Ársfundur Iðntæknistofnunar
Ágætu ársfundargestir.
Þegar málefni Iðntæknistofnunar ber á góma þessa dagana er það oft vegna frumvarps til laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun sem bíður afgreiðslu Alþingis að loknu yfirstandandi þinghléi.
Ég leyfi mér að fullyrða að frumvarpið er eitt veigamesta framfaraspor sem lengi hefur verið stigið í þágu nýsköpunar atvinnulífsins hér á landi - þar sem áherslur og forgangsröðun er skilgreind upp á nýtt – í þeim tilgangi að ná MEIRI ÁRANGRI.
II.
Frumvarpið hefur átt sér nokkurn aðdraganda og áður en það var lagt fram voru hugmyndirnar sem lágu til grundavallar rækilega kynntar fyrir fulltrúum flestra hagsmunaaðila. Um 40 kynningarfundir voru haldnir og útfærsla hugmyndanna var í stöðugri endurskoðun allan tímann.
Málið var því undirbúið betur og samráðs leitað víðar en oft er gert. Undantekningarlítið var einhugur um grunnhugmyndina, þ.e. að þörf væri á heildstæðri stefnumótun um nýsköpun og atvinnuþróun þar sem gengið væri þvert á múra ráðuneytanna.
Með opinberum stuðningi við atvinnuþróun er hér átt við - að aðkoma ríkisins haldi áfram með markvissum hætti eftir að stofnun sprotafyrirtækja eða afmörkuðum nýsköpunarverkefnum er lokið. Vísinda- og tækniráð hefur á þriggja ára starfstíma sínum gjörbreytt stefnumótun fyrir vísindi og tæknimálefni en atvinnuþróunin hefur ekki notið góðs af því. Í ljósi reynslunnar af starfi Vísinda- og tækniráðs er eðlilegt að útvíkka starfsemi ráðsins og fela því einnig að fjalla um atvinnuþróunarmál. Með því að ráðið fái þetta hlutverk næst góð samfella í stefnumótandi umfjöllun um málaflokka sem falla hver að öðrum – frá stefnumótun um málefni vísinda og tækni - að þróun í þágu starfandi fyrirtækja.
Markmið slíkrar stefnumótunar væri að auka samkeppnishæfni, nýsköpun og hagvöxt, jafna lífskjör og stuðla að meira byggðajafnvægi. Hér er því um að ræða samþættingu á áherslum er lúta að rannsóknum og tækniþróun annars vegar og atvinnu- og búsetuþróun hins vegar.
III.
Frumvarpið fjallar þannig um sameiningu þeirra tækja sem iðnaðarráðuneytið hefur - til að hrinda slíkri samræmdri stefnu í framkvæmd. Ekki er deilt um mikilvægi þess að sameina starfsemi Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Umsagnir um frumvarpið til iðnaðarnefndar Alþingis voru á einu máli um að sameining þeirra myndi leiða til sterkari rannsóknaeininga sem gætu náð meiri árangri sameinaðar en aðskildar eins og nú er.
Aftur á móti voru flestir uppteknir af því að tæknirannsóknirnar ættu ekki að tengjast byggðamálum. En um hvað fjalla þessi svo-kölluðu byggðamál ?
Byggðamál eru fjölbreyttur málaflokkur en aðkoma iðnaðaráðuneytis að honum er einvörðungu í tengslum við atvinnumál, þ.e. tækniþróun, nýsköpun og þróun starfandi fyrirtækja. Þetta hefur ekkert með niðurgreiðslur eða úthlutun annarra ríkisgæða að gera, eins og sumir vilja halda á lofti. Engar slíkar sértækar aðgerðir er að finna í frumvarpinu.
Í ljósi þess er eðlilegt að spyrja: - Er það á einhvern hátt réttlætanlegt að eitt stuðningskerfi verið fyrir nýsköpun og atvinnuþróun á Reykjavíkursvæðinu og annað stuðningskerfi fyrir landsbyggðina ?
Í mínum huga er svarið einfalt: Til þess að ná mestum árangri þarf að samræma stuðningskerfið, sameina skilda starfsemi og fella það að þörfum allra landsmanna.
Með þessu er engu fórnað og tæknirannsóknir munu eflast í nýju umhverfi og í samstarfi við háskóla og fleiri, í þekkingarsetri sem væntanlega verður unnt að koma á fót í náinni framtíð.
IV.
Orðið þekkingarsetur vísar til nábýlis og samstarfs háskólakennslu, rannsókna og rannsóknastofnana, þjónustu við nýsköpunarstarfsemi, frumkvöðla, atvinnuþróunarstarfsemi, starfsemi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja og ekki síst við þekkingarfyrirtæki. Slíkt nábýli og samstarf kallar fram samlegðaráhrif með betri nýtingu á mannauði og stuðlar að meiri árangri en unnt væri að ná ef starfsemin væri aðskilin.
Gagnsemi þekkingarsetra er ótvíræð. til þess að rannsóknastofnanirnar geti eflt tengsl sín við fremstu rannsóknaháskóla hér á landi og erlendis. Á sama hátt er mikilvægt að háskólarnir auki samstarfið við atvinnulífið og þá sem vinna að framgangi nýsköpunar og atvinnuþróunar. Í starfsemi þekkingarsetra mun hin nýja stofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, gegna lykilhlutverki.
Þegar rætt er um þekkingarsetur er rétt að horfa til framtíðaruppbyggingar opinberra rannsókna í nábýli við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík í Vatnsmýrinni. Mikils ávinnings er að vænta af nánara samstarfi háskólarannsókna og með samnýtingu vísindamanna, sérfræðinga og með sameiginlegum rekstri í tæknigörðum. Auk rannsóknastarfseminnar yrði þar þungamiðja stuðningsins við nýsköpun og atvinnuþróun á öllu landinu. Gangi þetta eftir skapast þekkingarsetur af alþjóðlegum styrkleika í sérstaklega frjósömu umhverfi sem gæfi væntingar um meiri árangur en annars gæti fengist.
V.
Ágætu ársfundargestir:
Hlutverk stjórnvalda er fyrst og fremst að skapa aðstæður fyrir atvinnulífið til að þróast á farsælann hátt. Í þessu felst einkum að til verði verðmæt störf hjá íslenskum fyrirtækjum, sem skila sér í bættum lífskjörum allra landsmanna.
Það er á þessum grundvelli sem unnt er að réttlæta stuðning ríkisins við grunnrannsóknir, tækniþróun, nýsköpun og atvinnuþróun.