sums staðar hækkað nokkuð frá því sem var. Breytingarnar leiddu þó einnig til lækkunar eins og ég hef þegar vikið að, m.a. á raforku til almennrar notkunar á þéttbýlissvæðum á landsbyggðinni og til fiskvinnslufyrirtækja og annarra iðnfyrirtækja á landsbyggðinni.
Einn liðurinn í þeim skipulagsumbótum á raforkumarkaði sem staðið hafa yfir fólst í undirritun viljayfirlýsingar iðnaðarráðherra, fjármálaráðherra, borgarstjórans í Reykjavík og bæjarstjórans á Akureyri í febrúar á síðasta ári um að íslenska ríkið leysti til sín eignarhluta Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Var ætlunin með þeirri breytingu að skýra línur í eignarhaldi raforkufyrirtækja sem starfa nú í umræddu samkeppnisumhverfi, enda ekki æskilegt í því ljósi að eigendur Landsvirkjunar ættu allir stóra hluti í öðrum orkufyrirtækjum. Má í því sambandi nefna að Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun eru stærstu fyrirtækin hér á landi í framleiðslu á raforku og ættu því að eiga í harðri samkeppni sín á milli á því sviði. Með tilliti til slíkra sjónarmiða er afar óæskilegt að sami eigandi geti átt stóra hluti í báðum fyrirtækjum og tekið ákvarðanir um viðskipti beggja.
Til að vinna að framgangi málsins var skipuð fjögurra manna samninganefnd, skipuð fulltrúum eigenda. Var að því stefnt að breyting á eignarhaldi Landsvirkjunar ætti sér stað 1. janúar 2006. Er hins vegar skemmst frá því að segja að eftir viðræður og samningaumleitanir sem stóðu yfir í tæpt ár urðu aðilar sammála um að ekki væru forsendur fyrir frekari viðræðum að svo stöddu.
Það sem er hvað verst í þessu máli er það að forsaga viðræðnanna var sú að fyrrverandi borgarstjóri gekk á minn fund og óskaði eftir því að ríkið keypti hlut borgarinnar í Landsvirkjun. Í kjölfarið fór þessi atburðarás af stað. Tæpu ári eftir undirritun viljayfirlýsingarinnar opinberaðist það svo að deilur um verðmat Landsvirkjunar hefðu ekki verið ástæða þess að borgin lét viðræður falla niður heldur það að Vinstri grænir vildu hafa áhrif á mögulega uppbyggingu stóriðju í gegnum eign borgarinnar í fyrirtækinu og væru því mótfallnir sölunni. Óhætt er að segja að áhrif Vinstri grænna í borgarstjórn Reykjavíkur hafi verið mikil á þessum tíma fyrst þeim tókst að stöðva sölu borgarinnar á hlut sínum í Landsvirkjun á þessum forsendum. Baráttan virðist þó hafa farið fyrir heldur lítið nú þegar vitnast hefur um einangrun fulltrúa þeirra í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, en sem kunnugt er hefur stjórn Orkuveitunnar falið forstjóra fyrirtækisins að gera úttekt á möguleikum þess til að afla raforku fyrir stóriðju í Helguvík, þvert á vilja Vinstri grænna.
Eftir að eigendur Landsvirkjunar urðu sammála um að halda ekki áfram að sinni viðræðum um breytingar á eignarhaldi fyrirtækisins ákváðu stjórnir Landsvirkjunar, Rafmagnsveitna ríkisins, og Orkubús Vestfjarða hf. að stofna sameiginlegt sölufyrirtæki á raforkumarkaði. Markmiðið með sölufyrirtækinu er að marka skýr skil milli einkaleyfis- og samkeppnisrekstrar hjá Orkubúinu og Rafmagnsveitunum, jafnframt því sem Landsvirkjun er gert kleift að taka þátt í þeirri samkeppni sem breytt raforkuumhverfi gerir ráð fyrir. Með tilkomu fyrirtækisins hefur því orðið til sterkur valkostur á smásölumarkaði með raforku til hagsbóta fyrir neytendur.
Sem kunnugt er hefur þróun álframleiðslu á Íslandi á síðari árum vakið óskipta athygli meðal álframleiðenda um allan heim. Hefur fjöldi þeirra lýst áhuga á að fá tækifæri til að skoða möguleika á uppbyggingu hér á landi. Ástæðan fyrir þeim áhuga er án efa stórbætt samkeppnisstaða Íslands og góður vitnisburður þeirra fyrirtækja sem þegar hafa búið um sig hér, enda eru þau öll með áform um frekari fjárfestingar. Slíkar fjárfestingar velta þó mikið á mögulegri orkuöflun og orkuverði. Landsvirkjun var á sínum tíma beinlínis stofnuð til þess m.a. að afla orku fyrir álver Alusuisse í Straumsvík og hefur allt frá þeim tíma verið virkur þátttakandi í orkusölu til stóriðju. Nú er útlit fyrir að ákveðin tímamót séu framundan hjá fyrirtækinu í þessum efnum þar sem Landsvirkjun er í undirbúningsvinnu fyrir byggingu jarðvarmavirkjana á Norðausturlandi en að uppbyggingu slíkra virkjana hefur fyrirtækið aðeins lítillega komið fram til þessa.
Sökum mikils áhuga á uppbyggingu stóriðju hér á landi hefur áhugi orkufyrirtækja á úthlutun rannsóknar- og virkjunarleyfa eðlilega vaxið einnig. Þá hafa að undanförnu verið gerðar lagabreytingar sem snerta þessi mál og er skemmst að minnast breytinga á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sem tryggja það að fyrirtæki sem leggur út í kostnaðarsamar rannsóknir á mögulegum virkjanakostum fær þá fjármuni til baka ef af einhverjum orsökum annað fyrirtæki hlýtur virkjana- eða nýtingarleyfi á viðkomandi stað.
Í lögin var jafnframt sett ákvæði til bráðabirgða sem segir til um það að iðnaðarráðherra skuli skipa nefnd fulltrúa allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi, ásamt fulltrúum frá ráðuneytinu og Samorku. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um með hvaða hætti valið verði á milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi á grunvelli laganna og marka framtíðarstefnu þeirra auðlinda sem þau ná til. Þessa nefnd hef ég nú skipað og er henni ætlað að skila tillögum sínum í formi lagafrumvarps eigi síðar en 15. september á þessu ári.
Ég lét þess getið hér áðan að Landsvirkjun hefði allt frá stofnun fyrirtækisins verið virkur þátttakandi í orkusölu hér á landi. Landsvirkjun lætur það ekki nægja og er í útrás eins og svo mörg önnur íslensk fyrirtæki. Má þar nefna hlut fyrirtækisins í Enex sem eins og kunnugt er flytur út innlenda þekkingu á sviði orkunýtingar. Þá er Landsvirkjun einnig að vinna í sjálfstæðum athugunum á möguleikum á vatnsaflsvirkjunum í Austur-Evrópu.
Landsvirkjun stendur einnig framarlega á mörgum öðrum sviðum og er gott dæmi um það hið frábæra framtak fyrirtækisins að vinna að því að fá vottun fyrir vatnsaflsstöðvar sínar sem síðar fékkst með miklum glæsibrag. Þá hefur Landsvirkjun einnig hafið sölu á grænum íslenskum vottorðum til Evrópu og er það að segja má enn ein birtingarmynd útrásar fyrirtækisins, og henni ber að fagna.
Góðir gestir.
Á liðnum áratugum höfum við borið gæfu til að nýta sjálfbærar orkulindir okkar til uppbyggingar byggðar og atvinnulífs sem skilað hefur sér aftur í öflugu velferðarkerfi. Landsvirkjun hefur allt frá stofnun fyrirtækisins leikið þar stórt hlutverk og skilað því farsællega af hendi.
Aðstæður á raforkumarkaði hafa hins vegar gjörbreyst á stuttum tíma sem mun óhjákvæmilega hafa áhrif á þetta öfluga fyrirtæki. Það hefur þó sýnt það að þrátt fyrir að þurfa að taka tillit til margvíslegra og oft á tíðum mjög ólíkra sjónarmiða, ekki síst frá eigendum fyrirtækisins, þá hefur það borið gæfu til þess að feta nýjar brautir. Ég er þess fullviss að framundan eru miklir möguleikar fyrir Landsvirkjun til að láta enn frekar að sér kveða landi og þjóð til heilla. Möguleikarnir eru undir okkur komnir og þar er ábyrgðin mikil.
Ég þakka áheyrnina.