Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. nóvember 2007 MatvælaráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

Orkulindir, stóriðja og útrás

Orkan og þrautseigjan sigrast á öllum hlutum, sagði sá merki stjórnmála- og uppfinningamaður Benjamin Franklin eitt sinn. Við vitum að einstaklingar sem hlaðnir eru orku og hafa til að bera mikla þrautseigju geta komið miklu til leiðar. Þessar eigindir eiga ekki síður við um stjórnmálahreyfingar og nú hafa veður skyndilega skipast þannig í lofti að Samfylkingin er í einstakri aðstöðu til þess að láta að sér kveða. Við erum full af orku og vilja til þess að takast á við stjórn lands og bæjarfélaga en það mun einnig reyna á þrautseigju okkar við að koma málum fram.

Orkumálin hafa færst í brennidepil stjórnmálanna fyrir margra hluta sakir. Þau eru í miðju umræðunnar um umhverfismál, sjálfbæra þróun og gróðurhúsaáhrif. Allra augu eru á þeim vegna umræðunnar um orkunýtingu til stóriðju eða til annarra iðjukosta. Og þau eru hitamál vegna þess að þekking okkar á nýtingu vatnsafls og jarðvarma og tengsl við jarðvísindamenn um allan heim gætu orðið forsenda stófelldrar útrásar íslenskra orkufyrirtækja ef rétt er á haldið. Einnig á því sviði mun þrautseigjan ráða úrslitum um það hvort við getum látið að okkur kveða þannig að máli skipti til þess að bæta kjör alþýðu manna víða um heim um leið og við stuðlum að sjálfbærri þróun í orkumálum.

Á Íslandi hefur atburðarrásin sett í brennidepil þá staðreynd, að núverandi löggjöf í orkumálum er allsendis óviðunandi. Íslenska löggjöfin veitir þjóðinni ekki vernd gegn ásælni einkafyrirtækja í sjálfar orkulindirnar.

Framsóknarflokkurinn skildi þannig við lagarammann um orkumarkaðinn, að ekki eru nokkur tök á því að koma í veg fyrir að einkamarkaðurinn kaupi sig inn í samfélagsleg orkufyrirtæki, sem eiga að tryggja almenningi lífsnauðsynlega þjónustu af háum gæðum og við sanngjörnu verði. Staðan er einfaldlega þannig, að vilji sveitarfélag – einsog Reykjanesbær – selja eign sína í viðkomandi orkufyrirtæki til einkafyrirtækis, þá er enga vernd að finna gegn því í lögunum.

Sömuleiðis er þar engin vernd gegn því að einkafyrirtækið sé útlent og starfi á alþjóðlega vísu. Einu kvaðirnar sem það þarf að undirgangast er að það hafi lögfesti á EES-svæðinu. En hver sem er getur komist fram hjá þeirri kvöð með því að búa til skúffufyrirtæki á því svæði.

Við skulum vera sanngjörn að því leyti að það er auðvitað ekkert áhlaupaverk að búa til raforkumarkað með lögum. Innleiðingin á tilskipun Evrópusambandsins um innri markað fyrir raforku hlaut að valda heilabrotum og hagsmunaárekstum og leiða til ýmissra byrjunarerfiðleika. Reynsla annarra þjóða í Evrópu hefur verið sú að nauðsynlegt hefur reynst að breyta lögum hvað eftir annað í því skyni að þróa orkumarkaðinn. Hér var miðstýringin allsráðandi í byrjun aldarinnar. Iðnaðarráðherra ákvað röð virkjunarframkvæmda. Landsvirkjun hafði forgangsrétt að virkjunarleyfum og bar ábyrgð á raforkuflutningi auk þess sem orkusölusamningar til stóriðju voru háðir samþykki iðnaðarráðherra. Öll stærri orkufyrirtæki landsins voru í eigu opinberra aðila. Allir sáu að það var verið að leggja upp í heilmikið ferðalag úr þessu miðstýrða umhverfi yfir í einhverskonar orkumarkað sem hlaut þó að byggjast á fáum fyrirtækjum.

Þegar lagt er af stað í leiðangur er nauðsynlegt að vita hvert förinni er heitið og hvaða tækjum menn hafa yfir að ráða til þess að komast þangað. Það var í þessu atriði sem undirbúningur fararinnar var í molum. Stjórnvöld köstuðu frá sér stjórntækjum sínum án þess að búa sig út með öðrum áhöldum sem gætu dugað til þess að komast í áfangastað. Látið var undir höfuð leggjast að móta orkustefnu, heildaráætlun um verndun og nýtingu og skilgreina eignarhald á auðlindum og almannaveitum. Við Samfylkingarfólk vorum óþreytandi við að benda á þessa vankanta á undirbúningnum en töluðum fyrir daufum eyrum.

Þetta ástand færðist í kastljós umræðunnar þegar sveitarfélög suður með sjó fóru að selja hluti sína til Geysis Green Energy. Í því efni geri ég engan mun á því hvort félagið sem um er að ræða er með heimilisfesti á Íslandi eða utan þess. Svo lengi sem viðkomandi fyrirtæki er á markaði liggur í augum uppi að það gæti þess vegna á morgun verið orðið að erlendu fyrirtæki.

Ég hef brugðist við þessum lagabresti og örri þróun á orkumarkaðnum með því að vinna hörðum höndum að stefnu, sem tryggir samfélagslega eign á þeim orkulindum sem nú þegar eru í almannaeign, bæði innan ríkis og sveitarfélaga.  Slík stefna þarf jafnframt að tryggja að þeir þættir orkumarkaðarins, sem í senn sjá íbúum fyrir lífsnauðsynlegri þjónustu og eru annaðhvort orpnir undir lögbundna eða náttúrulega einokun, verði áfram í félagslegri meirihlutaeign. Undir það síðarnefnda fellur dreifing á rafmagni, heitu og köldu vatni, og fráveitur.

Höfuðatriðin sem þarf að tryggja framgang eru þessi:

  1. Lögbundinn aðskilnaður á annars vegar samkeppnisrekstri, þeas. framleiðslu og sölu á orku, og hins vegar á sérleyfisþáttum, þeas. dreifingu orku, ss. rafmagns, heits og kalds vatns, og fráveitum.

Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á að Eftirlitsstofnun EFTA og norræn samkeppnisyfirvöld hafa birt tvær nýjar skýrslur á þessu ári. Í þeim báðum er komist að þeirri niðurstöðu að skilja beri að einkaleyfis- og samkeppnisrekstur m.a. til þess að fyrirtæki og mismuni ekki viðskiptavinum sínum.

Samkeppniseftirlitið á Íslandi telur það einnig í bestu samræmi við markmið samkeppnislaga að skilja að eignarhald samkeppnis- og einkaleyfisþátta.

 

  1. Ríki, sveitarfélög eða fyrirtæki í þeirra eigu, megi ekki selja frá sér sjálfar orkulindirnar. Einkaaðilar sem búa yfir orkulindum fá hins vegar að ráðstafa þeim sjálfir að eigin vild í samræmi við lög og reglur. Þess ber hins vegar að geta, að langstærsti hluti nýttra og ónýttra orkulinda er nú þegar í opinberri eigu í gegnum þjóðlendur, ríkisfyrirtæki, ríkisjarðir, sveitarfélög, jarðir í þeirra eigu, eða fyrirtæki sem þau eiga.
  2. Sérleyfis- eða einokunarþættirnir verði í félagslegri meirihlutaeign til að tryggja hagsmuni íbúanna um verð og gæði. Fyrirmyndin að þessu er úr vatnsveitulögunum þar sem kveðið er á um að vatnsveita verður að vera undir slíku eignarhaldi.
  3. Nýting orkulindanna má láta með tímabundnum hætti í hendur einkafyrirtækja gegn fullu gjaldi, sem rennur þá til eigandans hverju sinni, sem er þá ýmist sveitarfélag, fyrirtæki í eigu sveitarfélaga, ríkið, eða fyrirtæki í eigu ríkisins.
  4. Forgangsákvæði tryggi að almennu veiturnar, sem yrðu þá á hendi félagslegs meirihluta, hefðu jafnan tryggan forgang að orku og vatni. Í því felst sterk vernd fyrir neytendur á viðkomandi svæði.
  5. Sömuleiðis yrði tryggt að flutnings- og dreifingarfyrirtæki þyrftu að hlíta ákveðnum kvöðum um verðlagningu, undir eftirliti Orkustofnunar, sem tryggði að verð á þjónustunni væri sanngjarnt, m.ö.o. að ekki yrði okrað á neytendum.
  6. Kveða þyrfti einnig á um uppsögn á samningi um nýtingarrétt ef þjónusta fullnægði ekki ákveðnum, skilgreindum skilyrðum, til dæmis varðandi gæði og verðlagningu á framleiðslunni, hvort sem þar er um að ræða rafmagn eða annað.

Mér virðist sem almenn pólitísk samstaða hafi skapast um þessi meginatriði. Í því sambandi gladdi það mig sérstaklega að forsætisráðherra tók af skarið í viðtali við Viðskiptablaðið fyrir skömmu og sagði að það stæði ekki til að einkavæða orkulindirnar.                                                                                               

Orku og stóriðjumál eru samtengd. Eins og málum er nú háttað hafa stjórnvöld engin bein stjórntæki til þess að stýra uppbyggingu stóriðju á landinu – eða hafa áhrif á staðsetningu hennar eða tímasetningar byggingaráfanga.  Þannig gæti bygging álvers í Helguvík hafist á fyrri hluta næsta árs (2008) án þess að ríkisvaldið hafi haft nokkuð með framvindu þess máls að gera.  Forsendur slíkra framkvæmda eru aðallega að samningar hafi náðst um kaup á raforku og flutningi hennar og að kröfur laga um umhverfis- og skipulagsmál séu uppfyllt.   Stjórnvöld hafa engin tæki til að stýra framkvæmdum, þannig að þær falli sem best að æskilegustu efnahagsþróun, t.d. framboði á innlendu starfsfólki, stöðu framkvæmda í víðara samhengi og öðrum hagvaxtarþáttum.  Í þessu felst m.a. eins og ég sagði áðan að stjórnvöld geta ekki haft áhrif á tímasetningar framkvæmda eða hvar þær væru best í sveit settar, t.d. miðað við markmið ríkisstjórnarinnar um jöfnun búsetuskilyrða og félagslegra lífsgæða.  Stjórnvöld verða, í þessu tilliti, að lúta því sem að hendi ber hverju sinni. Þetta er að mínu mati óviðunandi, og þarfnast rækilegrar skoðunar.

Þau skilyrði sem hér hafa verið fyrir hendi til þess að afla grænnar og hagkvæmrar orku hafa vakið athygli allra helstu álframleiðenda heims. Það hefur leitt til þess að flest hinna stærri álfyrirtækja hafa að undanförnu komið og kynnt sér aðstæður. Um leið stefna þeir erlendu fjárfestar, sem þegar hafa búið um sig hér, að því að auka álframleiðslu. Það má eiginlega segja að fleiri berji nú á dyr en en boðnir eru eða rúmast í veislusalnum. Það kemur til af fernum ástæðum:   

Í fyrsta lagi er öllum að verða ljóst að gjöfular orkulindir landsins eru takmarkaðar og að það er ekki æskilegt að nýta þær nær eingöngu til málmvinnslu. Það þarf svigrúm til að byggja upp aðrar orkufrekar atvinnugreinar, sem menga minna og auka fjölbreytni atvinnulífsins. Í árslok 2008 má búast við því að framleiðslugeta í þremur álverum landsins verði nálægt 800 þúsund tonnum á ári. Öll fyrirtækin hafa uppi áform um að auka álframleiðslu ýmist með byggingu nýrra álvera eða stækkun álvers sem fyrir er.  Þar er ég að vísa til áforma um álver Norðuráls í Helguvík, áforma um álver Alcoa á Bakka við Húsavík og til hugsanlegrar stækkunar  álvers  Alcan í Straumsvík.    Samtals gæti þessi  aukning orðið álíka mikil eða um 800 þús. tonn á ári og þannig tvöfaldað ársframleiðsluna. Hún yrði þá, ef þær hugmyndir yrðu að veruleika, 1,6 milljónir tonna á ári um 2015. 

Samhliða hafa svo fregnir af öðrum verkefnum skotið upp kolli í fjölmiðlum og verið kynntar stjórnvöldum. Þar hefur m.a. verið rætt um tvö álver í Þorlákshöfn, annað á vegum Alcan og hitt á vegum Arctus, og um álver Hydro á Keilisnesi á Vatnsleysuströnd.  Ef öll þessi áform yrðu að veruleika yrðu á Íslandi framleidd samtals tæplega 2,9 milljónir tonna af hrááli. Nær öll raforkuframleiðslugeta Íslands væri þá fullnýtt.  Það er varla ágreiningur um að slíkt dæmi gengur ekki upp. Þeir, sem það telja, búa einfaldlega í draumalandinu.    

Í öðru lagi getur verið áhættusamt í efnahagslegu tilliti að binda of stóran hluta útflutningstekna þjóðarinnar við einhæfa framleiðslugrein eins og dæmin úr sjávarútvegi sanna.  Það sem eitt sinn var byggt upp í þeim tilgangi að auka fjölbreytni útflutnings getur snúist upp í andhverfu sína.  Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, hefur í skýrslum sínum um íslenskt efnahagslíf ítrekað, og af sívaxandi þunga, bent á nauðsyn þess að reynt verði að meta hve langt megi ganga í þessa átt og hvar áhættumörkin liggi.

Hið sama hefur margoft komið fram í opinberri umræðu og hjá greiningardeildum bankanna. Það  er semsagt uppi krafa um að þjóðhagsleg úttekt verði gerð á hagrænum áhrifum aukinnar stóriðju með hliðsjón af stærð og viðkvæmni íslenska hagkerfisins, og heildar nettóarðsemi af iðnaðinum og orkusölu til hans. Það er ekki nóg að meta aðeins hagvaxtaráhrif einstakra framkvæmda og bera þau saman við þann valkost að ekkert annað kæmi í staðinn. Inn í dæmið þarf að reikna fórnarkostnað annars atvinnulífs og umhverfis, hæfilegt endurgjald fyrir nýtingu náttúruauðlinda auk áhættu fyrir hagkerfið og líkur á meiri óstöðugleika. Það er OECD sem svona talar.

Ég hef sem iðnaðarráðherra ákveðið að bregðast við þessari áskorun OECD. Ég hef ákveðið að fela sérfræðingum að meta á faglegan hátt hagrænar afleiðingar af aukinni álframleiðslu á næstu árum.  Upplýsingar sem þannig fengjust ættu að auka möguleika til þess að stýra fjárfestingunum eða afstýra þeim ef  niðurstöður benda til þess að verkefni setji efnahagslífið á annan endann. Nú standa yfir viðræður við fjármálaráðuneytið og Hagfræðideild Háskóla Íslands um útfærslu og framkvæmd málsins. Greinargerð með niðurstöðum úr þessu mati ætti að liggja fyrir á útmánuðum.

Í þriðja lagi vitrum við öll að málmiðnaður losar gróðurhúsalofttegundir. Alþjóðasamþykktir, sem Ísland er aðili að, setja Íslendingum því skorður hvað stóriðju varðar. Með þeim iðnaði og aukinni álframleiðslu, sem nú þegar hefur verið samið um og verður komin í gagnið á næsta ári, hefur Ísland nýtt rúmlega ¾ hluta heimilda til losunar gróðurhúsalofttegunda. Það ætti því að vera öllum ljóst að svigrúm til enn frekari álvinnslu verður miklu þrengra í framtíðinni en margir virðast telja.

Í fjórða lagi verðum við hafa næga orku til að byggja upp öðru vísi iðnað, sem þarf orku, en mengar minna og skapar í sumum tilfellum miklu fleiri störf á hvert Megawatt. Á síðustu misserum hefur sem betur fer orðið vart verulegs aukins áhuga erlendra aðila á að fjárfesta á Íslandi í öðrum atvinnugreinum en frumvinnslu á áli. Bæði ég og forsætisráðherra höfum talað skýrt um það að orkufyrirtækin verði að hafa rúm fyrir þær. Þannig sagði forsætisráðherra í stefnuræðu sinni á Alþingi í haust að við þyrftum “að gæta þess að takmörkuðum orkuauð­lind­um verði ráðstafað af skynsemi og að rúm verði fyrir nýja atvinnustarfsemi til að renna enn frekari stoðum undir hagkerfið”.

Það er ekki hægt að tala um nýja möguleika á sviði íslenskrar orku, án þess að reifa íslensku orkuútrásina. Hún er hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar í orkumálum. Í stefnuyfirlýsingu  er sagt skýrum stöfum að ríkisstjórnin vilji leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo – einsog þar stendur – “að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrás orkufyrirtækja.”

Það hefur fallið í minn hlut að fylgja þessu eftir, sem ráðherra orkumála, og það hef ég gert svikalaust. Ég tel að það séu gríðarlegir möguleikar fólgnir í útrásinni, og eftir ferðalög mín í tengslum við útrásina til Þýskalands, Indónesíu og Filippseyja, tel ég að Vörumerkið Ísland sé ótrúlega verðmætt á þessu sviði.

Útrásin er nú komin á flugskrið. Ég tel litlar líkur á að atburðir og deilur síðustu vikna breyti því. Það kunna að koma aðrir leikendur til skjalanna, en útrásin mun halda áfram. Víða um lönd hafa íslensk fyrirtæki, Enex, Geysir Green Energy, og hið umdeilda dótturfyrirtæki Orkuveitunnar, REI, ásamt dótturfyrirtækjum, ýmist ein og sér, eða í samvinnu, eða jafnvel í samvinnu við erlend fyrirtæki í viðkomandi löndum, verið að hasla sér völl.

Haldi útrásin áfram með núverandi skriði er líklegt að á næstu 2-3 árum muni hún fyrst og fremst felast í tvennu. Annars vegar munu íslensku útrásarfyrirtækin halda áfram að kaupa sig inn í, eða yfirtaka orkufyrirtæki sem eru starfandi.  Hins vegar munu þau halda áfram að verða sér úti um ný svæði, sem enn eru ónýtt, einsog í stóru jarðhitalöndunum á borð við Indónesíu, og hefja þar uppbyggingu. Það tekur nokkur ár að hefja vinnslu á ónýttum svæðum, en flest þeirra sem eru á radar íslensku fyrirtækjanna hafa þegar verið kortlögð og rannsökuð, mörg af fyrrverandi nemendum íslenska jarðhitaháskólans.

Íslenskar fjárfestingar á sviði jarðorku gætu því á næstu 2-3 árum orðið 50 – 100 milljarðar á ári, en gætu síðar miðað við áætlanir þeirra sem stýra útrásinni aukist í 2-300 milljarða á ári. Miðað við þann mikla áhuga sem er á alþjóðlega vísu á því að virkja jarðhita, og þær undirtektir sem íslensku útrásarfyrirtækin hafa fengið í stóru jarðhitalöndunum, einsog Indónesíu, Filippseyjum og Bandaríkjunum, þá er ekki ólíklegt að innan 10 ára gætu fjárfestingar íslenskra útrásarfyrirtækja á sviði jarðorku numið yfir 2 þúsundum milljarða íslenskra króna og í hreinni íslenskri eign yrðu þá 10-15 þúsund MW jarðorkuvirki – í 20 til 30 löndum. Til samanburðar má nefna að uppsett afl jarðvarmavirkjana í heiminum er um 9 þúsund MW í dag, miðað við síðustu fáanlegar tölur.

Þetta kunna að þykja mjög stórar tölur en eru þó hóflegri en þær, sem byggja á bjartsýnustu áætlunum. Gengju þessi áform útrásarinnar eftir þá eru þetta samt sem áður innan við 0,3% af orkumarkaði heimsins.

Jarðhitinn er mörgum svo framandi, að hann hefur varla komist á blað. Nú er á því gríðarleg breyting, og alls staðar þar sem von er á jarðhita, þar eru menn að ráðast í að virkja hann. Það er bersýnilega vakning á þessu sviði, og Íslendingar eiga að nýta sér hana. Hver hefði til dæmis hugsað sér að Þýskaland gæti bæst í hóp jarðhitalanda? Ég tók þar skóflustungu að jarðgufuvirkjun í sumar í Bæjaralandi þar sem Enex er að reisa sína fyrstu stöð í Þýskalandi. Bara í Þýsklanadi eru íslensk fyrirtæki komin með á annan tug leyfa til að reisa jarðgufuvirkjanir.

Vakninguna sjáum við líka í löndum einsog Indónesíu. Þar er að finna mestu jarðhitasvæði heimsins, og varleg áætlun gerir ráð fyrir því að þar sé hægt að virkja fast að 30 þúsund MW. Indónesar ætla sér að virkja á næstu 10 árum um 6-8 þúsund MW, og  þurfa bæði tækniþekkingu og fjárfestingar til að það geti orðið. Ég kom sjálfur með yfirmanni jarðhitadeildar ríkisorkufyrirtæksins í Indónesíu upp í 140 MW stöð í fjöllunum í Kamojang í Indónesíu, þar sem er hægt amk. að virkja 300-350 MW.  Yfirmaðurinn, sem hafði verið í jarðhitaskóla SÞ hér á landi, bókstaflega bað mig um að beita áhrifum mínum til að íslensk fyrirtæki stofnuðu félag með Indónesum um áframhaldandi uppbyggingu þessarar stöðvar, og kæmu jafnt með tækniþekkingu sem fjármagn til að stækka virkjunina sem fyrst upp í 3-350 MW.

Kollegi minn, orkuráðherra Indónesíu, sem kom hingað í opinbera heimsókn í sumar, og ég endurgalt nú fyrir tveimur vikum, sagðist aldrei hafa orðið jafn upptendraður og þegar hann hlustaði á íslenska vísindamenn lýsa möguleikum djúpborananna. Á sviðinu í fundarsalnum í Orkuveitu Reykjavíkur sagði hann uppnuminn að ef sú tækni gengi, og hægt yrði að yfirfæra hana á Indónesíu, þá væri hægt að sjá 230 milljón manna þjóð fyrir öllu sínu rafmagni úr jarðhita. Í þessu starfi okkar á vísindasviðinu felst einstakt forskot sem allir í hinu alþjóðlega jarðhitasamfélagi vita um. Við skulum hins vegar gera okkur grein fyrir því, að samkeppnin mun harðna. Mörg stóru olíufélaganna eru að fara inn í jarðhita, og sum eins og t.d. Chevron, eru komin á fullan skrið.

Þegar ég sat með Gloríu Arroya forseta Filippseyja hafði hún með sér þrjá sérfræðinga, þar á meðal ungan yfirmann ríkisorkufyrirtækisins, sem virtist vita allt um Ísland enda hafði hann verið hér. Hún spurði hann ströng á svip: Hverjir eru bestir í jarðhita? Hann hallaði sér fram og sagði kappsfullur: Íslendingarnir! Þá fáum við þá, sagði Gloría forseti. Þetta sýnir virðinguna sem vörumerkið Ísland nýtur á sviði jarðhitavinnslu.

Við sem jafnaðarmenn verðum að gera okkur grein fyrir að útrásin snýst ekki aðeins um að finna íslenskum höndum og hugum viðfang, eða ávaxta íslenskt fjármagn. Hún snýst líka um allt annað og meira. Tökum Djíbútí, þar sem Íslendingar eru á leið í níu milljarða fjárfestingar, til að virkja jarðhita í Sprungudalnum mikla sem liggur um Austur-Afríku. Þar er mikill orkuskortur, sem stendur bæði heilbrigði landsmanna og uppbyggingu atvinnulífs fyrir þrifum. Það rafmagn, sem þar er falt, er allt framleitt með litlum dísilrafstöðvum.  Það mengar, og það er ótryggt. Það sem skiptir kanski mestu fyrir líf fólksins í Djíbútí er að það er fokdýrt. Þar kostar kílówattstundin 17-18 sent. Íslensku orkufyrirtækin gætu með því að virkja jarðhitann rafvætt Djíbútí og selt landsmönnum rafmagn, fyrir þriðjung af því verði sem menn borga í dag. Þetta snýst þessvegna líka um það að lyfta kjörum fátæks fólks, og gera líf þess léttara. Er það ekki líka okkar hlutverk?

Tökum svo hana Meseret, sem var heimagangur hjá mér og Dr. Árnýju, sem hefur frá upphafi kennt við Jarðhitaháskólann. Hún er frá Eþíópíu, og er nú orðinn yfirmaður jarðhitastofnunar landsins. Hún var hér í sumar, og á sér ekki ósk heitari en þá, að íslensk fyrirtæki geri svipaðan samning við Eþíópa og þau gerðu í Djíbútí. Afhverju? Af því það er langbesta von þeirra til að fullt af fólki, sem ekki hefur efni á rafmagni í dag, geti lýst upp hús sín og skapað atvinnu – í krafti íslensks fjármagns og þekkingar – í samvinnu við heimamenn einsog hana Meseret. Ég hitti hana von bráðar á fundi Alþjóðaorkuráðsins, og bæði hún og ég vonumst til að þá verði undirritaður samningur, eða viljayfirlýsing, milli Eþíópu og íslensks fyrirtækis um jarðorkuvinnslu í Eþíópíu.

Heimurinn er allur í vörn gegn þeim hamförum sem gætu leitt af hlýnun jarðar, og alls staðar eru menn að reyna að finna leiðir til að draga úr henni, með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Orkuvinnsla úr jarðhita er ein af leiðunum, og sú leið sem við kunnum. Jarðhiti leysir að sjálfsögðu ekki öll þau vandamál. En einsog Al Gore, friðarverðlaunahafi Nóbels sagði í einni af bókum sínum, þá getur jarðhiti, sólarafl og vindorka, hugsanlega leyst um fimmtung af þeim vanda í framtíðinni.

Okkar hlutverk er að ýta fram jarðhitanum. Við kunnum að vera lítil þjóð, en á sviði jarðhita og orkuvinnslu úr jörðu erum við stórþjóð. Við höfum því móralska skyldu til að koma okkar þekkingu á framfæri, og ýta við öðrum þjóðum að ráðast í nýtingu sinna eigin jarðorkulinda. Það getur orðið okkar mikilvægasta  framlag til að leysa vandamálin sem stafa af hlýnun jarðar.

Við Íslendingar búum við forskot sem aðrar þjóðir hafa ekki:

Í fyrsta lagi höfum við trú á jarðhita, og vitum að hann er hluti af daglegri velferð okkar sem þjóðar.

Í öðru lagi búum við að lengstri reynslu allra við nýtingu jarðhita, en sú grein á 100 ára afmæli hér á landi í ár.

Í þriðja lagi þá eigum við afkastamestu og best reknu jarðorkufyrirtæki í heiminum, þar sem eru Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja.

Í fjórða lagi eigum við þá stofnun sem hefur allra skyldra stofnana í heiminum yfir að ráða mestu atgervi á þessu sviði, og ég á þá við Íslenskar Orkurannsóknir.

Í fimmta lagi eigum við eitt besta borfyrirtæki á sviði jarðgufuborana.

Í sjötta lagi eigum við eina bankann sem hefur sérhæft sig í fjármögnun jarðhitavirkja og gjörþekkir það svið einsog umsvif hans á þessu sviði í Bandaríkjunum sýna.

Í sjöunda lagi erum við með í þróun merkustu tækninýjungarnar, sem eru djúpboranirnar. Þær gætu allt að tífaldað aflið úr sérhverri holu og 3-4 faldað afrakstur hvers jarðhitasvæðis.  Ég nefni ekki einu sinni pælingar Alberts Albertssonar hjá Hitaveitu Suðurnesja um að virkja háhitasvæði á hafsbotni, sem örugglega verður gert í framtíðinni.

Í áttunda, og síðasta lagi, þá erum við með forskot í formi leynivopns sem er vitaskuld Jarðhitaháskóli Sameinuðu þjóðanna hér á Íslandi, rekinn af einvalaliði, og við höfum frá upphafi kostað hann að 90%.

Það er ekki hægt að skiljast við orkumál, og orkuútrásina, án þess að ræða Jarðhitaháskólann. Í gegnum hann hafa farið hátt í 600 manns frá því hann tók til starfa. Lauslegar kannanir sýna, að langflestir sem hafa farið um hann halda áfram að starfa í sinni grein, margir þeirra eru orðnir millistjórnendur í jarðhitafyrirtækjum og rannsóknarstofnunum sinna ríkja, og allir eiga það sameiginlega að þykja vænt um Ísland, minnast þess með hlýhug, og líta á sig sem hluta af hinu laustengda alþjóðlega íslenska samfélagi. Þetta er ómetanleg auðlind sem Íslendingar eiga þegar kemur að útrás í jarðhita. Um það sannfærðist ég þegar ég átti kost á að bjóða fyrrum námsmönnum við jarðhitaháskólann til endurfunda bæði í Indónesíu og Filippseyjum. Hlýhugur þeirra, og þakklæti í okkar garð, var einstakur, og það fór ekki á milli mála, með hverjum þau vilja að ríkisstjórnir sínar vinni í jarðorkumálum.

Ég fullyrði að Jarðhitaháskólinn er líklega best heppnaða þróunaraðstoð sem Íslendingar hafa nokkru sinni lagt út í. Þessi tengsl eigum við að rækta. Við gerum það til dæmis með því að á næstu árum mun Jarðhitaháskólinn standa fyrir sumarskólum í Indónesíu og Filipsseyjum, þar sem helstu sérfræðingar hans, íslenskir og erlendir, munu kenna. Sumarskólarnir verða opnir öllum asískum jarðhitafræðingum. Þetta er í takt við svipuð námskeið sem Jarðhitaháskólinn hefur haldið í öðrum heimsálfum, eins og í Afríku.

Nú stendur fyrir dyrum að auka þróunaraðstoð, og ég hef rætt það við góðar undirtektir bæði hjá utanríkisráðherra og óformlega í ríkisstjórn, að hluti af því verði notaður til að bjóða efnilegum stúdentum við skólann upp á möguleika til að ljúka hér á landi meistaragráðu og jafnvel doktorsgráðu. Það mun í senn auðga samfélög þeirra að þekkingu á þessu sviði, bæta einstaklingana sjálfa einsog öll menntun gerir jafnan, en það mun ekki síður verða öflugt liðsinni við íslensku útrásina – sem mun öðru fremur takmarkast af þjálfuðum mannafla.

Við, einsog Indónesar og Filippseyingar gera, þurfum að standa vörð um eignarhald á orkulindum okkar. Þær eru partur af sjálfstæði og velferð okkar sem þjóðar, og þær á ekki að láta af hendi.

Við þurfum líka að gæta þess að hafa ekki öll okkar orkuegg í einungis einni körfu, og verðum að kosta kapps um að það sé rúm fyrir fleiri orkufrek fyrirtæki en aðeins álfyrirtækin – ekki síst þau sem menga lítið, og skapa mikla atvinnu fyrir jafnt iðnaðarmenn, ófaglært fólk og háskólagengið.

Við eigum líka að styðja útrás orkufyrirtækjanna af kappi, hvað sem þau heita, og skapa þannig í senn aukna vinnu fyrir íslenskt hug- og verksvit, ódýra orku fyrir almenning í fátækum löndum, og leggja okkar af mörkum til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta