Ársfundur Stofnunar Fræðasetra Háskóla Íslands
Ágætu ársfundargestir.
I.
Það er mér sérstök ánægja að vera hér með ykkur á ársfundi Stofnunar Fræðasetra Háskóla Íslands. Umfjöllunarefnið er mér mjög kært og spurningarnar sem fram eru settar eru mjög tímabærar, eins og þessar :
· Hvaða gagn er af þekkingarstarfi utan höfuðborgarsvæðisins ?
og
· Hvers vegna á að byggja- upp þekkinarsetur á landsbyggðinni ?
Svörin við þessum spurningum tengjast með skýrum hætti áherslum iðnaðarráðuneytisins um heildstæða og öfluga stefnu í atvinnu- og byggðamálum.
Þessar áherslur endurspeglast í umfjöllun OECD um samkeppnishæfni, þar sem rík áhersla er lögð á að samfella sé á milli atvinnu- og byggðamála og að í því sambandi þurfi sérstaklega að stefna að því :
- að auka samstarf atvinnulífs, háskóla og rannsóknastofnana;
- að byggja upp vísindagarða;
- að efla klasa-samstarf.
Segja má að þessi atriði séu kjarninn í sókn atvinnulífs og svæða til aukinnar samkeppnishæfni og vaxtar, í framtíð þar sem byggða- og svæðamál eru orðin samofin stefnu stjórnvalda í málum er varða atvinnuþróun, rannsóknir og nýsköpun og mynda þar eina heild.
Iðnaðarráðuneytið hefur lagt áherslu á þessi atriði sem m.a. endurspeglast í svæðisbundnum vaxtarsamningum, þar sem áhersla er lögð á sérstöðu og styrkleika hvers landsvæðis og samkeppnishæfni atvinnulífsins á hverjum stað. Þetta er í samræmi við áherslur erlendis, jafnt í stórum sem smáum hagkerfum
II
Ekki eru þó allir sammála um þessar áherslur og sennilega hefur ekki farið fram hjá neinum að ýmsir þingmenn hafa verið ósparir á yfirlýsingar um frumvarp ríkisstjórnarinnar um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun. Þetta heiti frumvarpsins lýsir innihaldi þess nokkuð vel, en í hnotskurn fjallar það um framsæknar hugmyndir um þekkingarsamfélög á Íslandi – eins og yfirskrift þessarar ráðstefnu er.
Með frumvarpinu er að því stefnt að öll aðkoma iðnaðarráðuneytis að tæknirannsóknum, nýsköpun og atvinnuþróun verði endurskipulögð, samræmd og felld í eina stofnun - Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Tilgangur þess er að efla sóknarkraft og tryggja hámarks árangur þessa málaflokks. Hvatinn að sameiningunni er fyrst og fremst þörf fyrir sterkari rannsókna- og starfseiningar og vaxandi krafa um sveigjanleika og árangur.
Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður þekkingarsetur og er þar m.a. byggt á hugmyndum Fræðaseturs Háskóla Íslands – og Rögnvalds Ólafssonar. Þekkingarsetur í þeim skilningi sem boðaður er í frumvarpinu er þó nokkuð víðtækari en almennt gerist og er þá horft til þess sem erlendis er nefnt Centers of Expertice, - þar sem vísinda- eða tæknigarðar skipa veglegan sess í kjarna starfseminnar. Í slíkum þekkingarsetrum tengjast saman staðbundnar rannsóknir sem hafa tengsl við rannsóknir í háskólum og háskólasetrum annarsvegar og þróunarstarfsemi fyrirtækja hinsvegar. Þar verður miðstöð upplýsinga og leiðsagnar fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem fást við hverskonar nýsköpunarvinnu. Þar verður að finna frumkvöðlasetur sem aðstoðar sprotafyrirtæki og frumkvöðla við þróun nýsköpunarhugmynda og veitir þeim aðstoð við að vaxa fyrstu rekstrarárin. Í hnotskurn er því hér um að ræða - að kalla fram öll þau margvíslegu samlegðaráhrif sem nábýli mismunandi fagsviða getur leitt af sér.
III.
Efling starfseminnar um landið er ein af forsendum þessara breytinga. Þekkingarsetur á landsbyggðinni verða þungamiðja atvinnusóknar sem einkum munu byggja á helstu styrkleikum atvinnulífsins á viðkomandi svæði og getu til að ná árangri á alþjóðlegum samkeppnismarkaði. Einkum er horft til uppbyggingar þekkingarsetra á Akureyri, Ísafirði og á Egilsstöðum (Miðausturlandi), enda hefur styrking landshlutakjarna á þessum stöðum verið eitt af markmiðum byggðaáætlunar stjórnvalda. Háskólasetur Vestfjarða og Þekkingarnet Austurlands mynda nú þegar vaxtargrunn í þekkingarsetrum. Háskólinn á Akureyri og sú starfsemi sem fer fram í Rannsókna- og nýsköpunarhúsinu og enn frekari vöxtur rannsókna og nýsköpunarstarfsemi í væntanlegum Vísindagarði er sú umgerð sem mun mynda kjarna starfseminnar á Norðurlandi.
Það er ljóst að með þessum tillögum vill iðnaðarráðuneytið blása til nýrrar sóknar í rannsóknum og atvinnuþróun um allt land. Slíkrar sóknar og endurnýjunar er þörf enda eru framfarir örar, og til að njóta áfram bættra lífskjara verða að koma til nýjar áherslur sem atvinnuþróunin getur byggt á.
IV.
Með nýrri stefnu í byggðamálum 2006-2009, sem var samþykkt samhljóða á Alþingi, fyrr í þessum mánuði eru þessar áherslur einnig ríkjandi. Grunntónnin þar er að sóknin í atvinnumálum landsbyggðarinnar þurfi í auknu mæli að byggjast á eflingu menntunar, rannsókna og nýsköpunar. – Ekki hverri fyrir sig – heldur samþætt - í einni heildarsýn á framsækin markmið fyrir framtíðina.
Vaxtarsamningar eru tæki til að koma þessu fjölþætta samstarfi í framkvæmd, en slíkir samningar eru komnir í rekstur á Eyjafjarðarsvæðinu og Vestfjörðum, og sambærilegir samningar eru í undirbúningi á Norðurlandi vestra, Austurlandi, Vesturlandi og á Suðurlandi.
Með tilkomu vaxtarsamninga hefur sú meginbreyting orðið að stefnumótun í framfaramálum landsbyggðarinnar er ekki lengur miðlæg í Reykjavík – heldur hefur ábyrgð á stefnumótun og einnig framkvæmd aðgerða fluttst heim í héruð enda eru heimamenn augljóslega best hæfir til að ráða fram úr eigin málum.
V.
Ágætu ársfundargestir
Það verður ekki horfið frá þessari umfjöllun án þess að spurningunum sem ég dró fram í upphafi erindis míns verði svarað í stuttri samantekt hér í lokin.
Fyrri spurningin var:
· Hvaða gagn er af þekkingarstarfi utan höfuðborgarsvæðisins ?
Svarið við henni er að minnsta kosti tvíþætt:
Annars vegar vísar hún til þess hrokafulla og skammsýna sjónarmiðs að ekkert dugi nema það sé fyrir sunnan – og gildi það þá jafnt fyrir þekkingar-öflun og þekkingar-störf.
Hins vegar vísar hún til þess almenna kunnáttuleysis - sem sennilega er á undanhaldi – að þekkja ekki margbreytileika íslensks samfélags menningarlegan margbreytileika og atvinnutengdan margbreytileika – sem er auðlegð sem er bæði vanmetin og vannýtt.
Síðari spurningin var:
· Hvers vegna á að byggja upp þekkinarsetur á landsbyggðinni ?
Þessi spurning er öllu praktískari en sú fyrri – en í stuttu máli er svarið ósköp einfalt : Það á að byggja upp þekkingarsetur á landsbyggðinni til þess að ná meiri árangri – þar á meðal í menntum, menningu, vísindum, tækni, atvinnuþróun og almennum velferðarmálum íbúanna.
Svo mörg voru þau orð
Þetta er síðasta ræðan sem ég flyt sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra þar sem ég mun láta af því embætti á morgun.
Ég hef haft sanna ánægju af starfinu. Mín bíða önnur mikilvæg verkefni í öðru ráðuneyti.
Ég færi mig þangað full tilhlökkunar.
Megi ykkur vegna vel í ykkar mikilvægu störfum.