Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. desember 2007 MatvælaráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2007-2009

60 ára afmæli Vatnamælinga Orkustofnunar

Ágætu ráðstefnugestir.

Til hamingju með sextugsafmælið.

Mig langar í upphafi til þess að hylla frumkvöðlana.

"Við búum í snjóhúsi við Svartakrók. Snjóbíllinn er fastur í krapi. Hjálparleiðangur hafi meðferðis margar kraftlínur, mikið af vírum og köðlum, járnum, trjám og gaslampa.

Sigurjón Rist."

Þetta skeyti til Jakobs Gíslasonar raforkumálastjóra kunna allir vatnamælingamenn utanað og af því ganga sögur meðal jarðfræðinga. Jón Eyþórsson veðurfræðingur og formaður Jöklarannsóknarfélagsins þýddi skeytið fyrir Jakob:

"Þetta er ekkert venjulegt krap", sagði Jón með áherslu.

Og það voru orð að sönnu. Snjóbíll Guðmundar Jónassonar fjallabílstjóra, sem nefndur var Gusi, hafði fallið niður um ís á Tungnaá, sat á 170 cm dýpi með skíðin uppi á skararbrún. Gusi var 400 metra frá landi við Svartakrók.

Þessi frásögn af svaðilför Guðmundar, Sigurjóns og Ebergs Elefsen frá 1957 er dæmigerð um þau afrek sem unnin voru á upphafsárum vatnamælinga á Íslandi. Mælinga sem lögðu grunn að betra Íslandi, að því Grettistaki í átt til góðra lífskjara sem brautyðjendurnir lyftu. Svo vel þekktust þeir menn sem ruddu braut til framfara á vegleysum hálendisins að það þurfti ekki að útmála hættur né háska. Og þegar þrír félagar úr Jöklarannsóknarfélaginu, þeir Haukur Hallgrímsson, Heiðar Steingrimsson og Gunnar Guðmundsson, höfðu brotist inn í Svartakrók á snjóbílnum Kraka er sagt að Guðmundur hafi tautað fyrir munni sér: "Haukur- já, Heiðar – já, Gunnar – já." Þarna voru komnir þrír menn sem hann treysti til þess að leysa af hendi hið ómögulega.

Fyrstu tíu ár Vatnamælinga voru þær Sigurjón Rist. Punktur, basta. Og þó. Að baki honum var Jöklarannsóknafélagið og margir fullhugar sem skildu gildi vatnamælinga sem forsendu nýtingar á fallvötnum landsins og til skilnings á vatnafari öllu og vatnsbúskap sem mikilvægum þætti í lífskjörum og öryggi landsmanna. Í fjörutíu ár stýrði Sigurjón uppbyggingu Vatnamælinga og því er hans minnst með virðingu þegar þessi stofnun heldur upp á 60 ára afmæli sitt með veglegum hætti.

Við skulum á þessari stundu hylla frumkvöðlana með góðu lófaklappi.

Reglubundnar vatna- og rennslismælingar á vegum raforkumálastjóra hófust árið 1947- og Hekla hélt upp á það með stórgosi. Í orkulögum stóð þá þessi dásamlega setning: "Raforkumálastóri hefur umsjón með fallvötnum, sem eru í eigu ríkissjóðs, heldur skrá yfir þau og annast nauðsynlegt bókhald yfir þau," enda var Eysteinn Jónsson þá nýbúinn að finna upp tvöfalda bókhaldið fyrir ríkissjóð. Nú er bókhaldið ekki eins mikið í tísku og hlutverki vatnamælinga lýst á þann veg að það sé á þeirra könnu að veita áreiðanlegar upplýsingar um vatnafar og vatnsbúskap. Nú síðast var Sigurður Stefánsson, varðstjóri lögreglunnar á Sauðárkróki, að segja að allt hefði farið á best veg með flóðið í Austari Jökulsá. Það olli engum skemmdum svo vitað sé. "Þetta fór allt á besta veg og ég þakka það þeirri 10 tíma viðvörun sem við fengum." Þökk sé Vatnamælingum og Veðurstofu.

Hvort sem um er að ræða rekstur vatnamælingastöðva, mælingar á jöklabúskap og snjóalögum, athuganir á efna- og eðlisfræðilegum eiginleikum vatnsfalla, dýptarmælingar stöðuvatna, þróun gangabanka og ráðgjafaþjónustu þá gegna Vatnamælingar mikilvægu hlutverki í okkar þjóðfélagi. Oftast snýst málið um rannsóknir og upplýsingar sem koma að gagni við ákvarðanatöku, áætlanagerð og framkvæmdir en eins og við höfum orðið vitni að í fréttum síðustu daga þá er einnig m að ræða aðstoð við almenning í landinu sem þarf að takast á við náttúruöflin í misjöfnum ham.

Vatnamælingar hafa frá 1967 starfað sem deild í Orkustofnun og eru nú undir öryggri forystu Árna Snorrasonar. Vatnamælingar voru lengi fyrir karla í krapinu, en fyrir einum 15 árum varð breyting þar á. margar vel menntaðar konur eru ný meðal bestu vatnamælingamanna.

Alt er breytingum undirorpið og fyrir dyrum standa vistaskipti og nánari samvinna vatna- og veðurmælinga. Talið er víst að sameining Vatnamælinga og Veðurstofu muni styrkja mælingarstarfsemi og nýta betur þekkingu og sérhæft starfsfólk við öflun gagna og úrvinnslu þeirra. Samstarf um vöktun umbrota og flóða hefur þegar skilað góðum árqangri og rauntímavöktun eldgosa reynir á helstu fagsviðp beggja stofnana. Á þessari reynslu er er hægt að byggja og ná viðlðíka árangri á fleiri sviðum.

Alveg eins og vatnamælingar söfnuðu í upphafi mikilvægum upplýsingum sem byggðu grunninn að rafvæðingu landsins þá býður nýrrar stofnunar brautryðjendaverk í því efni að safna upplýsingum um loftslagsbreytingar sem valda okkur mestum áhyggjum í dag. Vatna- og Veðurstofa Íslands gæti orðið leiðandi í rannsóknum á loftslagsmálum, ekki aðeins á Íslandi heldur á heimsvísu, og beitt sér sömuleiðis fyrir rannsóknum á vatnsverndun og sjálfbærri nýtingu vatns sem gætu skipt máli fyrir heimsbyggðina. Vatnsbúskapur jarðarinnar er eitt af helstu framtíðarmálunum sem getur ráðið úrslitum á leið þróunarríkja frá fátækt til bjargálna og gæti einnig teflt friði í heimshlutum í tvísýnu.  

Í því undirbúningsstarfi sem unnið hefur verið að vistaskiptum og væntanlegri sameiningu hefur komið í ljós að mikilvægt er að styrkja lagasetningu um vatnafar og jarðvá til samræmis við lög um veðurþjónustu og snjóflóð og skriðuföll. Verði af sameiningu Veðurstofu og Vatnamælinga í byrjun árs 2009 mun sameinuð stofnun hafa breiðara fagsvið og meiri styrk til að sinna ýmsum verkefnum í náttúru Íslands sem fram til þessa hafa legið utangarðs. Nýja stofnunin mun án efa styrkja umhverfisráðuneytið í umsjón vatnsauðlinda okkar og í því verkefni að framfylgja evrópsku vatnatilskipuninni og alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að í þessum málaflokki. Mér finnst ánaægjulegt að sjá að í veglegri dagskrá þessa dags, sem efnt er til í tilefni af 60 ára afmælinu, er mikil áhersla lögð á norrænt og

alþjóðlegt samstarf og það er eins og vera ber. Sem norrænn samstarfsráðherra hef ég fylgst með þeirri áherslubreytingu sem er að verða í norrænu samstarfi ríkisstjórna þar sem ætlunin er að einbeita kröftunum að úrvalsrannsóknum á sviði orku- og loftslagsmála og koma þeim rækilega á framfæri á alþjóðavettvangi. Ég treysti því að þar verði Vatnamælingar framarlega í hinum íslenska flokki á norrænum vettvangi. 

Ég dreg enga dul á það að það breytingaskeið sem framundan er getur reynst erfitt. Það verður til menning innan stofnana og fyrirtækja, sem hefur sína kosti og galla, sínar góðu hefðir og sína sérsöku ósiði. Það er meira en að segja það að breyta til. En það er jafnframt spennandi og jafnvel nauðsynlegt ef til þess er gengið með opnum huga. Auðvitað munu Orkustofnun og iðnaðarráðuneytið sjá eftir Vatnamælingum. Þó það nú væri. En það er eins og eftirsjá eftir börnum sem vaxa úr grasi og yfirgefa foreldrahús. Og hvað er betra en að eiga fleyga fugla. Eru ekki orkurannsóknir mest á vegum orkufyrirtækja og verkfræðistofa í dag? Þær voru áður verkefni Orkustofnunar. Eru ekki Íslenskar orkurannsóknir, sem áður voru innan vébanda Orkustofnunar, orðnar að fleygum fugli sem stendur undir sér með sölu á rannsóknum?  

Ég legg áherslu á það að ný stofnun, hvaða nafn sem hún nú hlýtur, þróist í nánu samstarfi við aðrar stofnanir, sveitarstjórnir og fólkið í landinu og líka markaðinn. Í okkar þjóðfélagi, sem verður sífellt margbrotnara og þróaðra, er sjálfsagt að opinberar stofnanir stundi dreifingu á verkefnum og valdi, um landið og til markaðarins eftir því sem efni og ástæður bjóða.  

Í upphafi máls brá ég upp lítilli mynd af nánu samstarfi veðurfræðings og vatnamælingamanns, Jóns Eyþórssonar og Sigurjóns Rist. Þeir þekktu og skildu hvorn annan án málalengina og vafninga. Það var vegna þess að þeir skildu hve mikilvægt starf þeira voru að vinna langt á undan sinni samtíð. Þeir voru samhentir um markmiðin og staðráðnir í að láta enga erfiðleika hindra sig í að ná þeim. Það er ósk mín til Vatnamælinga á þessum tímamótum þegar vistaskipti og breytingar fara í hönd að andi frumkvöðlanna megi svífa yfir vötnunum og veita ykkur leiðsögn yfir stríða strauma og úfin vötn.

Að svo mæltu fel ég ykkur í hendur umhverfisráðuneytisins og veit að Þórunn Sveinbjarnardóttir mun vel fyrir sjá.

 

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta