Staða Íslands á alþjóðvettvangi
I.
Réttur tónn
Góðir gestir.
Það er mér sönn ánægja að fá að halda fyrstu framsöguna á lokafundi háskólafundaraðarinnar „Ísland á alþjóðavettvangi – erindi og ávinningur”.
Fundaröðin, sem staðið hefur í næstum ár er nýmæli því þetta er í fyrsta skipti sem allir háskólarnir á Íslandi og utanríkisráðuneytið taka höndum saman og ræða skipulega á opnum fundarvettvangi um stöðu Íslands í samfélagi þjóða.
Þetta frumkvæði háskólasamfélagins og utanríkisráðuneytisins hefur tekist vonum framar. Fjöldi fólks hefur tekið þátt með því að flytja framsögur – kennarar og nemendur, rannsakendur og embættismenn, fulltrúar atvinnulífs og fulltrúar menningarlífs. Ég vil grípa tækifærið til að þakka rektorum háskólanna og skipuleggjendum öllum fyrir þá alúð og útsjónarsemi sem þau hafa sýnt við framkvæmdina, en hver skóli um sig hafði algjört forræði um dagskrá síns fundar.
Fjöldi fólks nýtti líka tækifærið til að standa upp með ábendingu, brýningu eða mikilvæga spurningu. Fundirnir hafa ávallt farið fram í skólunum sjálfum og þannig hefur umræðan um utanríkisstefnuna færst út um byggðir landsins, kynslóðabil hefur horfið og - það sem mestu skiptir – lýðræðisvindar gustuðu um gamalgrónar hugmyndir, sem er hollt, gott og nauðsynlegt.
Sem utanríkisráðherra legg ég höfuðáherslu á skapandi samstarf við rannsóknasamfélagið og virka þátttöku utanríkisþjónustunnar í uppbyggingu þekkingar hér á landi á alþjóðamálum, þróun þeirra og áhrifum á Ísland og íslenska hagsmuni. Þá þýðir hvorki að panta niðurstöður né kveinka sér undan þeim sem kunna að vera gagnrýnir, heldur byggja upp góða samstarfshefð sem þjónar í senn frjálsum rannsóknum háskólanna og virkri og sjálfstæðri utanríkisstefnu Íslands.
Ég skynja á samtölum við forystumenn háskólanna að réttur tónn hafi verið sleginn í vetur og sterkur samhljómur sé að byggjast upp. Sú staðreynd er morgunljós okkur öllum eftir atburði síðustu mánuða að Ísland verður að brýna raust sína á alþjóðavettvangi, það gerum við saman.
II.
Þríþætt sammæli
Góðir gestir.
Skarpskyggnu fólki í utanríkisráðuneytinu var falið að rýna í allar framsögur og umræður í fundaröðinni og draga af þeim ályktanir, en allt er þetta efni nú aðgengilegt í sérstöku riti sem ráðuneytið hefur gefið út.
Þau draga fram að þríþætt sammæli sé um forsendur farsællar utanríkisstefnu Íslands.
Í fyrsta lagi að alþjóðamál séu á okkar dögum beintengd hagsmunamálum heima í héraði.
Í öðru lagi að styrkur og reynsla Íslendinga felist í sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og samfélagsuppbyggingu, ekki síst í jafnréttismálum, og á þessu eigi erindi okkar við umheiminn að byggjast enda raunverulegt virði af framlagi okkar á þessum grunni til hnattrænnar þróunar, umhverfismála og friðar og öryggis.
Í þriðja lagi að virk þátttaka í alþjóðasamfélaginu sé forsenda þess að íslensk menning og menntastofnanir dafni vel í hnattvæddum heimi, samkeppnishæfni þeirra sé forsenda velgengni en einangrun sé ekki valkostur.
Lítum nánar á þetta fyrsta. Hvernig eru alþjóðamál á okkar dögum beintengd hagsmunamálum heima í héraði?
Hvernig kemur það fram? Má ætla að almenningur á Íslandi sé sammála því að svo sé málum háttað? Mitt svar er að biðja fólk að fara í huganum yfir dagskrá íslenskra stjórnmála. Frá síðustu árum nefni ég af handahófi umbreytingu atvinnulífsins og bankanna, hreinsun strandlengjunnar í kringum Reykjavík, fjölmiðlafrumvarpið, virkjun á Kárahnjúkum, stuðning Íslands við innrás í Írak, uppbygging háskólanna – og svo bæti ég við frá síðustu vikum matvælafrumvarpinu, nýjum orkulögum, lækkun lyfjaverðs á Íslandi og móttöku palestínskra flóttamanna frá Írak.
Þetta eru æði ólík málefni og snerta almenning á Íslandi á ólíkan hátt. Tvennt er hins vegar sammerkt með þeim öllum: Að þorri almennings hafði á þeim skoðun og að alþjóðlegt samstarf hafði úrslitaáhrif á að hvernig þau hófust, hvernig þeim var ráðið til lykta og hvaða áhrif þau hafa núna á stöðu fjölskyldna og fyrirtækja á Íslandi.
Sem borgarstjóri í Reykjavík stóð sú sem hér stendur í ströngu við að færa rök fyrir klósettskattinum sem pólitískir andstæðingar nefndu svo en hét á formlegu máli holræsagjald og var sett á til að uppfylla EES umhverfislöggjöf og hreinsa strandlengjuna kringum Reykjavík.
Umbreyting bankanna hófst vegna ákvæða EES samningsins um frelsi til fjármagnsflutninga og nú stöndum við frammi fyrir afleiðingum alþjóðlegrar lánsfjárkreppu.
Ný fjölmiðlalöggjöf á Íslandi mun byggjast á evrópskum og alþjóðlegum viðmiðum og reglum, eins og matvælafrumvarpið og nýju orkulögin gera.
Ný og kraftmikil uppbygging háskólanna hófst m.a. með evrópsku rannsóknasamstarfi og skipulag þeirra nú ræðst af Bologna ferlinu eins og annarra háskóla í öðrum löndum.
Innrásin í Írak er ein helsta orsök hins himinháa og hækkandi olíuverðs í heiminum nú um stundir. Sumir hafa haldið því fram að stuðningur Íslands hafi ekki vegið þungt í þeirri ákvörðun á sínum tíma, ég læt það liggja á milli hluta en bendi á hversu augljóst er að auk alls annars er ljóst að innrásin þjónaði ekki fjárhag fjölskyldna og fyrirtækja á Íslandi.
Þið getið haldið áfram að rekja ykkur í gegnum pólitíska dagskrá liðinna missera á Íslandi. Þau mál eru vandfundinn sem ekki eiga alþjóðlegt upphaf eða lyktir sem ráðast af alþjóðareglum eða áhrif að utan á venjulegar fjölskyldur og venjuleg fyrirtæki í landinu.
Ég held að almenningur á Íslandi geri sér vel grein fyrir þessu. Fólk veit vel af möguleikum sínum til að skjóta málum til alþjóðlegra dómstóla eða beita fyrir sig alþjóðlegum viðmiðum í málafylgju hvar sem er. Þetta staðfestist greinilega í sammæli fyrirlesara í fundaröðinni um erindi Íslands og ávinning á alþjóðavettvangi.
Ég hef sjálf ítrekað fært þetta í orð með því að segja að heimsmálin séu heimamál og öfugt.
Íslensk stjórnsýsla er löngu orðin alþjóðleg í eðli sínu, byggð á yfirþjóðlegum reglum að verulegum hluta rétt eins og háskólarnir. Starfssvið hvers einasta ráðherra í ríkisstjórn Íslands nær inn á alþjóðavettvang. Sveitarstjórna einnig og félagasamtaka, verkalýðshreyfingar og menningarstofnana.
Grundvallarbreyting er orðin á forsendum íslenskrar utanríkisstefnu sem hefur ekki verið færð nægjanlega skýrt í orð og hún er þessi:
Í stað tvíhliða samskipta áður eru marghliða samskipti nú mikilvægustu samskipti Íslands á alþjóðavettvangi. Marghliða samskipti fela gjarnan í sér yfirþjóðlegt vald alþjóðlegra stofnana og Ísland er beinn eða óbeinn aðili að ýmsum alþjóðastofnunum sem fara með yfirþjóðlegt vald, s.s. öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðinu og dómstól þess, Evrópska efnahagssvæðinu og Schengen-samstarfinu svo að nokkuð sé nefnt.
Stærstu viðfangsefni samtímans eins og loftslagsbreytingar, matvælaöryggi og framboð á orku þekkja engin landamæri. Orsakirnar eiga rætur í athöfnum eða athafnaleysi sem hafa áhrif á heiminn allan og verða ekki upprættar nema sameiginlega.
Eini kosturinn er sameiginlegt viðbragð í krafti alþjóðlegra samninga eða samstarfs eins og skilgreining sjálfbærrar þróunar í Brundtland-skýrslunni var dæmi um, ný skilgreining Matvælastofnunar FAO á fæðuöryggi, sem kynnt var á fundi sem ég tók þátt í fyrir nokkrum dögum í Róm og alþjóðleg viðbrögð við lánsfjárkreppu og atlögum að hagkerfum ríkja verða að öllum líkindum dæmi um.
Eina alþjóðasamstarfið sem virkar á slík verkefni er skuldbindandi samstarf þar sem ríki deila valdi og lúta yfirþjóðlegri stýringu – af þeirri skýru ástæðu að það er best fyrir fólkið í hverju landi.
Er þá ekki skýrt fyrir hverjum manni hvers vegna utanríkisstefna byggð á hjásetu og sérhagsmunum kemur ekki til greina fyrir Ísland? Og hvers vegna fullburða þátttaka í alþjóðasamfélaginu er eini kosturinn fyrir Ísland?
Þeir sem halda því fram að yfirþjóðlegt eðli alþjóðastofnana sé eitt og sér frágangssök fyrir Ísland, að aðild að yfirþjóðlegum stofnunum útilokist af þeirri ástæðu einni, verða að horfast í augu við þá grundvallarbreytingu að marghliða samskipti eru veruleiki 21. aldarinnar fyrir Ísland rétt eins og allar aðrar þjóðir.
Við höfum enga þá sérstöðu sem skilur okkur frá skyldum í samfélagi þjóða. Við getum ekki siglt landinu burt frá alþjóðlegri efnahagskreppu, loftslagsbreytingum eða hnattvæðingunni sjálfri – heldur eigum að fagna því að vera fullburða þjóð meðal þjóða og ganga fram í styrk.
Ísland varð aðili að þjóðarétti og samfélagi þjóðanna árið 1918 og því er á þessu ári níutíu ára afmæli þess að þeim áfanga var náð. Allar götur frá fullveldi hafa ýmsar mikilvægar framfarir á Íslandi tengst alþjóðlegri viðurkenningu og þróun í samvinnu ríkja. Fullveldi var náð vegna alþjóðlegrar viðurkenningar á sjálfsákvörðunarrétti þjóða, útfærsla landhelginnar var viðurkennd vegna þróunar alþjóðlegs hafréttar, viðskiptafrelsi var innleitt með aðild að alþjóðasamningum og tækniframfarir tryggðar með samskiptum við útlönd.
Ein af þeim ályktunum sem draga má af háskólafundaröðinni er að sú söguskoðun að framfarirnar hafi allar komið að innan – hin innhverfa sýn sjálfstæðisbaráttunnar - gefi ekki myndina alla enda hefur sú söguskoðun verið á miklu undanhaldi á síðustu 20 árum í háskólum landsins. Ávinningur Íslands af alþjóðasamstarfi á 20. öld hefur verið vanmetinn.
III.
Þekking og styrkur
Góðir gestir.
Annað sammæli háskólafundaraðarinnar er að styrkur Íslands og reynsla af sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og samfélagsuppbyggingu, ekki síst á sviði jafnréttismála og framlagi kvenna til hagkerfis og samfélags, eigi að vera inntakið í erindi okkar við umheiminn enda sé framlag okkar á þessum sviðum raunverulega mikils virði fyrir hnattræna þróun, umhverfismál, frið og öryggi.
Ísland hefur ríka hagsmuni af því að tryggja sér virk og öflug alþjóðleg tengsl og eins sterka stöðu og kostur er í alþjóðastofnunum. Þetta hefur aldrei verið mikilvægara en nú og þýðing þess mun aukast á komandi árum. Hinn kosturinn, að fylgjast ekki með og vanrækja þá tengslamyndun sem felst í stjórnmálasambandi og viðskiptasamningum við önnur ríki kemur ekki til greina.
Ísland hefur nú tekið upp stóraukin stjórnmálasamskipti við ríki Afríku. Frá því ég varð utanríkisráðherra hef ég þrisvar sótt Afríku heim og mun gera það nú í fjórða sinn í lok mánaðarins til að sitja fund Afríkusambandsins sem við eigum áheyrnaraðild að.
Í viðræðum við kollega frá Afríkuríkjum rek ég oftast þann bakgrunn Íslands að hafa verið eitt fátækasta ríki álfunnar, hjálenda undir erlendri stjórn og skilgreint þróunarríki lengi fram eftir 20.öld – en sem nú hefur náð þeim árangri að vera í hópi auðugustu ríkja og efst á lista þróunarnefndar Sameinuðu þjóðanna um lífsgæði þjóða. Þennan árangur eigum við öðru fremur að þakka skynsamlegri nýtingu náttúruauðs og mannauðs. Mikið framlag kvenna til efnahagsstarfseminnar – sem er líklega meira en í nokkru öðru landi – vegur þungt á þeim vogarskálum.
Í heimsóknum mínum hef ég skynjað sterkan samhljóm milli réttindabaráttu kvenna í ýmsum Afríkuríkjum og okkar hér norðar í veröldinni. Réttindi eða réttindaleysi kvenna, aðgangur þeirra að atvinnu og tækifæri til fjárhagslegs sjálfstæðis, heilbrigðis- og menntamál, allt eru þetta sömu málin og varða konur hvar sem er. Frelsi undirokaðra hópa – hvort sem um er að ræða þjóðfrelsi eða kvenfrelsi - leysir mikinn kraft úr læðingi. Á því sviði eigum við Íslendingar merkilega sögu og mikla orku til að miðla öðrum.
Saga Íslands frá örbirgð til allsnægta vekur athygli og samkennd, e.t.v. á sama grunni og sú samkennd sem skapaðist á sínum tíma með Íslandi og þróunarríkjum heims um nýjan hafrétt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Verum minnug þess að það voru ekki þróuðustu ríki Evrópu sem studdu málflutning Íslands best á sínum tíma heldur þróunarríkin.
Tækifæri Íslands til að láta muna um sig á sviði orkunýtingar, jafnréttismála og í sjávarútvegi heimsins hafa sennilega aldrei verið meiri en nú. Og þau hafa heldur aldrei verið eins þétt ofin við heimamálin og þau eru núna. Heimsmálin eru heimamál og öfugt.
Gagnvirk samskipti við aðrar þjóðir um nýtingu jarðvarma og annarra orkulinda er í senn vaxtarbroddur hér heima og vaxtarbroddur í fjarlægum löndum, framlag til sjálfbærrar þróunar og friðar og öryggis í heiminum.
Árið 1980 hófst rekstur jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, nú rekum við einnig skóla á sviði sjávarútvegs, uppgræðslu lands og jarðvegsbindingar og stefnt er að stofnun skóla á sviði jafnréttismála til útrásar kvenorkunnar sem ég hef nefnt svo.
Þriðja sammæli háskólafundaraðarinnar er að alþjóðleg tengsl og samstarf séu lífæð háskólanna í landinu og menningarlífsins í heild. Í raun eru háskólarnir á Íslandi hver um sig eins konar microcosmos eða hluti fyrir heildina sem er Ísland sjálft. Háskóli Íslands lagði megináherslu á að vera þjóðleg og innlend stofnun lengst af á 20. öld en gengur út frá því nú að til viðbótar því þurfi hann að vera samkeppnishæfur og alþjóðlegur. Hann þurfi í senn að rækta sérstöðu sína og auka alþjóðlega skírskotun sína. Hið sama á um Ísland í heild.
IV.
Máttur hinnar góðu röksemdar
En hverjir eru þá möguleikarnir – í hverju felast þeir? Fyrir mig sem sagnfræðing liggur beint við að leita fanga í sögunni og sækja þangað leiðsögn. Í sögu íslenskra utanríkismála er að finna vörður sem vísa veginn hvernig Ísland getur látið að sér kveða.
Fyrst ber að nefna þá sumpart vanmetnu staðreynd, að hið unga Ísland tók á fyrstu árum lýðveldisins ákvörðun um að gerast aðili að allflestum alþjóðastofnunum, bæði hnattrænum stofnunum á borð við Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðabankann, og svæðisbundnum stofnunum á borð við NATO, OECD og síðar EFTA. Frá upphafi hefur Ísland ennfremur tekið virkan þátt í norrænu samstarfi sem lengi vel var svo að segja okkar fyrsta stoppistöð út í hinum stóra heimi.
Það vill stundum gleymast að þessi tenging Íslands við önnur ríki nær og fjær festi Ísland í sessi sem sjálfstætt, fullvalda ríki. Pólitísk viðurkenning annarra ríkja er forsenda eigin fullveldis. Um leið höfðum við ríkulegt praktískt gagn af samstarfinu við útlönd, gátum sótt í reynslubrunn annarra ríkja og tileinkað okkur vönduð vinnubrögð utan úr heimi.
Annað þekkt dæmi um möguleika Íslands á alþjóðavettvangi er framganga okkar í hafréttarmálum. Fyrir eyþjóð með ríka sjávarútvegshagsmuni lá beint við að leggjast á árarnar með öðrum í þessum málaflokki. Með því að sérhæfa okkur og sækja fram með okkar sjónarmið tókst Íslendingum að eiga sinn þátt í gerð Hafréttarsátttmála SÞ.
Af þeirri hlutdeild getum við Íslendingar verið stoltir. Hafréttarsáttmálinn var að sumu leyti á undan sinni samtíð og er skólabókardæmi um hvernig milliríkjasamvinna á grundvelli alþjóðalaga getur í senn tryggt sjálfbæra nýtingu auðlinda og friðsamlega lausn deilumála. Það er engin tilviljun að samstaða er að myndast um að nota Hafréttarsáttmálann sem grunn til að ná samkomulagi um nýtingu þeirra auðlinda sem eru losna úr viðjum á norðurslóðum.
Ég tel raunar að við eigum að leggja enn meiri rækt við hinn fræðilega þátt hafréttarmála, og auka rannsóknir og kennslu hér á landi. Hagsmunir okkar af nýtingu sjávarauðlinda eru viðvarandi og við eru að bætast ný tækifæri sem tengjast auðlindum á sjávarbotni og fjallað er m.a. um hjá landgrunnsnefnd SÞ. Við eigum að halda áfram að breikka og dýpka þekkingu okkar á sviði hafréttarmála og auka faglega umræðu. Samstarf háskóla og stjórnvalda er kjörinn leið til þess.
Þriðja dæmið sem ég vil nefna er þáttur Íslands í sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna. Þar sýndi Ísland hugrekki og dómgreind, og var fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna, á tímum þegar sjónarmið þeirra voru léttvæg talin í refskák alþjóðastjórnmálanna.
Í þessu tilviki synti Ísland á móti straumnum og talaði máli sjálfsákvörðunarréttar ríkja sem grundvallarreglu. Ekki hugnaðist öllum sú einarða afstaða smáríkisins en þeim hinum sömu snerist síðar hugur. Sagan hefur gefið þessari afstöðu Íslands góða einkunn og í Eystrasaltsríkjunum eigum við trausta vini og bandamenn.
Þessi sögulegu dæmi sýna svo ekki verður um villst að Ísland hefur átt erindi á alþjóðavettvangi og notið ávinnings af þátttöku sinni. Og Ísland er auðvitað langt í frá eina smáríkið sem hefur afsannað staðhæfinguna um að alþjóðastjórnmál séu einungis fyrir hina stærri og valdameiri.
Írland var t.d. forysturíki við gerð alþjóðasamningsins um bann við útbreiðslu gereyðingarvopna, og fyrsta ríkið til að undirrita hann árið 1968. Á þeim tímum voru Írar raunar eitt fátækasta ríki Evrópu. Það hindraði þá ekki í að beita sér með góðum rökum fyrir NPT-samningnum sem enn þann dag í dag grundvallarþýðingu í alþjóðlegum öryggis- og afvopnunarmálum.
Annað nærtækt dæmi er forystuhlutverk Norðurlandanna í þróunarsamvinnu í veröldinni, bæði hvað varðar fjárframlög sem hluta af þjóðarframleiðslu, en ekki síður varðandi markvisst verklag og vinnubrögð þannig að þróunaraðstoðin komi viðtakendum að sem bestu notum.
Fleiri dæmi má nefna um hvernig smáríki hafa haft áhrif til góðs, í krafti faglegra vinnubragða, góðs málstaðar og pólitísks úthalds. Staðreyndin er nefnilega sú að milliríkjasamvinna byggir - þegar best lætur - á jafnræði ríkja og málefnalegum málflutningi. Máttur hinnar “góðu röksemdar” getur verið mikill, og þá skiptir máli hvað sagt er, en ekki einungis hver segir það.
Þjóð sem stjórnar vel eigin efnahagslífi, auðlindanýtingu, umhverfisvernd, heilbrigðis- og menntakerfi hefur margt fram að færa í milliríkjasamskiptum. Þjóð sem skilar starfi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna með sóma hlýtur að hafa byggt upp sterka innviði heimafyrir. Þannig þjóð eigum við að vera.
Utanríkisstefna 21. aldar verður ekki byggð á hjásetu eða sérhagsmunum. Slík stefna er ekki einungis ábyrgðarlaus – hún er árangurslaus. Saga Íslands í gegnum aldirnar kennir okkur þá staðreynd að landið, atvinnulíf þess og menning hefur blómgast best þegar samskipti og samvinna við útlönd eru mest. Aldrei fyrr hafa þessi sannindi verið jafn skýr og augljós og nú. Með virkri utanríkisstefnu í öllum málaflokkum byggðri á styrkleika Íslands nýtum við tækifærin og stöndust ágjöf hver sem hún er. Tökum þeirri áskorun fagnandi.