Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. nóvember 2007 UtanríkisráðuneytiðUTN Forsíðuræður

Breytt öryggisumhverfi - ný viðhorf í varnarmálum

Fundarstjóri, ágætu fundargestir.

I

Ný viðhorf í varnarmálum

Ég vil þakka sérstaklega stjórn Samtaka um vestræna samvinnu fyrir þetta góða tækifæri til að ræða um varnir og öryggi, stöðu Íslands og framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar.

 

Við lifum nú merkileg tímamót í sögu þjóðarinnar og þegar ég lít yfir hópinn sem hingað er kominn í dag verður augljóst hversu ólík merking þeirra tímamóta hlýtur að vera fyrir ólíkar kynslóðir Íslendinga: Hér er fólk sem hertist í eldi í átökum fyrri áratuga og hér er líka fólk sem er of ungt til að muna kalda stríðið.

 

Heimurinn hefur breyst, Ísland hefur breyst og aðstæður hafa leitt til þess að íslensk stjórnvöld axla nú nýtt og aukið hlutverk í vörnum og öryggi landsins.

 

Í skýrslu minni til Alþingis um utanríkismál fyrr í þessum mánuði lét ég þess getið að það væri ærið verkefni að leiða til lykta yfirtöku Íslendinga á eigin vörnum. Þegar ný ríkisstjórn tók við 23. maí síðastliðinn biðu ýmsir lausir endar þess að vera hnýttir. Að því hefur verið unnið í utanríkisráðuneytinu í sumar og haust í samvinnu við NATO, Bandaríkjamenn og innlend ráðuneyti og stofnanir.  

 

Snurðulaus framkvæmd og festa í aðgerðum er mikilvæg þegar við blasir að taka við flóknum rekstri mannvirkja og búnaðar. Varnarstarfsemi er mikilsverð og sérlega viðkvæmt ef rof verður á henni þótt í stuttan tíma sé. Þessvegna hefur verið kappkostað að halda þétt utanum starfsemi íslenska loftvarnarkerfisins  -  og starfsfólk Ratsjárstofnunar, að ógleymdu starfsfólki utanríkisráðuneytisins, hefur lagt mikið á sig oft og tíðum, svo að allt mætti ganga sem best.

 

Yfirtakan 15. ágúst síðastliðinn tókst óaðfinnanlega. Strax þann dag varð fyrst vart við flug langdrægrar rússneskrar sprengjuflugvélar inn í íslenska hluta eftirlitssvæðisins á Norður-Atlantshafi og nauðsynleg boð um það flug voru samstundis send til NATO-stöðva í nágrannaríkjum sem brugðust við. Dagana á undan hafði borið á umræðu í íslenskum fjölmiðlum um að loftvarnarkerfið væri óþarft en sú umræða þagnaði skjótt.

 

Ég hef lýst hluta af þeirri miklu stjórnsýslulegu framkvæmd sem yfirtaka á mannvirkjum og búnaði NATO hér á landi felur í sér. Tímamótin sem við lifum felast þó ekki síður í því að nú er það verkefni samfélagsins og stjórnmálanna að móta stefnu til framtíðar, meta áhættu skynsamlega, byggja upp þekkingu, greina kostina og taka pólitískar ákvarðanir.

 

Við eigum að leggjast á eitt um að sammæli skapist um grundvallaratriði í varnar- og öryggismálum Íslendinga. Skynsamlegar varnir eru grundvallarskylda stjórnvalda og allir stjórntækir stjórnmálaflokkar líta á það sem hlutverk sitt að gera grein fyrir rökstuddri sýn á nauðsynlegar varnir. Ágreiningsefnið mikla, hervernd og föst viðvera bandaríska hersins, er núna á verksviði íslenskra sagnfræðinga. Stjórnmálamenn hafa fengið ný mikilvæg verkefni. Og þegar gamla orðræðan um heimsvaldastefnu og ásælni stórvelda er nú hermd upp á frændur okkar Norðmenn, eins og borið hefur við, heldur umheimurinn að það hljóti að eiga að vera brandari.

 

Í stjórnarsáttmálanum er sérstaklega fjallað um aukið hlutverk utanríkismálanefndar og ég hef nú þegar beitt mér fyrir því að allir nefndarmenn fengu öryggisvottun NATO svo hægt sé að gera þeim einnig grein fyrir málefnum sem NATO bindur trúnaði. Viðtökur Alþingismanna gefa mér góðar vonir um að þessi vinnubrögð séu vísir að nýju upphafi, þar sem Íslendingar starfi saman að eigin vörnum, tali af yfirvegun og einhendi sér hin flóknu viðfangsefni sem bíða.

 

Ég sagði á fundi Sagnfræðingafélagsins í síðustu viku að umræðan um EES-samninginn á Alþingi á sínum tíma hefði verið einn besti skóli sem ég hefði nokkurn tíma gengið í og var ég þá fulltrúi í utanríkismálanefnd Alþingis. EES-umræðan markaði þáttaskil í íslenskum stjórnmálum og hið sama mun gerast nú þegar við leggjum nýjan sameiginlegan grunn í varnarmálum. Ég hvet alla í stjórnmálum og áhugasama Íslendinga til að nýta sér tækifæri næstu mánaða og missera til að fræðast og skilja öryggis- og varnarmál okkar daga, fordómalaust og með opnum huga. Utanríkisráðuneytið mun í minni tíð leggja áherslu á gagnvirkt samstarf við háskóla landsins meðal annars með opnum fundum, eins og við höfum gert í haust og Netið verður áfram nýtt til að miðla upplýsingum og fróðleik til fólks.

 

Utanríkisráðuneytið á ekki að vera leyndarráð eins og stundum hefur borið við: Í ágúst sem leið var tekin sérstök ákvörðun um að fjölmiðlar fengju meiri aðgang að greiningum NATO á mikilvægi íslenska loftvarnarkerfisins en hefð var fyrir og nú nýlega, þegar fjölmiðill óskaði eftir tiltekinni skýrslu sem starfshópur ráðuneytisins vann, lögðum við okkur fram um að greiða fyrir og hraða afhendingu hennar til þess sem um hana bað.   

 

Um leið standa væntingar til þess að íslenskir fjölmiðlar sýni þá ábyrgð sem fjölmiðlar hvarvetna í okkar heimshluta sýna þegar fjallað er um þjóðaröryggi og varnir. Þetta er að nokkru leyti nýtt starfsumhverfi fyrir alla aðila og við skulum sameinast um skynsamlegar leikreglur. Tilkoma nýs fjölmiðlafulltrúa utanríkisráðuneytisins sem ráðinn var eftir auglýsingu og vandað faglegt ferli hefur þýðingu í þessu sambandi því Urður Gunnarsdóttir sem kemur til starfa um áramót, flytur með sér mikilsverða alþjóðlega reynslu frá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu þar sem hún hefur verið fjölmiðlafulltrúi undanfarin ár.

 

Það er spá mín að nú þegar á reynir muni hinar ólíku kynslóðir og fólk sem í fortíðinni var ekki á eitt sátt, komast að raun um að sýn Íslendinga á varnir og öryggi sé alls ekki ólík heldur þvert á móti sú sama að langmestu leyti. Íslendingar vilja leggja gott til og við eigum að leggjast á eitt um að sammæli skapist; það eitt er í sjálfu sér einnig mikilvægt öryggismál.

 

Í framhaldi af því að Bandaríkjamenn tilkynntu brotthvarf sitt frá Keflavík  tók forsætisráðherra Geir H. Haarde þá skynsamlegu ákvörðun að leitað skyldi til NATO um mat á loftvörnum Íslands á friðartímum og nauðsyn íslenska loftvarnarkerfisins fyrir varnir Íslands og sameiginlegar varnir bandalagsríkja. Sem formaður Samfylkingarinnar hafði ég sagt strax og brotthvarf Bandaríkjahers varð opinbert, að Ísland ætti í krafti 7. gr. varnarsamningsins frá 1951 að leita álits NATO á þeirri stöðu sem upp væri komin. Grundvallarafstaðan er hin sama: Ísland hefur ekki enn sjálft byggt upp þá sérfræðilegu þekkingu sem er grundvöllur mats á varnarþörf;  Þar eð þátttakan í NATO kemur nú framar tvíhliða samstarfi við Bandaríkin á friðartímum ber í ljósi þessa að byggja á mati NATO.

 

Niðurstaða hermálanefndar NATO var staðfest í fastaráðinu 24. júlí í sumar. Loftvarnarkerfið er nauðsynlegt fyrir varnir Íslands og sameiginlegar varnir bandalagsríkja, en sameiginleg stefna um loftvarnir er lykilatriði í skilgreindum samvörnum NATO-ríkja.

 

Út frá þessu vinnum við núna, íslensk stjórnvöld reka loftvarnarkerfið og taka á sig kostnað sem því fylgir.

 

Ísland býr ekki lengur við vernd heldur þarf að huga sjálft að eigin vörnum. Við þurfum að byggja upp eigin þekkingu og eigið mat á hættu og varnarþörf og undirbúa þannig pólitískar ákvarðarnir næstu ára. Við herjum ekki á neinn, við hervæðumst ekki, heldur lítum eftir lofthelgi okkar og landhelgi. 

 

Það er einmitt með eigin íslenska þekkingu að markmiði sem hef ég sett til starfa þverfaglegan starfshóp með þátttöku þriggja ráðuneyta sem er ætlað að gera vandað og faglegt hættumat fyrir Ísland. Starfið sækir fyrirmynd til annarra landa s.s. Írlands og Noregs, því er ætlað að byggja á bestu þekkingu á sviðinu og leitað verður víða fanga í fræðum og með nánu samstarfi við stofnanir í samstarfsríkjum Íslands á sviði öryggismála. Gert er ráð fyrir reglulegum upplýsingafundum með utanríkismálanefnd Alþingis en engir þingmenn sitja í hópnum. Þá verða haldnir opnir fræðafundir og sett upp sérstök upplýsingagátt á vefsetri ráðuneytisins vegna starfsins. Dr. Valur Ingimundarson er formaður hópsins og Alyson Bailes fv. forstöðumaður SIPRI öryggisstofnunarinnar í Stokkhólmi sérstakur fastaráðgjafi. Verklok eru áætluð næsta haust.

 

Það er ekki markmið að magna upp ímyndaða ógn og væða landið óþörfum vörnum. Herleysi Íslands var frá upphafi yfirlýst forsenda aðildarinnar að NATO og sú forsenda er í fullu gildi og öllum kunn. Við fylgjum mati NATO á nauðsyn loftvarnarkerfis og reglulegs eftirlits flugvéla bandalagsríkja svo lengi sem það er niðurstaðan á grundvelli bestu þekkingar og bestu fáanlegu upplýsinga.

 

Eftir að aðstæður breyttust hafa aðgerðir íslenskra stjórnvalda falist  fjórum meginþáttum:

 

·         Í fyrsta lagi yfirtöku nauðsynlegrar varnarstarfsemi NATO hérlendis

·         Í öðru lagi í efldri stjórnsýslu og auknu lýðræðislegu gegnsæi

·         Í þriðja lagi í auknu samstarfi við grannríki

·         Í fjórða lagi í aukinni þátttöku í starfi fjölþjóðastofnana

 

Varnarsamningurinn við Bandaríkin er nánast einsdæmi í samskiptum ríkja heims á síðari áratugum og virði hans er verulegt fyrir varnir Íslands. Varnarsamningurinn felur hins vegar ekki í sér beina ábyrgð á vörnum gegn öðrum ógnum en vegna hefðbundis hernaðar. Þessvegna felst kjarni hins nýja verkefnis okkar Íslendinga ekki í hervörnum heldur í því að skapa öryggi með alþjóðlegu samstarfi.  

 

 

II

Breytt öryggisumhverfi

 

Góðir áheyrendur. 

Enginn efast um að öryggisumhverfi ríkja hefur gjörbreyst á síðustu árum. Segja má að á síðustu fimmtán árum hafi bæði öll herveldi heimsins og alþjóðastofnanir farið í gegnum gagngera endurskoðun á forsendum starfsemi sinnar. Hugtakið öryggi einskorðast ekki lengur við hervarnir tiltekinna svæða heldur er hugtakið miklu víðtækara og nær einnig til aðgerða gegn hinum nýju hnattrænu váboðum. Ríki ein og sér stemma ekki stigu við útbreiðslu gereyðingarvopna, hryðjuverkum, alþjóðlegri glæpastarfsemi, neikvæðum afleiðingum loftslagsbreytinga, fátækt og örbirgð eða þeirri hættu sem stafar frá löndum sem búa við stjórnarfar upplausnar. 

 

Varnarsamningurinn við Bandaríkin á við á ófriðartímum; hann nær fyrst og fremst til hefðbundins hernaðar. Hið nýja verkefni okkar á Íslandi snýr í kjarna sínum að því að skapa öryggi gagnvart ofangreindum hnattrænum váboðum. Og það verður ekki gert með öðru en virkri þátttöku í alþjóðlegum samstarfi.

 

Á sama tíma er innra öryggi samfélagsins, lögreglumál og almannavarnir alls ekki nýtt verkefni okkar heldur á óslitna sögu frá fyrstu lögreglumönnum bæjarins í Reykjavík á nítjándu öld en vegna breytinga á öryggisumhverfinu er nú farið að líta á þá starfsemi sem eins konar innri varnir.

 

Ytri varnir einstakra ríkja hafa sennilega aldrei í lotið alþjóðasamskiptum sama mæli og nú er raunin. NATO lítur ekki lengur á sig sem varnarbandalag heldur öryggisbandalag. Þar, eins og hjá flestum öðrum alþjóðlegum stofnunum, verða yfirþjóðleg einkenni óhjákvæmilega skarpari. Hinir nýju váboðar og ógnir 21. aldarinnar þekkja ekki landamæri og krefjast nánari samstöðu og skilvirkari viðbragða.

 

Öryggi er aðeins hægt að skapa með því að vinna gegn rótum átaka. Verstu átakasvæði heimsins, í Darfur, í Afganistan, í Miðausturlöndum eiga sammerkt að fólkið skortir vatn, að jarðvegurinn er að þorna upp, að fólkið tekur sig upp til að finna nýjar jarðir, finna vatn og lífsbjörg. Þá rísa átökin grimmileg og að því er virðist án enda. Loftslagsbreytingar er þessvegna öryggismál.  

 

Ég hef ítrekað fjallað um það í ræðu og riti sem utanríkisráðherra að í stjórnmálum séu skilin milli alþjóðamála og innanlandsmála óðum að hverfa. Þetta má orða sem svo að á 21. öld séu heimsmálin einnig heimamál og heimaverkefnin heimsverkefni

 

Þetta á hvergi betur við en í varnar og öryggismálum.

 

Í öryggisumhverfi þar sem ógnir virða ekki landamæri og kalla á fjölþjóðleg úrræði og samstarf, skiptir öflug pólitísk þátttaka lykilmáli fyrir Ísland.

 

Og þegar friðaruppbygging, stuðningur við lýðræði og félagslega innviði er kjarnaatriði í öryggisstefnu alþjóðastofnana geta Íslendingar gengið fram í fullu trausti þess að þeir hafa sannarlega þekkingu, reynslu og hæfni fram að færa.

 

Allir eru sammála um að öryggiskerfi Evrópu og heimsins eru í mikilli deiglu. Því hef ég kynnst náið á alþjóðlegum vettvangi og það kom líka glögglega fram hér í Reykjavík á vel heppnuðu þingi þingmannasamtaka NATO í október sem íslenskir fjölmiðlar sögðu allítarlega frá.

 

Þessi deigla kann að leiða af sér nýtt varnarskipulag á afmörkuðum sviðum og nýjar tegundir alþjóðlegra aðgerða.

 

Réttmæti aðgerða NATO „utan svæðis", til dæmis hernaðaríhlutun af mannúðarástæðum er umdeilt en ræðst að mínu mati af þjóðréttarlegum grunni aðgerða þar sem mannöryggi er meðal forsendna. Strangt mat þarf einnig að fara fram á getu bandalagsins til að grípa inn í atburðarás og leiða farsællega til lykta -  með mannöryggið þ.e. afdrif óbreyttra borgara, fjölskyldna og barna í öndvegi. Mannöryggi er nýtt hugtak í þjóðarétti sem Íslendingar gefa nú sérstakan gaum og tala fyrir á alþjóðavettvangi.  

 

Að mínu mati þarf að auka umræðu hér á landi um þær breytingar sem orðið hafa og fyrirsjáanlegar eru á starfsemi NATO.

 

Eins og þið þekkið var ágreiningurinn innan NATO um stríðið gegn hryðjuverkum meiri en dæmi voru um í sögu bandalagsins og mörg NATO-ríki tóku aldrei neinn þátt í stríðsrekstrinum þar. Bandaríkjamönnum mistókst líka að sannfæra öryggisráðið um tilvist gereyðingarvopna í Írak og fengu þessvegna ekki lögformlegt umboð þess til innrásar. Ófarirnar í Írak eru öllum mikið umhugsunarefni ekki síst í bandarískum stjórnmálum og af þeim hefur þegar verið  dreginn víðtækur lærdómur sem að líkindum mun hafa veruleg  áhrif á starfsgrundvöll alþjóðastofnana.

 

Því ber að fagna að vestræn samvinna er að endurheimta þann sameiginlega skilning að forsenda friðar og öryggis sé virðing fyrir mannréttindum og grundvallarreglum alþjóðalaga, baráttan gegn fátækt í formi öflugrar þróunarsamvinnu og markviss friðargæsla og uppbyggingastarf á átakasvæðum.  

 

Þá eru afvopnunarmál aftur að komast ofarlega á dagskrá á alþjóðavettvangi sem ber að fagna. Þar má aldrei sofna á verðinum

 

Nauðsyn þess að konur komi að öryggis- og varnarmálum hjá einstökum ríkjum og hjá alþjóðastofnunum er nú viðurkennd á alþjóðavettvangi. Ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 fjallar um konur og öryggi og á grundvelli hennar hafa stofnanir sem Ísland á aðili að þar á meðal NATO gert aðgerðaráætlanir um að fá fleiri konur inn í starf sitt. Aðgerðaáætlun byggð á ályktuninni er í vinnslu í ráðuneytinu, brátt verður frjálsum félagasamtökum boðið til samráðsfundar um hana og ég býð hér sérstaklega Samtökum um vestræna samvinnu og Varðbergi að taka þátt í þeim fundi.

 

. 

 

 

III

Ný staða Íslands

 

Brotthvarf Bandaríkjahers frá Íslandi 30. september 2006 var ein af mörgum afleiðingum breytts öryggisumhverfis í heiminum.

 

Ég vil ekki dvelja við aðdraganda brotthvarfs Bandaríkjahers né glataðan tíma hér heima eftir að ljóst mátti vera hvert stefndi.

 

Sem betur fer lifum við friðvænlega tíma í okkar heimshluta. Norðurslóðir eru nýtt kjarnamál í íslenskri utanríkisstefnu, hér er ekki tími til að gera þeim fullnægjandi skil en ég lýsi áhuga á að koma aftur og fjalla sérstaklega um Norðurslóðir á nýju ári. Þegar Jaap de Hoop Scheffer framkvæmdastjóri NATO kom til Íslands í haust vegna fundar þingmannasamtakanna lögðum við forsætisráðherra ríka áherslu á það við hann að NATO beindi sjónum sínum meir að Norðurslóðum en verið hefur. Er næsta öruggt að svo verði gert, enda fleiri ríki á sama máli og við.     

 

Eins og áður sagði var það niðurstaða mats hermálanefndar NATO í sumar að nauðsynlegt væri fyrir varnir Íslands og sameiginlegar varnir bandalagsins að íslenska loftvarnarkerfið  (IADS) yrði rekið áfram og tengt við evrópska loftvarnarkerfið (NATINADS). Þá kemur nú og til greina að beintengja úr íslenska kerfinu til Norður-Ameríku.

 

Þegar ratsjárkerfinu var komið upp á níunda áratugnum var það eitt hið fullkomnasta í heiminum enda Ísland þá lykilsvæði í utanríkisstefnu Bandaríkjastjórnar. Mannvirki og búnaður stöðvanna er eign NATO og um það eignarhald gilda strangar reglur sem Ísland sem aðildarríki verður að virða. Þetta setur hagræðingu með samruna við borgaralegar stofnanir hér heima verulegar skorður. Þá er og mikilvægt að greina skýrlega í sundur hernaðarlega varnarstarfsemi og borgaralega starfsemi. Þessvegna er miðað að því að setja sérstök lög um nýja varnarmálastofnun sem annist allan rekstur mannvirkja NATO á Íslandi, sjái um varnaræfingar og samskipti sem byggjast á öryggistrúnaði innan bandalagsins eða eru liður í samhæfðum viðbrögðum NATO-ríkja. 

 

Frá því að Ísland tók yfir rekstur Ratsjárstofnunar hafa langdrægar rússneskar tíu sinnum flogið inn í íslenska hluta eftirlitssvæðisins á Norður-Atlantshafi. Í tveimur þeirra tilfella flugu þær í kringum Ísland og næst voru vélarnar í 35 sjómílna fjarlægð frá ströndu. Í öll skiptin hefur loftvarnarkerfið fylgst með ferðum rússnesku vélanna og miðlað upplýsingum til viðeigandi stofnanna innan lands og meðal bandalagsþjóða.

 

Rússland er samstarfsríki við NATO og hvorki Ísland né önnur NATO-ríki líta svo á að af þessari endurkomu langdrægra sprengjuflugvéla þaðan stafi ógn. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að ferðir þessara véla hafa ekki verið tilkynntar fyrirfram. Við höfum því gert athugasemdir við þetta háttalag, bæði tvíhliða sem og á vettvangi NATO.

 

Auk ratsjánna hefur Ísland tekið að sér að reka sérstakt öryggissvæði við Keflavíkurflugvöll og er gert ráð fyrir að fyrirhuguð varnarmálastofnun muni hafa umsjón með rekstri svæðisins. Þar er staðsett stjórnstöð íslenska loftvarnarkerfisins og fullkomin aðstaða vegna æfinga í þágu varna landsins.

 

Þannig er komið til móts við ákvörðun fastaráðs NATO frá 26. júlí sl. um framkvæmd loftrýmiseftirlits við Ísland, en hún gerir ráð fyrir því að fjórar orrustuflugvélar eða fleiri frá aðildarríkjum bandalagsins hafi viðveru á Íslandi fjórum sinnum á ári og dvelji hér í allt að þrjár vikur í senn.

 

Þegar hafa mikilvæg bandalagsríki staðfest vilja sinn til að taka þátt í loftrýmisgæslu við Ísland. Þannig verða Frakkar með flugsveit á Íslandi í fimm til sex vikur fyrri hluta árs 2008. Þá munu Bandaríkjamenn senda flugsveitir næsta sumar og aftur sumarið 2009 í tvær til þrjár vikur í senn. Danir og Spánverjar hafa gefið almenn fyrirheit um þátttöku árið 2009 og Norðmenn munu eiga frekara samráð við íslensk stjórnvöld um þátttöku. Enn fremur munu Pólverjar senda flugsveit til Íslands árið 2010.

 

Þessar aðgerðir - að halda áfram rekstri íslenska loftvarnarkerfisins, að tengja það við loftvarnarkerfi NATO beggja vegna Atlantshafsins, og að reka öryggissvæði á Keflavíkurflugvelli m.a. fyrir loftrýmiseftirlit NATO -  þjóna allar öryggishagsmunum Íslands. Og það sem meira er, þetta loftrýmiseftirlit er nú á okkar ábyrgð og í virkara samstarfi við bandalagsríki okkar en áður tíðkaðist.

 

 

 

IV

Grannríkjasamstarf

 

Önnur meginviðbrögð íslenskra stjórnvalda við breyttum aðstæðum hafa falist í því að leita eftir nánara samstarfi við helstu grannríki um öryggis- og varnarmál.

 

Í skoðanakönnum sem gerð var í aðdraganda Norðurlandaráðsþings kom fram að 73% Íslendinga vilja að Norðurlandasamstarf fjalli um varnir og öryggi. Þetta er mjög athyglisverð vísbending og hærra hlutfall en margir hefðu búist við.

 

Vegna hins nána samstarfs við Bandaríkin um áratugaskeið má segja að við Íslendingar hafi átt ógert að byggja upp markvissari samvinnu við næstu grannríki. Því má kalla aðgerðir síðasta árs tímabæra bragarbót enda einungis til góðs að ríki eigi í nánu samstarfi við öll sín grannríki um sameiginlegt öryggi.

 

Að undanförnu hafa viðræður farið fram við Noreg, Danmörku, Bretland og Kanada, auk Frakklands og Þýskalands. Þegar hefur verið gert tvíhliða rammasamkomulag við Noreg og Danmörku um samstarf í öryggis- og varnarmálum, og framundan eru áframhaldandi upplýsinga- og samráðsfundir með öðrum ríkjum.

 

Hafa ber í huga að hér er einungis um að ræða fyrstu skref í lengri vegferð, en vissulega lofa þau skref góðu. Grannríki okkar hafa undantekningalaust tekið vel í þá málaleitan Íslands að skoða möguleikana á nánara öryggissamstarfi. Það samstarf getur verið margvíslegt, allt frá pólitísku samráði um alþjóðleg öryggis- og varnarmál, til samstarfs um björgunaraðgerðir  á hafi, umhverfisvöktun og þátttöku í friðargæslu, svo dæmi séu nefnd.

 

Framundan er að útfæra nánar einstök verkefni og skilgreina samstarfsfleti enn frekar. Við Íslendingar göngum til þessa grannríkjasamstarfs til að leggja okkar af mörkum til sameiginlegs öryggi eins og aðrir. Sú gagnrýni, sem heyrst hefur, að Ísland sé nú að óska eftir að komast undir verndarvæng annarra ríkja virðist á misskilningi byggð. Það er ekki verið að  falast eftir vernd annars ríkis, heldur öryggissamstarfi sem gagnast báðum aðilum.

 

Í þessu samhengi vil ég benda á að grannríkjasamstarfinu hefur ekki verið ætlað að leysa af hólmi varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna. Öryggissamstarfi við grannríki á borð við Noreg og Danmörku er ætlað að vera viðbót við aðra varnarsamvinnu.

 

Brottför Bandaríkjahers er nánast skólabókardæmi um hvernig aðstæður, sem flestir töldu að myndu verða erfiðar viðureignar, reyndust fela í sér umtalsverð tækifæri til nýsköpunar. Fyrirhugað samstarf um endurnýjanlega orkugjafa eru sömuleiðis gott dæmi um þá möguleika sem samskipti Íslands og Bandaríkjanna hafa og munu geta leyst úr læðingi. Við byggjum á sextíu ára sérstöku sambandi við Bandaríkin allt frá því þau viðurkenndu lýðveldið Ísland 1944 og viljum nýta það til samstarfs á sviði vísinda, viðskipta og menningar svo að nokkuð sé nefnt, auk varnarsamstarfs.

 

V

Virkari þátttaka á alþjóðavettvangi

 

Þriðju meginviðbrögð okkar Íslendinga við breyttum aðstæðum í öryggismálum felast í virkari þátttöku í starfi fjölþjóðastofnana. Þeir dagar eru löngu liðnir að Ísland sé einungis í hlutverki þiggjanda heldur erum við fullgildur þátttakendur sem leggjum okkar af mörkum til sameiginlegra úrlausnarefna.

 

Framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna er skýr birtimynd þessarar nýju hugsunar. Í störfum mínum á síðustu mánuðum hef ég orðið þess vör að framboð okkar á sér ágætan hljómgrunn, þó of snemmt sé að spá nokkru um niðurstöðu kosninganna. Þar nýtur Ísland þess að vera öflugt smærra lýðræðisríki sem seint getur verið sakað um hagsmunaárekstra við friðsamlega lausn deilumála. Í dag kom fram í lífskjaraskýrslu Sameinuðu þjóðanna að Ísland er þar í efsta sæti. Þessari stöðu fylgir ábyrgð, aðrir horfa til okkar.

 

Við skulum einnig hafa hugfast að sjálf vinnan við framboðið skilar okkur umtalsverðum ávinningi. Framboðið er tækifæri til að dýpka þekkingu okkar á málefnum og landsvæðum sem við höfum ekki sinnt mikið til þessa, en eru ótvíræður hluti af breiðara langtímaöryggi Íslands.

 

Þátttaka Íslands í starfi Sameinuðu þjóðanna, Atlantshafsbandalagsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, auk samstarfs við önnur Norðurlönd og pólitísks samráðs við Evrópusambandið, er mikilvæg í þessu samhengi.  

 

Allar þessar stofnanir hafa svo að segja sitt sérsvið og sérhver vettvangur hefur sitt mikilvægi. Starf þeirra er líka samofið.  Þannig hefur málflutningur Íslands á vettvangi ÖSE áhrif á samstarf okkar hjá Sameinuðu þjóðunum, og afstaða okkar á vettvangi NATO mótar öryggismálasamráð við Evrópusambandið, svo dæmi séu tekin. Stefna okkar og aðgerðir verða því að vera samræmdar og ákveðnar af yfirvegun með sameiginlega hagsmuni í huga. Alþjóðamál eru ekki átaksverkefni, heldur getur Ísland einungis með ábyrgri stefnu og þátttöku í fjölþjóðastarfi áunnið sér traust og virðingu samstarfsríkja. Aðeins þannig er tryggt að á sjónarmið Íslands sé hlustað og tillit tekið til hagsmuna okkar þegar á þarf að halda.

 

Aðgerðir NATO til að koma á friði og stöðugleika í Afganistan eru mikilvægasta verkefni bandalagsins um þessar mundir. Aðgerðin í Afganistan naut víðtækari stuðnings í alþjóðasamfélaginu en dæmi eru um. Hún byggist á þremur stoðum, hernaðarstoð, uppbyggingu löggæslu og réttarkerfis og uppbygging félagslegra innviða samfélagsins. Helstu ábyrgðarmenn NATO í Afganistan hafa sagt mér að þeir álíti að því styrkari sem þær tvær síðarnefndu séu því minna reyni á þá fyrstu.  

 

Hafa ber hugfast að þrátt fyrir erfiðleika við að tryggja öryggi í Afganistan þá er valkosturinn sýnu verri. Brottför alþjóðaherliðs NATO og þeirra fjölmörgu frjálsu félagasamtaka sem starfa að uppbyggingar-, mannúðar- og hjálparstarfi í landinu í skjóli friðargæslu bandalagsins gæti  hrundið af stað atburðarás sem yrði margfalt verri en það sem nú er uppi í landinu.

 

Staðreyndin er einnig sú að þrátt fyrir allt hefur fjölmargt þegar áunnist í Afganistan. Lýðræðislegar kosningar hafa farið fram, bæði til þings og embættis forseta, um 85% landsmanna hafa nú aðgang að heilsugæslu og tæplega 5 milljónir flóttamanna hafa snúið til síns heima. Staða kvenna í Afganistan er gjörbreytt, þær eru þriðjungur þingmanna og njóta nú skólagöngu milljónum saman, en undir ógnarstjórn Talibana var menntun kvenna bönnuð.  

 

 

VI

 

Góðir áheyrendur

 

Okkur ber á alþjóðavettvangi að standa vörð um grunngildi sem eru algild og óháð trúarbrögðum, þjóðerni og efnahag.

 

Hugtök eins og lýðræði, frelsi, jafnrétti og mannréttindi eru ekki orðin tóm. Þau eru undirstaða réttlætis og framfara um veröld alla. Þau fela í sér grunngildi lýðveldisins Íslands og þeirra alþjóðastofnana sem við eigum aðild að svo Norðurlandaráðs, Sameinuðu þjóðanna, ÖSE og NATO. Þau eru því það leiðarljós sem starf okkar á alþjóðavettvangi byggist á einnig á sviði öryggis og varnarmála.

 

Ísland nýtur nú  til fulls ávaxtanna af lýðræðislegu alþjóðlegu samstarfi er byggir á alþjóðalögum. Okkur ber því siðferðileg skylda til þess að standa vörð um þau gildi, og það sem meira er, tryggja þeim framgang. Við eigum að hafa metnað og þor til þess að láta rödd okkar og sjónarmið heyrast og við eigum að láta gjörðir fylgja orðum í starfi okkar á alþjóðavettvangi.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta