Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

3. maí 2007 MatvælaráðuneytiðJón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2006-2007

Brautargengi

Útskriftarnemar, góðir gestir.

Það er mér sönn ánægja að vera með ykkur hér í dag.

Námskeiðin sem kölluð eru Brautargengi hófust fyrst á árinu 1996 og hafa verið haldin óslitið síðan. Námskeiðin hafa bæði verið haldin á höfuðborgarsvæðinu og úti á landsbyggðinni og þau hafa án nokkurs vafa sannað gildi sitt sem markvisst og hnitmiðað nám fyrir konur sem standa í atvinnurekstri eða hafa í hyggju að hrinda viðskiptahugmynd í framkvæmd.

Það hefur sýnt sig að þær konur sem sótt hafa námskeiðin hafa talið þau gagnleg og sú þekking sem þær öðlast á námskeiðunum nýtist þeim vel við sjálfstæða atvinnu. Skoðanakannanir og umsagnir nemenda hafa sýnt að hátt hlutfall þeirra kvenna sem sækja námskeiðin stunda atvinnurekstur og stjórnun að námi loknu og einnig að þau fyrirtæki sem stofnuð hafa verið í kjölfar Brautargengis hafa mjög fjölbreyttan rekstur með höndum. Sá fjölbreytileiki er að sjálfsögðu verðmætur og styrkir íslenskt atvinnulíf.

Eins og kunnugt er, er mikil áhersla lögð á mikilvægi nýsköpunar í fyrirtækjum í dag. Hún er talin vera lykill að árangri og til þess fallin að auka samkeppnishæfni fyrirtækja og samfélaga. Nýsköpunarhugtakið hefur verið í sífelldri mótun og í reynd er svo komið að nýsköpun er talin nauðsynleg í öllum greinum atvinnulífs. Nýsköpun í ýmsum þjónustugreinum og afþreyingariðnaði er meðal þess sem sífellt er meiri gaumur gefinn og þess má vænta að umræða um nýsköpun í hinum ýmsu greinum, sem lítið hefur verið fjallað um í tengslum við nýsköpun, verði meira áberandi á næstu misserum. Þetta styrkir okkur í þeirri trú að nauðsynlegt er að hlúa að þeim sem búa yfir hugmyndum að nýjungum.

Í dag verða 22 konur útskrifaðar eftir lokið nám á námskeiðinu Brautargengi. Þar með eru þær konur sem lokið hafa náminu farnar að nálgast sexhundruð. Ásóknin í námið sýnir glöggt að stöðugt er þörf fyrir nám af þessum toga enda fer ásóknin í það vaxandi. Hér hefur vafalaust mikil áhrif að gott orðspor fer af námskeiðinu og þeim ávinningi sem felst í menntuninni fyrir þátttakendurna.

Ég játa það fúslega að það er mér sérstök ánægja að fá að ávarpa ykkur hér og árna ykkur heilla, ásamt kennurum og stjórnendum námskeiðsins. Ástæðan er sú að mér hlotnaðist á sínum tíma, fyrir um það bil áratug, sá heiður að vera kennari á námskeiðunum Brautargengi. Mig minnir að ég hafi þannig átt hlut að þremur eða fjórum námskeiðum Brautargengis. Það kemur mér alls ekki á óvart að reynslan af þessu námskeiði hefur verið svo framúrskarandi sem raun ber vitni.

Ég vil að lokum óska ykkur innilega til hamingju með þennan áfanga og jafnframt velfarnaðar í þeim störfum sem þið takið ykkur fyrir hendur í framhaldinu.

Takk fyrir

Útskriftarhópur Brautargengis og gestir

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta