Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. febrúar 2007 MatvælaráðuneytiðJón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2006-2007

Nýsköpunarþing RANNÍS og Útflutningsráðs Íslands

Ágætu tilheyrendur á Nýsköpunarþingi Rannís og Útflutningsráðs Íslands

Það er mér heiður að fá tækifæri til að koma hingað og ávarpa ykkur.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hefur á síðustu árum breyst í nýsköpunarráðuneyti. Þessi áherslubreyting tengist framþróun viðskiptalífsins, orkumarkaðarins, gerð vaxtarsamninga um byggðaþróun, og fleiri slíkum áföngum í þróun mála.

Þegar við lítum yfir framvindu síðustu ára, sjáum við að störfum fjölgar jafnt og þétt hjá fyrirtækjum sem við - fyrir tíu til tuttugu árum síðan - vissum ekki einu sinni að yrðu nokkru sinni til hér á landi. Á sama tíma heltast mörg eldri fyrirtæki úr lestinni og gamalgróin fyrirtæki fækka starfsliði til að mæta kröfum um aukna hagræðingu og tækniþróun.

Þetta sýnir okkur í hnotskurn mikilvægi nýsköpunar í samfélaginu. Nýsköpun felur það í sér að tilraunir, vísindi og tækni, svo og þekking, útsjónarsemi og þjálfun mannanna, eru notuð til þess að finna nýjar leiðir í stað þeirra sem áður voru farnar. Þannig er sífelld og virk nýsköpun forsenda framþróunar og batnandi lífskjara og gróandi þjóðlífs í nútíð og framtíð.

En atvinnulífið þróast því aðeins að hér sé stöðug nýsköpunarstarfsemi, sem byggist meðal annars á því að fyrir hendi séu öflug rannsókna- og menntakerfi - ekki hvað síst rannsóknir á háskólastigi. Tengslin á milli háskólakennslu og rannsókna annars vegar og nýsköpunarstarfsemi fyrirtækja skipta hér meginmáli, en Vísinda- og tækniráð hefur m.a. lagt áherslu á myndun slíkra tengsla á milli allra þeirra sem að rannsóknum og nýsköpun koma.

Vísinda- og tækniráð hefur starfað í fjögur ár eða frá árinu 2003. Fyrir þann tíma var stefnumótun stjórnvalda unnin í hverju ráðuneyti fyrir sig án teljandi samráðs, þrátt fyrir að málaflokkar þeirra væru nátengdir og sköruðust jafnvel. Þannig var stefnumótun í málefnum mennta og vísinda alfarið á verksviði menntamálaráðuneytis sem miðaði ekki sérstaklega við stefnumótun atvinnumálaráðuneytanna sem á sama hátt fóru - hvert um sig - sína sjálfstæðu leið. Sagt er að almennt hafi lítið farið fyrir samráði um framkvæmdir en stundum togast á um forræði mála sem lágu á mörkum ráðuneytanna.

Í hugum þeirra sem starfað hafa í Vísinda- og tækniráði er þessi staða nú langt að baki. Vísinda- og tækniráð hefur sameinað krafta margra ráðuneyta í heildstæðri stefnumótun og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Fyrir nýsköpun atvinnulífsins er sennilega mikilvægasta nýjungin sem fylgdi Vísinda- og tækniráði sú að til varð nýr sjóður Tækniþróunarsjóður til að styrkja framsæknar nýsköpunarhugmyndir. Þá fékk Nýsköpunarsjóður atvinnulífisins einn milljarð af söluandvirði Símans fyrir rúmu ári til að auka getu sína til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum Auk þess mun Nýsköpunarsjóður fá allt að einum og hálfum milljarði á næstu tveimur árum til að stofna samlagssjóð með öðrum framtaksfjárfestum en þetta mun styrkja stöðu nýsköpunar enn frekar.

Af áherslum Vísinda- og tækniráðs um þessar mundir vil ég einkum leggja áherslu á tvennt. Fyrra atriðið lýtur að mikilvægi þess að auka nýsköpun í starfandi fyrirtækjum, en í alþjóðlegum samanburði, t.d. nýlegri matsskýrslu OECD um íslenska nýsköpun, er ítrekað bent á að einn helsti veikleikinn sé skortur á rannsóknum og tækniþróun í starfandi fyrirtækjum. Mikilvægt er að starfandi fyrirtæki sinni nýsköpun sem hluta af reglulegri starfsemi sinni til að viðhalda og efla samkeppnisstöðuna. Öflug fyrirtæki á borð við Össur og Marel endurnýja framleiðslu sína og efla samkeppnisgetu sína sífellt með nýrri vísinda- og tækniþekkingu í vöruþróun. Það er hollt að minnast þess að þessi fyrirtæki voru á sínum tíma sprotafyrirtæki með óvissa framtíð.

Hitt atriðið sem ég vil minnast á er áhersla ráðsins á uppbyggingu tæknigarða þar sem skapað verði nábýli og samstarf milli háskóla, nýsköpunarfyrirtækja, opinberra rannsóknastofnana og frumkvöðlasetra. Hátæknifyrirtæki spretta úr frjósömum jarðvegi háskóla og rannsóknastofnana og er mikilvægt að ýta undir þá þróun. Einna helst er árangurs að vænta þar sem ólík fagsvið njóta nálægðar til þess að skapa nýjar hugmyndir út frá mismunandi styrkleikum. Á grundvelli þessa er nú horft til uppbyggingar nýs tækni- og vísindasamfélags í Vatnsmýrinni þar sem einstakt tækifæri mun gefast til að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd.

Þrátt fyrir ótvírætt ágæti ályktana Vísinda- og tækniráðs er mikilvægt að þær séu skoðaðar í víðara samhengi en almennt er í daglegri umfjöllun. Nærtækast er að benda á að þær tengjast t.d. áherslum ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, enda eru nýsköpun og atvinnuþróun augljóslega grunnstoðir efnahagslegra framfara. Á sama hátt hafa ályktanir ráðsins áhrif á aðrar stefnumótandi áherslur í atvinnumálum. Til þess að auka samfelluna í nýsköpun og atvinnuþróun hafa komið fram tillögur um að útvíkka starfssvið Vísinda- og tækniráðs þannig að það fjalli einnig um málefni annarrar atvinnuþróunar yfirleitt, en þetta hverfist í auknum mæli um eflingu menntunar, tækniþróunar og nýsköpunar. Í útfærslu gæti fyrirkomulagið t.d. verið þannig að Vísinda- og nýsköpunarráð ? takið eftir breyttu nafni - tæki sérstaklega til umfjöllunar málefni á borð við endurnýjun hefðbundinna atvinnuvega og hvernig vísinda- og tæknirannsóknir gætu gagnast þeim sem best. Ályktanir um þessi efni yrðu síðan útfærð nánar í öðrum stefnumótandi áætlunum, eins og til dæmis í byggðaáætlun. Þetta er nefnt sem dæmi um sérstakt verkefni við hlið annarra reglubundinna verkefna og umfjöllunarefna Vísinda- og nýsköpunarráðs.

Ágætu fundarmenn

Á undanförnum árum hefur orðið háskólabylting hér á landi. Fjöldi námsmanna á háskólastigi hefur vaxið stórkostlega, og skemmst er að minnast fyrirheita um stórauknar fjárveitingar til Háskóla Íslands og markmiða hans um að komast í fremstu röð rannsóknaháskóla. Markmiðin eru sett hátt og einmitt þannig þurfum við að móta vegferð okkar á sem flestum sviðum. Á sama tíma hefur útrás íslenskra fyrirtækja verið meiri en nokkru sinni fyrr og íslenska fjármála- og bankakerfið gengið í gegnum byltingu. Þá hafa stórframkvæmdir hleypt nýju lífi í heila landshluta og styrkt efnahagslega afkomu þjóðarinnar.

Íslendingar hafa náð mjög góðum áföngum og árangri í háskólastarfi, rannsóknum og framhaldsnámsbrautum á undan förnum árum. Nú er tímabært, og einkum vegna nýsköpunar, að auka enn á fjölbreytni á háskólastiginu á Íslandi með stofnun starfsmenntaháskóla. Slíkur háskóli leggur megináherslu á verkmenntir, iðn- og tæknimenntun og starfstengda fræðslu og þjálfun á háskólastigi. Slík stofnun er ein forsenda frekari framþróunar verkmennta og er mjög mikilvæg fyrir framþróun atvinnulífsins. Um leið getur slík stofnun fært iðnmenntum þá viðurkenningu sem þeim ber. Nágrannaþjóðir okkar hafa náð miklum árangri með slíkum stofnunum, sem á Norðurlöndum kallast "yrkeshögskola", meðal enskumælandi þjóða "technical college" og Þjóðverjar kalla "Berufsakademie" og "Fachhochschule". Í rauninni skiptir það ekki mestu máli hvort hér verður um sérstaka nýja stofnun að ræða eða nýja deild í stærri samstæðu, stærri háskólaheild. Slíkt er útfærsluatriði og snertir tilhögun frekar en innihald og hlutverk.

Næstu meginverkefni verða áfram á vettvangi vísinda og nýsköpunar, til að tryggja framfarasókn í framtíðinni. Sameiginlegt stefnumið þjóðarinnar verður að vera að þroska hér þekkingarþjóðfélag sem færir öllum landsmönnum og öllum byggðum landsins fjölbreytileg lífstækifæri í smáum og stórum fyrirtækjum sem byggja starfsemi og framleiðslu á menntun, vísindum og tækni og geta boðið fólkinu góð og batnandi lífskjör.

Fræðslustarfsemi, rannsóknir, tæknifræði og vísindi og allt sem þessu fylgir er undirstaða þekkingarsamfélagsins. Í þessum skilningi ? og í víðtækum skilningi líka ? má þá segja að fræðsluatvinnuvegurinn verður undirstöðuatvinnuvegur allra annarra atvinnuvega. Það er ákaflega mikilvægt að við hættum að stúka fræðslu- og rannsóknarstarfsemina af í einhvers konar sérhólfi án virkra tenginga við atvinnustarfsemina. Nýsköpun og sprotastarfsemi er einmitt tengiliðurinn sem sýnir okkur að fræðsla og rannsóknir eiga fulleins heima á verksmiðjugólfinu eins og í skólastofunni. Án framlags fræðslu og rannsókna verður engin tækniþróun eða nýsköpun í hagkerfinu, og án verklegrar framkvæmdar koðna rannsóknirnar líka niður. Við eigum að tryggja jákvæða kveikingu og sameflingu þessara þátta sem grunn undir framtíðarsókn.

Í þessu verður þjóðarmetnaður Íslendinga ekki hvað síst að birtast á komandi árum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta