Mælt fyrir varnarmálalögum á Alþingi
Virðulegi forseti.
Ég mæli hér fyrir frumvarpi til varnarmálalaga. Með frumvarpinu er stefnt að setningu laga sem gilda munu um stjórnsýslu varnarmála á íslensku yfirráðasvæði og um samstarf Íslands við aðrar þjóðir um öryggis- og varnarmál.
Framlagning frumvarpsins er söguleg í sjálfu sér og rökrétt framhald þeirra tímamóta sem orðin eru í sögu landsins með brotthvarfi flotastöðvar Bandaríkjahers frá landinu eftir fimmtíu og fimm ára starfsemi.
Nú er sá tími liðinn að Bandaríkin fari með fyrirsvar fyrir Ísland innan NATO á tilteknum sviðum, sá tími er liðinn að Ísland þurfi engum peningum að kosta til varna sinna og sá tími er kominn að Ísland sjálft axli aukna ábyrgð á eigin öryggi.
Því ber að fagna að nú er friðvænlegra í okkar heimshluta en oft áður. Um leið ber okkum öllum, sem kjörin erum til ábyrgðarstarfa hér á hinu háa Alþingi, að taka alvarlega skyldu okkar til að tryggja öryggi og varnir þjóðarinnar. Hér getur enginn skilað auðu; verkefnið er okkar, til að vinna núna.
Virðulegi forseti.
Íslensk varnarmálalög eru nauðsynleg við nýjar aðstæður. Með brotthvarfi Bandaríkjahers færðist starfræksla íslenska loftvarnakerfisins til Íslendinga auk rekstrar fjölda eigna NATO hér á landi. Ratsjárstofnun hefur rekið loftvarnarkerfið undanfarin ár fyrir Bandaríkin en frumvarpið gerir ráð fyrir að ný stofnun í íslensku stjórnkerfi, Varnarmálastofnun, taki við hlutverki hennar auk þess að annast rekstur mannvirkja NATO og samskipti við fulltrúa herja bandalagsríkja sem viðkomu eiga hér á landi. Íslenskt stjórnkerfi hefur aldrei fyrr gegnt slíkum varnarverkefnum. Þessvegna er nauðsynlegt að setja starfseminni skýr lög, varnarmálalög, sem móti vandaða stjórnsýsluhætti á þessu sviði og tryggi gagnsæi og nauðsynlegt stjórnsýslueftirlit. Ísland er opið lýðræðislegt samfélag sem virðir grundvallarregur réttarríkisins og það er sérstaklega mikilvægt að fylgja því fast eftir þegar undirstaða er lögð að stjórnsýslu varnarmála.
Virðulegi forseti.
Ég sný mér þá að því að rekja þær meginforsendum sem frumvarp til varnarmálalaga byggist á.
Í fyrsta lagi byggist frumvarpið á þeirri forsendu að Íslendingar eru herlaus þjóð og að ekki er vilji til þess af hálfu stjórnvalda að breyta þeirri staðreynd. Af þessu leiðir að varnir landsins verða einungis tryggðar með samstarfi við önnur ríki. Ég vil minna á að slíkt samstarf er milliríkjasamstarf og því, eðli málsins samkvæmt, utanríkismálefni sem lýtur lýðræðislegu eftirliti af hálfu utanríkismálanefndar Alþingis.
Í öðru lagi er með frumvarpinu settur skýr lagarammi um verkefni íslenskra stjórnvalda á sviði öryggis- og varnarmála og aðskilnað þeirra frá öðrum verkefnum stjórnvalda, sem eru borgaraleg í eðli sínu, svo sem löggæsla og almannavarnir. Í frumvarpinu er fjallað um verkefni sem snúa að varnarviðbúnaði ríkisins og ytra öryggi þess. Þessi verkefni verða nú unnin af íslenskum starfsmönnum en þau hafa hingað til að mestu verið unnin af erlendum hermönnum í umboði íslenskra stjórnvalda.
Ég tel mikilvægt að þessi verkefni séu skilgreind í lögum og skýrt aðgreind frá öðrum innlendum stjórnsýsluverkefnum. Þetta er sérstaklega mikilvægt varðandi verkefni á sviði löggæslu og almannavarna, sem eru borgaraleg í eðli sínu. Af virðingu fyrir réttaröryggi borgaranna ber ekki að blanda saman borgaralegum verkefnum og störfum að landvörnum og er það sjónarmið viðurkennt hvarvetna í okkar heimshluta og þeim stjórnvöldum sem fara með löggæslu- og innanríkismálefni ekki falin verkefni er lúta að gæslu ytra öryggis ríkja. Með skýrum aðskilnaði er lýðræðislegt eftirlit með þessari starfsemi auðveldað og nauðsynlegt gagnsæi tryggt í framkvæmd varnartengdra verkefna.
Ég leyfi mér að segja að með þessu frumvarpi sé reistur „lagalegur eldveggur“ milli þessara tveggja verkefnaflokka stjórnvalda, það er varnatengdra verkefna og verkefna á sviði löggæslu og almannavarna.
Um leið vil ég taka fram að frumvarpið útilokar ekki að stofnað verði til samstarfs milli stofnana, sem starfa á grundvelli ákvæða þess, og borgaralegra stofnana íslenska ríkisins, sem vinna að gæslu almannaöryggis, enda yrði þar yrði ávallt um gagnsæja þjónustusamninga milli stofnana að ræða.
Í þriðja lagi er með frumvarpinu lagt til að sett verði heildstæð löggjöf um varnarmálatengda starfsemi á Íslandi. Hingað til hefur slík starfsemi byggst að meira eða minna leyti á ólögfestum reglum og venjum og ekki verið háð lýðræðislegu eftirliti af hálfu löggjafans með skipulegum hætti. Slíkt fyrirkomulag samræmist að mínu viti ekki lýðræðislegum og nútímalegum stjórnarháttum.
Með frumvarpinu er starfsheimildum stjórnvalda á sviði varnarmála settur skýr lögmæltur rammi og skapaðar forsendur fyrir öflugu eftirliti kjörinna fulltrúa með framgöngu framkvæmdavaldsins á þessu sviði. Ég bendi til dæmis á það að í frumvarpinu er sérstaklega kveðið á um upplýsingagjöf utanríkisráðherra til utanríkismálnefndar varðandi varnaræfingar og starfsemi Varnarmálastofnunar.
Í fjórða lagi er í frumvarpinu kveðið á um það að utanríkisráðherra beri ábyrgð á mótun og framkvæmd öryggis- og varnarstefnu Íslands á alþjóðavettvangi. Það fyrirkomulag er í samræmi við þá framkvæmd sem tíðkast í okkar heimshluta að utanríkisráðherrar annast alþjóðlegt samstarf á sviði öryggis- og varnarmála. Þetta á meðal annars við um þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi innan Atlantshafsbandalagsins, Sameinuðu þjóðanna og í öryggispólitísku samstarfi Íslands við Evrópusambandið. Hér undir fellur einnig tvíhliða öryggis- og varnarsamstarf Íslands við önnur ríki. Þar ber helst að nefna varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna byggt á varnarsamningnum frá 1951 og öryggis- og varnarsamstarf við grannríki Íslands sem mótast hefur allrasíðustu misserum og er enn í mótun.
Í fimmta og síðasta lagi er í frumvarpinu skilið með skýrum hætti á milli stefnumótunar á sviði varnarmála og framkvæmdar varnarmálatengdra verkefna. Stefnumörkun verður áfram í höndum utanríkisráðherra en einstök framkvæmdarverkefni verða falin Varnarmálastofnun. Með þessu móti er leitast við að samræma og sameina framkvæmd varnarmálatengdra verkefna og ná mestu mögulegum samlegðaráhrifum í rekstri. Þessi útfærsla tekur mið af þeirri stefnu stjórnvalda að færa afgreiðsluverkefni og framkvæmdir frá ráðuneytum til lægra settra stjórnvalda í anda nútímalegrar stjórnsýslu.
Í frumvarpstextanum eru markmið laganna greind í þessi fjögur atriði: Í fyrsta lagi að skilgreina valdheimildir íslenskra stjórnvalda vegna varnartengdra verkefni. Í öðru lagi að greina á milli varnartengdra verkefna og borgaralegra verkefna sem lúta að löggæslu og innra öryggi ríkisins. Í þriðja lagi að greina á milli stefnumótunar og framkvæmdaatriða á sviði varnarmála. Í fjórða lagi að auðvelda lýðræðislegt eftirlit með varnartengdri starfsemi.
Utanríkisráðherra er hér falin yfirstjórn varnarmála. Jafnframt er sett á fót undirstofnun utanríkisráðuneytisins, Varnarmálastofnun, sem taka á við verkefnum Ratsjárstofnunar, rekstri öryggissvæða, mannvirkja og annarra eigna Atlantshafsbandalagsins hérlendis og framkvæmd varnarmálatengdra verkefna, eins og þegar er rakið.
Í frumvarpinu er að finna það nýmæli að Varnarmálastofnun á að vinna úr upplýsingum úr upplýsingakerfum Atlantshafsbandalagsins. Um er að ræða verkefni sem unnið hefur verið í utanríkisráðuneytinu en flyst nú til Varnarmálastofnunar.
Sérstakt ákvæði er í frumvarpinu um heimildir NATO til að sinna loftrýmisgæslu og loftrýmiseftirliti hérlendis. Gert er ráð fyrir að Varnarmálastofnun sjái um að veita bandalagsþjóðum svokallaðan gistiríkisstuðning vegna loftrýmisgæslu sem fyrirhugað er að hefjist núna í vor. Þá mun Varnarmálastofnunin annast undirbúning og framkvæmd varnaræfinga.
Í frumvarpinu er að finna sérákvæði um rekstur íslenska loftvarnakerfisins, rekstur öryggissvæða, hagnýtingu mannvirkja Atlantshafsbandalagsins og heimildir Varnarmálastofnunar til að hafa tekjur af þeim vegna reksturs og viðhalds.
Í frumvarpinu er almenn ákvæði um hæfnisskilyrði starfsmanna Varnarmálastofnunar, þar með talið svonefnda öryggisvottun, ráðningar þeirra, þagnarskyldu og bann við verkföllum. Í ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu er heimilað að bjóða starfsmönnum Ratsjárstofnunar störf hjá Varnarmálastofnun án þess að þau séu auglýst. Þó skal auglýsa stöðu forstjóra Varnarmálastofnunar. Með þessum aðgerðum má segja að yfirtaka og endurskipulagning á rekstri Ratsjárstofnunar sé leidd farsællega til lykta, en Íslendingar tóku við rekstrinum 15. ágúst 2007 svo sem háttvirtum þingmönnum er kunnugt.
Hvað kostnað vegna frumvarpsins varðar þá leyfi ég mér að vísa til kostnaðarmats fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem fylgir með frumvarpinu. Þar kemur fram að áætlaður heildarrekstrarkostnaður til varnarmála, 1.350 milljónir króna samkvæmt fjárlögum 2008, mun ekki aukast við samþykkt frumvarpsins. Á árinu 2008 mun falla til stofnkostnaður, í eitt skipti, vegna yfirfærslu eigna Bandaríkjahers til íslenska ríkisins. Áætlaður stofnkostnaður er 360 milljónir króna. Ég bind vonir við það að sú upphæð lækki talsvert í yfirstandandi samningaviðræðum ríkjanna. Þá munu ellefu starfsmenn Ratsjárstofnunar eiga rétt á biðlaunum hafni þeir boði um starf hjá Varnarmálastofnun. Biðlaunakostnaður getur numið allt að 70 milljónum króna.
Eins og ég hef áður sagt, í ræðustól hér á Alþingi, þá eru þetta verulegar upphæðir, kostnaður sem um árabil hefur verið greiddur af öðru ríki, fyrir okkur, ef svo má segja. Sá tími er liðinn að Íslendingar geti leitað á náðir annarra ríkja um varnir án eigin framlaga. Ísland hefur ekki neina þá sérstöðu sem útilokar okkur frá skyldum í samfélagi þjóða.
Virðulegi forseti.
Ég vék að því í upphafi ræðu minnar að öryggi og varnir Íslands standa á sögulegum tímamótum.
Í framhaldi af því að Bandaríkjamenn tilkynntu brotthvarf sitt frá Keflavík tók forsætisráðherra Geir H. Haarde þá skynsamlegu ákvörðun að leitað skyldi til NATO um mat á loftvörnum Íslands á friðartímum og nauðsyn íslenska loftvarnarkerfisins fyrir varnir Íslands og sameiginlegar varnir bandalagsríkja. Sem formaður Samfylkingarinnar hafði ég sagt strax og brotthvarf Bandaríkjahers varð opinbert, að Ísland ætti í krafti 7. gr. varnarsamningsins frá 1951 að leita álits NATO á þeirri stöðu sem upp væri komin.
Grundvallarafstaðan er hin sama: Meðan Ísland hefur ekki enn sjálft byggt upp þá sérfræðilegu þekkingu sem er grundvöllur mats á varnarþörf; ber að byggja á mati NATO.
Um leið er ríkisstjórninni ljós nauðsyn þess að Íslendingar byggi upp eigin sérfræðiþekkingu og er sú vinna hafin. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að það verði skylda utanríkisráðherra á hverjum tíma að láta vinna vandað hættumat fyrir landið. Ég hef sem flokksformaður og þingmaður talað fyrir nauðsyn þessa um árabil. Að mínu mati eru allar áætlanir um viðbúnað ófullnægjandi án slíkrar undirstöðu.
Nú í haust fór af stað þverfaglegur starfshópur um hættumat á vegum utanríkisráðuneytisins og mun skila niðurstöðum næsta haust. Með þessu og öðru byggjum við upp eigin þekkingu á og eigið mat á hættu og varnarþörf og undirbúum þannig pólitískar ákvarðanir næstu ára.
Ríkisstjórnin telur einnig nauðsynlegt að stuðla að rannsóknum og fræðslu um varnir og öryggi með stofnun rannsóknaseturs, sem starfi í ríkum tengslum við alþjóðlegt rannsóknasamfélag. Samráðsvettvangur stjórnmálaflokka sem getið er um í bókun við varnarsamninginn ætti að starfa í tengslum við slíkt rannsóknasetur og skal vonað að allir stjórnmálaflokkar verði reiðubúnir til að taka þar þátt í samkeppni hugmynda á opnum vettvangi með fræðimönnum og fagfólki.
Ríkisstjórnin byggir á mati NATO á nauðsyn loftvarnarkerfis og reglulegs eftirlits flugvéla bandalagsríkja svo lengi sem það er niðurstaðan á grundvelli bestu þekkingar og bestu fáanlegu upplýsinga. Á sama tíma er lagður grunnur að sterkari eigin stofnunum okkar Íslendinga á þessu sviði og þannig gengið til móts við endurskoðun og nýjar ákvarðanir í heimi sem sífellt breytist. Fyrsta og brýnasta skrefið til mótunar stefnu og leikreglna um varnarmál er setning varnarmálalaga þar sem markmið löggjafans eru skilgreind með skýrum hætti, valdheimildir og verkaskipting stjórnvalda afmörkuð og lýðræðislegt eftirlit með varnartengdri starfsemi tryggt.
Virðulegi forseti.
Alþingi Íslendinga gefst nú færi á að taka mikilsvert skref í átt að nýju sammæli þjóðarinnar um varnir og öryggi. Á 21. öld er fráleitt að næra gamla og sársaukafulla átakahefð um varnir landsins. Stjórnmálamenn eiga að leggja upphrópanir til hliðar og efna til samræðu við þjóðina. Það er spá mín að þegar á reynir muni ólíkar kynslóðir og fólk sem í fortíðinni var ekki á eitt sátt komast að raun um að sýn Íslendinga á varnir og öryggi sé alls ekki ólík heldur þvert á móti sú sama að langmestu leyti. Við eigum að leggjast á eitt um að sammæli skapist því það eitt er í sjálfu sér einnig mikilvægt öryggismál.
Lýðveldið Ísland er öflugt smærra ríki í alþjóðasamfélaginu. Við herjum ekki á neinn, við hervæðumst ekki heldur lítum eftir lofthelgi okkar og landhelgi. Það er dýrmætt að ógna engum, geta gengið fram óbundin, vera þekkt fyrir að standa með alþjóðalögum og eiga viðskipti á heiðarlegum grunni. Á 21. öld er friður og öryggi alþjóðlegt verkefni því nýjar ógnir virða ekki landamæri.
Ég legg til, virðulegi forseti, að frumvarpi þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til annarrar umræðu og háttvirtrar utanríkismálanefndar.