Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

7. september 2007 UtanríkisráðuneytiðUTN Forsíðuræður

Alþjóðasamstarf á 21. öld og öryggisráð Sameinuðu þjóðanna

Háskólarektor, góðir gestir

Það er mér sérstakt ánægjuefni að taka til máls hér á þessum sérstaka fundi í Háskóla Íslands um alþjóðastarf á 21. öldinni og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Ég þakka háskólanum og öðrum háskólum í landinu fyrir að taka svo vel í hugmyndina sem kviknaði í Utanríkisráðuneytinu að efna í vetur til ítarlegrar umræðu um erindi Íslands á alþjóðavettvangi og ávinning af því starfi.

Það mætti að mínu mati gerast mun oftar að stjórnvöld standi fyrir uppákomum og atburðum í samráði við hina öflugu háskóla landsins. Á góðum fundi sem ég átti með rektorum háskólanna fyrr í vikunni kom fram að þetta er væntanlega í fyrsta skiptið sem háskólar landsins taka höndum saman með stjórnvöldum með þessum hætti. Við vorum sammála um að full ástæða væri til þess að háskólarnir leggðu saman krafta sína í meira mæli - samkeppnin væri við útlönd og á Íslandi ættum við að skilgreina okkur sem samherja í harðri baráttu við að búa ungt fólk sem best undir 21. öldina.

Íslensku háskólarnir eru fjölbreyttir og ólíkir en bæta hver annan upp eins og sjá má af þeirri fjölbreyttu dagskrá sem þeir hafa lagt upp í umræðuröðinni sem nú er að hefjast. Þar nálgast hver skóli umræðuna um Ísland á alþjóðavettvangi - erindi og ávinning, frá sínum sjónarhóli og með hliðsjón af áherslum hvers skóla, kennara og nemenda. Þessi umræða, eða samræða eins og ég vil frekar kalla hana, er mikilvæg fyrir stjórnvöld í landinu, hún er mikilvæg fyrir háskólasamfélagið og hún er mikilvæg fyrir almenning í landinu. Hún er nauðsynleg í þeim skilningi að upplýst og málefnaleg umræða er forsenda sáttar og skilnings á stefnu stjórnvalda á hverjum tíma, hvort heldur er í utanríkismálum eða öðrum málefnum. Það er fátt hættulegra en þegar stjórnvöld einangrast.

Forsætisráðherra vék að því hér í ræðu sinni að sú ákvörðun að bjóða Ísland fram til setu í öryggisráðinu lýsti nýrri sýn á stöðu Íslands á alþjóðavettvangi, og nýju sjálfstrausti og virkni í utanríkismálum. Það lýsti ekki hégómlegu drambi heldur sjálfsögðu endurmati á viðleitni til að treysta stöðu Íslands. Um þetta erum við forsætisráðherra sammála. Í Þingvallayfirlýsingu þessarar ríkisstjórnar segir að Ísland skuli hafa frumkvæði á alþjóðavettvangi. Við erum líka sammála um það að það eru bæði siðferðileg og pólitísk rök fyrir því Ísland getur ekki, og á ekki, að víkjast undan því að vera virkur þátttakandi í samfélagi þjóðanna.

 

Breytingarnar í heiminum gerast hraðar og hraðar og veröldin sem blasir við í dag er býsna ólík þeim heimi sem foreldrar okkar ólust upp í. Tækifæri þeirra sem nú stunda háskólanám eru mun fleiri en þegar ég var hér við nám og þó þótti manni þá að allir vegir væru færir. Ungt fólk í háskóla stendur einfaldlega frammi fyrir því að heimurinn allur getur verið þeirra starfsvettvangur og það er okkar verkefni, sem störfum í stjórnmálum að tryggja að Ísland bjóði upp á spennandi möguleika fyrir þetta unga hæfileikafólk.

Ísland er lifandi vitnisburður hinna hröðu breytinga. Líklega eru fá ríki í heiminum sem hafa á jafn stuttum tíma þróast frá örbirgð til allsnægta, frá hjátrú og hindurvitnum til upplýsingar og heljarstökk verið tekin í nýtingu tækni og þekkingar. Það felast í því mikil forréttindi að byggja slíkt samfélag. En jafnframt skyldur. Aðeins örfá ríki heimsins búa við hærri þjóðartekjur á hvert mannsbarn, aðeins örfá ríki hafa hærra menntunarstig, og þau eru ekki mörg ríkin sem hafa náð betri tökum á því að nýta endurnýjanlega orku. Þessi saga um hvernig fátæk nýlenda í norðurhöfum breyttist í háþróað velmegunarsamfélag á einum mannsaldri veitir mörgum þjóðum innblástur sem búa við kröpp kjör. Mér þykir gott að geta tekið þátt í því að þróa samvinnu Íslendinga við aðrar þjóðir sem byggir á þeirri sérþekkingu sem við höfum tileinkað okkur.

Sú frjálslynda umbótastjórn sem við forsætisráðherra veitum forystu, hvort fyrir sinn flokk, hefur það að markmiði að nýta tækifæri til framfara í þágu þjóðarinnar, opna landamæri með þátttöku í alþjóðlegu starfi og rækja jafnframt samfélagslegar skyldur gagnvart umheiminum. Framboðið til öryggisráðsins er liður í þessu en felur jafnframt í sér skarpa sýn á að það er smáum ríkjum heimsins nauðsynlegt að í samskiptum ríkja gildi skýrar leikreglur á öllum sviðum og að þær séu virtar. Við höfum staðfest það samkomulag okkar að mannréttindi, aukin þróunarsamvinna og áhersla á friðsamlega úrlausn deilumála verði nýir hornsteinar í íslenskri utanríkisstefnu. Þá munu Íslendingar stefna að því að taka forystu í baráttunni gegn mengun hafsins og alþjóðlegu starfi til að bregðast við loftslagsbreytingum. Með þessar áherslur að leiðarljósi, skýra stefnu sem byggir á áræði og ábyrgð, eru okkur allir vegir færir í hinum stóra heimi.

 

Hlutverk Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna hefur breyst mikið frá lokum Kalda stríðsins. Við hrun Sovétríkjanna má segja að öryggisráðið hafi fengið nýtt hlutverk og það hlutverk er enn í mótun.  Línur eru ekki lengur dregnar eftir áherslum tveggja stórvelda og möguleikar ráðsins til að hafa áhrif á gang mála hafa aukist jafnt og þétt. Í stað átaka hefur áhersla á samvinnu og vandaðri ákvarðanir aukist. Nú heyrir þrátt fyrir allt til undantekninga að neitunarvaldinu sé beitt. Eðli þeirra mála sem ráðið tekst á við hefur einnig breyst. Átök innan landamæra einstakra ríkja, borgarastríð og jafnvel þjóðarmorð hafa tekið við af hefðbundnum milliríkjaátökum. Önnur viðfangsefni og viðmið eins og hlutskipti kvenna og barna í stríðsátökum, hryðjuverk og tengsl orku- og umhverfismála við öryggi eru nú rædd reglulega innan ráðsins.

 

Ný heimsmynd blasir við okkur og Sameinuðu þjóðirnar hafa lagað sig að henni með ýmsum hætti. Verkefni þeirra er ekki einungis að skilja að stríðandi fylkingar heldur styðja uppbyggingu og forvarnir gegn átökum. Þessi grundvallarbreyting sem endurspeglast meðal annars í starfsemi öryggisráðsins hefur aukið tækifæri minni þjóða til áhrifa innan ráðsins. Smærri ríki eiga nú auðveldara með að koma málum á dagskrá ráðsins og ná athygli alþjóðasamfélagsins enda öryggisógnir þeirra síst léttvægari en annarra ríkja.

 

Öryggisráðið glímir við ógnir sem hljótast af því að sjálfstæði þjóða og þjóðarbrota er teflt í tvísýnu, vegið er að mannréttindum og mannhelgi og grafið er undan öryggi með beinum eða óbeinum hætti. Nýr skilningur á ógnum samtímans er jafnframt að ryðja sér til rúms.  Þannig er ný skýrsla frá Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna um ástandið í Darfúr í Súdan, því stríðshrjáða landi, glöggur vitnisburður um það hvernig náttúrulegt umhverfi, fátækt og fólksfjölgun hefur samverkandi áhrif og getur verið undirrót átaka og skelfilegra hörmunga. Þar er varað við því að sterk tengsl eru milli umhverfisáhrifa, landeyðingar, eyðimerkurmyndunar og átaka. Þetta segir okkur að  ríkari skilningur er á því að líta má á sjálfbæra þróun sem forsendu fyrir sjálfbærum friði.

 

Nýjar ógnir krefjast nýrra leiða til lausna. Loftslagsbreytingar ógna nú tilveru fólks og ríkja í vaxandi mæli.  Vísindamenn og sérfræðinga greinir ekki lengur á um það hvort loftslagsbreytingar séu raunveruleg ógn sem mannkynið stendur frammi fyrir. Þeir takast frekar á um það hve mörg ár - eða fá ár - við höfum til þess að bregðast við með raunhæfum aðgerðum til þess að koma í veg fyrir ógnarástand skapist sem ekkert ríki mun fara varhluta af. 

 

Hvert sem ég ferðast finn ég að Íslendingar njóta virðingar fyrir það hvernig þeir hafa náð því markmiði sem flest ríki dreymir um; að umbreyta orkukerfi sínu frá kolum og olíu til endurnýjanlegra orkugjafa. Þegar ég var að alast upp inn í Vogum voru hús þar hituð með olíu og hún var þá jafnframt víða notuð til að framleiða rafmagn. Þegar foreldrar mínir voru að alast upp voru það kolin. Nú er öll okkar raforkuframleiðsla knúin með grænni orku og sjötíu prósent af heildarorkunotkun landsmanna kemur frá endurnýjanlegri orku. Þetta er einsdæmi þegar litið er á heiminn. Nú er svo komið að orkumál eru í mörgum löndum nátengd öryggismálum og það er skilgreint sem öryggismál að þjóðir hafi aðgang að nægilegri orku. Hættan sem mannkyni stafar af loftslagsbreytingum kallar einnig á nýjar varnir og nýja sýn á öryggismál. Þarna höfum við sitthvað fram að færa sem ekki hefur áður verið nýtt til fulls. Mörg ríki sjá Íslendinga sem bandamenn í því að nýta jarðhita þar sem hans nýtur við. Við eigum það sameiginlegt með sumum smáum ríkjum að öðrum stendur ekki ógn af okkur, það er enginn grunur um að okkur gangi annað en gott eitt til í samvinnu við aðrar þjóðir, við séum óvilhallir bandamenn í að takast á við áskoranir 21. aldarinnar.

 

Íslendingar hafa ekki til þessa litið á sig sem gerendur í málefnum friðar og öryggis. Það er mikilvægt fyrir landsmenn að átta sig á því að í hinni breyttu heimsmynd skiptir ekki öllu máli hversu stóru landsvæði ríki ráða yfir eða hversu öflugur efnahagurinn er. Það sem mestu máli skiptir er hvað þjóðir hafa fram að færa til alþjóðasamfélagsins. Það er fullkomlega ónauðsynlegt að nálgast viðfangsefni samtímans af vanmætti gagnvart öðrum þjóðum. Heppileg blanda af sjálfstrausti, bjartsýni og raunsæi er það sem mestum árangri skilar.

 

 

Góðir áheyrendur

Breyttur heimur felur í sér mikil tækifæri og áskoranir fyrir lítið ríki eins og Ísland. Þekking, kunnátta og hugvit er sú mynt sem mesta þýðingu hefur í alþjóðlegum samskiptum. Hana höfum við í vaxandi mæli og eigum kinnroðalaust að gera okkur gildandi á þeirri forsendu. Mér líkaði nokkuð vel afstaða konunnar í Melabúðinni sem sagði við mig í fyrradag að auðvitað ættum við að sækjast eftir því að komast að 'háborði alþjóðastjórnmálanna' og að skorast undan setu í öryggisráðinu væri eins og að vera í stjórnmálaflokki sem ekki vildi fara í ríkisstjórn!

 

Ég vil benda á að af 192 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna teljast tæplega 100 vera smáríki. Þar af teljast tæp 40 vera smá eyþróunarríki. Til skamms tíma deildi Ísland flestum einkennum slíkra ríkja en hefur á stuttum tíma náð þeim efnahagslegu umbótum að það skipar sér nú í flokk helstu framfararíkja. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna á að mínu viti að endurspegla þá flóru ríkja sem hafa fylkt sér undir merki sameinaðra þjóða.

 

Ég ítreka þakkir fyrir þennan fund, rektor fyrir heimboðið og metnaðarfulla dagskrá sem mun teygja anga sína inn í margvíslegt starf kennara og nemenda í vetur. Ég bind vonir við að við séum að hefja hér mikilvægt þroskaferli sem tekur til umræðu  háskólanna og  tengsl milli fræða og stefnumörkunnar opinberra aðila á sviði alþjóðamála og framkvæmda.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta