Útskrift Stóriðjuskólans í Straumsvík
Ágætu Straumsvíkingar, forstjóri, aðrir stjórnendur og starfsmenn, aðrir tilheyrendur
Ég hef mál mitt með því að óska námsmönnum Stóriðjuskólans til hamingju með fenginn áfanga og glæsilegan árangur. Þetta er vitanlega stund og dagur námsfólksins, fagmannanna sem hér fagna og við fögnum með þeim.
Skóli er umfram allt annað námsfólkið sem þar leggur sig fram í sameiginlegum verkefnum. Í skóla skapast félagsandi og samkennd og þar verða til dýrmætar endurminningar, hvort sem bernska, æska eða þroskaár eiga í hlut.
Hér á þessu setri ræður metnaður og myndarskapur. Slík hefur verið og er stefna fyrirtækisins, og slík hefur verið reynsla samfélagsins af iðjuverinu í Straumsvík alla tíð. Hér hefur verið og er stærsta flaggskip íslensks iðnaðar allan síðari hluta síðustu aldar og það sem liðið er af nýrri öld.
Í iðnaðinum eru mynduð og sköpuð verðmæti bæði handa og hugar. Iðnaður nútímans er allur þekkingarstarfsemi, allur tækniþróunarverkefni og meira eða minna djarfleg nýsköpunarverkefni.
Allt er þetta reynsla og nám og nýtt og nýtt landnám í heimi framleiðslu, tækni og nýsköpunar. Verðmæti vörunnar sem framleidd er eru vissulega áþreifanleg, en um leið felast þau í þekkingu, vandvirkni, nákvæmni, og í tækni og vísindum sem að baki liggja.
Verðmæti þekkingar, kunnáttu og þjálfunar lifa og dafna í starfsmönnunum, í fólkinu sem heldur framleiðslunni gangandi og mótar þannig lífskjarasókn þjóðanna. Þessi mannauður, sem er annað heiti á þessu, er grundvöllur og forsenda þeirrar framtíðar sem við viljum öll stefna að.
Í þessum skilningi verður fræðslustarfsemin þá undirstöðuatvinnuvegur allra hinna. Og í þessu sjáum við þá líka að í raun og veru eru skilrúmin milli skóla, rannsóknastofnunar og iðjuvers að hluta til aðeins ásýnd, aðeins hagkvæm skilgreining í orðræðu. Í raun og veru er
verksmiðjugólfið auðvitað rannsóknastofa sem skapar nýja þekkingu, nýja reynslu, ný vísindi og nýja tækni.
Einmitt í þessu verður það augljóst að það er sameiginlegur hagur fyrirtækisins, starfsmannanna og allrar þjóðarinnar að fyrirtæki standi fyrir starfsfræðslu og menntun af þeim metnaði og myndarskap sem hér má sjá.
Stóriðjuskólinn í Straumsvík hefur starfað í tæpna áratug, allt frá 1998. 160 starfsmenn hafa lokið grunnnámi og einir 12 nú í dag. Auk þess hafa 11 lokið framhaldsnámi.
Námsbraut Stóriðjuskólans hefur að verðleikum hlotið staðfestingu menntamálaráðuneytisins sem hluti af námsskrá framhaldsskólastigsins, en það er m.a. mikilvægt til þess að einstaklingurinn fái námið metið og viðurkennt hvarvetna þar sem leiðir hans kunna að liggja í lífi, starfi og námsferli.
Það er ástæða til að nefna tvo sérstaka þætti námsins sem miklu skipta, auk eiginlegra faglegra og almennra námsþátta. Þá á ég við þá miklu áherslu sem lögð er annars vegar á öryggisþætti og hins vegar á gæðastjórnun.
Þessir tveir þættir eru alger grundvallaratriði eins og námsbraut Stóriðjuskólans ber með sér. Það er vitað að þekking starfsmanna á þessum sviðum hefur þegar skilað ómetanlegum árangri hér á iðjusetrinu í Straumsvík. Það er geymt en alls ekki gleymt, bæði meðal starfsmanna og einnig stjórnenda fyrirtækisins.
Með áherslu á fræðslu og þjálfun, á mannauðinn, er fyrirtækið um leið að tryggja að virðisaukinn í framleiðslunni berist beint til fólksins, sem hæfileikar og geta sem eflir og styrkir mennina í öllu lífi þeirra.
Þetta, að miðla verðmætasköpuninni til fólksins, er kjarni í iðnaðarstarfsemi og í allri skynsamlegri auðlindanýtingu. Hér á alls ekki að vera um andstæður að ræða, heldur þvert á móti samstæður og samfylgd. Fyrirtækin og fólkið eiga að leitast við að finna sameiginlegan hag og geta fundið hann allri þjóðinni til hagsbóta.
Alveg á sama hátt þarf að leggja áherslu á samstæðu og samfylgd, þrátt fyrir lýðræðislegan ágreining, þegar kemur að ákvörðunum um iðnaðarþróun og skynsamlega og hófsamlega nýtingu auðlinda landsins.
Okkur ber að sjá þetta allt í einni samstæðu, nýtingu og vernd auðlinda og fagurrar náttúru, sjálfbæra þróun og nýtingu hreinna orkugjafa, - og í sama vetfangi gróandi þjóðlíf, frjálst vel menntað og þjálfað starfsfólk og stjórnendur, og gróandi menningarlíf og þjóðlíf í landinu inn í framtíðina.
Þetta er líka kjarni málsins. Þetta er líka hluti af framlagi Alcan í Straumsvík sem birtist hér í dag. Og þetta er vissulega þáttur í þeim skerfi sem námsmennirnir sem við samfögnum í dag hafa lagt til málanna og munu áfram leggja fram í störfum og annarri þátttöku.
Ég óska ykkur, náms- og starfsmenn Alcan í Straumsvík, svo og fyrirtækinu og Stóriðjuskólanum aftur innilega til hamingju með áfanga þessa dags.