Setning samgönguþings 2006
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra kynnti framtíðarsýn sína á samgöngumál á samgönguþingi sem haldið var á Selfossi 5. apríl. Á þinginu var fjallað um helstu forsendur og markmið samgönguáætlunar 2007 til 2018 sem nú er í endurskoðun og leggja á fyrir Alþingi næsta haust.
Í ávarpi sínu við setningu samgönguþingsins sagði samgönguráðherra að endurskoðun samgönguáætlunar væri nú vandasamara verk en áður, markmiðin væru skýr en vandinn lægi í forgangsröðuninni og því hvernig tekna skuli aflað og hvaða kröfur skuli gera um mannvirkjagerð og öryggi í samgöngum. Hlutverk samgönguráðs sagði hann að gera grein fyrir því hver þörfin væri fyrir afköst í samgöngukerfinu og hvað gera þyrfti til að ná markmiðum í lok áætlunartímabilsins. Hann sagði að kröfur bærust sér úr öllum landshlutum um hvers kyns stórframkvæmdir og í lok ávarpsins setti hann fram eftirfarandi framtíðarsýn:
1) Við verðum að efla innanlandsflugið með hinni bestu aðstöðu á flugvöllum landsins. Við gerum það ekki með því að leggja niður flugvöllinn í höfuðborginni.
2) Við verðum að tryggja framtíð millilandaflugsins á alþjóðaflugvellinum í Keflavík með skynsamlegu skipulagi, rekstri og eignarhaldi mannvirkja þar.
3) Við verðum að bæta afkomu og samkeppnisstöðu hafnanna með sameiningu í tíu eða tólf hafnasamlög fyrir landið allt.
4) Við verðum að sætta okkur við eðlilegan framkvæmdahraða við uppbyggingu vegakerfisins og gera þær kröfur að allar aðgerðir miðist við það að auka umferðaröryggi, stytta leiðir, fækka leiðum um fjallvegi og hálsa, koma slitlagi á alla stofn- og tengivegi á næsta áætlunartímabili og tryggja burðargetu veganna.
5) Við verðum að halda áfram að gera ráð fyrir útgjöldum til öryggisaðgerða við flugöryggi, siglingaöryggi og umferðaröryggi á vegakerfinu.
Í ávarpi sínu sagði Sturla m.a. um innanlandsflugið að hann legði mikla áherslu á að innanlandsflugvöllur yrði áfram í höfuðborginni og yrði að gera ráð fyrir því í skipulagsvinnu. Hann sagði samgönguáætlun gera ráð fyrir að Reykjavíkurflugvöllur yrði áfram miðstöð innanlandsflugs en vildi þó ekki útiloka að völlurinn yrði fluttur til innan borgarinnar. Þá sagði ráðherrann að mikilvægt væri að hagræða í rekstri og uppbyggingu hafna landsins. Vísaði hann til hafnasamstarfs við Faxaflóa og í Eyjafirði og nefndi að hægt væri að hugsa sér svipuð hafnasamlög t.d. á Snæfellsnesi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Um vegamálin sagði hann helsta verkefni næstu ára að stytta vegalengdir og liður í því væri að fækka leiðum um fjallvegi og hálsa. Kvaðst hann hissa á þeirri niðurstöðu Skipulagsstofnunar að leggjast gegn breytingu á legu Vestfjarðavegar milli Bjarkalundar og Eyrar sem miðaði að styttingu hans.
Ingimundur Sigurpálsson, formaður samgönguráðs, gerði grein fyrir helstu atriðum samgönguáætlunarinnar og nefndi að meðal breytinga frá fyrri áætlun væri að meðal markmiða um greiðari samgöngur væri að stytta ferðatíma. Þannig ætti ferð til næsta þjónustukjarna ekki að taka lengri tíma en klukkustund og ferð til höfuðborgarsvæðisins ekki lengri tíma en þrjár klukkustundir en var þrjár og hálf klukkustund áður.
Þá ræddi Þjóðverjinn Hartmut H. Topp, prófessor við tækniháskólann í Kaiserslautern, um samgöngur framtíðarinnar og kom m.a. fram í máli hans að kostnaður við samgöngur og flutninga yrði stigvaxandi á næstu áratugum og að gjaldtaka myndi í auknum mæli miðast við að greitt yrði fyrir eknar vegalengdir.
Af öðrum erindum samgönguþings má nefna að Þorgeir Pálsson flugmálastjóri, Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri og Hermann Guðjónsson siglingastjóri ræddu helstu atriði í stefnumörkunar samgöngumála hver á sínu sviði. Einnig talaði Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sem dró fram sjónarmið atvinnuvega og Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, og Árni Þór Sigurðsson, borgarfulltrúi í Reykjavík, ræddu áætlunina frá sjónarhóli sveitarstjórnarmanna. Bjarni Reynarsson, ráðgjafi hjá Landráði, fjallaði um ferðatíma, Axel Hall, hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun HÍ, ræddi aðferðir við forgangsröðun og Hreinn Haraldsson, framkvæmdastjóri Þróunarsviðs Vegagerðarinnar, skýrði frá áætlunum um breytta gjaldtöku af umferð.