Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. september 2007 MatvælaráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Þróunarsetur á Patreksfirði

Góðir alþingismenn, góðir heimamenn, aðrir góðir gestir.

Ég vil byrja á því að óska ykkur og okkur hjartanlega til hamingju með stofnun hins nýja Þróunarsteturs í Vesturbyggð. Það er mér heiður að taka með því fyrsta skrefið. Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar óska ég ykkur öllum formlega til hamingju. Megi gæfa og gengi fylgja starfi þess.

Ég tel að stofnun þróunarseturs hér í Vesturbyggð sé afar jákvætt skref í að leggja grunn að nýrri atvinnuuppbyggingu hér á svæðinu inn í framtíðina. Hugmyndafræðin í kringum þróunarsetrin hefur gengið ákaflega vel. Við þekkjum það vel af Ísafirði, en ekki síður af Hornafirði, sem má eiginlega segja að hafi verið vagga þessarar hugmyndar hér á landi.

Hér er með okkur í dag einn af frumkkvöðlunum frá Hornafirði. Nýheimar Hornfirðinga standa sannarlega undir nafni. Ég hef fylgst með þróun þeirra frá upphafi, fyrst sem óbreyttur þingmaður og síðan sem iðnaðarráðherra, og bæði Hornfirðingar og Ísfirðingar hafa sýnt í verki, að þegar heimamönnum tekst vel upp með góða hugmynd stendur ekki á atbeina ríkisvaldsins til að rétta fram hönd til liðsinnis.

Það sem er jákvæðast nú í upphafi við þróunarsetrið hér í Vesturbyggð er sú staðreynd, að hugmyndin og frumkvæðið að því er algerlega heimamanna.

Formaður Vestfjarðanefndarinnar svokölluðu, Halldór Árnason, er með í för okkar Vesturfara dagsins.Vestfjarðanefndin var stofnuð af forsætisráðherra í mars á þessu ári. Hlutverk hennar var að kanna leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum, ekki síst með tilliti til starfa, sem ekki eru háð sveiflum í sjávarútvegi.

Nefndinni var beinlínis falið það hlutverk að kanna hvaða hugmyndir heimamenn sjálfir hefðu í þessum efnum. Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði einu sinni um landbúnaðarráðuneytið að þar ferðuðust mál með hraða snigilsins. Það er ekki hægt að segja um Vestfjarðanefndina. Miðað við snigilinn hans Guðna er óhætt að segja að undir sterkri forystu Halldórs hafi Vestfjarðanefndin að minnsta kosti ferðast á hraða melrakkans, sem félagar okkar í Súðavík eru í dag að stofna sérstakt setur um. Það tók hana ekki nema tvo mánuði til að skila úrvalstillögum.

Vestfjarðanefndin hagaði sér líka einsog tófan að því leyti að hún lét ekkert ósnert, og skoðaði rækilega allar þær mörgu og góðu tillögur sem bárust henni frá heimamönnum. Afraksturinn var tillaga þar sem skilgreind voru um 80 opinber störf, sem hægt væri að hefja hér á Vestfjörðum. Þeim átti að hrinda í framkvæmd á þessu kjörtímabili, og áttu að kosta á ári um hálfan milljarð.

Á sumarþinginu lýsti ég því yfir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að stefnt væri að því að búið yrði að ganga frá því að fyrstu 20 störfin yrðu til reiðu fyrir þingbyrjun. Ríkisstjórnin tók jafnframt ákvörðun um að freista þess að flýta framkvæmd tillagnanna, og í dag losa þau störf sem ákvörðun hefur þegar verið tekin um ríflega 30. Mikill meirihluti þeirra sem eru beinlínis ný hefur þegar verið auglýstur, en þar að auki er um að ræða störf sem var að finna innan ríkisgeirans og verða ekki auglýst sérstaklega. Ríkisstjórnin hefur jafnframt ákveðið að verja á fjárlögum næsta árs 224 milljónum til þessa verks, til viðbótar við þær 60 milljónir sem fara í verkefnið á þessu ári.

Þegar Vestfjarðanefndin fundaði á sínum tíma með íbúum í Vesturbyggð kom fram að sveitarstjórnarmenn á svæðinu höfðu mikinn áhuga á að efla vísi að þróunarsetri sem þeir höfðu komið upp hér á Patreksfirði. Efling þess var því mikilvægur hluti af tillögum Vestfjarðarnefndar, byggð á frumkvæði heimamanna. Nú er það ykkar, góðir félagar, að nota þetta nýja tæki með sem bestum og mestum árangri.

Þessi hugmyndafræði sem birtist í samstarfi heimamanna hér í Vesturbyggð og ríkisins er hin sama og liggur að baki stefnu nýju ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Ríkisstjórnin lítur svo á að hennar hlutverk sé að skapa trausta innviði, sterka grunngerð, og búa þannig til umgjörð sem auðveldar að hrinda frumkvæði og hugmyndum heimanna í framkvæmd.

Ríkið skapar nefnilega ekki verðmætin heldur fólkið. Hugmyndirnar og frumkvæðið verður að koma frá einstaklingum og hópum og þeim er hrundið í framkvæmd með samtakamætti fólksins og fyrirtækjum, sem framleiða vöru og þjónustu.

Það er hins vegar hlutverk ríkisins að sjá til þess að fyrirtæki og fólk geti unnið verk sín og komið hugmyndum sínum í framkvæmd með hætti sem hæfir nútímanum.

Til að það sé hægt verður að ríkja eins mikið jafnræði meðal þegna landsins, óháð búsetu, gagnvart þeirri þjónustu ríkisvaldsins sem á að vera órjúfanlegur hluti af grunngerðinni. Þessvegna hefur ríkisstjórnin einsett sér það markmið að landið verði eitt atvinnusvæði og að allir landsmenn eigi greiðan aðgang að menntun, atvinnu og þjónustu óháð búsetu, og fái notið sambærilegra lífskjara.

Þetta felur í sér að allir landsmenn, Vestfirðingar líka, njóti þeirra lágmarksskilyrða sem menn og byggðir verða að hafa til þess að eiga möguleika á að spjara sig. Þó byggðir séu landfræðilega úr leið, og jafnvel afskekktar á kvarða nútímans, þá verða þær að hafa aðgang að þeirri grunngerð samfélagsins sem er nauðsynleg til að menn geti stundað atvinnu og búið þar sem þeir kjósa sér

Þeir verða að hafa tryggar og öruggar samgöngur, trygg og örugg fjarskipti, bæði gsm-samband, háhraðatengingar og ljósleiðara, og þeir verða að eiga kost á að öðlast góða menntun í gegnum blöndu af menntastofnunum í héraði og um fjarnám. Og af því við erum stödd á Vestfjörðum, þar sem raforkudreifing er ótryggust á landinu, þá bæti ég líka við með tilliti til nýrra atvinnumöguleika sem geta opnast í krafti mengunarlausrar en tiltölulega orkufrekrar starfsemi, einsog gagnamiðstöðva, að svæði einsog Vestfirðir verðpa að búa við tryggt öryggi í afhendingu á sæmilegu magni af raforku. Það gera þeir ekki í dag, en það er eitt af því sem orkumálaráðherra hefur fullan hug á að laga á næstu árum.

Þetta eru þeir þættir sem þarf að uppfylla til að landið sé hægt að kalla eitt atvinnusvæði.

Í því ljósi er það fagnaðarefni að samgönguráðherra hefur þegar tilkynnt um flýtingu mikilvægra samgöngubóta hér á Vestfjörðum, GSM-sambandið, og mun þegar haustar skýra frá aðgerðum sem snerta hringtengingu ljósleiðarans og háhraðatengingum.

ÉG ætla ekki að fjölyrða um afleiðingar kvótakerfisins fyrir svæði einsog Vestfirði. Allir þekkja mín viðhorf til þess, og það er ekki lengra en síðan í gær að ég tókst á í fjölmiðlum við dæmalausa frekju stórútgerðarinnar, sem virðist vilja nota þær þrengingar sem tímabundin þorsklægð hefur kallað yfir staði einsog Vestfirði - einsog Vesturbyggð - til að hrammsa frá henni það sem þó heldur uppi lífi margra, byggðakvótanum og línuívilnuninni.

Sá málflutningur var þeim til skammar sem þar tóku til máls.

Þessi hugmyndafræði, sem ég hef hér lýst, og felst í því annars vegar að styrkja innviðina og hins vegar að kalla eftir og liðsinna frumkvæði heimamanna í atvinnumálum, voru þau leiðarstef sem runnu gegnum þær tillögur sem ríkisstjórnin mun leggja fyrir alþingi í því skyni að styrkja byggð á þeim svæðum þar sem þorsklægðin kemur verst niður.

Í þeim felst að samtals er lagt til að ríflega 3 milljörðum til viðbótar við flýtiframkvæmdir verði beinlínis varið til þessa verks: 280 milljónir fara til að flytja ný störf til Vestfjarða, Byggðastofnun fær 1200 milljón króna vítamínsprautu til að aðstoða lítil fyrirtæki í sjávarútvegi á landsbyggðinni gegnum brimskafl næstu 2-3 ára, nýsköpun í atvinnulífi á svæðum sem verða fyrir þorskaflabresti er styrkt með 500 milljónum, 200 milljónir fara í náms- og starfsþjálfun sem tengist nýsköpun í atvinnulífi, 240 milljónir fara í ný störf við skráningar, í jarðhitaleit og styrkingu rafmagnskerfis á hinum köldu svæðum verður varið ríflega 300 milljónum, og 160 milljónir fara sérstaklega í að byggja upp ferðaþjónustu á þessum svæðum. Sumt af þessum peningum er eyrnamerkt sérstökum byggðarlögum á þeim svæðum sem verða fyrir búsifjum af þorskaflalægð, en stórum hluta er þannig hagað að flest byggðarlaganna munu eiga möguleika á að sækja liðveislu í þessa potta.

Þessu til viðbótar eru svo settar 1000 milljónir í viðhald á fasteignum ríkisins, sem beinlínis er ætlað til þess að skapa störf fyrir til dæmis sjómenn, og aðra, sem kunna að missa vinnu við störf tengd sjávarútvegi. Ríflega 200 milljónir fara til þess að fjölga greiddum atvinnuleysisdögum vegna hráefnisskorts, sem vitaskuld gagnast fiskverkafólki mjög vel, ásamt mörgum öðrum þáttum aðgerðanna.

Í þessum tillögum er sérstaklega tekið vel í framrétta hönd þeirra sem hafa sýnt fram á lofsverða nýbreytni, og hafa sett fram nýjar hugmyndir á sviði atvinnusköpunar. 15 - 20 staðir fá sérstakt framlag til efla nýsköpun í kringum vel skilgreindar hugmyndir, sem flestar lúta reyndar að sjó, en fela allar í sér einhvers konar nýbreytni.

Einn af þeim stöðum er Patreksfjörður, þar sem 20 milljónum er að þessu sinni varið til rannsókna á eldi sjávardýra, en hér um slóðir hafa menn verið með mjög athyglisverðar tilraunir og nýsköpun á því sviði. Það er mín von að með krafti og áframhaldandi frumkvæði heimamanna verði það í framtíðinni eitt af rannsóknarsetrum í þeirri grein.

Það bíður svo ekki síst hins nýja þróunarseturs að vinna úr þessum efnivið, og fleiri hugmyndum sem ég þekki sjálfur að hér er að finna.

Í þeirri vinnu mun það geta reitt sig á samstarf og samvinnu endurskipulagðs iðnaðarráðuneytis. Við munum innan skammst hafa eina af framtíðargreinum þessa svæðis innan okkar vébanda, ferðamálin. Við búum nú þar að auki yfir margefldri Byggðastofnun,og þar að auki nýju vopni, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem hefur það beinlínis sem lögbundið hlutverk að ýta undir og aðstoða tækniþróun í nýsköpun á landsbyggðinni. Það liggur í augum uppi að með ferðamál, nýsköpun og byggðamál á sínum haslaða velli mun iðnaðarráðuneytið verða í miklu betri færum með að liðsinna og hvetja frumkvæði heimamanna í framtíðinni en hingað til.

Það mun ekki standa á mér í þeirri vinnu, okkar er að hjálpa til að skapa jákvæða umgjörð og grunngerð en hugmyndirna verða að koma úr héraði.

Ég óska ykkur svo aftur hjartanlega til hamingju með þróunarsetur í Vesturbyggð.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta