Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. janúar 2008 UtanríkisráðuneytiðUTN Forsíðuræður

Mesti stjórnmálasigur íslenskra kvenna

Ávarp Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra, í ráðhúsi Reykjavíkur á 100 ára afmæli þess að konur voru fyrst kjörnar í borgarstjórn Reykjavíkur

Kæru fundargestir


Við minnumst í dag þess atburðar sem stundum hefur verið nefndur mesti stjórnmálasigur íslenskra kvenna. Dagsins fyrir hundrað árum þegar fjórar fyrstu konurnar voru kosnar í bæjarstjórn Reykjavíkur, allar af sérstökum kvennalista sem þá var boðinn fram í fyrsta sinn.

Þessi pólitíski sigur kvenna átti sér auðvitað langa forsögu en krafan um pólitísk réttindi kvenna komst snemma á dagskrá hér á landi. Og sigurinn 24. janúar 1908 var auðvitað einnig áfangi í þróun lýðræðis á Íslandi, sem á að vera verkefni okkar á öllum tímum að gera betra og fullkomnara. Lýðræði er leikreglur en líka siðmenning sem konur og karlar bera ábyrgð á að skapa á hverjum degi.

Það ætti ekki að koma á óvart, að mun auðveldara var að ná fram kosningarétti og kjörgengi fyrir ógiftar konur en giftar og á lægri stjórnsýslustígum en æðri. Þannig fengu ekkjur og einhleypar konur, sem stóðu fyrir búi eða „áttu með sig sjálfar”, kosningarétt til hreppsnefnda og sveitarstjórna árið 1882 og kjörgengi árið 1902. Röðin kom ekki að giftum konum fyrr en 1907, en það ár samþykkti Alþingi tvenn ný lög, sem breyttu verulega stöðu þeirra. Voru önnur lögin um bæjarstjórn Hafnarfjarðar og hin um bæjarstjórn Reykjavíkur. Með þessum lögum fengu konur almennan kosningarétt á við karla til sveitarstjórna, en þó gilti það sérákvæði um þær, að þeim var heimilt að „skorast undan kosningu”.

Konum í Reykjavík var mikið í mun að sýna og sanna að þær nýttu sér nýfengin pólitísk réttindi og kynnu með þau að fara. Um þetta skrifaði m.a. Bríet Bjarnhéðinsdóttir, formaður Kvenréttindafélagsins:

„Fyrir oss konur ætti aðalatriðið við þessar kosningar að vera að koma konum að. Það er byrjunin, sem hér er um að ræða. Ef vér notum nú ekki tækifærið, þá er það sú pólitíska synd, sem hefnir sín í öllum kvennamálum vorum síðar. Á næsta þingi yrði það ástæðan móti pólitískum réttindum kvenna”. (Kvennablaðið, 30. nóv. 1907).

Innan Kvenréttindafélagsins varð sú hugmynd til að bjóða fram sérstakan kvennalista í bæjarstjórnarkosningunum vorið 1908 og fékk félagið fimm kvenfélög í bænum til liðs við sig. Stofnuðu konurnar 33 kvenna kosninganefnd og var Bríet Bjarnhéðinsdóttir formaður hennar. Ekki höfðu konurnar starfað lengi þegar þeim barst tilboð frá iðnaðarmönnum um að bjóða fram sameiginlegan lista við kosningarnar. Fljótlega kom þó í ljós að iðnaðarmennirnir hugsuðu sér samvinnuna nokkuð á einn veg þ.e. konurnar áttu að leggja til atkvæðin en þeir bæjarfulltrúaefnin. Þeim þremur konum, sem kosninganefnd kvenna hafði tilnefnt á lista var öllum raðað í „fortöpuð” sæti, eins og Bríet orðaðið það. Um samvinnuna við iðnaðarmennina skrifaði hún í Kvennablaðið eftir kosningar:

„...vér verðum vandlega að gæta þess, að við kosningar er enginn annars bróðir í leik, og þar láta karlmennirnir oss ekki eftir beztu sætin sjálfviljugir. Þegar þeir við slík tækifæri bjóða oss samvinnu, þá vilja þeir fá fullkomna tryggingu fyrir hagsmunum sínum. Þá verðum það vér konurnar, sem bíða munum skakkafallið” (Kvennablaðið, 31. jan. 1908).

Tuttugu dögum fyrir kosningar rufu konurnar samstarfið við iðnaðarmennina, hófu að undirbúa framboð kvenna og skiluðu inn lista með nöfnum fjögurra kvenna í tæka tíð. Þetta voru þær Katrín Magnússon, Þórunn Jónassen, Bríet Bjarnhéðinsdóttir og Guðrún Björnsdóttir.

En þær létu ekki þar við sitja. Þótt tíminn væri naumur, þá háðu þær engu að síður heilmikla kosningabaráttu. Má í því sambandi nefna, að þær húsvitjuðu hverja íbúð í bænum þrisvar sinnum fyrir kosningar til að fræða húsmæðurnar um kvenréttindi, kosningalögin og þá fundi, sem halda átti.

Verður ekki annað sagt en að þær hafi haft erindi sem erfiði því allar fjórar konurnar hlutu kosningu. Kvennalistinn fékk 21,3% af greiddum atkvæðum og skaut meira að setja aftur fyrir sig lista heimastjórnarmanna, sem flestum fannst þó sigurstranglegastur.

Allar voru þessar konur kunnar af störfum sínum að félagsmálum í bænum, og þá ekki sízt af störfum sínum í þágu kvenna. Pólitísku erindi þeirra, og annarra kvenna, lýsti Bríet með þessum orðum:

„Konurnar eiga að vera nýr kraftur í þjóðfélagsstarfseminni. Þær eiga að koma þangað með hreinni hvatir, sterkari siðgæðistilfinningu, meiri mannúð og næmari skilning á þjóðfélagsmeinum en karlmennirnir, sem orðnir eru þeim svo vanir, að þeir sjá þau ekki. Þær eiga að vera vandari að uppeldi barnanna en hingað til hefur átt sér stað um þá, sem ráða fátækramálunum til lykta. Þær eiga að finna ný ráð og nýja vegi til að bæta úr ýmsum göllum, sem enn hefur lítill gaumur verið gefinn.” (Kvennablaðið, 22. des. 1911).

Þegar litið er á pólitískt starf þeirra kvenna sem fyrstar voru kosngar í bæjarstjórn Reykjavíkur má segja að inntakið í orðum Bríetar hér á undan hafi verið þeim n.k. leiðarljós. Mál sem snertu stöðu kvenna og barna voru þeim mjög hugleikin enda veit sá best hvar skórinn kreppir sem sjálfur ber hann.

Konurnar létu málefni fátækra barna mjög til sín taka og beittu sér m.a. fyrir skólamáltíðum og barnalesstofu, þær gerðu tillögur um útivist barna á kvöldin og síðast en ekki síst beittu þær sér mjög fyrir starfrækslu barnaleikvalla í bænum. Þá létu þær s.k. gasstöðvarmál til sín taka, ekki síst Bríet sem sýndi mikla málafylgju í því máli. Hún sá þann helstan kost við gasið, umfram rafmagnið, að það var talsvert ódýrara og þ.a.l. viðráðanlegt fyrir alþýðuheimili og gæti auðveldað konum eldamennskuna.

„Hún sparaði ekki atlögin í þessu mál,” sagði Knud Ziemsen borgarstjóri um hana. Og hann heldur áfram: ,,Fannst mér hún þá sýna fremur en nokkru sinni síðar, hvílík „hlóðabryðja” hún gat orðið, eins og maður nokkur orðheppinn nefndi hana. Það var í almæli, að Bríet hefði bjargað gasstöðvarmálinu. Satt er, að hún átti í því mikinn hlut. Og víst er það, að enginn bæjarfulltrúi fékk óþvegnari skammir fyrir stuðning sinn við þessa nauðsynlegu umbót sem hún. En Bríet var ekki kveinksöm né hörundssár, enda ætla ég, að alþýðukonur höfuðstaðarins hafi ekki verið henni þakklátari í annan tíma en þann, þá er þær fengu gasið.” (Úr bæ í borg, bls. 241).

Katrín, Guðrún, Þórunn og Bríet voru allar hættar í bæjarpólitíkinni árið 1920 og næstu áratugina voru konur fámennar í bæjar- og borgarstjórn Reykjavíkur. Stundum var þar ein kona, stundum engin. Það tók hvorki meira né minna en 70 ár að jafna kosningasigur kvenna frá 1908 því það var ekki fyrr en í kosningunum 1978 sem fjórar voru aftur kosnar samtímis í borgarstjórn Reykjavíkur. Þegar ég tók sæti í borgarstjórn árið 1982 höfðu aðeins 23 konur setið þar á undan mér. Með hinum endurnýjuðu kvennaframboðum á níunda áratugnum fengu stjórnmálaflokkarnir hins vegar rækilega áminningu og fjölguðu konum á framboðslistum. Nú telst mér svo til að í 100 ára sögu kosningaréttar kvenna til borgarstjórnar Reykjavíkur hafi 50 konur verið kosnar borgarfulltúar.

Árið 1994 gerðist það svo í fyrsta sinn að konur slógu körlum við en það ár voru 8 konur kosnar í borgarstjórn Reykjavíkur. Á því kjörtímabili gerðist það líka að kona var borgarstjóri, kona formaður borgarráðs, kona forseti borgarstjórnar og konur formenn borgarstjórnarflokka bæði meiri- og minnihluta borgarstjórnar.

Kæru fundargestir.

Konurnar sem unnu sigurinn mikla fyrir hundrað árum hurfu úr pólitíkinni eftir að hafa brotið ísinn. Það fennti yfir sporin þeirra, saga þeirra hvarf um tíma og pólitískt áhrifavald kvenna var lítið í áratugi.

Hundrað árum síðar er viðfangsefnið enn hið sama: að tryggja að dyrnar lokist ekki á eftir brautryðjendunum. Konum bjóðast tækifæri, gættirnar opnast en hversu langt komast konurnar?

Þegar við konur sendum kynsystur okkar inn í kerfið, þá skiptir miklu máli að kynsystur þeirra veiti þeim pólitískan og persónulegan stuðning. Þegar við finnum fyrir vináttu og stuðningi annarra kvenna þá getum við allt. Þá eru okkur allir vegir færir.

En við þurfum að vera margar. Þó að ein og ein kona rati inn í raðir stjórmálamanna eða embættismanna verður engin kerfisbreyting. Ein kona, hversu velviljug og dugleg sem hún er breytir ekki eins og hendi sé veifað stórvirku karlakerfi sem byggir á áratugahefð. Við þurfum að verða fleiri. Reynsla mín hefur kennt mér að það skiptir höfuðmáli að fjölga konum hvarvetna þar sem mikilvæg mál eru til lykta leidd. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að það hefur átt sér stað almenn viðhorfsbreyting meðal kvenna. Það er víðtæk samstaða um það meðal kvenna að konur eigi ákeðinn rétt og að þeim beri ákveðin hlutdeild í mótun samfélagsins. Í hjarta allra kvenna býr vitneskjan um að konur bera skarðan hlut frá borði. Með okkur öllum býr þrá til að breyta stöðu kvenna. Sú þrá er reyndar missterk - hjá sumum óljós en öðrum brennandi. Og það er einmitt þessi þrá sem fær okkur til að takast verk á hendur sem einfaldast væri kannski að láta öðrum eftir eða láta ógerð.

Kynslóðir kvenna hafa lagt ótrauðar til atlögu við fordóma og sinnuleysi sinna samtíðarmanna og kvenna og hvorki verið ,,kveinksamar né hörundssárar”. Við sem erum í pólitík í dag eigum þeim þá skuld að gjalda að vera áfram ,,nýr kraftur í þjóðfélagsstarfseminni” og ,,finna ný ráð og nýja vegi til að bæta úr ýmsum göllum, sem enn hefur lítill gaumur verið gefinn”.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta