Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. mars 2007 MatvælaráðuneytiðJón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2006-2007

Starfsmannahátíð Alcoa-Fjarðaáls í Reyðarfirði, 31. mars 2007.

Ágætu starfsmenn Alcoa.

Samstarfsmenn í ríkisstjórn, aðrir góðir gestir.

Dear friends from Alcoa.

Það er mér mikil ánægja að vera hér við þessa athöfn í dag til að samfagna framkvæmdaraðilum, starfsmönnum Alcoa Fjarðaáls og öðrum íbúum í Fjarðabyggð með byggingu álversins og merkan áfanga í atvinnusögu Austurlands.

Sú uppbygging sem hér hefur átt sér stað á fáeinum árum er undraverð.  Eftir nokkra daga verða liðin 5 ár frá því fyrstu viðræður áttu sér stað milli íslenskra stjórnvalda og fulltrúa Alcoa, en Valgerður Sverrisdóttir leiddi þær viðræður fyrir hönd iðnaðarráðuneytisins, og tæplega 3 ár síðan fyrsta skóflustungan að byggingu álvers hér í Reyðarfirði var tekin snemma í júli 2004.. Þegar álverið verður komið í fullan rekstur í lok þessa árs fer heildarálframleiðsla hér á landi að nálgast 800 þúsund tonn á ári. Ísland verður þá orðið tólfta í röð álframleiðslulanda heims og annað stærsta í Evrópu næst á eftir Noregi.Það ætti því að vera öllum ljóst að áliðnaður er kominn til að vera og skiptir nú þegar gríðarlega miklu máli fyrir atvinnulíf og efnahag Íslendinga.

Svo er einnig með störf í álverum.  Þau eru komin til að vera.   Léttmálmvinnsla er að verða einn af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar.  Hann á það skilið að um hann sé rætt af jafn mikilli virðingu og gert er um hina svokölluðu hefðbundnu  atvinnuvegi.  Því vil ég segja við ykkur nýráðnu starfsmenn Alcoa Fjarðaáls: Berið höfuðið hátt og verið stolt af því að taka þátt í að byggja upp og móta nýjan atvinnuveg á Íslandi.

 

Ég ber ykkur kveðju frá Halldóri Ásgrímssyni fyrrverandi forsætisráðherra og þingmanni Austurlands og eiginkonu hans Sigurjónu Sigurðardóttur.  Halldór telur þennan atburð sögulegan merkisdag í sögu Austurlands allt frá öndverðu.

 

Með samningum um byggingu Fjarðaáls lýkur átaksverkefni sem hófst 1988 með stofnun Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar en markmið þess var að auka orkusölu til orkufreks iðnaðar og nýta hreinar og endurnýjanlegar orkulindir landsins til þess að skapa útflutningsverðmæti, varanlegan hagvöxt og vel launuð störf.

 

Þetta er einmitt það sem er að gerast hér í Reyðarfirði.  Orkusala til stóriðju hefur rúmlega fimmfaldast á þessu tímabili.  Efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins spáir því að hlutur áls verði um fjórðungur af útflutningi vöru og þjónustu þegar á næsta ári og farinn að nálgast hlut sjávarútvegs í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar.  Við erum ekki lengur með öll eggin í sömu körfunni eins og stundum var sagt.  Við höfum hins vegar fjölgað eggjunum í iðnaðarkörfunni svo um munar.  Reynslan sýnir, að störf í orkufrekum iðnaði eru trygg og vel launuð og engin ástæða er til að ætla annað en að svo verði einnig hér í Fjarðabyggð. 

 

Við höfum margar ástæður til að fagna Alcoa og bjóða þá velkomna til Austurlands.  Vil ég hér nefna aðeins fáeinar.

 

Tæplega 400 varanleg störf verða til í álverinu og miklu skiptir að gert er ráð fyrir nánast jafn mörgum afleiddum störfum annars staðar í samfélaginu hér eystra vegna margfeldisáhrifa.  Alcoa-Fjarðaál hefur tekið þá stefnu að útvista sem mest af þjónustu í þágu álversins sem ekki er framleiðslutengd starfsemi.  Það eru því mörg atvinnutækifæri á næsta leiti fyrir athafnasama Austfirðinga og eftir ýmsu að slægjast einnig utan veggja álversins.

 

Alcoa-Fjarðaál hefur sýnt það í verki að samfélagið og umhverfið skiptir félagið miklu máli meðal annars með þátttöku í og stuðningi við félagsmál, skógræktun og önnur umhverfismál.  Metnaður er í þá átt að milda neikvæð áhrif álversins eins og kemur vel fram í svokölluðu sjálfbærniverkefni í samvinnu við Landsvirkjun, þar sem verður með nýstárlegum hætti reynt að mæla árangur fyrirtækjanna við að draga úr óæskilegum áhrifum framkvæmdanna. Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar er höfð að leiðarljósi þar sem tekið er tillit til umhverfis, efnahags og félagslegra þátta.

 

Þá vil ég nefna ný vinnubrögð og áherslur í öryggismálum við stórframkvæmdir, sem Alcoa-Fjarðaál og Bechtel hafa innleitt með góðum árangri.  Það er ekki sjálfgefið að svo umfangsmiklar framkvæmdir sem hér blasa við gangi fyrir sig því sem næst slysalaust eins og raun ber vitni.  Íslendingar sem tekið hafa þátt í verkinu hafa mikið lært sem vonandi nýtist við stórframkvæmdir hér á landi í framtíðinni.

 

Þakka ber að Alcoa Fjarðaál hefur gert sér far um að nýta starfskrafta og kunnáttu íslenskra verkfræðinga, arkitekta og verktaka við hönnun, framkvæmdir og byggingastjórn  þessara miklu mannvirkja.  Reynsla og þekking sem eftir situr í landinu þegar framkvæmdum lýkur gefur þessum fagmönnum meðmæli og tækifæri sem nú þegar hafa skilað sér í nýjum verkefnum hér á landi sem og á erlendum vettvangi. Við skulum minnast þess að málurinn ál er afkvæmi tækni, vísinda og þekkingar, og á sama hátt er áliðnaðurinn þekkingariðnaður sem nýtir og eykur tækni, vísindi og þekkingu og mun einnig þannig verða mikilvægur þáttur í framtíðarþróun í íslensku atvinnulífi og þjóðlífi.

 

Ég óska Alcoa Fjarðaáli og álverinu í Fjarðabyggð farsældar í framtíðinni og nýjum starfsmönnum óska ég velfarnaðar í spennandi störfum.  Austfirðingum öllum óska ég til hamingju með að nú hefur loks ræst langþráður draumur um að breyta orkulindum Austurlands í auðlind til atvinnuuppbyggingar í landshlutanum og þjóðinni til heilla.

 

Til hamingju með þennan dag og með þennan áfanga.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta