Iðnþing 2007
Ágætu fulltrúar og gestir á Iðnþingi. Ég óska Iðnþingi árangursríkra starfa.:
I.
Yfirskrift Iðnþings að þessu sinni er: Farsæld til framtíðar, en þetta lýsir frábærum árangri íslensku þjóðarinnar á sviði efnahagsmála og félagslegra umbóta. Þetta endurspeglast einna skýrast í ráðstöfunartekjum heimilanna sem síðasta áratuginn hafa vaxið árlega um 4 1/2 % , en það er mun meira en víðast er í samkeppnislöndunum.
Þessi góði árangur er engin tilviljun. Hann er fyrst og fremst afrakstur ótalmargra endurbóta stjórnvalda við að bæta umhverfi atvinnulífsins með einkavæðingu ríkisfyrirtækja, umbótum í skattamálum og almennri opnun efnahagslífsins í takt við alþjóðlega þróun. Afraksturinn hefur heldur ekki látið sér standa og íslensk fyrirtæki hafa vaxið og dafnað sem aldrei fyrr. Forsendur fyrir áframhaldandi vexti eru góðar, en það verður ekki nema með skýrri pólitískri framtíðarsýn og markvissri uppbyggingu.
Á þessu Iðnþingi hef ég valið að taka til umfjöllunar tvö málefni sem hafa verið í mótun síðustu misserin og munu setja mark sitt á almenna umræðu og efnahagsþróun næstu ára. Annars vegar er þróun vísinda- og tækni og árangur okkar í nýsköpun atvinnulífsins, sem mun verða veigameiri þáttur í atvinnumálum og byggðaþróun næstu ára, en verið hefur. Hins vegar er þróun auðlindanýtingar sem á síðustu misserum hefur losnað úr greipum ríkisforræðis.
II.
Mikil umræða hefur verið undanfarin misseri um nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda landsins og uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Eins og gjarnan er um veigamikil málefni þá hefur sitt sýnst hverjum. Ljóst er að meðvitund um mikilvægi umhverfisverndar hefur aukist mikið og er ástæða til að fagna því. Þrátt fyrir það megum við ekki gleyma því liðna og þá þurfum við að virða þá staðreynd að hagnýting orkulindanna hefur verið ein meginstoð efnahagslegra framfara síðusta áratuginn og að nokkru leyti í tæpa hálfa öld.
Aukinn skilningur á mikilvægi opins hagkerfis fyrir almennar framfarir leiddi til þess að með raforkulögum árið 2003 voru skapaðar nýjar forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku. Þar með lauk beinum forystuafskiptum stjórnvalda af uppbyggingu stóriðju - sem síðan hefur lotið markaðslögmálum um kaup og sölu raforku, rammalöggjöf um umhverfisþætti og vilja heimamanna á hverjum stað til slíkra framkvæmda.
Þessari þróun hefur bæði verið fagnað og hún gagnrýnd. Annars vegar er bent á að ríkisvaldið eigi alfarið að láta lögmál markaðarins ráða þróun atvinnulífsins, enda sé það bæði hagkvæmast og réttlátast. Hins vegar er bent á að með afskiptaleysi sé boðið upp á stjórnlausar framkvæmdir sem leitt geti til skaðlegrar þenslu efnahagslífsins og þjóðfélagsbreytinga sem m.a. fylgir miklum innflutningi vinnuafls.
Vegna minnkandi beinna ríkisafskipta hefur hlutverk ríkisvaldsins orðið veigameira í skilgreiningu á ytri rammaskilyrðum. Þar vega málefni umhverfisins og vernd þeirra þyngst. Í samræmi við það var nýlega lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um meginreglur umhverfisréttar. Markmið laganna er að stuðla að sjálfbærri þróun, sjálfbærri nýtingu umhverfis, samþættingu umhverfissjónarmiða við önnur sjónarmið með hag núlifandi og komandi kynslóða að leiðarljósi.
Þessi væntanlegu lög tengjast öðrum væntanlegum lögum sem eru til umfjöllunar, nefnilega um samræmda heildaráætlun um nýtingu auðlinda og verndun umhverfis en hún á að taka gildi fyrsta sinni árið 2010. Nátengt þessu er vinna við 2. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, sem er langtímaáætlun um nýtingu orkuauðlindanna. Í þessum áfanga er einkum lögð áhersla á háhitasvæðin með hliðsjón af bæði vinnslu- og verndunarsjónarmiðum. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki árið 2009.
Þessar breytingar munu leiða til þess að í framtíðinni verða gerðar ríkari kröfur til umhverfismála framkvæmda og vegur þar sennilega þyngst að ákvörðunartaka heimamanna mun mjög mótast af umhverfismálum og samfélagslegum áhrifaþáttum.
III.
Útrás íslenskra fyrirtækja með þekkingu á nýtingu orkulindanna hefur verið í kastljósi fjölmiðla og vakið verðskuldaða athygli. Þar endurspeglast þau samlegðaráhrif sem myndast hafa í áranna rás á milli -hönnuða, -byggingarfyrirtækja, -rekstraraðila, -fjármálafyrirtækja og fleiri við uppbyggingu orku- og iðjuvera hér á landi. Þetta er í samræmi við aukið vægi tæknigreina og nýsköpunar atvinnulífsins almennt ? og ber að ýta undir þá þróun.
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið er gjarnan nefnt nýsköpunarráðuneytið þar sem áherslur þess beinast fyrst og fremst að eflingu samkeppnishæfni landsins, t.d. með því að hlúa betur að tæknirannsóknum, nýsköpun og atvinnuþróun. Meðal annars hefur verið lögð áhersla á sameiningu á rannsóknastarfsemi og stuðningsþjónustu iðnaðarráðuneytisins í eina stofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, - en tilgangurinn sameiningarinnar er einfaldlega að auka árangur okkar á sviði rannsókna og nýsköpunar.
Þetta tengist m.a. þeirri staðreynd að þekking, - einkum tækniþekking, er orðin alþjóðleg söluvara og til þess að vera betur gjaldgeng á samkeppnismarkaði þekkingarinnar verðum við að byggja upp starfsemi sem er frambærileg í samstarfi í alþjóðlegum rannsóknum. Án þess mun rannsóknarstarfsemi okkar einangrast hér án þess að njóta alþjóðlegrar samlegðar, eins og okkur býðst, t.d. innan vébanda Rammaáætlunar ESB.
Með tillögum ráðuneytisins um Nýsköpunarmiðstöð Íslands stígur það sitt fyrsta skref í þátttöku í uppbyggingu öflugs vísinda- og tæknisamfélag í Vatnsmýrinni. Veigamikil spor hafa þegar verið tekin, samanber samning Háskólans í Reykjavík og borgaryfirvalda um starfsemi orkurannsóknaseturs og aukið samstarf á sviði kennslu, þróunar og rannsókna. Þá er undirbúningur fyrir Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni kominn vel á veg og er áætlað að byggingaframkvæmdir hefjist síðla á þessu ári.
Iðnaðarráðuneytið sér fyrir sér að samfélagið í Vatnsmýrinni verði uppspretta nýrrar þekkingar sem muni gagnast fjölþættri annarri starfsemi um allt land. Þar verði frjór vettvangur samstarfs háskóla, sprotafyrirtækja, nýsköpunar- og hátæknifyrirtækja, rannsóknastofnana og fleiri skyldra aðila.
IV.
Ég minni á fyrri ummæli mín um tillögur um auðlindasjóð íslensku þjóðarinnar, en ætla að þessu sinni að fjalla um Tækniþróunarsjóð.
Tækniþróunarsjóður hefur á stuttum starfstíma sínum gegnt mikilvægu hlutverki í nýsköpun atvinnulífsins. Á þessu ári hefur sjóðurinn 500 m.kr. til ráðstöfunar í þróunar- og nýsköpunarverkefni. Langflest verkefnanna eru tengd starfsemi fyrirtækja, sem mörg eru í nánu samstarfi með háskólum eða opinberum rannsóknastofnunum. Sjóðurinn hefur getu til að styrkja um eða innan við 60 verkefni á ári, sem þýðir að aðeins um einn þriðji umsókna fær brautargengi. Mér er það fullljóst að mun fleiri verkefni þyrftu að geta notið stuðnings sjóðsins og að styrkir þurfa að vera stærri til að geta borið veigameiri verkefni.
Ég hef því ákveðið að beita mér fyrir því að framlög til Tækniþróunarsjóðs verði aukin. Til grundvallar þessarar ákvörðunar liggur reynsla mín af störfum í Vísinda- og tækniráði og skilningur á mikilvægi þess að nýsköpun atvinnulífsins þarf að vega þyngra í atvinnupólitískri umfjöllun en verið hefur. Ég tel ekki ofmælt að framlög til Tækniþróunarsjóðs verði tvöfölduð á næstu fjórum árum - og verði einn milljarður árið 2012.
Ég tel að viðbótarframlagi til sjóðsins á næsta ári, árið 2008, þurfi fyrst og fremst að verja til samstarfsverkefna með Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins í þeim tilgangi að sameiginlega geti þessir sjóðir gert alvarlega atlögu að því að brúa nýsköpunargjána. Orðið "nýsköpunargjá" vísar til misræmis sem verið hefur í opinberri fjármögnun.
Þá tel ég mikilvægt að með auknum fjárveitingum til Tækniþróunarsjóðs verði unnt að leggja nýjar áherslur - á sviðum þar sem helst er að vænta sérstaks árangurs fyrir framþróun atvinnulífsins. Ég er í raun að segja að Vísinda- og tækniráð þurfi að huga meira að því að skilgreina áherslur í starfseminni út frá efnahagslegum hagsmunum atvinnulífs og þjóðar.
Með auknum framlögum til Tækniþróunarsjóðs er stigið veigamikið skref í eflingu nýsköpunar í starfandi fyrirtækjum. Nýsköpun atvinnulífsins skiptir máli og það er grundvallaratriði að fjárfestingar ríkisins í vísindum og tækniþróun skili sér út í efnahagslífið. En það er ekki nægilegt eitt og sér að efla Tækniþróunarsjóð - meira þarf til. Miðað við alþjóðlegar samanburðarmælingar, t.d. nýlegan samanburð Evrópusambandsins á nýsköpun í Evrópu, nær Ísland ekki viðunandi árangri í hagnýtingu vísindalegrar- og tæknilegrar þekkingar þrátt fyrir ýmis hagstæð ytri skilyrði.
Þessi lélega útkoma er verulegt áhyggjuefni og því vil ég nota tækifærið til að brýna ykkur - atvinnurekendur og samtök ykkar - til að taka þessar niðurstöður Evrópusambandsins til umfjöllunar og ályktunar. Takmörkuð nýsköpun í starfandi fyrirtækjum er nefnilega umhugsunarvert vandamál og það verður að vera sameiginlegt viðfangsefni stjórnvalda og ykkar sem hér eruð - að skilgreina aðgerðir til að hagnýting rannsókna skili okkur meiri árangri.
V.
Menntun iðnaðarmanna hefur ætíð verið ofarlega á baugi í ykkar röðum. Nýsköpun atvinnulífsins byggist umfram annað á menntun á öllum skólastigum, og hafa þessir tveir málaflokkar oft fléttast saman í umfjöllun hér á Iðnþingi. Tækifæri til endurmenntunar eru nú fleiri og fjölbreyttari en nokkru sinnu fyrr og skólakerfið hefur tekið miklum stakkaskiptum síðustu áratugi. Í því sambandi má nefna tilkomu Háskólans í Reykjavík; tilurð Tækniháskóla Íslands og sameiningu þeirra síðar; farsæla uppbyggingu nýrra námsbrauta að Bifröst og vöxt Háskólans á Akureyri. Fyrir starfsemi iðnaðarins eru þó hugmyndir Starfsnámsnefndar um fagháskóla sennilega einna áhugaverðastar. Þar getur opnast löngu tímabært tækifæri fyrir framhaldsnám sem væri beintengt starfsnámi, án þess að skerða á nokkurn hátt gildi starfsnámsins sjálfs. Því fagna ég frumkvæði skólameistara Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskólans og umsögn um hugsanlegaa sameiningu skólanna, en það mun vafalaust styrkja starfsemi þeirra.
Þá markar nýgerður samningur menntamálaráherra og Háskóla Íslands önnur tímamót, en með honum hækka framlög til skólans um þrjá milljarða á fimm ára tímabili frá og með árinu 2007 til 2011. Samningurinn felur í sér að fjárveitingar ríkisins til rannsókna við Háskóla Íslands þrefaldast á samningstímanum. Meðal annars er stefnt að því að stórefla rannsóknatengt framhaldsnám við Háskólann með því að fimmfalda fjölda brautskráðra doktora og tvöfalda fjölda brautskráðra meistaranema á samningstímabilinu. Samfara því er stefnt að auknum afköstum í rannsóknum og eflingu gæða. Ekki þarf að fara á milli mála að þessi efling rannsóknastarfsemi Háskóla Íslands mun leiða til aukinnar nýsköpunar í íslensku atvinnulífi og er bráðnauðsynlegt að fyrirtækin svari þessu á tilhlýðilegan hátt - með auknu rannsóknasamstarfi með háskólanum.
VI.
Ágætu Iðnþingsgestir:
Samkeppnishæfni þjóða er ekki einvörðungu undir ákvörðunum og gerðum stjórnvalda komin. Samkeppnishæfnin byggist ekki síður á vilja og getu fyrirtækjanna sjálfra til að takast á við tækniþróun og nýsköpun ? og einnig á samstöðu starfsmannanna til að ná markmiðum fyrirtækjanna um endurnýjun og bættan rekstararárangur.
Nýsköpunin er um of borin áfram af tiltölulega fáum sterkum fyrirtækjum og nokkrum nýjum fyrirtækjum þar sem ferskur frumkvöðlaandi ríkir. Takmörkuð nýsköpun í starfandi fyrirtækjum er að mínu mati einn helsti veikleiki íslensks atvinnulífs og á þeim veikleika þarf að taka.
Íslensk fyrirtæki standa frammi fyrir stöðugt harðnandi samkeppni en hún krefst nýrrar þekkingar og hugsunar. Þekking og færni verða stöðugt stærri hluti af virðiskeðjunni og fyrir íslensk fyrirtæki, sem í alþjóðlegum samanburði eru lítil og veikburða, verður formlegt og náið samstarf þeirra á milli mikilvægara en nokkru sinni fyrr.
Við höfum séð hvernig mikilvægi staðbundinna þekkingarklasa hefur aukist, t.d. í tengslum við tækniháskólana á Bostonsvæðinu, og í Kaliforníu, og staða Lundúna sem miðstöðvar alþjóðlegra fjármálaviðskipta er flestum Íslendingum augljós. Íslensk fyrirtæki þurfa að finna styrk sinn í formlegu klasasamstarfi sín á milli og styrkja stöðu sína enn frekar með tengslum við fyrirtæki á þessum alþjóðlegu kröftugu reitum nýsköpunar og viðskipta.
Til lengri tíma litið mun fátt nýtast framþróun íslensks atvinnulífs betur en að við hagnýtum sérstöðu og styrk okkar, hvarvetna sem hann er að finna, - og yfirvinnum veikleika með því að tengjast fremstu háskólum og fyrirtækjum í veröldinni. Þannig treystum við aðgengi okkar að nýrri þekkingu og tengjumst verklagi og kröfum sem duga til sigurs - og farsældar til framtíðar.