Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. mars 2007 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Ísland áhugavert í augum ferðamanna

Hér fer á eftir ræða sem Sturla Böðvarsson samgönguráðherra flutti á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar í Ketilhúsinu í Gilinu á Akureyri fimmtudaginn 29. mars 2007.

Það er mér bæði heiður og ánægja að ávarpa ársfund ykkar enn á ný. Þessi fundur hefur orðið umfangsmeiri með hverju árinu og hlýtur það að teljast vísbending um öflugt starf á vettvangi ferðaþjónustunnar og mikinn uppgang í atvinnugreininni.

Þegar undirbúningur við gerð ferðamálaáætlunar hófst verð ég að viðurkenna að það hvarlaði ekki að mér að staða og horfur í íslenskri ferðaþjónustu yrðu jafn glæsilegar og raun ber vitni í dag. Gerð ferðamálaáætlunar átti sér langan aðdraganda. Grunnur að vinnu við ferðaamálaáætlunina voru af hálfu ráðuneytisins skýrslur um heilsutengda ferðaþjónustu, menningartengda ferðaþjónustu, skýrslan um auðlindina Ísland og fleiri gögn þar sem dregnir voru upp helstu möguleikar fyrir ferðaþjónustuna í landinu. Á grundvelli þessarar undirbúningsvinnu sem fjölmargir komu að voru mótuð þau metnaðarfullu markmið sem fram koma í ferðamálaáætluninni. Forsenda hennar var hinsvegar uppbygging innviða svo sem í vegamálum, ferjuhafnamálum, flugmálum  fjarskiptamálum, eflingu innanlandsflugsins og öflugt landkynningarstarf.

Forsendur ferðamálaáætlunar voru jafnframt áform um landkynningu og markaðssetningu innan lands og utan ásamt áformum um uppbyggingu fjarskipta og þar með stórbyltingu í háhraðatengingum í þeim tilgangi að skapa tækifæri í viðskiptum gegnum Netið.  

Nú liggur fyrir að við höfum staðið okkur í að framfylgja þeim markmiðum sem við settum okkur. Það staðfestist meðal annars í mati Alþjóðlegu efnahagsstofnunarinnar á samkeppnishæfi í ferðaþjónustu árið 2006. Samkvæmt mati þeirrar stofnunar kom í  ljós að Ísland vermir 4. sætið á lista 124 landa. Ef litið er til nágranna okkar má sjá að Noregur er í 11. sæti, Svíþjóð í því 17. og Danmörk í 23. Samkeppnisvísitala ferðaþjónustunnar er mæld út frá allmörgum þáttum, svo sem stefnumótandi reglum, umhverfisreglum, skipulagi samgangna og ferðamennsku, verðsamkeppni og náttúrulegum og menningarlegum verðmætum. Margar þessara stoða eru á sviði samgönguráðuneytisins og sýna svo ekki verður um villst nauðsyn þess að samþætta skipulag samgangna og fjarskipta við þróun ferðaþjónustunnar. Ein þessara stoða eru stefnumótandi reglur en samgönguráðuneytið hefur undanfarin ár farið nýjar leiðir í að móta stefnu í ferðaþjónustu til framtíðar.

Það voru  nýmæli er ég lagði fram á Alþingi ferðamálaáætlun fyrir tímabilið 2006-1015. Í kjölfarið hafa verið gerðar stórfelldar breytingar á lagaumhverfi ferðaþjónustunnar til að styrkja innviði greinarinnar og einfalda leyfis- og tryggingamál hennar eins og ný lög frá Alþingi um um veitinga- og gististaði bera vitni um.

Það er mér mikil ánægja að flytja hér enn frekari fréttir af góðri stöðu ferðaþjónustunnar á Íslandi. Á vegum Ferðamálastofu og í samræmi við ferðamálaáætlun var gerð könnun þar sem borin voru saman rekstrarskilyrði ferðaþjónustunar á Íslandi við ferðaþjónustu í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Verkið var unnið af tveimur rekstrarhagfræðingum. Í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að umfang ferðaþjónustunnar hefur aukist hlutfallslega mest á Íslandi miðað við hin Norðurlöndin. Skattaumhverfið á Íslandi er ótvírætt betur fallið til fyrirtækjarekstarar en í samanburðarlöndunum enda skattar til fyrirtækjarekstrar lægri. Virðisaukaskatturinn er auk þess lægri en gengur og gerist sem vekur athygli ferðamanna. Hlutfall ferðaþjónustunnar á Íslandi í vergri landsframleiðsu er hærra en hjá samanburðarþjóðunum og atvinnugreinin efnahagslífinu afar mikilvæg. Í könnunni koma jafnframt fram verkefni sem við eigum eftir að leysa. Áfengisgjaldið á Íslandi er enn hátt og stýrivextir og gengissveiflur eru meiri en hjá nágrönnum okkar. Betur má ef duga skal varðandi verðlag á matvörum og enn er það hærra hér þótt bilið fari sem betur fer minnkandi. Skýrsluna í heild sinni verður hægt að nálgast á heimasíðu samgönguráðuneytisins og Ferðamálastofu þar sem hægt er að kynna sér þessar áhugaverðu niðurstöður frekar.

Staðreyndir um fjölgun ferðamanna til Íslands tala auðvitað sínu máli um góða stöðu Íslands í ferðaþjónustu. Í fyrra komu rúmlega 422 þúsund erlendir gestir til landsins og fjölgaði þeim því um 12,9% á milli ára. Ef við bætum við farþegum skemmtiferðaskipa er fjöldinn alls kringum 500 þúsund manns. Þetta er mun meiri fjölgun en á árinu þar á undan, þegar fjölgunin nam rétt um 4%, og raunar ein mesta hlutfallslega fjölgun á milli ára frá upphafi. Ef við lítum til umheimsins kemur í ljós að vöxtur milli áranna 2005 og 2006 var 4,5% í heiminum öllum en meðaltalsvöxtur hjá okkur síðustu 10 árin er 7,6%. Tölurnar sýna að Ísland er enn sem fyrr áhugavert í augum erlendra ferðamanna. Er það í samræmi við það sem komið hefur í ljós í viðhorfskönnunum á vegum verkefnisins Iceland Naturally að vaxandi áhugi sé fyrir ferðum hingað til lands.

Nokkrar breytingar hafa orðið á vestnorræna samstarfinu í ferðamálum. Var um áramótin undirritaður nýr samningur á milli Íslands, Grænlands og Færeyja um ferðamálasamstarf.

Samgönguráðuneytið hefur verið aðili að vestnorrænu ferðamálasamstarfi frá árinu 1985 og ein helsta áherslan í því samstarfi er að bæta flugsamgöngur innan svæðisins. Því undirrituðu samgönguráðuneytið og Flugfélag Íslands nýlega samning um að tryggja flug á milli Íslands og Suður-Grænlands. Samningurinn er til þriggja ára og er stefnt að því að flugleiðin standi undir sér við lok samningstímans og með því verði tryggður áframhaldandi rekstur hennar óháð greiðslum frá ríkinu.

Undanfarin misseri hefur það mikið verið rætt innan Evrópusambandsins að auka frelsi í flugi milli Evrópu og Bandaríkjanna. Nú er svo komið að samgönguráðherrar ESB hafa náð saman um loftferðasamning sem felur það í sér að flugfélög í löndum ESB og í Ameríku geta hafið flug yfir hafið sem til þessa hefur verið háð margs konar skilyrðum. Samgönguráðuneytið í samvinnu við utanríkisráðuneytið hefur þegar hafið vinnu við athugun á möguleikum Íslands á aðild að samningnum. Ljóst þykir að samkeppni í flugi yfir Atlantshafið muni því aukast eitthvað en samningurinn á að taka gildi í mars á næsta ári. Óljóst er hvaða áhrif þetta hefur á íslenskt flug en ég þykist vita að forráðamenn íslensku flugfélaganna muni mæta aukinni samkeppni eins og áður.

Vöxturinn hefur náð til allra hliðar ferðaþjónustunnar og ekki síst vegna vaxandi umsvifa sem verið hafa í móttöku erlendra skemmtiferðaskipa. Á síðasta ári komu um 80 skemmtiferðaskip til landsins og höfðu þau 185 viðkomur í íslenskum höfnum. Flest höfðu viðdvöl í Reykjavík en mörg einnig á einum eða tveimur öðrum stöðum – ekki síst hér á Akureyri. Alls voru farþegar með þessum skipum um 55 þúsund talsins sem flestir stíga á land og stór hluti fer einnig í skoðunarferðir. Við þurfum að vera í stakk búin til að mæta þessari auknu eftirpspurn eftir þjónustu og þar kemur bæði til kasta atvinnugreinarinnar og stjórnvalda. Atvinnugreinin verður að geta boðið fram nægan fjölda rútubíla, leiðsögumanna og annarra sem sinna farþegunum. Stjórnvöld þurfa að halda áfram að byggja upp hafnarmannvirki og aðstöðu í sumum höfnum til að auðvelda skipunum viðkomu. Við Reykjavíkurhöfn er ekki síst mikilvægt að byggja farþegamiðstöð.

Ég hef nýlega sett á laggirnar starfshóp til að skilgreina þessar vaxandi þarfir í greininni og á nefndin að fjalla um hafnaraðstöðu og aðra innviði sem þurfa að vera í lagi svo greinin geti blómstrað. Hópurinn hefur þegar tekið til starfa og hef ég óskað eftir að niðurstöður liggi fyrir áður en árið er á enda. Ég tel ástæðu til þess að hvetja til þess að hafnsækin ferðaþjónusta verði efld.

Eins og þið vitið öll eru hafnar hinar umfangsmiklu framkvæmdir við tónlistar- og ráðstefnuhúsið í Reykjavík en allur undirbúningur verksins hefur gengið mjög vel. Áætlað er að mannvirkið komist í gagnið í desember 2009 og ég fullyrði að tilkoma þess þýðir byltingu á fleiri en einu sviði í ferðaþjónustu. Tónlistar- og ráðstefnuhúsið mun því geta skapað ferðaþjónustunni aukin verkefni og þetta þarf raunar ekki að taka fram í þessum hópi. Er næsta víst - svo gripið sé til orðalags frá vísum manni - að atvinnugreinin hefur þegar sett sig í nauðsynlegar markaðsstellingar til að þetta stóra tækifæri nýtist okkur sem allra best.

Ég vil vekja athygli á þeirri stefnumörkun sem fram kemur í samgönguáætlun en samkvæmt henni eru fyrirhugaðar meiri framkvæmdir á næstu fjórum árum en nokkru sinni hefur  áður verið ráðist í. Þessi verkefni munu gjörbreyta öllu íslenska samgöngukerfinu sem er grundvallar atriði fyrir enn enn frekari árangri í ferðaþjónustunni. Má þar nefna Sundabraut, breikkun vega, veg að Dettifossi, jarðgöng milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur, Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, Neskaupstaðar og Eskifjarðar, Vaðlaheiðargöng og fleira.

Með samgönguáætlun fylgir í fyrsta sinn heildar áætlun um umhverfismat og er það í samræmi við ný lög frá Alþingi á liðnu vori. Nokkur lönd í Evópu hafa þegar lagt fram áætlanir um einstök landsvæði en Ísland er meðal fyrstu landa til að leggja fram umhverfisskýrslu með landsáætlun. Þetta atriði er mjög mikilvægt og ekki síst þegar ferðaþjónustan er annars vegar enda eru áhrif samgönguáætlunar á samfélagið margvísleg – flestar framkvæmdir hafa jákvæð áhrif á ferðir meginþorra landsmanna en sumar geta haft neikvæð og staðbundin áhrif. Verkefni okkar er að draga sem mest úr slíkum áhrifum.

Í niðurstöðu umhverfismats samgönguáætlunar er bent á að fram þurfi að fara umræða um notkun okkar á miðhálendinu áður en kemur til þess að ráðast í frekari vegaframkvæmdir. Sett hefur verið fram hugmynd um að leggja uppbyggðan heilsársveg um Kjöl. Ég fól ferðamálaráði að fara yfir málið og fékk það meðal annars fulltrúa Norðurvegar, Vegagerðarinnar, Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og Ferðafélags Íslands á sinn fund til að viðra sjónarmið sín. Niðurstaða ferðamálaráðs er að heilsársvegur, alhliða vegur sem hugsaður er fyrir vöruflutninga og aðra umferð, sé í andstöðu við hagsmuni ferðaþjónustunnar og myndi svipta svæðið kyrrð sinni og öðrum sérkennum. Hér verðum við að stíga varlega til jarðar jafnvel þótt við séum þeirrar skoðunar að vegur sem þessi geti verið til hagsbóta á margan hátt. Ferðamálaráð bendir líka réttilega á að eigi að ráðast í uppbyggingu á slíku mannvirki kalli það á mikla endurnýjun vega í uppsveitum Árnessýslu og dölum Skagafjarðar sem er nauðsynlegt til að taka við þeim mikla umferðarþunga sem myndi færast á þá vegi.

Þessu skylt er umfjöllun um uppbyggingu vega í þjóðgörðum. Við þurfum að móta vinnu reglur um það hvernig haga eigi samspili uppbyggingar og náttúruverndar, hvernig eigi að gera ferðamönnum og náttúruunnendum kleift að njóta þjóðgarðanna án þess að þeim verði raskað um of. Og þetta samspil okkar á við á fleiri sviðum. Við þurfum að íhuga hverjir eru annars vegar kostir vaxtar og fjárfestinga í þágu aukinnar ferðaþjónustu og hins vegar kostir þess að vernda landið og náttúru hennar sem mest fyrir álagi okkar og annarra. Ég hef því ákveðið að skipa nefnd sem fari yfir og móti stefnu í uppbyggingu hálendisvega og stíga sem eru á skrá Vegagerðarinnar og vega í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum. Ég vona að með því starfi mótist tillögur og stefnumörkun sem nýtist okkur til að bæta aðgengi að friðlöndum án þess að raska náttúrunni.

Með fjármunum úr fjarskiptasjóði hefur framkvæmdum við þéttingu  og uppbyggingu gsm-farsímanetsins verið komi af stað og á þessu ári verður búið að þétta netið á Hringveginum þannig að enginn kafli verði sambandslaus. Til viðbótar verður komið fyrir sendum á fimm fjallvegum og í næsta áfanga verksins verða tekin fyrir allmörg ferðamannasvæði. Verið er að leggja lokahönd á undirbúning útboðs vegna háhraðatenginga sem eiga að  gera öllum landsmönnum sem vilja kleift að njóta þeirra. Stafrænar útsendingar um gervihnött þýða að sjómenn og íbúar í afskekktum byggðum landsins koma loksins til með að eiga kost á að ná útsendingum RÚV. Samningur ríkisins við TeleNor útilokar ekki samninga við aðra stafræna fjölmiðla, jafnt innlenda sem erlenda.

Samkvæmt lögum um ferðamálaátælun ber að endurskoða hana fyrir 2009. Þar sem svo vel hefur gengið að koma markmiðum áætlunarinnar í framkvæmd og önnur eru komin vel á veg tel ég rétt að hefja endurskoðunina nú þegar. Stýrihópi hefur þegar verið falið að fara yfir það sem vel hefur verið gert, meta gæði þeirrar vinnu, hvað megi betur fara og hverju nauðsynlegt er að bæta við. Breytingar á lagaumhverfi verði hafðar til hliðsjónar sem og samgönguáætlun og fjarskiptaáætlun , en samkvæmt þeim er unnið að fjölmörgum þáttum er varða framþróun ferðaþjónustu á Íslandi. Gert er ráð fyrir að endurskoðuninni ljúki á haustdögum. Ég hef skipað þau Magnús Oddsson, Helgu Haraldsdóttur og Ernu Hauksdóttur í hópinn og munu þau kalla ýmsa aðila til samráðs eftir þörfum.

Góðir fundarmenn.

Ég vil að lokum þakka ykkur fyrir árangursríkt samstarf og óska ykkur alls hins besta í því mikilvæga hlutverki ykkar að halda vel á rekstri ferðaþjónustufyrirtækja í landinu og vera þannig mikilvægir gerendur í þvi að tryggja hagvöxt og framþróun með öflugu og arðgefandi starfi í þágu íslensks atvinnulífs.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta