Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. september 2006 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Raunhæfasta slysavörnin er bætt hegðan okkar sjálfra

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra flutti eftirfarandi ávarp á borgarafundi í Hallgrímskirkju í gær. Boðskapur hans var lesinn á hinum fundunum sex sem haldnir voru á sama tíma en fundirnir voru liður í viðbrögðum samgönguráðuneytis og Umferðarstofu vegna tíðra umferðarslysa.

Þeir sem lásu ávarp ráðherra voru í Borgarnesi Stefán Skarphéðinsson sýslumaður, á Ísafirði Kristín Völundardóttir, settur sýslumaður, á Akureyri Björn Jósef Arnviðarson sýslumaður, á Egilsstöðum Lára Huld Guðjónsdóttir, staðgengill sýslumanns, á Selfossi Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður og í Reykjanesbæ Jóhannes Jensson lögreglumaður.

Kæru samkomugestur. Þau hafa látist í umferðarslysum á árinu:

Pétur Sigurðsson 59 ára

Þórey Guðmundsdóttir 17 ára

Halla Margrét Ásgeirsdóttir 15 ára

Guðrún Jónsdóttir 18 ára

Sesar Þór Viðarsson 19 ára

John Joseph Cramer 47 ára

Hallgrímur Páll Guðmundsson 34 ára

Sigrún Kristinsdóttir 20 ára

Heiðar Þórarinn Jóhannsson 52 ára

Þórður Björnsson 83 ára

Birkir Hafberg Jónsson 26 ára

Rósa Guðmundsdóttir 36 ára

Linda Björg Rafnsdóttir 16 ára

Jóhann F. Ingibjörnsson 34 ára

Guðmundur A. Ómarsson 21 árs

Dariusz Wojewoda 25 ára

Eugeniusz L. Lojko 47 ára

Bryndís Zophaníasdóttir 74 ára

Unnur Bettý Guðmunsdóttir 18 ára

 

Nítján manns hafa látist í umferðarslysum það sem af er árinu. Við söfnumst saman hér í dag þeirra vegna. Þetta er okkur ríkulegt tilefni til þess að koma saman og leggja á ráðin. Hvað getum við gert?

Við minnumst þeirra sem látist hafa og alls þess sem þau misstu af vegna þess að þau eru ekki lengur á meðal okkar. Við minnumst líka fjölskyldna þeirra og vina sem hafa misst mikið. Við köllum til funda víðsvegar um landið til að minna okkur á þessa alvöru.

Við hrökkvum við þegar við fáum fréttir af banaslysum og fyllumst ónotum. Hver verður næstur?

Akstri fylgir mikil ábyrgð. Við höfum hrokkið við vegna slysaöldu. En hvað svo? Fellur allt í sama farið? Gleymum við þessari alvöru og þessari ábyrgð okkar þegar frá líður? Látum það ekki henda okkur.

Við spyrjum getum við spyrnt við fótum?

Já, það er hægt. En það gerist ekki nema við sjálf gerum eitthvað. Enginn annar gerir það fyrir okkur. Raunhæfasta slysavörnin er bætt hegðan okkar sjálfra í umferðinni. Ýmislegt annað þarf einnig að koma til svo sem ýmsar aðgerðir stjórnvalda. Í þeim efnum þarf að herða á nokkrum atriðum:

 

  • Lögreglan ætlar að auka enn frekar umferðareftirlit.
  • Flýtt verður uppsetningu hraðamyndavéla á fjölförnum þjóðvegum .
  • Flýtt verður sérstökum umferðaröryggisaðgerðum á Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi út frá höfuðborgarsvæðinu þar sem mörg alvarleg slys hafa orðið.
  • Taka verður á því ofbeldi sem blasir við okkur í umferðinni nánast daglega. Liður í því er að endurskoða refsingar við umferðarlagabrotum og er það verkefni þegar hafið.
  • Jafnframt er þjóðarnauðsyn að auka umferðarfræðslu í grunnskólum og framhaldsskólum til að innprenta nemendum siðferði og ábyrgð í umferðinni.

 

Fæst af þessu er í sjálfu sér nýtt en ástæða er til að flýta aðgerðum og fylgja þeim fast eftir. Við þurfum alltaf á brýningu að halda.

Hraðakstur á íslenskum vegum er staðreynd sem við þurfum að stöðva. Mælingar sýna að á Vesturlandsvegi við Esjumela óku 227 ökumenn á yfir 150 km hraða í ágúst. Af þeim voru 67 yfir 190 km hraða. Við sjáum svipaðar tölur annars staðar. Mikill hluti slysa er vegna hegðunarvanda okkar í umferðinni og við ein getum breytt því.

Við verðum að hætta þessu. Við skulum því öll taka undir áskorun Umferðarstofu á netinu um að við ætlum að bæta okkur í umferðinni. Þar segir:

 

§         Ég hyggst fara að lögum í umferðinni.

§         Ég ætla að gera allt sem ég get til að skaða hvorki mig né aðra í umferðinni.

§         Ég ætla að auðvelda öðrum vegfarendum að komast leiðar sinnar á sem öruggastan hátt.

§         Ég ætla að hvetja þá sem mér þykir vænt um til að gera slíkt hið sama.

 

Við getum auðvitað öll skrifað undir þetta. Við Íslendingar fáum miklu áorkað þegar við leggjumst á eitt. Nú segjum við stopp.

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta