Hin fullvalda kona
Ágæta samkoma,
Til hamingju með daginn. Þann 19. júní árið 1915 öðluðust íslenskar konur kosningarétt sem var mikilvægt skref í átt til þess að verða fullvalda einstaklingar. Í kjölfarið fylgdu mikilvægar réttarbætur sem styrktu réttarstöðu kvenna á fjölmörgum sviðum og stuðluðu að formlegu jafnrétti kvenna og karla.
Í þessu ávarpi mínu ætla ég að leika mér að því að draga samjöfnuð milli fullveldis og sjálfstæðis íslenskra kvenna og íslensku þjóðarinnar í tilefni 17. og 19. júní en báðir þessir dagar marka tímamót í sögu íslensku þjóðarinnar og kvenþjóðarinnar. Ég ætla að færa fyrir því rök að fullveldi og sjálfstæði kvenna hafi verið torsóttara en fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar.
Það er ekki alveg út í hött að tala um fullveldi kvenna og m.a. orti þjóðskáldið Matthías Jochumsson kvæðið ,,Fullrétti kvenna” í tilefni 19. júní 1915. Fyrstu tvö erindin í því hljóða svo:
Hvað segið þér karlar, er kveðið svo að
Að konum gefið þér? Vitið þér – hvað:
Ég veit enga ambátt um veraldar geim,
Sem var ekki borin með réttindum þeim.
Þeim réttarins lögum að ráða sér sjálf
Org ráða til fulls og að vera ekki hálf!
Hvað þolir þú, píndist þú, móðurætt mín?
Ó, mannheimur, karlheimur, blygðastu þín!
Í þessu ljóði Matthíasar endurspeglast hugmyndir upplýsingarinnar um lýðræði, frelsi og jafnrétti allra manna, að allir menn – konur jafnt sem karlar – séu fæddir jafnir. Þessar hugmyndir settu svip sinn á pólitískar hugmyndir margra á þessum tíma og áttu ríkan þátt í réttarbótum kvenna. Á sama tíma lifðu rómantískar hugmyndir um þjóðina, náttúruna, menninguna og tunguna sem náttúrulega einingu og uppsprettu ríkisvalds góðu lífi. Hugmyndin um þjóðina, þjóðernið og þjóðríkið sem allt að því náttúrulegt fyrirbæri, á rót sína að rekja til síðari hluta 18. aldar og fær byr undir báða vængi á þeirri 19. Það sem bindur fólk saman, skapar því sameiginleg örlög og gerir það að þjóð er vitundin um sameiginlega menningu og tungu sem geymir arf kynslóðanna, dýpstu hugsanir þeirra og tilfinningalega skírskotun.
Allar þessar hugmyndir bárust til Íslands og setja með einhverjum hætti mark sitt á sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á síðari hluta 19. aldar þó í mismiklum mæli sé. Stundum verður til úr þessu undarleg blanda – ekki síst þegar menn þurfa nauðugir viljugir að gera upp hug sinn bæði til þjóðfrelsis og kvenfrelsis.
Íslensk þjóðfrelsisbarátta hafði ekki síður áhrif á konur en karla. Hugmyndir um sjálfstjórn þjóðarinnar og lýðræði gaf þeim vonir og fyrirheit um að konur eignuðust hlutdeild í þessum lýðréttindum og að frelsið og jafnréttið næði til allra þegna ríkisins en ekki bara karla. Íslensk kona skrifar í sendibréfi um 1870: ,,...aldrei finnst mér frelsishreyfingarnar hafa risið eins hátt ... og pólitíski roðinn verið jafnrauður. Frá þeim tíma veit ég hvað það er, að komast í verulega hrifningu og vilja leggja líf og blóð í sölurnar fyrir föðurlandið.” Konurnar á Íslandi 19. aldarinnar rétt eins og í Íran á þeirri 20. taka þjóðernisstefnuna upp á sína arma, amast við því sem útlenskt er, klæðast íslenskum búningi sem dregur fram þjóðareinkenni þeirra en ekki einstaklingseinkenni og leggja áherslu á að mennta sig m.a. til að vera betur hæfar til að ala upp nýja þjóðfélagsþegna fyrir unga Ísland.
Þær tala óhikað um þjóðfrelsið og sýna stuðning sinn við það í verki en eru ragar við að tala um kvenfrelsið og leggja því lið með formlegum hætti. Vilja ekki styggja karlmennina. Kristjana Jónsdóttir á Gautlöndum – en Gautlandafólkið var í framvarðarsveit íslenskrar þjóðfrelsisbaráttu - lætur þó móðann mása um kvenfrelsismál í bréfi til bróður síns árið 1890. Undir lok bréfsins áttar hún sig á því að hún hefur kannski gengið full langt og segir: ,,Mjer er hreint ekki sjálfrátt í þessu brjefi hvað jeg er gjörn á að tala um karla og konur og jeg er víst hreint á leiðinni með að fara út í kvennfrelsismál, og það er mjer þá eiginlega ekki tamt, því jeg tala mjög sjaldan um það, en get hreint ekki neitað mjer um að hugsa um það.”
Hin rómantíska táknmynd þjóðarinnar á þessum tíma var gyðjan, hin frjósama kona – fjallkonan – rétt eins og Marianne var táknmynd frönsku þjóðarinnar enda var litið svo á að konan og þjóðin ættu það sammerkt að vera hluti af hinni náttúrulegu skipan mála. Hið kvenlega eðli var talið göfugt, mótast af tilfinningum og nærast af móðurhlutverkinu – konur voru taldar fangar þeirra kennda sem spruttu af náttúrulegu hlutverki þeirra rétt eins og þjóðin var afsprengi þeirrar náttúru sem hún var sprottin úr.
En þjóðin var ekki bara kvenkennd, hún átti sér líka karllægar hliðar. Sigríður Matthíasdóttir segir frá því í doktorsritgerð sinni ,,Hinn sanni Íslendingur” að árið 1927 hafi iðnaðarmenn í Reykjavík í samvinnu við borgaryfirvöld ákveðið að reisa á Arnarhóli styttu af Ingólfi Arnarsyni sem átti að fanga Íslendingseðlið. Og hvert var það? Guðmundur Finnbogason, einn snjallasti ræðumannur þjóðarinnar á þeim tíma, lýsir því svo: ,,Hann (þ.e. Ingófur sem táknmynd Íslendingseðlisins) er ungur maður, og fríður sýnum. Í svip hans og viðmóti skín styrkurinn og stefnufestan. Hann finnur að hann er forgöngumaður inn í land framtíðarinnar.” Nútímakarlar höfðu nefnilega þá – og hafa líklega enn – þá hugmynd um karlmenn að það sem einkenndi þá öðru fremur væri styrkur, stefnufesta og hugrekki. Í karlmennsku Ingólfs Arnarssonar býr þráin eftir frelsi og sjálfstæði og sú þrá var ekki ætluð konum. Fátt lýsir því betur en sú staðreynd að þegar þjóðin hélt upp á sköpunarsögu sína á Alþingishátíðinni 1930 þá áttu konur þar engan hlut að málum. Landsfundur Bandalags kvenna árið 1926 fór fram á það að konur væru í öllum nefndum til undirbúnings hátíðinni en valdamenn samfélagsins skelltu skollaeyrum við því.
Í ritgerð sinni bendir Sigríður Matthíasdóttir jafnframt á að hin pólitíska táknmynd þjóðarinnar hafi verið vel menntaður millistéttakarl. Hið karllega eðli var enda talið byggjast á rökhyggju og skynsemi og hinn pólitíski einstaklingur var mótaður í karlmannslíki. Það var hann sem réð orðræðunni, ákvað hvað skipti máli og hvað ekki, hvað hafði gildi og hvað ekki, hvað væri satt og hvað ekki. Um þetta segir Virgina Woolf í bók sinni Sérherbergi sem kom út árið 1929 en er enn í fullu gildi: ,,Það er þess vegna sem þeir (þ.e. karlmenn) tala af því sjálfstrausti og sjálfsöryggi sem hefur haft svo alvarlegar afleiðingar fyrir opinbert líf og leitt til svo undarlegra spássíuathugasemda í fylgsnum hugans.”
Og sá sem skilgreinir veruleikann hefur réttinn og valdið sín megin. Karlinn var fulltrúi þjóðarinnar, handhafi fullveldisins. Það er saga hans – his story – sem stjórnmálasaga nútímans hefur snúist um.
Það er úr þessum jarðvegi sem við erum sprottin. Þetta er okkar pólitíski menningararfur. Allar götur síðan hefur valdið flust milli karla frá einni kynslóð til annarra. Það hefur erfst í beinan karllegg og gerir enn. Og konur hafa alla tíð átt drjúgan hlut í að viðhalda þessu valdi og þessari menningu og gera enn. Við höfum tekið virkan þátt í að hafa stjórn á öðrum konum og setja þeim hegðunarramma. Segja þeim hvað þær mega og hvað ekki, hvað er við hæfi og hvað ekki. Við látum gott heita þegar óþekkum konum er refsað en hlýðnum umbunað. Við kippum okkur ekki sérstaklega upp við þetta því við lærum þetta hegðunarmunstur strax á barnsaldri og reynum flestar hverjar að temja okkur það. En mikið höfum við snuðað okkur sjálfar á því.
Ég fylgdist með útskrift úr menntaskóla fyrir tveimur árum og sá allar stelpurnar sem hlutu þar viðurkenningu fyrir frábæran námsárangur. Að minnst kosti 70% af öllum slíkum viðurkenningum komu í þeirra hlut. Og þessar stelpur gátu allt. Þær spiluðu á hljóðfæri, voru í leikfélaginu, sungu í kórnum og stjórnuðu félagslífinu. Svo gekk ég út í sumarið, leit í kringum mig og áttaði mig á því að a.m.k. 70% af öllum viðurkenningum samfélagsins í formi aðgangs að völdum, fjármunum, auðlindum, launum, stöðum og áhrifum koma í hlut karla. Hvernig stendur á þessu? Hvað verður um stelpurnar?
Það er hægt að svara þessari spurningu með löngum og flóknum útleggingum en ég verð sífellt sannfærðari um að ekkert hefur haldið eins aftur af fullveldi kvenna eins og hlýðni þeirra. Það kann að orka tvímælis að yfirfæra pólitískt hugtak úr þjóðarrétti yfir á einstaklinga en það er þó nærtækt. Það ríki er fullvalda sem hefur tiltekin viðurkennd stjórntæki á valdi sínu, ræður yfir ákveðnu svæði, nýtur viðurkenningar hins ytra umhverfis og getur skuldbundið sig í samskiptum við önnur ríki. Konur njóta vissulega fullra borgaralegra réttinda – búa við formlegt jafnrétti – en það er eins og þær hafi ekki enn fengið eða tekið sér það rými sem þarf til að öðlast sjálfstæði og að þær njóti ekki viðurkenningar hins ytra umhverfis á eigin forsendum. Alltof margar konur gangast inn á orðræðu karla, þeirra skilgreiningu á því sem skiptir máli, bíða eftir þeim molum sem hrjóta af borði þeirra ef þær eru bara nógu hlýðnar, safna ekki eigin liði heldur fá lánaða hlutdeild í liði þeirra karla sem með völdin fara hverju sinni og standa svo berskjaldaðar þegar sú hlutdeild stendur ekki lengur til boða. Óvíða er þetta eins áberandi eins og í stjórnmálunum.
Nú má ekki skilja orð mín sem svo að þær konur sem taka sér rými, sem eru fullvalda, séu betri en aðrar konur. Það má heldur ekki skilja þau þannig að konur séu betri en karlar. Á því hef ég enga sérstaka skoðun – fólk er eins misjafnt og það er margt.
Fullveldi eða sjálfstæði eru ekki gæðastimplar – hvorki fyrir ríki né einstaklinga. En sú þjóð sem er fullvalda – jafnvel þó hún ákveði að deila fullveldi sínu með öðrum þjóðum – og sá einstaklingur sem er fullvalda – jafnvel þó honum takist ekki vel upp – hefur ákveðið að vera gerandi í eigin lífi, skapa sér sín eigin örlög og taka ábyrgð á sjálfum sér og umhverfi sínu. Sá sem er metinn á eigin forsendum en er ekki þröngvað inn í skapalón úreltra hugmynda og fellst á það, nýtur verðleika sinna ef þeir eru til staðar og fær að þjóna sínu eðli hvort sem það er karlkyns eða kvenkyns. Það hlýtur að vera til hagsbóta fyrir okkur öll, karla jafnt sem konur. Það er kominn tími til að konur taki sér fullt rými, nýti fullveldi sitt, byggi það á eigin sérstöðu og styrkleika og deili því svo með körlum ef þeim sýnist svo. Það er háttur fullvalda ríkja í nútímasamfélagi.