Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. apríl 2006 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Vottað Ísland

Ágætu ráðstefnugestir

I.

Það vakti nokkra athygli og jafnvel undrun þegar það spurðist að lítið fjölskyldufyrirtæki í Kópavogi, sem stundaði aðallega hrognavinnslu hafði fengið ISO-9002 vottun. Þetta var um mitt ár 1993 og fyrirtækið var eitt af þeim fyrstu til að fá vottað gæðakerfi.

Nokkur umræða hafði staðið um innleiðingu gæðakerfa, t.d. "hassap" -kerfisins fyrir matvælaiðnaðinn. Vottun var hinsvegar ekki í umræðunni og því þótti það talsverðum tíðindum sæta að lítt þekkt hrognavinnsla í Kópavogi lagði í þann kostnað og þá umfangsmiklu vinnu að fá vottun. Á þeim tíma þótti mörgum þetta sérkennilegt, of umfangsmikið, dýrt og alveg óraunhæft fyrir svo lítið fyrirtæki.

Fyrirtækið réðst í þessa vinnu árið 1991 þrátt fyrir erfiða fjárhagslega stöðu - í kjölfar þess að fyrirtækið varð fyrir verulegum skakkaföllum vegna skemmda sem urðu á framleiðslu þess í flutningi.

Um ástæðu þess að fyrirtækið sóttist eftir vottun á gæðakerfinu sagði forstjóri þess nokkrum árum síðar: "Við réðumst í að fá vottað gæðakerfi til að kortleggja starfsemi fyrirtækisins á skipulegan hátt og gera það hæfara til að takast á við aukna samkeppni, kröfur og þrýsting frá erlendum kaupendum, auk þess sem gæðakerfið greiðir aðgang að mörkuðum Evrópusambandsins og færir fyrirtækinu aukin viðskipti."

Ég reikna með að flestir hafi nú áttað sig á því hvaða fyrirtæki hér er um að ræða. – Jú það er Bakkavör – og framhaldið þekkja allir.

 

II.

Frá því að Bakkavör fékk ISO-9002 vottunina árið 1993 hafa um þrír tugir íslenskra fyrirtækja fengið gæðakerfi sín vottuð skv. ISO-staðli. Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun eru þetta allt of fá fyrirtæki og er mjög brýnt að fjölga þeim til að bæta samkeppnisstöðu okkar á alþjóðlegum markaði. Ávinningurinn af vottuðu gæðakerfi er flestum orðinn ljós og kröfur opinberra aðila til fyrirtækja, t.d. birgja eða verkataka fara vaxandi.

Þannig munu forsendur fyrir þátttöku í opinberum útboðum á alþjóðlegum markaði verða krafa um einhverskonar vottað gæðakerfi. Vísir að þessu er þegar kominn um verkefni sem unnin eru á innri markaði ESB og tengjast t.d. opinberum innkaupum og framkvæmdum.

 

Það er mikilvægt í þessari umræðu að átta sig á því að hér er ekki eingöngu um það að ræða að sá sem kaupir geti tryggt hagsmuni sína. Þvert a móti er um klára gagnkvæma hagsmuni að ræða. Ávinningurinn er tvennskonar, þ.e. bæði markaðslegur og rekstrarlegur.

Markaðslegur ávinningur sem greiðir fyrir aðgangi fyrirtækja að mörkuðum og færir þannig fyrirtækjum aukin viðskipti. Ávinningurinn er rekstrarlegur þar sem gæðastjórnun fjallar í víðtækri merkingu um skilvirkni og ábatasama stjórnun, sem í raun og veru er, eða á að vera, viðfangsefni hvers einasta stjórnanda.

 

III.

Ágætu ráðstefnugestir.

Áður en ég lýk máli mínu langar mig að vitna í annan ágætan iðnrekanda, Bergstein Einarsson forstjóra Sets á Selfossi, sem framleiðir og selur rör og tengi fyrir íslenska lagnamarkaðinn. Með afnámi 22% vörugjalda á innflutt stálrör árið 1998 og annarra erfiðra ytri skilyrða stóð fyrirtækið frammi fyrir verulegum vanda sem ráðist var gegn með innleiðingu gæðastjórnunar. Og sú gagnsókn heppnaðist!

Bergsteinn fjallaði um þetta og reynslu sína af ISO 9000 gæðakerfinu á ráðstefnu í október 2001. Þar varpaði hann m.a. fram spurningunni :

 

En hver hagnaðist á gæðastarfinu ?

Og svarið var:

· Viðskiptavinurinn hagnaðist mest þar sem hann fékk betri vöru á lægra verði.

· Þjóðarbúið hagnaðist einnig og sparaði m.a. gjaldeyri.

· Sveitarfélagið hafði tekjur af umsvifum og hagnaðist af þeim.

· Samfélagið naut margfeldisáhrifa af fjölgun starfa.

· Starfsfólkið hélt störfum sínum og tekjum af þeim. ............... og loks:

· Eigendur fyrirtækisins eiga verðmætara fyrirtæki en áður.

Ágætu ráðstefnugestir: - Ég tel að ekki þurfi að hafa þau orð fleiri – og lýsi ráðstefnuna Vottað Ísland setta.

Takk fyrir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta