Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

8. apríl 2008 UtanríkisráðuneytiðUTN Forsíðuræður

Ísland gangi fram af styrk

Ísland gangi fram af styrk

Virðulegi forseti,

Utanríkisráðherra Íslands hefur fjögur meginmálasvið sem víða í öðrum löndum eru hvert um sig sérstakt ráðuneyti. Þetta eru alþjóðastjórnmál, alþjóðaviðskipti, varnarmál og þróunarsamvinna.

Mikilvægt er að snúa þessu fjölþætta verksviði upp í styrk fyrir íslenska hagsmuni með skýrri stefnumörkun.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lýst stuðningi við aukið frelsi í alþjóðaviðskiptum, að Íslandi taki forystu í baráttunni gegn mengun hafsins og í alþjóðastarfi til að bregðast við loftslagsbreytingum. Þá er virðing fyrir mannréttindum, aukin þróunarsamvinna og friðsamleg lausn deilumála skilgreind sem nýir hornsteinar í íslenskri utanríkisstefnu.

Frá því að ríkisstjórnin tók við völdum fyrir rétt tæpu ári hefur markvisst verið unnið að því að hrinda þessum stefnumiðum í framkvæmd, og vísa ég til skýrslu minnar sem lögð hefur verið fram á Alþingi. Lögð er áhersla á frumkvæði í stað viðbragða, á innri samkvæmni og festu í málflutningi. Áhersla er sett á mikilvægi virks milliríkjasamstarfs á grundvelli þjóðaréttar og á ábyrga þátttöku í alþjóðasamstarfi sem byggist á þríþættum styrkleika Íslands:

1.     Reynslu á sviði sjálfbærrar nýtingar sjávarauðlinda.

2.     Þekkingu af nýtingu endurnýjanlegrar orku.

3.     Merka sögulega áfanga í jafnréttisbaráttu kvenna og sterka ímynd íslenskra kvenna.

Dæmi um nýtt verkefni í utanríkisráðuneytinu sem byggir á þessari aðferðarfræði er eyjaverkefnið svokallaða. Smáeyþróunarríki eru í hópi þeirra samfélaga sem búa við hvað mesta ógn vegna loftslagsbreytinga og eru jafnframt í hópi fátækustu ríkja heims. Markmiðið er að koma til móts við óskir þessara ríkja í Karíba- og Kyrrahafi, og í náinni samvinnu við heimamenn er ætlunin að vinna að auðlindastjórnun, orku- og umhverfismálum, og jafnréttismálum.

Ég vil einnig hér í upphafi máls míns víkja að tveimur grundvallarfrumvörpum á sviði utanríkismála sem eru nú til meðferðar hér á hinu háa Alþingi.

Annars vegar eru það frumvarp til varnarmálalaga og ég fagna sérstaklega breiðum stuðningi sem fram kom við það mál við afgreiðslu úr utanríkismálanefnd. Hins vegar vil ég nefna frumvarp til laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands sem færa mun  starfsumhverfi Íslendinga á sviði þróunarmála til samræmis við það sem best gerist í heiminum.

Þá vil ég greina frá því að í gær ritaði forsætisráðherra bréf til formanna þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi og tilkynnti um nýtt reglubundið samráð þeirra um þjóðaröryggismál. Er gert ráð fyrir að þeir hittist vor og haust til að fjalla um stöðu og þróun mála varðandi þjóðaröryggi og hættumat, stöðu mála innan alþjóðastofnana og samráð við helstu samstarfsríki. Þetta samráð mun koma til viðbótar öflugu starfi utanríkismálanefndar. Með þessu er komin til framkvæmda yfirlýsing ríkisstjórnarinnar úr stjórnarsáttmála. Eftir sem áður er til sérstakrar skoðunar hvernig almennt megi stuðla að auknum rannsóknum á sviði öryggis- og varnarmála þannig að ákvarðanir í þessum málaflokki séu teknar á grundvelli góðrar yfirsýnar og bestu þekkingar á hverjum tíma.

 

II.

Virkrar utanríkisstefnu er þörf

 

Virðulegi forseti,

Ímyndarnefnd forsætisráðherra skilaði skýrslu sinni og tillögum í gær. Þar kemur fram að ímynd Íslands er jákvæð en ekki að sama skapi sterk á alþjóðavettvangi. Þótt ásýnd Íslands sé jákvæð hjá þeim sem til þekkja þá vita of fáir hversu traustir innviðir íslensks samfélags eru.

Tómarúmið um Ísland hefur verið of mikið, of lengi, og erlendir fjölmiðlar skálda í eyðurnar.  

Það er m.a. við þessar aðstæður sem „íslenska álagið" svonefnda verður til og hætt er við að trúverðugleikavandi færist yfir Ísland í heild og það sem frá Íslandi kemur.

Undirliggjandi er hugmynd um Ísland sem skrítið og vanþróað samfélag. Við þessu er eitt og aðeins eitt svar: Að halda sig ekki til hlés heldur ganga einbeitt fram fyrir skjöldu. Hagsmunir okkar Íslendinga af að sækja fram á alþjóðavettvangi mælast nú augljóslega í milljörðum.  Við þurfum sjálf að fylla í eyðurnar með því að tala röddu sem aðrir heyra og gefa fordæmi sem tekið er eftir.

Þjóð sem stjórnar vel eigin efnahagslífi, auðlindanýtingu, umhverfisvernd, heilbrigðis- og menntakerfi hefur margt fram að færa í milliríkjasamskiptum. Þjóð sem skilar starfi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna með sóma hlýtur að hafa byggt upp sterka innviði heimafyrir.

Ég nefni þetta vegna þess að stundum er látið að því liggja að Ísland eigi helst ekki að kveða sér hljóðs á alþjóðavettvangi og eigi þar takmarkað erindi. Enn heyrist að Íslandi farnist best að taka aðeins þátt þegar um þröngt skilgreinda sérhagsmuni er að ræða. Þetta sjónarmið kann að hafa átt við hér áður fyrr, en ekki í dag.

Utanríkisstefna 21. aldar verður ekki byggð á hjásetu eða sérhagsmunum. Slík stefna er ekki einungis ábyrgðarlaus – hún er árangurslaus. Tímarnir hafa breyst, Ísland hefur breyst og fáir sakna fyrri tíma. Allt tal um að Ísland eigi ekki, geti ekki og megi ekki, dæmir sig sjálft og vitnar um óburðuga sjálfsmynd.

Ísland er skýrt dæmi um ríki sem notið hefur góðs af alþjóðlegri samvinnu og starfi alþjóðastofnana. Alþjóðlegur hafréttur færði okkur yfirráð á Íslandsmiðum, alþjóðlegir mannréttindadómstólar færðu okkur verulegar réttarbætur, samruni Evrópumarkaða gerbreytti íslensku atvinnulífi til hins betra og þróun vinnulöggjafar og umhverfisréttar innan ESB skilaði íslensku launafólki ávinningi og auðveldaði starf að umhverfismálum.  

Þessi framfaraskref voru ekki tilviljun heldur afrakstur af þrotlausu milliríkjasamstarfi Íslands við önnur ríki á vettvangi alþjóðastofnana. Hin leiðin er að gera eins og þursarnir í Pétri Gaut sem fóru aldrei út úr fjallinu sínu. Ibsen skrifar í þýðingu Einars Benediktssonar, með leyfi forseta:

„Þar úti sem nótt fyrir árdegi víkur

er orðtakið: maður ver sjálfum þér líkur.

En meðal vor þar sem myrkt er öll dægur

er máltækið: Þursi ver sjálfum þér nægur.”

„Þursi ver sjálfum þér nægur”? Háttvirtir alþingismenn. Þetta á ekki við um okkur Íslendinga sem hefur ævinlega farnast best, jafnt á sviði viðskipta sem menningar, þegar við höfum átt sem mest samskipti við umheiminn.

Ísland stendur í eldlínu alþjóðlegra efnahagsmála. Með okkur er fylgst um allan heim. Þessar aðstæður krefjast samstöðu þings og þjóðar um öflugan málflutning til að styrkja stöðu okkar.

 

III.

Afríka og aukin þátttaka kvenna

 

Háttvirtir alþingismenn,

Í utanríkisráðuneytinu er nú unnið að heildstæðri framkvæmdaáætlun um málefni Afríku. Áætlunin mun taka til þróunarsamstarfs hvers konar og friðarþróunar, en einnig til stjórnmálalegra samskipta við Afríkuríki. Það er álit mitt að við höfum að vissu leyti vanmetið stjórnmálalegt mikilvægi Afríkuríkja og einblínt um of á aðstoðarþáttinn í samskiptum okkar við þau.

Víða í álfunni er gróandi þjóðlíf með auknum hagvexti og vaxandi lýðræðislegum stjórnarháttum. Stjórnmálaleg samskipti okkar við ríki Afríku verða því sífellt mikilvægari og ekki skal vanmeta þá staðreynd að ríkin eru 53 talsins og hafa því umtalsvert vægi í atkvæðagreiðslum á alþjóðavettvangi.

Í tíð minni sem utanríkisráðherra hef ég sótt leiðtogafund Afríkusambandsins í Accra í Gana í júní 2007 og aftur í Addis Ababa í Eþíópíu í janúar 2008. Í síðasta mánuði sótti ég svo fund utanríkisráðherra Norðurlandanna og utanríkisráðherra tíu öflugustu lýðræðisríkja Afríku í Botswana en það var Anna Lindh, fyrrverandi utanríkisráðherra Svíþjóðar, sem átti frumkvæði að þessu pólitíska samráði.

Á síðasta ári fékk Ísland áheyrnaraðild að Afríkusambandinu. Til að fylgja því eftir og efla enn frekar samstarf Íslands við samtökin og einstök Afríkuríki hefur Ísland tilkynnt sérstakan fulltrúa með aðsetur í Addis Ababa næstu mánuðina, og gagnast það m.a. framboði Íslands til öryggisráðs SÞ. Sá fulltrúi verður Svavar Gestsson, fyrrverandi ráðherra, sem gegna mun starfinu samhliða sendiherrastörfum í Kaupmannahöfn.

Í heimsóknum mínum til Afríku hef ég skynjað sterkan samhljóm milli réttindabaráttu  kvenna í ýmsum Afríkuríkjum og okkar hér norðar í veröldinni. Réttindi eða réttindaleysi kvenna, aðgangur þeirra að atvinnu og tækifæri til fjárhagslegs sjálfstæðis, heilbrigðis- og menntamál, allt eru þetta sömu málin og varða konur hvar sem er. Í síðasta mánuði heimsótti utanríkisráðherra Líberíu, Olubanke King Akerele, Ísland og lýsti á áhrifamikinn hátt fyrir okkur Íslendingum hversu mikilvægt kvenfrelsið er fyrir framfarir í Afríku. Frelsi undirokaðra hópa – hvort sem um er að ræða þjóðfrelsi eða kvenfrelsi - leysir mikinn kraft úr læðingi.

Ísland byggir baráttu sína fyrir auknum hlut kvenna í friðarferlum á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Aðgerðaáætlun Íslands um 1325 var gefin út fyrir skömmu og verkar á starf okkar á mörgum sviðum. Ályktunin er lykilmál í kosningabaráttu Íslands til öryggisráðsins.

Í þessu samhengi vil ég geta stuðnings við alþjóðlegt friðarráð palestínskra og íraelskra kvenna en fulltrúar þess heimsóttu Ísland fyrir skömmu og fjölluðu um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs. Ein ástæða þess að ákveðið var að bjóða þeim til landsins var að gefa innlendum stjórnmálamönnum og almenningi kost á því að kynnast starfi þeirra milliliðalaust.

Ásamt kvenforsetum, -forsætis, og utanríkisráðherrum nokkurra ríkja var mér boðið að gerast heiðursfélagi friðarráðsins og hef ég ákveðið að efna þá skyldu sem í því felst. Heimsókn mín til Mið-Austurlanda síðastliðið sumar og fundir með m.a. með Hanan Ashrawi, hinni virtu talskonu Palestínumanna, og ísraelskum þingmönnum, leiddu til þess að ég tók að mér þessa málafylgju.

Á föstudaginn kemur mun ég eiga fund með Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Á fundinum munum við ræða öryggis- og varnarmál, en einnig málefni norðurslóða og þau tækifæri sem felast í auknu viðskiptasamstarfi. Þá munum við ræða aðkomu kvenna að friðarferlum.

 

IV.

Heilindi og festa í utanríkismálum

 

Mikið starf hefur verið unnið í því augnamiði að flétta mannréttindaáherslur inn í stefnu og aðgerðir okkar í ólíkum málaflokkum alþjóðamála, s.s. friðargæslu, þróunarsamvinnu, fríverslunarviðræður og málefni sjálfbærrar þróunar.

Átakamál í samtímanum varða oftast mannréttindi. Það er forsenda mannréttindastefnu að afstaða Íslands sé yfirveguð og skýr. Þegar ákvörðun er tekin í einstökum málum á það að ráða niðurstöðu sem helst skilar árangri.

Ég nefni þetta hér vegna þess að heyrst hafa háværar kröfur frá fámennum hópi um að Ísland eigi að ganga lengra heldur en önnur lönd í Evrópu og slíta einfaldlega stjórnmálasambandi við ríki sem gagnrýnd eru fyrir mannréttindabrot. Slík viðbrögð skila ekki endilega árangri en leiða augljóslega til áhrifaleysis, í einskis þágu. Þolendur mannréttindabrota um víða veröld eru engu bættari.

Vilji til að heimsækja átakasvæði, kynna sér aðstæður og eiga hreinskiptin samtöl við ráðamenn, verða til þess að það er hlustað. Í framhaldi af fundum mínum í Mið-Austurlöndum hef ég ítrekað sett fram áhyggjur Íslands og athugasemdir í beinum samtölum við ráðamenn, ýmist á fundum eða með símtölum. Ísland á ekki að slíta stjórnmálasambandi, heldur beita því í þágu friðsamlegrar lausnar deilumála.

Í þessu samhengi vil ég hér á Alþingi ítreka það sem ég hef þegar tjáð sendiherra Kína, að Ísland telur það þjóðréttarlega skyldu Kínverja að virða mannréttindi íbúa Tíbet.

 

V.

Afganistan

Háttvirtu þingmenn,

Í Afganistan fer fram umfangsmesta friðargæsluverkefni Sameinuðu þjóðanna á vegum alþjóðlegra öryggissveita undir stjórn NATO. Alþjóðaliðið starfar í Afganistan í umboði öryggisráðsins og er hlutverk þess að tryggja öryggi og stöðugleika þannig að uppbyggingarstarf geti fylgt í kjölfarið. Rétt er að minna á að fjöldi annarra ríkja utan NATO tekur virkan þátt í alþjóðaliðinu, ríki á borð við Finnland, Svíþjóð, Ástralíu, Nýja-Sjáland, Jórdaníu, Sviss og Austurríki.

Nýlega heimsótti ég Afganistan. Í ferðum mínum um landið, og í samræðum við afganska stjórnmálamenn, fulltrúa kvenna- og mannréttindasamtaka og fleiri skynjaði ég sterkt stærð og mikilvægi Afganistanmálsins.

Segja má að Afganistan sé samfélag þar sem þjóðfélagsgerðin er á 16. eða 17. aldar stigi. Viðleitni til að setja stjórnkerfi að bandarískri fyrirmynd með sterku miðstýringarvaldi forseta ofan á slíkt samfélag getur því seint gengið greiðlega. Og forseti Afganistan útnefnir ekki aðeins alla ráðherra heldur einnig alla héraðsstjóra og innanríkisráðherrann tilnefnir svo alla borgarstjóra. Þannig starfa þessir forystumenn án þess að nærsamfélagið fái að kjósa þá og þ.a.l. án lýðræðislegs eftirlits. Skref í lýðræðisátt er auðvitað gríðarleg framför frá hinni hörðu einræðisstjórn talibana, en alþjóðasamfélagið þarf að leita nýrra aðferða til að efla lýðræðismenningu í landinu og þar á Ísland að beita sér.

Fleiri vandamál blöstu við og vil ég sérstaklega nefna þrennt: Skort á samhæfingu aðgerða alþjóðaliðsins, að aðgerðir alþjóðaliðsins miðist betur við þarfir almennings, og spillingu í stjórnkerfinu.

Það segir sig sjálft að friðar- og uppbyggingastarf við þessar aðstæður er erfitt. Ýmsir hafa því orðið til þess að spyrja, af hverju er Ísland að taka þátt slíku starfi? Hvaða erindi á Ísland í Afganistan?

Að mínu mati er þessum spurningum auðsvarað.

Í fyrsta lagi er stöðugleiki í Afganistan sameiginlegt öryggismál alþjóðasamfélagsins en heimsbyggðin þekkir af reynslu afleiðingar þess þegar ríki í lamasessi verður skálkaskjól. 

Í öðru lagi ríkir breiðari samstaða ríkja á alþjóðavettvangi um uppbyggingarstarf í Afganistan en dæmi eru um. Sú samstaða kom skýrt fram á leiðtogafundi NATO í Búkarest sem sóttur var af um sextíu ríkjum. Öryggissveitirnar eru í landinu í umboði Sameinuðu þjóðanna og að beiðni afganskra stjórnvalda. Ísland er aðildarríki bæði SÞ og NATO og ber að axla sanngjarnar byrðar til jafns við aðra.

Í þriðja lagi skiptir framlag Íslands til aðstoðar íbúum Afganistan máli. Það er sammannleg skylda okkar að rétta íbúum þessa stríðshrjáða og sárfátæka lands hjálparhönd en hlaupast ekki á brott. Skeytingarleysi er ekki valkostur.

Fyrir skömmu skipaði aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna Norðmanninn Kai Eide sem sendimann sinn í landinu en hann er okkur Íslendingum að góðu kunnur.  Eide á að baki mikla reynslu í friðar- og uppbyggingarstarfi og miklar vonir eru bundnar við að honum takist að styrkja samstarf alþjóðasamfélagsins í landinu og ná betri árangri. 

Norðurlöndin hafa mikinn hug á að samhæfa framlag sitt í Afganistan og fellur það vel að áherslum Íslands.

Virðulegi forseti,

Eftir ferð mína er ég sannfærð um að Íslendingar vinna frábært starf í Afganistan. Í fátæku landi skiptir t.a.m. smíði 20 lítilla vatnsaflsvirkjana miklu máli fyrir lífsgæði og heilsu fólks. Í félagslegri ráðgjöf af ýmsu tagi og réttaraðstoð, einkum við konur og fjölskyldur, felst einnig frábært starf. Ég er stolt af störfum íslenskra friðargæsluliða í Afganistan eftir að hafa séð þau með eigin augum.

Unnið er að gerð starfsáætlunar Íslands um stuðning við friðar- og uppbyggingarstarf í Afganistan á tímabilinu 2008-2010. Í henni felast nýjar áherslur. Annars vegar er um að ræða langtímaframlag til þriggja ára sem auðveldar allt skipulag og framkvæmd. Hins vegar er sú stefna mörkuð að verkefni íslenskra friðargæsluliða lúti einkum að mannréttindamálum, þróunarverkefnum og uppbyggingarstarfi í samvinnu við alþjóðastofnanir, frjáls félagasamtök og heimamenn. Ég vonast til að geta kynnt utanríkismálanefnd þessa áætlun á næstunni.  

 

VI.

Framboðið til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna

 

Virðulegi forseti,

Lokaspretturinn í framboði Íslands til öryggisráðs SÞ er hafinn. Í október nk. verður kosið milli Íslands, Austurríkis og Tyrklands í tvö sæti í ríkjahópi vestrænna ríkja fyrir árin 2009-2010.

Ég get fullyrt að framboðið hefur mælst vel fyrir. Ísland hefur nú þegar fengið skrifleg vilyrði um stuðning frá á annað hundrað af 192 aðildarríkjum SÞ, en 2/3 hluta atkvæða þarf til að ná kjöri.

Reynsla annarra ríkja sýnir að ekki er á vísan að róa í leynilegum kosningum af þessu tagi né heldur geta ríki fagnað sigri fyrr en talið er upp úr kjörkössunum. Til marks um þetta má nefna að í fyrra tókust Króatía og Tékkland á um laust sæti í öryggisráðinu og bjuggust flestir fastlega við því að Tékkland myndi hafa betur. En þegar á hólminn var komið náðu Króatar kjöri þvert á allar horfur. Þetta sýnir okkur að allt getur gerst og við stefnum ótrauð að því að halda okkar hlut.

Eðli málsins samkvæmt gera íslensk stjórnvöld í undirbúningi ráð fyrir því að  svo geti farið að Íslandi taki sæti í öryggisráðinu strax í byrjun næsta árs. Á þessu ári hefur utanríkisþjónustan unnið að gerð málefnayfirlits og greiningu helstu umfjöllunarefna öryggisráðsins. Þar standa upp úr 31 átakamál og sex meginmálaflokkar. Komi til þess að við náum kjöri, þá fullyrði ég að við verðum tilbúin og með báða fætur á jörðinni.

Íslensk stjórnvöld hafa kappkostað að heyja málefnalega kosningabaráttu. Megináherslumál Íslands í framboðinu eru vernd almennra borgara á átakasvæðum, sér í lagi kvenna og barna; aukin aðkoma kvenna að friðarviðræðum og friðaruppbyggingu; og mikilvægi þess að mæta ógnum við öryggi í víðasta samhengi. Þá vill Ísland beita sér fyrir bættum og gegnsærri starfsháttum innan ráðsins. 

Framboð Íslands er öðrum þræði framboð smáríkis sem leggur áherslu á að lög og þjóðaréttur ráði samskiptum ríkja. Það er framboð ríkis sem hefur á grundvelli skynsamlegrar auðlindanýtingar hafið sig úr sárri fátækt til velferðar, og framboð herlauss ríkis sem vill leggja sitt af mörkum til friðsamlegra lausna deilumála og að ráðast gegn rótum átaka.

Fyllsta aðhalds hefur verið gætt í kostnaði við framboðið sem nú nemur um 250-300 milljónum króna frá árinu 2001. Fréttir hafa borist af því að keppinautar okkar í framboðinu reki dýra kosningabaráttu. Ég lýsi því yfir hér að Ísland mun ekki ástunda fjáraustur á lokasprettinum. Við munum halda okkar striki, á okkar forsendum.         

Framboðið til öryggisráðsins hefur þegar skilað ávinningi til framtíðar. Samskipti Íslands við önnur ríki nær og fjær hafa aukist og síðan Ísland lýsti yfir framboði árið 1998 hefur verið stofnað til stjórnmálasambands við alls 75 ríki. Það eitt hefur haft ómæld áhrif til kynningar á okkar sjónarmiðum og hagsmunum. Að vera í framboði veitir aðgang.

Virðulegi forseti,

Þó utanríkisþjónustan beri hitann og þungann af öryggisráðsframboðinu hefur framlag annarra verið þýðingarmikið. Ráðherrar í ríkisstjórn og fjölmargir aðrir hafa verið óþreytandi við að kynna framboðið og afla því fylgis. Þá hefur forseti Íslands lagt framboðinu verulegt lið. Vil ég í þessu samhengi minnast á glæsileg verðlaun sem indversk stjórnvöld veittu honum í gær og eru verðskulduð viðurkenning.

Íslendingar hafa ávallt verið sammála um mikilvægi þess að taka þátt í starfi Sameinuðu þjóðanna. Framboðið til öryggisráðsins er eitt stærsta verkefni sem Ísland hefur ráðist í á alþjóðavettvangi. Stuðningur við framboðið hefur aukist umtalsvert hér innanlands. Það er mikilvægt að sem mest sátt ríki um öryggisráðsframboðið og ég vona að málefnaleg umræða muni áfram stuðla að því.

 

VII.

Tökum áskoruninni

Virðulegi forseti,

Saga Íslands í gegnum aldirnar kennir að landið, atvinnulíf þess og menning blómgast best þegar samskipti og samvinna við útlönd eru mest. Aldrei fyrr hafa þessi sannindi verið jafn skýr og augljós og nú þegar efnahagsmál og alþjóðamál eru eitt og sama verkefnið. Með virkri utanríkisstefnu í öllum málaflokkum byggðri á styrkleika Íslands nýtum við tækifærin og stöndust ágjöf hver sem hún er. Tökum þeirri áskorun fagnandi.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta