Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. desember 2008 UtanríkisráðuneytiðUTN Forsíðuræður

60 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna

Ágætu fundargestir,

Til hamingju með daginn. Það er mér sönn ánægja að vera hér með ykkur á Alþjóðlegum degi mannréttinda.

Þessi dagur markaði söguleg tímamót árið 1948 þegar mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt af allsherjarþinginu. Á þessu 60 ára afmæli yfirlýsingarinnar minnumst við merkilegs áfanga í sögu mannréttindaverndar sem er fagnað víða um heim undir yfirskriftinni „virðing og réttlæti fyrir alla".

Samþykkt yfirlýsingarinnar var fyrsta, og fram að því, öflugasta viðleitni alþjóðasamfélagsins til að setja ítarlegar efnisreglur um mannréttindi. Einn af aðalhöfundum mannréttindayfirlýsingarinnar var Eleanor Roosevelt. Hún var hvorki fræðimaður né sérfræðingur í alþjóðalögum en það hamlaði henni ekki. Hún var drifin áfram af hugsjón og sannfæringu. Hún tilheyrði hópi einstaklinga sem vildi leggja sitt af mörkum til að seinni heimsstyrjöldin yrði síðasta heimstyrjöldin. Hún var sannfærð um að því markmiði yrði ekki náð nema með því að efla virðingu fyrir mannréttindum og mannhelgi sem er áminning um órofa tengsl öryggis og virðingar fyrir mannréttindum.

Mannréttindayfirlýsingin hefur reynst mikilvægt tæki í baráttu okkar allra fyrir eflingu og vernd mannréttinda og er hún undirstaða helstu alþjóðasamninga um mannréttindi og stjórnarskrárvarinna mannréttinda í fjölmörgum ríkjum.

Á tímum eins og þeim sem við nú lifum er sérstaklega brýnt að halda siðmenntaðri samræðu um mannréttindi áfram og efla hana fremur en hitt. Ísland er réttarríki, með lögum skal land byggja eða ólögum eyða segir í Njálu, og einmitt nú þegar asinn er mikill og tilfinningar heitar ríður á að mannréttindi allra séu virt, hlúð að réttarríkinu og lýðræðinu sem samræðu; verkefni sem lýkur aldrei heldur er búið til á hverjum degi í samskiptum fólks með úrlausn verkefna á lýðræðislegan hátt. Stjórnleysi þjónar ekki lýðræðinu þó að allar stofnanir hafi gott af endurskoðun og réttarríkinu má ekki fórna þótt það þjóni lundinni að dæma hratt og hart.

Ísland á að leggja áherslu jafnt á borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem efnahagsleg og félagsleg réttindi og vera ávallt opið fyrir nýjum straumum.

Ég hef sagt frá því á fyrsta degi mínum í embætti utanríkisráðherra að skilin milli alþjóðamála og innanlandsmála væru horfin.

Efling og vernd mannréttinda eru einn af hornsteinum utanríkisstefnu Íslands og er jafnrétti kynjanna þar sérstakt áherslumál. Á alþjóðavettvangi hefur Ísland verðið öflugur málsvari baráttunnar fyrir kvenréttindum og jafnrétti kynjanna. Þetta á ekki síst við á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þar sem Ísland hefur verið meðal þeirra ríkja sem fremst hafa farið í flokki þegar kemur að umfjöllun um þennan mikilvæga málaflokk.

Nýjasta framlag Íslands til baráttunnar fyrir kynjajafnrétti er jafnréttisskólinn sem rannsóknastofa Háskóla Íslands í kvenna- og kynjafræðum hefur haft veg og vanda í samstarfi við utanríkisráðuneytið að undirbúa, en jafnréttisskólinn verður vistaður hjá stofnuninni. Fyrstu nemendurnir eru væntanlegir til landsins á næsta ári. Skólinn er þróaður að fyrirmynd jarðhitaskóla og sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna sem hafa verið starfræktir hér á landi með góðum árangri um árabil. Hefur háskóli Sameinuðu þjóðanna tekið jákvætt í umleitanir um að stefnt skuli að því að jafnréttisskólinn fái svipaða stöðu þegar fram líða stundir.

Skólinn mun leggja áherslu á uppbyggingu jafnréttisstarfs í þróunarsamvinnu og á fyrrum átakasvæðum, auk rannsókna og kennslu í samþættingu jafnréttissjónarmiða á sviðum umhverfis- og auðlindamála.

Ágætu fundargestir,

Í dag lauk 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi undir yfirskriftinni - "Mannréttindi kvenna eru ekki munaður".

Ofbeldi gegn konum er alvarlegasta birtingarmynd kynjamisréttis. Það er því miður bláköld staðreynd að ofbeldi gegn konum viðgengst í öllum löndum, í öllum þjóðfélagshópum, og það beinist gegn konum á öllum aldri. Ein af hverjum þremur konum verður fyrir ofbeldi í einhverri mynd, einhvern tímann á lífsleiðinni. Þrátt fyrir alvarleika málsins hefur í gegnum tíðina ríkt þögn um ofbeldi gegn konum. Þögnin viðheldur óbreyttu ástandi og hana verður að rjúfa.

Á Íslandi hefur þögnin verið rofin að einhverju leyti og er það ekki síst að þakka því mikilvæga starfi sem unnið er á vegum Stígamóta, samtaka um Kvennaathvarf og fleiri aðilum, en einnig á vegum stjórnvalda. Það er ekki síst mikilvægt á þessum erfiðleikatímum, að við stöndum vörð um þessi samtök og tryggjum starfsgrundvöll þeirra.

Við verðum líka að halda áfram að huga að jafnrétti kynjanna á öðrum vettvangi. Þar vil ég sérstaklega nefna nauðsyn þess að fjölga konum í stjórnunarstöðum, bæði hjá hinu opinbera og einkageiranum. Einnig nauðsyn þess að útrýma launamisrétti kynjanna en íslenskar konur eru að meðaltali með rúmlega 16 prósenta lægri laun en karlar. Þetta er með öllu ólíðandi og ljóst að hér þurfum við að gera betur. Í þeirri endurskipulagningu og uppbyggingu sem við tökumst á við í kjölfar hruns á fjármálamarkaði felast tækifæri til þess að gera enn betur í jafnréttismálum. Slík tækifæri eigum við að nýta og ríkisstjórnin mun ekki láta sitt eftir liggja í þessum efnum.

Ágætu fundargestir,

Okkur sem búum í landi þar sem mannréttindi eru í heiðri höfð hættir til að taka þeim sem sjálfsögðum hlut. Það er hins vegar mikilvægt að gera sér grein fyrir því að sameiginlegt átak og fórnarkostnaður margra varð til þess að mannréttindi eru nú viðurkennd og virt eins víða og þau eru í dag.

Ég er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að allir - ekki síst ungt fólk - sé vel upplýst um gildi og mikilvægi mannréttinda. Því hefur utanríkisráðuneytið, í samvinnu við Mannréttindaskrifstofu Íslands, einsett sér að standa fyrir öflugri kynningu á inntaki mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Í því skyni hefur eldri þýðing yfirlýsingarinnar verið yfirfarin og endurútgefin. Auk þess hefur verið hefur verið gerð sérstök aðgengilegri útgáfa sem höfðar betur til unga fólksins. Við fengum í lið með okkur unga hönnuði og prýða myndskreytingar þeirra ritið.

Ég er þakklát öllum þeim sem að þessari vinnu komu en sérstaklega vil ég þakka Mannréttindaskrifstofu Íslands. Þá vil ég geta þess að utanríkisráðuneytið og Mannréttindaskrifstofan gerðu með sér samstarfssamning til þriggja ára þann 1. desember sl. sem miklar vonir eru bundnar við.

Ágætu fundargestir,

Mannréttindayfirlýsingin tilheyrir okkur öllum – lesum hana – lærum hana – og tryggjum að eftir henni sé farið í hvívetna. Ég hvet ykkur öll til að standa vörð um þann áfanga sem náðst hefur og styrkja og stuðla enn frekar að virðingu fyrir mannréttindum.

Takk fyrir



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta