Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. nóvember 2007 UtanríkisráðuneytiðUTN Forsíðuræður

Ísland verði fyrirmynd í lífsháttum eins og lífskjörum

FÉLAG SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA Á ÍSLANDI

Kynning á þróunarskýrslu SÞ 2007/2008

þriðjudaginn 27. nóvember 2007

ÁVARP UTANRÍKISRÁÐHERRA

 

Formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi
Mr. Daniel Coppard
Aðrir þátttakendur og góðir gestir


Þróunarskýrsla Sameinuðu þjóðanna, sem kynnt er í dag, færir okkur þau ánægjulegu tíðindi að Ísland er nú í efsta sæti á lífskjaralista Sameinuðu Þjóðanna. Þetta er sönnun þess – sem við vitum raunar ofurvel – að við Íslendingar erum lukkunar pamfílar. Þó það sé alltaf þannig að ýmislegt megi betur fara í okkar samfélagi þá eru það engu að síður forréttindi að fæðast, lifa og starfa hér á landi. Þessi forréttindi leggja okkur ríkar skyldur á herðar og undirstrika nauðsyn þess að við öxlum ábyrgð okkar í samfélagi þjóðanna. 

Markmið þróunarskýrslunnar og lífskjaralistans er hins vegar ekki að efna til samkeppni milli þróaðra ríkja í því ná besta sætinu. Á efstu sætunum er bitamunur en ekki fjár. Hins vegar skilur himinn og haf að þau ríki sem raða sér efst og hin sem eru í neðstu sætunum. Það er að þeim sem við eigum að beina athygli okkar í dag. Við eigum að staldra við og skoða hvaða ríki það eru sem búa við lökust lífsgæði, í hvaða ríkjum ástandið fer batnandi og  hvaða ríki það eru sem hafa dregist aftur úr. Við eigum að nota listann sem tæki til að greina hvað það er sem - eftir atvikum - leiðir til framfara, stöðnunar eða hnignunar. 

Það er til að mynda eftirtektarvert að sjá að þau 22 ríki sem neðst eru á listanum eru öll í Afríku og ef litið er á einstaka mælikvarða þessara ríkja þá er augljóst að mikið verk er fyrir höndum eigi þau að ná Þúsaldarmarkmiðunum fyrir árið 2015. Sorglegast er auðvitað að sjá að sum af fátækustu ríkjum heims hafa nær staðið í stað í tugi ára, og jafnvel farið aftur í sumum tilvikum. 

Íslensk stjórnvöld hafa meðal annars litið til lífskjaralista Sameinðu þjóðanna við val á samstafslöndum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, og eru fjögur samstarfslönd ÞSSÍ í Afríku, öll á meðal þeirra ríkja sem neðst eru á listanum. 

Í þróunarskýrslunni kemur glöggt fram hversu ríkan þátt loftslagsbreytingar eiga í því að grafa undan alþjóðlegri viðleitni til að ná settum þúsaldarmarkmiðum, ekki síst því að berjast gegn fátækt og hungri. Fátækustu ríki heims þurfa aðstoð til að bregðast við og aðlagast loftlagsbreytingum, og er nauðsynlegt að tekið sé mið af þeirri þörf í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Þessi staðreynd endurspeglast í þróunarsamvinnu Íslands, þar sem ein af stoðum hennar er sjálfbær þróun, þar með talið baráttan gegn loftlagsbreytingum. Öll aðstoð Íslendinga við uppbyggingu á nýtingu jarðhita í þróunarlöndunum er gott dæmi um slíkt.

Einnig er það sláandi að sjá hversu víða er pottur brotinn varðandi jafnrétti kynjanna og er greinileg fylgni milli aukins jafnréttis kynjanna og bættra lífskjara. Er þetta enn ein staðfesting þess að aðstoð við konur í þróunarríkjum hefur hvarvetna margfeldisáhrif fyrir samfélagið.

Ég sótti leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um loftlagsmál í september, þar sem ráðherrar frá nær öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna komu saman og ræddu orsakir og afleiðingar loftslagsbreytinga, og hvernig best væri að berjast gegn áhrifum þeirra. Allir voru sammála um að þær væru vísindaleg staðreynd sem ekki mætti líta framhjá. Það mun vissulega hafa í för með sér mikinn kostnað fyrir samfélög heimsins að takast á við loftslagsbreytingarnar en það er þó hjóm miðað við þann kostnað sem af því hlýst að aðhafast ekkert.

Á þinginu var sérstaklega lærdómsríkt að hlusta á fulltrúa ýmissa smáeyþróunarríkja þar sem þeir greindu frá reynslu sinni af því að takast á við beinar afleiðingar loftlagsbreytinga. Í ávörpum þeirra kom bersýnilega í ljós að barátta þessara ríkja gegn fátækt er nátengd baráttunni gegn loftlagsbreytingum, enda er það staðreynd að það er einna helst fátækt fólk og vanþróuð samfélög sem verða fyrir neikvæðum áhrifum loftlagsbreytinga. 

Tölfræðilegar niðurstöður – um loftslagsbreytingar eins og annað – eru hins vegar með þeim annmörkum að þær gefa þær okkur oftast svipmynd af liðnum tíma og einungis vísbendingu um hvað kunni að vera í vændum. Á fundi vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í Valencia á Spáni fyrir viku var lokaskýrsla nefndarinnar um loftslagsbreytingar lögð fram og áhrif þeirra á veðurfar, lífríki og náttúru heimsins. Þar drógu fróðustu sérfræðingar heims upp vægast sagt dökka mynd af því sem við getum átt yfir höfði okkar ef þjóðir heims ná ekki samstöðu um bindnandi markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Meðal þeirra blaðamanna, sem fluttu fréttir af fundi vísindanefndarinnar var Elisabeth Rosenthal, blaðamaður hjá New York Times og Herald Tribune, sem var heiðruð sérstaklega á þingi FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, fyrir að hafa upphaflega vakið athygli á fuglaflensunni og átt einna stærstan þátt í því að uppfræða þjóðir heims um þá miklu heilbrigðisógn.

 

Í umfjöllun sinni benti Elisabeth Rosenthal á að þótt niðurstaða vísindanefndarinnar sé vægast sagt mjög alvarleg, þá sé ástandið í raun enn ógnvænlegra, því þær rannsóknir, sem liggi niðurstöðunni til grundvallar séu allt að fimm ára gamlar. Þróunin hefur því miður verið sú á síðustu árum að þrátt fyrir viðleitni margra ríkja þá eykst losun þeirra ríkja, sem ekki hafa undirritað Kyótó-bókunina, hraðar en nokkru sinni fyrr. Sem dæmi má nefna að í Kína eru tekin í notkun að meðaltali tvö ný kolaknúin raforkuver - í viku hverri!

Það má því öllum vera ljóst að við loftslagsvandann verður ekki ráðið nema öll ríki heims setjist að samningaborðinu. Ekki aðeins með fögur en óljós fyrirheit. Ekki heldur með því að höfða til þess að þau hafi orðið útundan í þróunarkapphlaupinu. Forsenda sjálfbærrar í framtíðinni er að böndum verði komið á loftslagsbreytingar. Þar berum við okkar ábyrgð og verðum að axla hana með þeim hætti, sem við getum best.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að það er pólitísk andstaða meðal ráðamanna í nokkrum af öflugustu ríkjum heims við að gangast undir skuldbindandi markmið til að draga úr loftslagsbreytingum. En rödd almennings verður æ sterkari fyrir því að ríki heims eigi öll að taka höndum saman. Ríkisstjórn Ástralíu hefur til dæmis árum saman barist gegn sameiginlegum skuldbingingum og neitað að undirrita Kyótó-bókunina. Ástralskir kjósendur voru hins vegar á öðru máli – þrátt fyrir að þeir búi í víðáttumiklu og dreifbýlu landi - og nú um helgina höfnuðu þeir stefnu Johns Howards í kosningum. John Rudd, hinn nýi forsætisráðherra hét því í gær að láta það verða sitt fyrsta verk að fara til Balí í næstu viku á þing loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og undirrita þar Kyótó-bókunina.

Þannig eykst nú þungi hins pólitíska þrýstings og vonandi taka þeir ráðamenn þau skilaboð til sín, sem enn þráast við að taka mark á vísindunum. En tíminn er naumur.

Eins og Ásralir búum við Íslendingar í víðáttumiklu og dreifbýlu landi þar sem mengun er lítil mæld andspænis landsstærðinni. En ef litið er til þeirrar mengunar sem við hvert og eitt skiljum eftir okkur þá erum við í hópi þeirra þjóða sem mest menga. Okkar góðu lífskjörum fylgir fórnarkostnaður. Við höfum hins vegar allar forsendur til að draga úr þessum kostnaði og við eigum að leggja metnað okkar í að vera ekki aðeins öðrum þjóðum fyrirmynd í góðum lífskjörum heldur líka í lífsháttum sem leitt af sér aukin loftslagsgæði. 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta