Ráðstefna um netþjónabú.
Fundarstjóri, ágætu ráðstefnugestir!
Einar Benediktsson skáld varð nafntogaður fyrir hugmynd sína um að selja norðurljósin.
Það var viðskiptaleguir fútúrismi sem hefur þó orðið að veruleika með ferðaþjónustu nútímans.
Það er hugsanlegt að menn hafi hlegið að hugmynd skáldsins þegar hún kom fyrst fram. En hefði Einar Benediktsson sett fram hugmynd um að selja það afl náttúrunnar sem öðrum fremur hefur fjötrað og hrjáð okkur Íslendinga – kuldann – þá hefði samtíð hans örugglega talið hann galinn!
Það er hins vegar til marks um hvernig tæknin og beislun vísinda ýtir burt öllum takmörkunum, og sér engar hindranir, að nú eygjum við auðlegð í því að selja kuldann – og það er í reynd eitt tilefni þessarar ráðstefnu.
Eitt helsta aðdráttaraflið við Ísland sem heimaland netþjónafyrirtækja er nefnilega vindkælingin.
Í harðri samkeppni er það oft hið óvænta, hið einstaka, sem ríður baggamuninn. Í samkeppni landanna um að ná til sín netþjónabúum er vel hugsanlegt að það sé íslenski kuldinn, ásamt gnótt af köldu vatni, sem veldur því að okkur tekst – vonandi fyrr en seinna – að ná til okkar fyrstu netþjónabúunum.
Kuldinn veldur því að rekstrarkostnaður netþjónabús hér á landi er tugum milljhóna minni en í flestum löndunum, sem við erum að keppa við um hylli þeirra sem eru að leita að samastað fyrir slíka starfsemi. Hann gæti því verði þúfan sem á þessu sviði veltir fyrsta netþjónabúinu hingað til Íslands.
Af hverju er mér kuldinn svona hugstæður í þessu samhengi? Af því hann er hið frumlega ljóð í söludæminu. Ég varð gersamlega heillaður þegar ég hlustaði á Þórð Hilmarsson hjá Fjárfestingarstofunni fara með þessa röksemd í mjög einbeittri söluræðu fyrir íslenskum netþjónabúum. Kuldinn í samhengi við að selja Ísland undir hátækni var fyrir mér svo óvænt og frrumleg röksemd, að hún bjó til hjá mér svipaða tilfinningu og þegar ég sá einu sinni Tal vinna skák með fléttu sem var ógleymanleg, og þegar ég sá síðar Ásgeir Sigurvinsson skora mark sem átti ekki að vera hægt að skora í stöðunni.
Auðvitað er kuldinn ekki eina segulmagnið sem laðar hingað starfsemi af þessu tagi en hann er þó þáttur sem hægt er að meta í beinhörðum peningum upp á stórar upphæðir gegnum lægri rekstrarkostnað er annars staðar. Aðalorsökin fyrir fyrir því að Ísland er ákjósanlegt land fyrir netþjónabú er vitaskuld sú að við getum boðið upp á græna orku á samkeppnishæfu verði.
Stóru alþjóðlegu fyrirtækin, sem eru að kanna möguleika á starfsemi hér á landi, hafa dregið umhverfisfánann að húni. Þau vita það betur en við, að í harðri samkeppni á hátæknisviðinu er það ávinningur að getra sýnt fram á að varan sem þau selja sé nærgætin við náttúru og umhverfi.
Þau vita að það skapar þeim forskot á umhverfissinnuðum markaði að þjónustu þeirra sé knúin grænni náttúrurorku.
Í þessu felst mesti styrkur Íslands í samkeppni um fyrirtæki af þessum toga. Við bjóðum upp á græna orku, íslenskan kulda og ímynd lands sem í augum umheimsins er ómengað.
Saman við þetta fara auðvitað aðrir kostir. Orkuverð fer ört hækkandi í Bandaríkjunum og Evrópu, og hér á þeim að gefast kostur á að gera samninga til lengri tíma og auka þannig stöðugleika í rekstri sínum.
Eigendur netþjónabúa í öðrum löndum geta jafnframt sparað sér stórar upphæðir í framtíðinni með því að flytja hingað starfseiningar af svæðum, þar sem fyrst og fremst er notast við brennsluorku, og sleppa þannig við kolefnagjald.
Þá má ekki gleymna því að netþjónabú hafa til þessa helst verið sett upp nálægt stórborgum þar sem aðstöðukostnaður og verð á húsnæði er himinhátt.
Hér á landi eru miklu minni líkur á hryðjuverkum en í stórborgum umheimsins, þar sem orkuver eru oft meðal skotmarka ógnarafla. Það er sannarlega kostur.
Hér er öruggt að búa, gott að ala upp börn, og menntunarstig með því sem best gerist.
Þetta eru nokkrar af þeim ástæðum sem gera Ísland að eftirsóknarverðum kosti.
Hverjar eru þá líkur á að við löndum fyrirtæki af þessari gerð hér á Íslandi.
Þær ættu að vera allgóðar.
Netþjónabúuum fjölgar mjög ört. Þau eru í dag um 10 þúsund í Bandaríkjunum og 6 þúsund í Evrópu. Búin eru mjög mismunandi að stærð og eðli og fjölgar mjög ört.
Þörfin fyrir þau eykst hratt. Það er almennt talið að gagnamagn sem geyma þarf á hverjum tíma tvöfaldist á um það bil tveggja ára fresti. Á síðari árum hefur afkastageta tölvubúnaðar einnig tvöfaldast á sama tíma. Afleiðingin er sú að orkukostnaður neþjónabúa á fermetra hefur aukist jöfnum skrefum og hann er í dag orðinn um 50% af rekstrarkostnaði netþjónabúa.
Land, sem býður upp á trygga græna orku á samkeppnishæfu verði ætti því að hafa mjög mikla möguleika. Það er því rökrétt að spyrja: Hversvegna hafa ekki þegar verið sett upp netþjónabú á Íslandi?
Langstærsti tálminn hefur verið skortur á varaleið fyrir gagnaflutninga til og frá landinu. Það hefur vantað annan sæstreng. Nú er verið að ryðja þeirri meginhindrun úr vegi. Ríkisstjórnin hefur ákveðið, væntanlega í félagi við aðra, að leggja næsta sumar annan sæstreng til viðbótar þeim Farice sæstreng sem fyrir er.
Í öðru lagi hefur ríkt óvissa um það hvort við höfum upp á nægjanlega græna orku að bjóða til þess að netþjónabúskapur geti dafnað á Íslandi. Þeirri óvissu verður að eyða.
Orkufyrirtækin, sem eru öll eign fólksins að miklum meirihluta, verða að tryggja að það sé til næg orka fyrir mengunarlausa orkufreka stóriðju á sviði hátækni – einsog netþjónabúin eru.
Það er einfaldlega ekki boðlegt, ekki hagkvæmt frá efnahagslegu sjónarmiði, og ekki í anda stefnu ríkisstjórnarinnar um að búa til fjölbreyttari, mengunarminni og hátæknivæddri iðnað ef öll orkan sem hér er framleidd er fest í langtímasamningum um stóriðju á áli.
Við verðum Íslendingar að setja okkar egg í fleiri körfur ef atvinnulíf okkar á ekki að verða einhæft um of og um of háð sveiflum á einni tiltekinni hrávöru.
Staðan í dag er þannig, að þrjú fyrirtæki hafa þegar skoðað aðstæður á Íslandi. Þau eru öll að íhuga uppsetningu stórbúa sem þurfa hvert um sig raforku sem nemur 50-100 MW innan næstu 3-5 ára.
Það er von mín að fyrirtæki þar sem Íslendingar eru í fararbroddi muni ríða á vaðið og setja upp fyrsta netþjónabúið. Margt bendir til þess að svo geti orðið.
Iðnaðarráðuneytið hefur sinnt þessum málum í gegnum Fjárfestingarstofuna, og sérfræðingar á vegum þess áætla að raforkuþörfin fyrir starfsemi af þessu tagi gæti á næstu 3-5 árum numið 200-250 MW. Sé litið 5-7 ár fram í tímann geti verið um að ræða 350 MW. Það er svipað og orkuþörfin fyrir 250 þúsund tonna álver.
Þetta verða íslensku orkufyrirtækin að hafa ofarlega í huga.
Hér ber allt að sama brunni: Um er að ræða meiriháttar tækifæri fyrir Íslendinga. Þegar slíkur kostur fyrir hendi væri það slys ef vænleg fyrirtæki á þessu sviði, sem til okkar leita, þyrftu frá að snúa vegna þess að orkan væri öll bundin í framleiðslu á áli.
Netþjónabúin þurfa á vel menntuðum iðnaðar- og tæknimönnum að halda við þjónustu- og eftirlitstörf. Hér er því yfirleitt um vel launuð störf að ræða með sérmenntuðu fólki.
Íslensk fyrirtæki á sviði fjarskipta og hugbúnaðar hafa til að bera ótvíræða hæfni til að takast á við samstarf og þjónustu við erlend stórfyrirtæki, sem myndu vilja starfrækja netþjónabú á Íslandi. Dæmi munu vera um það að kringum starfsemi af þessu myndist klasar í þjónustu-og rannsóknarstarfsemi á sviði hugbúnaðar og vélbúnaðar.
Spurn eftir grænni orku mun halda áfram að aukast og enginn nauður rekur okkur til þess að binda hana alla í stóriðju. Það hlýtur að vera skynsamlegt markmið að byggja upp fjölbreyttan orkufrekan iðnað á Íslandi sem nýtir græna orku án þess að auka mengun og gróðurhúsaáhrif.
Ég þakka svo sérstaklega Skýrslutæknifélagi Íslands fyrir að efna til fundar um netþjónabú. Hér er um að ræða mikið viðskipta- og markaðstækifæri fyrir íslenskt samfélag ef rétt verður á spöðunum haldið.
Þar verðum við öll að leggjast á eitt, stjórnvöld, einstaklingar og fyrirtækin – ekki síst orkufyrirtækin.