Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. mars 2007 MatvælaráðuneytiðJón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2006-2007

Málþing Verkfræðingafélags Íslands og Tæknifræðingafélags Íslands um nýtingu fallvatna og jarðhita í sátt við umhverfi

Góðir gestir.

Ég vil byrja á því að þakka aðstandendum þessa málþings fyrir þetta þarfa framtak og fyrir að veita mér tækifæri á að ávarpa ykkur.

Það er gagnlegt að koma saman til að ræða það sem helst er á döfinni í svo mikilsverðum málefnaflokki. Ég mun aðeins drepa á nokkur fá almenn atriði tímans vegna í svo stuttu ávarpi.

Við Íslendingar búum við þau náttúrulegu skilyrði að geta mætt orkuþörf okkar með nýtingu innlendra endurnýjanlegra orkulinda. Þetta er staða sem flest önnur ríki vildu trúlega vera í en fæst eiga í dag raunhæfan möguleika á að ná.

Á undanförnum áratugum höfum við náð mjög langt á þessu sviði og er nú svo komið að þrátt fyrir að orkunotkun á íbúa sé hér sú mesta sem þekkist í veröldinni, þá er hlutfall endurnýjanlegra orkulinda af frumorkuþörf einnig það hæsta sem þekkist.

Nýting innlendra endurnýjanlegra orkulinda til orkuframleiðslu hefur verið framarlega á stefnuskrám ríkisstjórna á liðnum áratugum. Tilgangurinn hefur ýmist verið að draga úr innflutningi á orku, auka fjölbreytni atvinnulífs eða styrkja byggð í landinu. Við höfum ráðist í sífellt stærri verkefni á þessum sviðum og bera Kárahnjúkavirkjun og Hellisheiðarvirkjun þess skýrt vitni.

Nýting innlendra orkulinda til orkuframleiðslu hefur skapað okkur bætt lífskjör og verið snar þáttur í að efla atvinnulíf á Íslandi, bæði beint og óbeint. Íslensk orkufyrirtæki hafa eflst að tækniþekkingu og búa nú yfir þekkingu og reynslu sem nýst getur annars staðar.

Mörg heillandi verkefni eru framundan, og skulu aðeins nokkur dæmi nefnd.

Djúpboranir eftir jarðvarma kunna að gerbreyta öllum aðstæðum og möguleikum þjóðarinnar. Ef þær takast vel kann orkuöflun að margfaldast úr hverri borholu.

Unnið er að undirbúningi fyrir olíuleit norður af landinu og á Jan Mayen-hryggnum.

Nýting endurnýjanlegra orkulinda til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum.

Næsti megináfangi er að móta nýtingar- og verndaráætlun fyrir náttúruauðlindir þjóðarinnar.

Þetta er sameiginlegt verkefni sem á að geta stuðlað að víðtækri sátt meðal þjóðarinnar.

Samfélagið allt, hagkerfið og þjóðlífið hvíla á þeim grundvelli og forsendu að orkulindirnar og aðrar auðlindir lands og lagar séu nýttar af ráðdeild og virðingu.

Nýting og vernd eru nefnilega tvær hliðar á sama máli, tveir þættir í sama bandi, hvor um sig ómissandi fyrir hinn og fyrir heildina.

Afstaða langflestra Íslendinga til verndunar og nýtingar auðlindanna er sama afstaða og ríkisstjórn aðhyllist.

Langflestir eru í senn nýtingarsinnar og verndunarsinnar og sjá ekki andstæðu í þessu.

Aðeins örfáir vilja hamast áfram með framkvæmdir sem víðast, og aðeins örfáir aðrir vilja stöðva allar framkvæmdir og ný verkefni.

Í þessu felast einmitt möguleikarnir á því að reyna að ná víðtækri sátt og þjóðlegri samstöðu um þessi miklu mál.

Ég er ekki viss um að unnt sé að ná sátt allra, en annars vegar ber okkur skylda til að reyna það, og hins vegar er ljóst að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar hefur sameiginleg sjónarmið í orku- og iðnþróunarmálum og málefnum náttúruverndar.

Allt samfélagið, hagkerfið og þjóðlífið allt hvíla á þeirri forsendu að orkulindir og aðrar auðlindir lands og lagar séu nýttar af ráðdeild og skynsemi.

Okkur ber að vanda rækilega allar ákvarðanir í þessum efnum og stíga varlega fram.

Þetta hefur verið og verður áfram stefna íslenskra stjórnvalda.

Eins og allir vita blandast heitar tilfinningar inn í þetta, vísindalegur metnaður og margs konar sárindi og misskilningur.

Í fyrra var skipuð nefnd til að gera tillögur að stefnumótun varðandi rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu, en þar er einkum um að ræða jarðhita, jarðefni, grunnvatn og vatnsafl til raforkuframleiðslu.

Tillögur nefndarinnar voru m.a. í frumvarpsformi en þær eiga að geta orðið farvegur að þjóðarsátt um þessi mikilvægu málefni.

Í frumvarpinu, sem nú er, með litlum breytingum, til umfjöllunar á Alþingi er m.a. gerð tillaga um mörkun framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til.

Þar er lagt til að iðnaðarráðherra skipi starfshóp sem hafa mun það hlutverk að móta áætlun um nýtingu auðlinda í jörðu og vatnsafls. Áætlunin mun sýna á hvaða svæðum verður heimilt að gefa út leyfi til rannsókna og nýtingar á auðlindum í jörðu og vatnsafli skv. lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Umhverfisráðherra mun skipa sérstakan og sambærilegan starfshóp til að móta sérstaka verndaráætlun fyrir auðlindir í jörðu og vatnsafl. Verndaráætlunin mun sýna á hvaða svæðum ekki verður heimilt að gefa út leyfi til rannsókna og nýtingar á auðlindum í jörðu og vatnsafli skv. lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Gert er ráð fyrir því að báðir starfshóparnir skili tillögum sínum til forsætisráðherra og hann muni skipa sérstakan starfshóp sem hafa mun það hlutverk að samræma tillögur beggja hópanna í eitt lagafrumvarp um verndar- og nýtingaráætlun sem lagt verði fram á haustþingi 2010.

Þar til verndar- og nýtingaráætlun hefur tekið gildi er í frumvarpinu lagt til að heimilt verði, að gættum öðrum lagaskilyrðum, að veita nýtingarleyfi þeim rannsóknarleyfishöfum sem við gildistöku laganna hafa fengið útgefið rannsóknarleyfi með fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi.

Þar til verndar- og nýtingaráætlun hefur tekið gildi verður jafnframt heimilt að veita ný rannsóknar- og nýtingarleyfi fyrir kostum í umhverfisflokki a í fyrsta áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og þeim kostum í umhverfisflokki b sem ekki eru gerðar sérstakar athugasemdir við vegna umhverfisverðmæta. Í umhverfisflokkum a og b í rammaáætluninni eru þeir hugsanlegu virkjunarkostir sem minnst umhverfisáhrif eru taldir hafa. Þar til verndar- og nýtingaráætlunin hefur tekið gildi verður hins vegar ekki heimilt að veita ný leyfi til rannsóknar og nýtingar á öðrum kostum til raforkuöflunar nema að undangengnum rannsóknum og mati, og með samþykki Alþingis.

Grundvöllur slíkrar þjóðarsáttar hlýtur að vera þekking á orkukostum, náttúru og umhverfi. Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er stór liður í öflun slíkrar þekkingar en aðrar náttúrufarsrannsóknir skipta einnig miklu máli.

Vinna við rammaáætlun gengur samkvæmt áætlun en gert er ráð fyrir að 2. áfanga ljúki árið 2009, og er stefnt að því að gefa út framvinduskýrslu á þessu ári. Næsta skrefið í átt til þjóðarsáttar hefur nú verið tekið með framlagningu frumvarpsins til breytinga á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, sem ég nefndi hér áður.

Á nýafstöðnu Sprotaþingi gerði ég hugmynd um auðlindasjóð að umtalsefni.

Í væntanlegri skipan með heildaráætlun um nýtingu og vernd náttúruauðlindanna er ráð fyrir því gert að gjald verði jafnan tekið fyrir leyfi og nýtingu. Með slíku auðlindagjaldi skapast tækifæri til að byggja upp á einhverju tímabili auðlindasjóð sem þjóðin getur notað til sérstakra þjóðþrifaverkefna.

Alaskabúar hafa þegar góða reynslu á þessu sviði, en þeir endurgreiða líka öllum almenningi úr slíkum auðlindasjóði þegar arðstaða hans leyfir.

Ég tel að auðlindasjóður eigi að geta tekið virkan þátt í eflingu þess nýsköpunar- og sprotakerfis sem íslenska þjóðin þarf á að halda. Þá væri arðinum af auðlindum Íslendinga varið til að byggja hér undir framtíðarárangur, og auk þess geta beinar greiðslur til almennings, þegar þannig ber undir, orðið öflug samfélagsstoð.

Góðir þátttakendur.

Þjóðin þarf að sjá nýtingu og vernd orkulinda og hreinnar náttúru landsins í einu og sama hugtakinu. Með slíkum hætti getum við stuðlað að víðtækri sátt í landinu um þessi mikilvægu málefni.

Orkulindirnar og fögur náttúra fósturjarðarinnar er meðal fjöreggja íslensku þjóðarinnar.

Nýting orkuauðlinda landsins er eitt af undirstöðusatriðum í velferð þjóðarinnar.

Eftir sem áður stefna íslensk stjórnvöld að ábyrgri nýtingu náttúruauðlindanna með fullri aðgát ? og um leið er þetta stefna varúðar, virðingar og verndar.

Stefna Íslendinga í málum sem snerta náttúruvernd og nýtingu auðlinda er sú að við viljum verndun og nýtingu með fyllstu aðgát, varúð og virðingu.

Meginstefin í framtíðinni verða þessi að minni hyggju:

Gerð verður heildstæð nýtingar- og verndaráætlun sem alþingi fjallar um á nokkurra ára millibili.

Ákvarðanir um umsóknir verða teknar með faglegu gegnsæju valferli.

Í framtíðinni verða orkumál, atvinnumál og náttúruvernd samtengdar hliðar sömu málefna sem stjórnvöldin sem heild vinna sameiginlega að. Taka ber fullt tillit til skipulagssjónarmiða og náttúruverndarsjónarmiða og athafnir verða undir forystu landeigenda, sveitarfélaga og fjárfesta.

Stefna Íslendinga er alls ekki að sökkva öllu, og ekki heldur að stöðva allt.

Stefnan er ábyrgð, varúð, skynsemi, og virðing.

Þakka áheyrnina.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta