Eyrarrósin 2007
Forseti Íslands, forsetafrú Dorrit Moussaieff
ágætu tiheyrendur aðrir
Við erum hér saman komin á hátíðlegum stað og að hátíðlegu og ánægjulegu tilefni
Samningar um Eyrarrósina svonefndu eru merkilegt framlag. Þeir eru í rauninni handtak borgar og byggða í sameiginlegu verki.
Íslensk menning er uppvaxin um land allt, í öllum byggðum landsins, og hefur fengið kraft sinn og þroska úr erfiði þjóðarinnar og úr sérstæðu safaríku umhverfi lands, lofts og lagar sem hafa mótað íslensku þjóðina um aldir.
Og þjóðmenning okkar hefur eflst og magnast í vexti höfuðborgarinnar nú á síðustu tímum og einmitt um þessar mundir með einstaklega glæsilegum hætti í hvers konar menningarframtaki, listsköpun og listtúlkun svo að aðdáun hlýtur að vekja.
Þannig er þetta sameiginlega handtak, eyrarrósin, svo táknrænt, svo eðlilegt, og svo ánægjulegt.
Í þessu handtaki mætast allar byggðir landsins, Listahátíðin mikla og Byggðastofnun og tengiliðurinn Flugfélag Íslands.
Byggðastefnan hvílir ekki síst á tveimur stoðum. Annars vegar stefnir hún að jafnræði allra landsmanna í öllum byggðum landsins, jafnræði á öllum sviðum eftir því sem því verður frekast við komið. Hins vegar felur byggðastefnan það í sér að áhersla verður lögð á frumkvæði og forsjá heimamanna í verkefnum, og þá erum við í dag helst að huga að menningarverkum og listviðburðum.
Eyrarrósin felur þetta greinilega í sér. Nú er komin 3ja ára reynsla á hana og ánægja með árangurinn og nýr samningur um 2 ár áfram er staðfestur hér í dag. Þessi samningur á að tryggja aðgengi og þátttöku víða um landsbyggðina að að viðburðum með afburða listafólki.
Þetta samstarf Listahátíðar og Byggðastofnunar og Flugfélagsins er til fyrirmyndar og eftirbreytni.
Íslensk menning er að mörgu leyti eyrarrós, sambærileg við þetta merkilega íslenska blóm. Blómið hefur blöð og blóm í litum sem skera sig úr, grænleit blöð og rauðleit blóm með bleikum blæ. Eyrarrósin skartar sínu í grýttum skriðum og á gráum áreyrum. Hún vex og dafnar, ekki stærri eða viðameiri en hún er, í sínu harða og erfiða umhverfi.
Og nú elur hún af sér list og sköpun og fegurð, og það er einmitt táknrænt. Þessu öllu svipar til þjóðarinnar sem nú á sér þessa glæsilegu velmektartíma og heldur uppi öllu þessu frábæra listastarfi, menningarlífi og sköpun.
Þetta allt heyrir saman og á saman hvað með öðru, þjóðin, landið, listin og eyrrarósin. Og þess vegna er þessi stund líka ánægjustund.
Ég vil að lokum þakka forsetafrúnni, Dorrit Moussaieff, fyrir áhuga hennar og aðild að þessu máli.
Og ég óska öllum til hamingju með árangurinn, og með samningana sem nú eru staðfestir, og þá auðvitað óska ég einkum þeim til hamingju sem hér hljóta nú verðskuldaða viðurkenningu í dag