Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. ágúst 2007 MatvælaráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Undirritun samninga við Becromal

Kæru landar og ágætu ítölsku samverkamenn!

Til hamingju með daginn! Með undirritun tveggja samninga hér á eftir er mikilvægum áfanga náð á leið sem verið hefur bæði löng og ströng.

Ég vil fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands bjóða ítalska hátæknifyrirtækið Becromal velkomið til Íslands.  Sem iðnaðar- og orkuráðherra lýsi ég sérstaklega yfir ánægju með að verkefnið skuli vera komið á þetta stig. Nú er teningunum kastað og væntanlega verður ekki aftur snúið.    

Við fögnum því hér í dag að Becromal og Landsvirkjun hafa náð samkomulagi um umfangsmikil raforkukaup til framleiðslu á rafhúðuðum álþynnum sem notaðar verða í rafþéttaiðnaði.  Um þessa hágæða afurð liggur fyrir skemmtileg tillaga þess efnis að nota nýyrðið “aflþynna” í stað hins erlenda orðs “capacitor”.  

Við fögnum því einnig að samningar hafa náðst milli Becromal og Akureyrarbæjar um lóð, aðstöðu og fjárfestingarkjör. Það er einnig ástæða til þess að ætla að samningar náist við Landsnet um að tryggja öryggi í orkuflutningum þegar kemur að stækkun fyrirhugaðrar aflþynnuverksmiðju.

Langt er síðan Akureyrarbær leitaði með stuðningi Fjárfestingarstofu hófanna meðal erlendra fyrirtækja á þessu sviði orkufreks iðnaðar.  Það hefur löngum verið áhugi á að finna leiðir til þess að innleiða hér úrvinnsluiðnað úr áli, sem gæfi okkur kost á að auka fjölbreytni áliðnaðar og skapa tugi nýrra hátæknistarfa á því sviði.  Framleiðsla aflþynna er slíkur iðnaður, enda þótt ekki verði notast við íslenskt ál í fyrstu. Fyrsti hluti verksmiðjunnar mun skapa um 40 – 50 ný störf sem síðar mun fjölga enn frekar með nýjum áföngum. Ekki er ólíklegt að útflutningsverðmæti framleiðslunnar verði sambærilegt við það sem fiskvinnslufyrirtækin hér á Akureyri áorka í dag.

Árið 1998 var fyrst rætt við fyrirtæki frá Japan um aflþynnugerð, en Austur Asía er helsta markaðssvæði í heimi fyrir þessar afurðir vegna mikillar framleiðslu á rafeindatækjum.  Þrjú stærstu fyrirtækin í Japan sýndu málinu áhuga og komu fulltrúar þeirra hingað til að kynna sér aðstæður en ekkert varð úr þegar á reyndi. 

Með reynsluna af þessum viðræðum í huga lá beint við að kynna aðstæður á Íslandi fyrir Becromal,  stærsta fyrirtæki á þessu sviði í Evrópu, sem er með starfsemi á Ítalíu, í Noregi, í Sviss og Bandaríkjunum.  Nú, fjórum árum síðar, eru samningar í höfn og ástæða til að samfagna öllum sem staðið hafa að þessu máli. “Chi dorme non piglia pesci”, segja Ítalir þegar við segjum: Þeir fiska sem róa.  

Akureyringar, bæjarstjórnin og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar, eiga mikið hrós skilið fyrir þrautseigju, sveigjanleika og þolinmæði við að landa þessum afla.

Ég hef látið þá skoðun í ljós að orkufrekan iðnað eigi helst að byggja upp þar sem munar um hann í atvinnuþróun og aðdráttarafli búsetusvæðis. Hér á Akureyri er afar gott að búa í haginn fyrir orkufrekan úrvinnsluiðnað þar sem hægt er að styðjast við þróað þjónustukerfi og langa hefð fyrir þróttmiklum iðnaði. Þar við bætist nálægð við fjölbreyttar orkulindir; vatnsaflið í vestri og jarðvarmann í austri.  Það hentar raforkukerfinu vel að fá á Norðurlandinu miðju stóriðju af hóflegri stærð, sem nýtir betur raforkuna, sem fyrir hendi er og krefst ekki strax stórframkvæmda við nýjar virkjanir.

Ég vil ennfremur lýsa ánægju minni yfir þátttöku íslenskra fjárfesta í þessu verkefni.  Fjárfestingarfyrirtækið Strokkur hefur sýnt mikinn framfara- og brautryðjendahug með því að taka þátt í þessu átaki, sem vonandi á eftir að efla þekkingu okkar á léttmálmiðnaði auk þess að skila fjárfestunum nauðsynlegum hagnaði.  Ég hefði viljað sjá slíkan kraft og áræði hjá öðrum og öflugri fjárfestum þegar við áttum þess kost að eignast virkan hlut í álframleiðslu hér á landi á árum áður. Vonandi koma slíkir kostir upp að nýju í náinni framtíð.

Í fögnuði okkar yfir þeim áfanga sem hér er náð megum við ekki gleyma því að nauðsynlegt er að standa vel að verki á næstu misserum. Og þótt hér sé ekki um sérstaklega mengandi iðnaðarstarfsemi að ræða er vonandi að aldrei verði hægt að skensa Becromal á Íslandi eins og hinum virta stjórnmálaforingja Halldóri Blöndal tókst að ljóða um Sambandið og Glerána á sínum tíma:

 

Hver er þessi eina á

sem aldrei frýs,

gul og rauð og græn og blá,

gjörð af SÍS?

 

Fulltrúar Becromal hér í dag eru varaformaður félagsins, Rosanna Foresti Rosenthal, og Alex Rosenthal, sem leitt hefur samningagerð fyrir hönd þess, framkvæmdastjórinn Aldo Fasan, og Bittacco tæknistjóri. Rosanna og Aldo hef ég þegar hitt.

Ég vil beina orðum mínum til þeirra og segja: “Chi trova un amico, trova un tesoro”.  Ég vona að við höfum fundið vini og þar með nýjan fjársjóð í því samstarfi sem hafið er við Becromal og eigendur þess.

Það er mjög vel til fundið að hafa þessa viðhöfn í dag í Listasafni Akureyrar. Þar kemur hvorttveggja til að við erum stödd í gamla mjólkursamlagi KEA, fyrrum höfuðstöðvum eyfirsks mjólkuriðnaðar, og svo hitt  að Harry Rosenthal, stofnandi og aðaleigandi Becromal, er auk þess að vera snjall verkfræðingur á rafeindasviði, afar fær listamaður á sviði höggmyndalistar.  Efniviður hans er einkum brons og gler.  Hann hefur haldið sýningar á verkum sínum víða um heim.  Vonandi eigum við eftir að kynnast verkum hans á sýningu hér á landi þegar fram líða stundir. 

Þar sem Harry átti þess ekki kost á vera viðstaddur í dag langar mig til að senda honum kveðju með þakklæti og hamingjuóskum og biðja konu hans Rosanna um að færa honum örlítið sýnishorn af íslenskri höggmyndalist sem birt er í þessari bók.

Megi ykkur öllum sem hér standa að verki farnast vel og ég óska Becromal á Akureyri góðs gengis.

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta