Svar vegna greinar Kristjáns Guðmundssonar, um Slys og afleiðingar þess, í Morgunblaðinu 3. júlí 2006
Hér fara á eftir nokkur atriði sem samgönguráðuneytið vill taka fram í framhaldi af grein Kristjáns Guðmundssonar, fyrrverandi skipstjóra, í Morgunblaðinu 3. júlí síðastliðinn þar sem hann fjallar um slys og afleiðingar þess.
Vegna spurninga Kristjáns Guðmundssonar, fyrrverandi skipstjóra, í grein í Morgunblaðinu 3. júlí þess efnis hvenær samgönguráðuneytið muni gangast fyrir því að settar verði reglur um öryggi sjófarenda á skemmtibátum og hvort ekki sé rétt að skylt verði að tryggja gagnvart hugsanlegu tjóni af völdum skemmtibáta vill samgönguráðuneytið taka fram eftirfarandi:
1) Að undanförnu hefur verið unnið að því að koma á ákveðnum reglum um skemmtibáta. Upphaflega var gerð tilraun til að setja sérstakar reglur um skemmtibáta með frumvarpi til laga sem lagt var fram á Alþingi árið 2002. Ekki náðist samstaða um afgreiðslu frumvarpsins. Síðastliðið vor var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa og annarra skipa þar sem tekið var á þessum málum en frumvarpið hlaut því miður ekki heldur afgreiðslu. Gert er ráð fyrir að málið verði tekið upp að nýju á Alþingi á hausti komanda.
2) Samkvæmt 11. gr. frumvarpsins var lagt til að þeir sem hyggjast stjórna skemmtibát skuli afla sér þar til gerðra réttinda, að undangengnu námskeiði samkvæmt námsskrá sem menntamálaráðuneytið setur að fenginni umsögn Siglingastofnunar Íslands. Gengið er út frá því að Siglingastofnun Íslands gefi út skírteini til stjórnunar skemmtibáta að fullnægðum skilyrðum um menntun og þjálfun, aldur, siglingatíma, heilbrigði, sjón og heyrn. Lagt var til að aldursmarkið yrði sett við 18 ár hvað varðar skipstjórnarréttindi til stjórnunar skemmtibáta sem eru 10 metrar eða minni að stærð en við 20 ár varðandi stærri báta. Gert er ráð fyrir heimild samgönguráðherra til að setja frekari reglur um skemmtibáta í reglugerð. Slík reglugerð hefur verið í vinnslu í nánu samráði við hagsmunaaðila, þ.e. fulltrúa skemmtibátaeigenda.
3) Minnt skal á að í gildi eru reglur um skoðanir á skemmtibátum og búnaði þeirra og skal Siglingastofnun gefa út haffærisskírteini í samræmi við fyrirmynd sem hún ákveður. Til eru Norðurlandareglur um smíði og búnað báta með mestu lengd allt að 15 metrum sem byggðar eru á kröfum sem gilt hafa á undanförnum árum um öryggi skoðunarskyldra báta á Norðurlöndunum, þ.m.t. ákveðinna tegunda skemmtibáta. Reglurnar eru lágmarksreglur og getur sérhvert Norðulandanna því sett strangari kröfur ef svo ber undir, t.d. vegna óhappa, séraðstæðna eða af öðrum ástæðum. Settar hafa verið ýmsar sérkröfur á Íslandi umfram kröfur Norðurlandareglnanna. Ísland hefur þá sérstöðu m.a. að hér á landi gilda reglurnar sem krafa fyrir alla báta, en á hinum Norðurlöndunum er þetta frjálst val fyrir báta undir ákveðnum mörkum. Að auki hefur verið sett reglugerð um skemmtibáta nr. 168/1997, með síðari breytingum.
4) Siglingalög, nr. 34/1985, með síðari breytingum, gilda um öll skip sem skráð eða skráningarskyld eru á Íslandi, þar með talda skemmtibáta. Lagðar eru ákveðnar skyldur á skipstjóra samkvæmt lögunum án þess þó að hugtakið skipstjóri sé skilgreint þar sérstaklega. Samkvæmt eðli máls og orðanna hljóðan má ætla að skipstjóri sé sá sem fer með æðsta vald um borð í skipi. Samkvæmt því er einungis einn skipstjóri á hverju skipi. Skipstjóri ber ábyrgð á því skv. 6.gr. siglingalaga að skip sé haffært og að það sé vel útbúið, nægilega mannað og búið vatni og vistum til fyrirhugaðrar ferðar, auk öryggisbúnaðar eftir þeim ákvæðum í lögum og reglugerðum sem um hann gilda. Samkvæmt sömu reglu hvílir sú skylda á skipstjóra að gera allt það sem hann má til að halda skipi haffæru á ferð. Samkvæmt 7. gr. laganna ber skipstjóra að annast um að skipi sé stjórnað og með það farið í samræmi við góðar venjur og kunnáttu í siglingum og sjómennsku. Ef skip kemst í sjávarháska er skipstjóra skylt að gera allt sem hann má til bjargar mönnum, skipi, farmi og öðrum fjármunum sem á skipi eru og leita sér til þess hjálpar sem nauðsyn krefur, skv. 11. gr. laganna. Jafnframt hvílir sú augljósa skylda á hverjum skipstjóra að hann kunni á siglingatæki og öryggisbúnað þess skips sem hann stýrir, ekki síst áttavita, GPS-staðsetningartæki og talstöð. Þá ber skipstjóri ábyrgð á að um borð séu neyðarsendir, neyðarblys, björgunarvesti og björgunarbátur, vita hvar sá búnaður er geymdur og kunna að nota hann ef slys ber að höndum. Einnig er nauðsynlegt að skipstjóri hafi lágmarksþekkingu í siglingafræði og að um borð sé sjókort. Í siglingalögum eru ákvæði um ábyrgð útgerðarmanns á kröfum vegna lífs- eða líkamstjóns þeirra sem ráðnir eru í skiprúm hjá honum og er útgerðarmanni skylt að kaupa slíkar tryggingar. Þá segir í lögum um eftirlit með skipum að ekki skuli gefa út haffærisskírteini eða annað jafngilt skírteini fyrir skip sem er undir 20 brúttótonnum nema fyrir liggi yfirlýsing tryggingafélags um áhafnatryggingu. Ekki er sérstakur áskilnaður í lögum eða reglum um skyldu eiganda eða stjórnanda skemmtibáts til að kaupa tryggingu vegna lífs- eða líkamstjóns þeirra sem um borð eru. Í ráðuneytinu fer nú fram skoðun á því hvort ástæða sé til að áskilja slíka tryggingu, jafnvel þótt um sé að ræða ástundun tómstundargamans áhugafólks um skemmtisiglingar í mörgum tilvikum.
5) Samþykktar voru breytingar á siglingalögum á Alþingi sl. vor með lögum nr. 101/2006, þar sem inn komu ákvæði um að reyni skipverji eða annar starfsmaður sem hefur með hendi starfa í skipi að stjórna því en sé óhæfur vegna neyslu áfengis, ofskynjunarefna, örvandi eða deyfandi lyfja eða þreytu sé það refsivert.
Af þessu má sjá að þegar eru í gildi ákveðnar reglur varðandi stjórn og útgerð skemmtibáta og stefnt er að því að koma þeim málum í enn öruggari farveg með því að taka upp í lög ákvæði um að stjórnendur skemmtibáta skuli hafa aflað sér tilskilinna réttinda.
Lesa má úr greinarskrifum höfundar að ítrekaðar ábendingar hafi verið sendar ráðuneytinu varðandi lög og reglugerðir um öryggi sjófarenda og öryggismál skemmtibáta. Ekki er ljóst af greinarskrifum hvort höfundur er þar að vísa til ábendinga sem eru frá honum sjálfum komnar eða öðrum aðilum. Það skal tekið fram að gefnu tilefni að ráðuneytið hefur ekki fengið ábendingar frá greinarhöfundi varðandi skemmtibáta sérstaklega. Eins og greint var frá hér að framan hefur ráðuneytið hins vegar verið í samvinnu við Siglingastofnun Íslands og hagsmunaaðila að vinna að frekara regluverki um öryggismál skemmtibáta. Öðrum erindum greinarhöfundar hefur verið svarað að mati ráðuneytisins.