Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. október 2007 MatvælaráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Ráðstefna um strandmenningu.

Ráðstefnustjóri, ágætu ráðstefnugestir.

Flestir Íslendingar búa innan 5 kílómetra frá sjó og séu þeir ekki með hafið fyrir augum hvunndags þá finna þeir daglega fyrir hafrænu, út- og innlögn, hafgolu og landsynningi, allt eftir því hvað andblærinn frá Ægi konungi er nefndur í ólíkum landshlutum. Í meginlöndum Asíu, Evrópu og Ameríku er þessu þveröfugt farið: Þar eru fæstir í snertingu við hafið. Fyrir meirihluta mannkyns er ströndin forvitnileg en ekki sjálfsagt mál eins og hjá okkur.

Strandmenning er yfirgripsmikið hugtak sem hefur verið gefinn meiri gaumur í ýmsum nálægum strandríkjum heldur en hér á Íslandi. Segja má að við höfum lengst af verið heldur tómlát um lífið við sjávarsíðuna enda þótt það sé einhver merkasti arfurinn sem saga okkar varðveitir. Þar hefur margt verið látið veðrast um of og ef ekki væri fyrir stórvirki einstaklinga eins og Lúðvíks Kristjánssonar, sem færði okkur Íslenska sjávarhætti, og forgöngu áhugafólks víða á landinu um söfnun sjóminja, hefðu mikil söguleg verðmæti horfið sjónum okkar. Ströndin, hin mikla bók Guðmundar Páls Ólafssonar, opnaði líka augu margra fyrir mikilfengleik og fjölbreytni strandlengjunnar. 

Með öllum Íslendingum blundar áhugi á strandmenningu og það er hægt að vekja hann ef rétt er á haldið. Íslenska vitafélagið og Sigurbjörg Árnadóttir máttu ekki vera seinna á ferðinni en félagið hefur þegar komið því til leiðar með aðstoð Húsfriðunarnefndar að fyrstu sjö vitarnir, sem reistir voru til að tryggja öryggi sjófarenda, hafa nú verið friðaðir. Í könnun um vita á árinu 2005 kom fram að um 77% Íslendinga hafa áhuga á vitum og 37% höfðu heimsótt vita. Áhugi á vitum er einnig mikill meðal erlendra ferðamanna, en fram kom í áðurnefndri könnun að 22% höfðu heimsótt vita í Íslandsferð sinni, enda eru það í flestum tilfellum reisulegar byggingar í stórbrotnu umhverfi. 

Fjölmargir sækjast um þessar mundir eftir að komast í heimsókn í Haraldarhús á Akranesi þar sem hjónin Ingibjörg Pálmadóttir og Haraldur Sturlaugsson hafa komið upp lifandi safni um 100 ára sögu útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækisins Haraldar Böðvarssonar. Í þessu safni er fólkið og lífshættir þess í forgrunni frá þeim tíma þegar lífið var saltfiskur. 

Við getum farið hringinn í kringum landið og týnt til dæmi um að hvarvetna eru menn að vakna til vitundar um hve mikinn fjársjóð við eigum í strandmenningu. Stemningin við höfnina á Húsavík, þar sem hvalaskoðun hefur verið þróuð í stórútgerð, er engu öðru lík. Ný ímynd sjávarþorpsins Súðavíkur þar sem stjóstangveiðar eru orðnar aðdráttarafl sýnir fram á hvað hágæða markaðsgreining getur skilað miklum ávinningi.  Hið einstæða Síldarminjasafn á Siglufirði er orðið að segli sem dregur til sín nýskapandi ferðamennsku. Við getum einnig nefnt Selasetrið á Hvammstanga, Ósvörina við Bolungarvík, Neðstakaupstað á Ísafirði og Sjóminjasafnið í Reykjavík sem góðar fyrirmyndir í samtengingu strandmenningar og ferðaþjónustu.

Umræðan í þjóðfélaginu hefur að undanförnu snúist um áhrif tímabundinnar þorsklægðar á þá sem í sjávarútvegi starfa og á sjávarbyggðir í landinu. Það er því fagnaðarefni að á ráðstefnu sem þessari sé horft til þeirrar menningar sem sjórinn og strendur landsins hafa fært okkur landsmönnum og hvernig nýta megi þennan efnivið okkur sjálfum til ánægju og til nýsköpunar í atvinnulífi.  

Hér í dag er mikið mannval samkomið og efni ráðstefnunnar fjölbreytt og spennandi; sjóminjasöfn, hvalaskoðun, tónlist, þjóðtrú og sjávarfang. Við höfum greinilega eignast stóran hóp sérfræðinga sem komið hefur auga á þessi verðmæti og leitast við að rannsaka þau og nýta landsmönnum og ferðafólki til fróðleiks. Ástæða er til þess að stjórnvöld leggist á árarnar með ykkur og leitist við að móta opinbera stefnu á þessu sviði eins og gert hefur verið annarsstaðar á Norðurlöndum.

Eins og ykkur er kunnugt munu málefni ferðaþjónustunnar heyra undir það ráðuneyti sem ég stýri frá og með næstu áramótum. Þá koma þar í einn stað byggðamál, ferðamál og nýsköpun í atvinnulífi. Ég bind vonir við að það verði hægt að samræma áralag undirstofnana ráðuneytisins á þessum mikilvægu sviðum þannig að hægt verði innan tíðar að vinda upp segl og sigla hraðbyri í rétta átt. 

Talið er að erlendir ferðamenn á Íslandi verði um 500 þúsund á þessu ári og miðað við fjölgun á síðasta áratug verður þess ekki langt að bíða að hingað komi milljón manns árlega. Það er ekkert sem segir að allt þetta fólk vilji endilega þveitast hringinn í kringum landið eða hringsóla um hálendið. Æ fleiri ferðamenn kjósa að komast í nána snertingu við einstaka landshluta, sem hafa sterk séreinkenni, og sökkva sér niður í sögu og lífshætti á staðnum. Það er þegar orðinn ríkur þáttur í ferðamennskunni að geta boðið upp á upplifun sem ekki fæst annars staðar; þess vegna á sú starfsemi framtíðina fyrir sér sem tengist menningu, heilsu og sögu. Fyrir byggðirnar í landinu skiptir miklu að fá ferðamenn til þess að staldra við hjá sér í nokkra daga hvað sem árstímanum líður og koma þar peningum í umferð. 

Kristinn R. Ólafsson, fréttaritari útvarpsins á Spáni, kallar ferðamenn þar í landi fjörulalla og sandlægjur. Seint verður gert út á sandlægjur á Íslandi en fjörulallar ættu að gera orðið þeim mun fleiri. Og fyrst og fremst fólk sem hefur í huga orð völvunnar frá því forðum daga:

 

Þegar lundin þín er hrelld

þessum hlýddu orðum:

“Gakktu með sjó og sittu við eld”,

svo kvað völvan forðum.

Er nokkur betri sálarbót hugsanleg fyrir stórborgar- og meginlandsbúa en að berja augum það sjónarspil þegar svarrandi brim skellur á eldbrunnu hrauni, eða þá dorga þorsk á lognværum degi í Djúpinu. Ég held ekki.

Megi ykkur vinnast vel. Ráðstefna um strandmenningu er sett!

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta