Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. febrúar 2007 MatvælaráðuneytiðJón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2006-2007

Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur 140 ára

Forseti Íslands, heiðruðu tilheyrendur

Í dag er hér dagur verðlauna og brautskráningar nýsveina. Mig langar að þessu tilefni að hefja mál mitt með því að óska ykkur öllum til hamingju, nýsveinar, og þá alveg sérstaklega þeim sem unnið hafa með samviskusemi og dugnaði til verðlauna.

Jafnframt er nú áfangi í sögu Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík, og ég vil einnig óska félaginu og forráðamönnum þess innilega til hamingju með daginn.

Þessi athöfn er í mörgum skilningi uppskeruhátíð fræðslunnar. Iðnnám og verkmenntir eru grundvallarþáttur í framþróun atvinnulífs og lífsgæða fyrir almenning. Þess vegna er líka ástæða til að minnast nú þeirrar sérstöðu sem starfsmenntun, iðnmenntun og starfsþjálfun hefur í menntakerfi og fræðslumálum þjóðarinnar.

Öll fræðsla, allt skólastarf, er auðvitað starfsmenntun í einhverjum skilningi. Öll menntun stefnir að heilsteyptum hamingjusömum einstaklingum og öflugri siðmenntaðri menningarþjóð. En iðnmenntunin og önnur starfsmenntun í þrengra skilningi er þó nánara og nær tengd lífsbjörginni sjálfri og beinu efnislegu framlagi til lífskjara og framþróunar í landinu heldur en ýmsar aðrar námsbrautir, og ætla ég þó alls ekki að efna í neinn meting hér.

En ég minni á þetta vegna þess að, - satt að segja -, hafa iðnmenntir og aðrar starfsmenntir ekki hingað til notið þeirrar virðingar eða þeirrar áherslu sem verðugt og skynsamlegt er fyrir þjóðina. Nýlega var birt greinargerð á vegum menntamálaráðuneytisins um þessi efni sem boðar ný og skynsamleg viðhorf í þessum efnum og vil ég fagna henni sérstaklega.

Við hljótum að stefna að eflingu iðnmenntunar og verkmennta á komandi árum vegna mikilvægis þeirra. Að ýmsu leyti höfum við á umliðnum árum lifað umbrotatíma í fræðslumálum og það hefur að einhverju leyti bitnað á verkmenntum, iðnnámi og starfsfræðslunni.

Nú erum við að ganga í gegnum háskólabyltingu sem er glæsileg og mjög mikilvæg fyrir okkur sem metnaðarfulla nútímaþjóð. En næst hlýtur röðin að koma að verkmenntunum, með því að þeim verði til dæmis skipað á hærra fræðslustig heldur en verið hefur - vegna mikilvægis þeirra, vegna forsendna námsmannanna sem flestir eru áður búnir með mikinn hluta framhaldsskólans eða hafa lokið framhaldsskólanámi með öllu. Auk þess skiptir það meginmáli að slík breyting er í samræmi við hagsmuni atvinnulífsins og mætir þörfum þess.

Ég er þá að tala um það að Íslendingar stofni starfsmenntaháskóla sem sjálfstæða stofnun eða hluta stærri heildar, en slíkir háskólar hafa fyrir löngu unnið sér sterkan sess í menntakerfum nágrannaþjóðanna. Þjóðverjar tala um Fachhochschule og Berufsakademie, enskumælandi þjóðir um technical college og norrænar þjóðir um yrkeshögskola.

Saga Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík er merkilegur þáttur atvinnusögunnar og iðnvæðingarinnar sem er upphaf og þróun nútímans á Íslandi. Og skerfur félagsins er ekki síður mjög merkilegur og aðdáunarverður. Félagið hefur lengi haft forgöngu og frumkvæði um fræðslumál á sviði verkmennta og iðnfræðslu.

Öll þessi viðleitni og öll þessi mikla fræðslu- og þjálfunarstarfsemi sem ég var að ræða um í orðum mínum er afkvæmi Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík. Sögulegt mikilvægi þessarar viðleitni er óumdeilanlegt og ómetanlegt fyrir þjóðina.

Það er svo sannarlega verðugt að þessa sé minnst og fyrir það þakkað. Það verður seint nógsamlega gert.

Nú má segja að í iðnaðinum sé um fjórðungur starfanna í landinu og útflutningsverðmæti iðnvöru tæp 40 % af vöruútflutningi. Mikilvægi iðnaðarins er ótvírætt, og hef ég þá ekki gert neina grein fyrir mikilvægi allra þeirra iðngreina sem þjóna innlendum markaði. Nýsköpun er forsenda framfara í landinu, og hún á sér einmitt fyrst og fremst stað í iðntækni, í tækni sem byggist á vönduðu fræðslustarfi og menntun og afurðum vísindalegra rannsókna. Þetta á jafnt við um margar hefðbundnar iðngreinar sem verksmiðjuiðn og orkufrekan iðnað.

Forsendur nútímans voru vitaskuld í vélvæðingunni og iðnvæðingunni. Forsendur framtíðarinnar eru í fræðslu og tækni. Í þessu sjáum við í hnotskurn gildi þessarar samkomu í dag, gildi þess að sýna námsfólkinu virðingu, og gildi þess að muna og meta starf Iðnaðarmannafélagsins.

Ég þakka fyrir boðið að koma hingað til ykkar. Mér er heiður að því að fá tækifæri til að vera hér með ykkur.

Ég endurtek hamingjuóskir til námsmannanna og til Iðnaðarmannafélagsins

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta